Hvers vegna standa í stjórnmálum, Steinunn?

Til hvers að standa í stjórnmálum ef menn komast aldrei í stjórn og hafa engin völd?  Svona spyr mín ágæta samstarfskona til margra ára, Steinunn Valdís Óskarsdóttir í grein hér í Blaðinu nýlega.  Og er þar að skrifa um okkur Vinstri græn.  Steinunn telur völdin lykilinn að því að koma málum sínum fram.  En þá mætti líka snúa þessari spurningu á haus og spyrja: til hvers að hafa völd ef það er aðeins til að framkvæma stefnumál annarra?  Það er nefnilega með ólíkindum hvað klausurnar úr landsfundarsamþykktum Sjálfstæðisflokkins hafa ratað greiðlega inn í texta stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar.

En lítum aðeins á þau atriði sem SVÓ gagnrýnir okkur Vinstri græn fyrir (hún slysast reyndar til að skrifa í karlkyni þótt gömul Kvennalistakona sé!!).  Til dæmis nefnir hún ræðu Steingríms J. Sigfússonar á flokksráðsfundi okkar á dögunum og að hann hafi eytt ótrúlega miklu púðri í að gagnrýna Samfylkinguna.  Nú veit ég ekki til þess að Steinunn hafi verið á fundinum eða hvaðan hún hefur heimildir sínar.  Staðreyndin er nefnilega sú að formaður VG notaði afskaplega lítið af tíma sínum í að tala um Samfylkinguna og hið sama á við um aðra ræðumenn á fundinum.  Í samþykkt fundarins kemur skilmerkilega fram að höfuðandstæðingur VG í stjórnmálum sé Sjálfstæðisflokkurinn sem stendur hugmyndafræðilega fyrir frjálshyggju, misskiptingu, óréttlæti, ójafnrétti, hernaðarhyggju svo fátt eitt sé nefnt.  Það gerir Samfylkingin ekki þótt hún hafi álpast inn í ríkisstjórn sem í ríkum mæli byggir á stefnu Sjálfstæðisflokksins.  Þess vegna er Samfylkingin ekki höfuðandstæðingur VG og var þar af leiðandi ekkert sérstakt umtalsefni á flokksráðsfundinum.  Kannski það valdi einhverri gremju?

Steinunn eyðir síðan nokkru púðri á okkur Vinstri græn og talar um það sem kallar „átakakúltúr“ flokksins.  Einn ganginn enn leggst Samfylkingarfólk í þann leiðangur að kenna VG um að Reykjavíkurlistinn  leið undir lok.  Það voru aðrir flokkar en VG sem settu fram úrslitakosti og voru jafnvel á leið út úr samstarfinu eins og Steinunn Valdís veit mætavel.  En upphafið að endalokum R-listans verður þó fyrst og fremst skrifað á þáverandi formann Samfylkingarinnar eins og margoft hefur verið sagt og sýnt fram á.

Nú getur vel verið að Steinunn og félagar hennar í Samfylkingunni líti svo á að völd séu upphaf og endir alls og þess vegna hafi margra ára seta í stjórnarandstöðu verið farin að leika flokkinn svo illa að hann hafi verið auðveld bráð íhaldsins við stjórnarmyndun. Það er að minnsta kosti sú mynd sem margir hafa.  En Steinunn og fleiri forystumenn Samfylkingarinnar hafa nú valið að gera Vinstri græn að höfuðandstæðingi sínum og þannig snúið algerlega við blaðinu.  Samfylkingunni hefur nefnilega aldrei tekist að verða raunverulegur jafnaðarmannaflokkur í anda slíkra flokka á hinum Norðurlöndunum.  Arfleifðin frá viðreisnar- og Viðeyjarstjórnarárum Alþýðuflokksins hefur því miður orðið ofan á í störfum Samfylkingarinnar.  Geðvonskulegar athugasemdir um að Vinstri græn sé hvorki umhverfis- né kvenfrelsisflokkur eru einfaldlega hlálegar enda veit þjóðin betur.  Hitt er rétt hjá Steinunni að völd eru vandmeðfarin, en hlutverk stjórnarandstöðu er líka áhrifamikið og brýnt í hverju lýðræðissamfélagi, mun brýnna en völd valdanna vegna.  Steinunn ætti ekki að gera lítið úr því.

(Greinin birtist í Blaðinu 8. sept.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ólafur Þórðarson

Bráðfyndin setning hjá Steinunni. Eiginlega eru orðin sniðin úr svona "How-to" bók. Það þarf að vera skýr tilgangur með öllu og þeir einu sem hafa eitthvað til málanna að leggja eru þeir "sem vinna."

Hitt er öllu áhugaverðara að sjá ekki að góð og víð og skynsöm umræða er góður grundvöllur ákvarðana. Það væri jú ekki lýðræðisfyrirkomulag ef allir (nema þeir sem völdum héldu) myndu hætta að ræða stjórnmál og snúa sér alhliða að garðyrkju eða fjallaklifri.

Einnarlínufrasahugsjónamennskan ræður ferðinni og er í beinu hlutfalli við innantómt gjálfur auglýsingaheilaþvottarins sem er í fullum gangi með að eyðileggja umræðuna í heild sinni.

Jæja, nú ætla ég út í garð að reyta arfa og fá mér smá Beaujolais meðan ég er að því.

Ólafur Þórðarson, 8.9.2007 kl. 16:56

2 Smámynd: Árni Þór Sigurðsson

Ég hefði frekar fengið mér Côtes de Rhône!

Árni Þór Sigurðsson, 8.9.2007 kl. 19:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband