5.2.2008 | 11:12
Fagleg vinnubrögð innleidd við skipun í opinber embætti
Ég hef, ásamt fjórum öðrum þingmönnum, lagt fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um að forsætisráðherra skipi nefnd með þátttöku allra þingflokka er hafi það verkefni að móta reglur og eftir atvikum semja frumvarp til laga um verkferla og meðferð og þýðingu faglegs hæfnismats við skipan í opinber embætti.
Tilefni þessarar tillögu blasir við. Umræðan um stöðuveitingar einstakra ráðherra að undanförnu kallar á að faglegri vinnubrögð verði innleidd við opinberar stöðuveitingar. Í tillögunni er talað almennt um opinber embætti en sérstök áhersla þó lögð á dómarastöður enda eru þær sérstaklega mikilvægar í þessu sambandi þar sem dómsvaldið er ein af grunnstoðum þrískiptingar ríkisvaldsins.
Í einni af fjölmörgum umræðum um málið á Alþingi sagði Geir H. Haarde forsætisráðherra m.a. í andsvari við mig: "Það er auðvitað sjálfsagt að hafa jafnan til athugunar hvaða aðferðum er beitt þegar menn eru skipaðir í embætti á vegum ríkisins en ég tel ekki að þessi tilteknu þrjú mál sem hv. þingmaður gerði að umtalsefni gefi sérstakt tilefni til þess. Við skulum á hinn bóginn fara yfir það í rólegheitum hvort ástæða er til að breyta eitthvað málsmeðferðinni." Þarna gefur ráðherrann a.m.k. undir fótinn með að settar verði einhverjar reglur eða málsmeðferð breytt að einhverju leyti. Ég er því bjartsýnn á að tillaga mín fái hljómgrunn á þingi, bæði þegar ofangreind ummæli forsætisráðherra eru höfð í huga og eins málflutningur Samfylkingarinnar í þessum málum í gegnum árin.
Þingsályktunartillögunar má nálgast hér.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:13 | Facebook
Athugasemdir
Já flott hjá þér!
Jónína Benediktsdóttir (IP-tala skráð) 5.2.2008 kl. 17:43
Legg til að ráðningarskrifstofum landsins verði falið að annast mannaráðningar en þingmenn sinni lagagerð og ráðherrar stefnumótun.
Þorsteinn Valur Baldvinsson, 5.2.2008 kl. 20:38
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.