Fjármálaráðherra verður ekki tekinn alvarlega

Árni Mathiesen fjármálaráðherra lýsir því yfir í fjölmiðlum í dag að ekki komi til álita að sveitarfélögin fái hlutdeild í fjármagnstekjuskatti. Þessi yfirlýsing vekur furðu, ekki síst í ljósi þess að sami fjármálaráðherra var ekki þessarar skoðunar fyrir kosningar – a.m.k. ekki opinberlega. 

Sveitarfélögin hafa um langt skeið lagt áherslu á að fá hlutdeild í fjármagnstekjuskatti.  Ástæðan er einföld og öllum skiljanleg sem nenna að setja sig inn í málið.  Þeim hefur fjölgað á undanförnum árum sem greiða lítinn sem engan tekjuskatt en hafa mestan hluta tekna sinna af fjármagni – greiða þá fjármagnstekjuskatt til ríkisins en lítið sem ekkert útsvar til sveitarfélaga.  Engu að síður nýta þeir hinir sömu sér þjónustu sveitarfélaga, eiga t.d. börn í grunnskólum og leikskólum, aka á götum sveitarfélaganna, njóta menningar sem styrkt er af sveitarfélögunum o.s.frv.  Jafnvel fjármagnstekjugreiðendur nýta velferðarþjónustuna og holræsakerfið, en öll þessi starfsemi sveitarfélaganna er að miklu eða einhverju leyti fjármögnuð með útsvarstekjum.  Af hverju eiga bara þeir íbúar sveitarfélaganna sem hafa almennar launatekjur að greiða fyrir þessa þjónustu en ekki þeir sem hafa tekjur af fjármagni?  Hvaða sanngirni er í því? 

Þessi sjónarmið voru reifuð á árlegum samráðsfundi sveitarfélaganna með fjármálaráðherra og félagsmálaráðherra snemma á þessu ári.  Þann fund sátu sveitarstjórnarmenn úr öllum flokkum sem eiga fulltrúa í stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga, m.a. sat ég fundinn.  Þótt fjármálaráðherra hafi ekki lýst sig sammála þessum sjónarmiðum, þá var af og frá að hann hafnaði því eða afskrifaði, en þá voru reyndar kosningar í aðsigi og það var etv. ástæða þess að ráðherrann vildi ekki ögra sveitarstjórnarfólki. Yfirlýsing ráðherrans nú er því í mótsögn við afstöðu hans á samráðsfundi með sveitarstjórnarfólki fyrir fáum mánuðum og varla hægt að taka hann alvarlega.  

Og fyrirsláttur hans um að það myndi mismuna sveitarfélögum ef þau fengju hlutdeild í fjármagnstekjuskatti er aumkunarverður enda er tiltölulega einfalt að nýta Jöfnunarsjóð sveitarfélaga til að jafna tekjur milli sveitarfélaga eins og nú þegar er gert. Það er staðreynd að sveitarfélögin hafa orðið af verulegum tekjum vegna þess að æ fleiri landsmenn flytja skattgreiðslur úr tekjuskatti og útsvari yfir í fjármagnstekjuskatt.  Ríkissjóður hefur notið góðs af þessu og fjármálaráðherra vill bersýnilega halda sínum hlut í því efni.  Sveitarfélögin þurfa hins vegar á frekari tekjustofnum að halda til að bæta fyrir þá skerðingu sem þau hafa orðið fyrir, og til að gæta allrar sanngirni í skattgreiðslum milli íbúa.  Fjármálaráðherra mun verða haldið við efnið í þessu máli á næstu mánuðum.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband