Sjálfstæð utanríkisstefna

Fullt tilefni er til að ræða stefnumál stjórnmálaflokkanna í utanríkis og alþjóðamálum nú þegar fáeinar vikur eru til kosninga.  Tvennt stendur vissulega upp úr í því efni undanfarin ár.  Þátttaka Íslands í ólöglegu árásarstríði í Írak og brottför Bandaríkjahers frá Íslandi. Nú bætist við nýr hernaðarsamningur við Noreg sem vekur óneitanlega hugrenningartengsl við gamla sáttmála 1262. Í aðdraganda hans var ekki leitað eftir áliti þjóðarinnar frekar en venjulega þegar utanríkismál eiga í hlut.

Það var mikið fagnaðarefni þegar bandaríski herinn hvarf af landi brott sl. haust.  Íslendingar eru best settir án hers, hvort sem hann er innlendur eða erlendur. Satt að segja væri tíma og fjármunum stjórnvalda betur varið í mörg önnur verkefni á sviði utanríkismála en að “varnarviðræður” við hvert einasta land sem hefur áhuga á því. 

Raunhæft og brýnt verkefni væri að friðlýsa landið og lögsögu þess fyrir kjarnorku- sýkla- og efnavopnum og banna umferð kjarnorkuknúinna farartækja. Tillaga þess efnis hefur ítrekað verið flutt á alþingi síðan 1995 en aldrei fengið efnislega meðferð. Þar hefur herseta Bandaríkjanna eflaust tafið fyrir. Bandaríkjastjórn hefur aldrei viljað útiloka að herskip eða flugvélar sem koma í íslenska lögsögu beri kjarnorkuvopn.

Núna er herinn farinn og því engin ástæða til að láta tillitsemi við Bandaríkin koma í veg fyrir aðgerðir. Allir eru í orði kveðnu sammála um þá ógn sem stafar af kjarnorkuvopnum – en æsingurinn virðist oft aukast eftir því sem þau eru fjær okkur sjálfum. Við getum sýnt viðhorf okkar til kjarnorkuvopna í verki með því að friðlýsa eigin rann. Annars væri það hrein sýndarmennska að berjast fyrir afvopnun einhvers staðar annars staðar á hnettinum. Samhliða þessu þyrfti auðvitað að beina aukinni athygli að umhverfisöryggi og vernda hafið fyrir úrgangi frá kjarnorkuverum og herstöðvum.

Í aðdraganda Íraksstríðsins kom það fram af hálfu ýmissa stjórnarþingmanna að vera Bandaríkjahers á Íslandi skipti sköpum fyrir stuðning íslenskra stjórnvalda við innrásina í Írak. Þjóðin á rétt á því að stjórnarflokkarnir geri hreint fyrir sínum dyrum og svara því afdráttarlaust hvort vænta megi frekari stuðnings við hernaðaraðgerðir Bush-stjórnarinnar.Afstaða Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs í þessu máli er skýr: Við höfnum áframhaldandi þjónkun við hernaðarhyggju eins og þá sem birtist í stuðningi stjórnarflokkanna við stríðið í Írak. Atkvæði greitt okkur sendir skýr skilaboð um afstöðu til Íraksstríðsins og setu Íslands á lista „hinna staðföstu þjóða”. 

Greinin birtist í Fréttablaðinu 29. apríl 2007.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Pétur Tyrfingsson

Þeir segja nú spekingarnir að Gamli Sáttmáli hafi aðallega verið fólginn í því að tryggja skipakomur hingað því engin skip voru lengur til í landinu. Svo hefur víst einhver kona frá Brasilíu sýnt fram á að þetta er goðsaga sem fundin var upp á 14 eða 15 öld. Þar fór hún fyrir bý þessi undarlega umræða um sáttmálann og Einar Þveræing.

Annars næ ég ekki alveg uppí þessar geðshræringar yfir samningum við Norðmenn og Dani. Ég bara finn ekkert efni í þessu sem hægt er að æsa sig yfir.

Pétur Tyrfingsson, 30.4.2007 kl. 01:07

2 Smámynd: Árni Þór Sigurðsson

Sæll Pétur. Ég er reyndar ekkert að æsa mig yfir þessum samningum, þótt gaman sé að vísa í gamla sáttmála svona "for the record". Tel hins vegar að við eigum ekki að hafa hér her, er andvígur hvers konar hernaðarbrölti, en viðurkenni nauðsyn þess að hugsa um öryggi landsins, ekki síst þarf að gæta að umhverfisógnum hvers konar og þar skipta norðurhöfin okkur miklu máli. Og Noregur er t.d. ekki á lista hinna staðföstu stríðsárásarþjóða.

Árni Þór Sigurðsson, 30.4.2007 kl. 10:51

3 Smámynd: Auðun Gíslason

Ég var að vona um daginn, að eitthvað væri að fæðast hjá Valgerði, þegar hún vildi taka Palestínu-málið upp. En það hefur víst eitthvað misfarist hjá henni blessaðri. Sennilega fékk hún ekki leyfi hjá Geir.

Auðun Gíslason, 30.4.2007 kl. 16:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband