Vinstri sveifla - Samfylking og Vinstri græn með meirihluta

Ný skoðanakönnun í Fréttablaðinu er athyglisverð fyrir margra hluta sakir.  Hún sýnir glögglega vinstri sveiflu í samfélaginu.  Hvort sem litið er á stöðuna á landsvísu eða í höfuðborginni sérstaklega, er ljóst að kjósendur eru að gefa stefnuljós til vinstri.

Ríkisstjórnarflokkarnir tveir halda samanlagt svipuðu fylgi og þeir fengu í kosningum þótt hlutfall þeirra innbyrðis breytist.  Samfylkingin tekur fylgi af Sjálfstæðisflokknum.  Þetta þarf ekki að koma á óvart meðan stjórnin er á fyrsta ári.  Hvað stjórnarandstöðuna varðar þá höldum við Vinstri græn vel sjó og erum aðeins yfir kjörfylginu sl. vor og bættum við okkur einu þingsæti ef kosið yrði nú.  Samkvæmt könnuninni fengju Samfylking og Vinstri græn samanlagt 33 þingmenn en Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur fengju 30 þingmenn.  Frjálslyndir falla út ef marka má könnunina. 

Vissulega eru þetta nokkur tíðindi.  Vanhugsuð meirihlutaskipti í borginni valda áreiðanlega miklu um að Sjálfstæðisflokkur tapar fylgi og á sama hátt nýtur Samfylkingin þess.  Það er ekki hægt að lesa aðra niðurstöðu út úr þessari könnun en að kjósendur vilji koma á vinstri stjórn, vilji að þeir sem standa fyrir jöfnuði og réttlæti taki höndum saman hvar sem mögulegt er.  Þótt Samfylking og Vinstri græn séu nú í minnihluta í borgarstjórn Reykjavíkur hafa oddvitar flokkanna þar náð góðri samstöðu sín í milli um að halda hópinn í prýðilegri sátt við Framsókn og Margréti Sverrisdóttur.  Vitaskuld eru tækifæri til þess líka í landsstjórninni.  Lykillinn að því liggur hjá Samfylkingunni.  Vonandi er það bara tímaspursmál hvenær hún áttar sig á skilaboðunum frá kjósendum.


mbl.is Fylgi Samfylkingar eykst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Sigurðsson

Sæll Árni.

Það eru  margar ástæður fyrir því að ég get ekki ýmindað mér að það hafi nokkur stjórnmálaflokkur áhuga á að starfa með vinstri grænum. Fyrir það fyrsta er himinn og haf á milli stefnu þessara flokka, enda sýndi það sig eftir síðustu kosningar að Samfylkingin hafði engan áhuga á samstarfi við Vinstri Græna. Sannleikurinn er sá að þið eruð svo svakalegt afturhald að þið eruð ekki stjórntækir í nútíma þjóðfélagi, og neikvæðnin og leiðindin ríða hjá ykkur röftum. Svo er nú alveg makalaust hjá þér að vera að óska eftir stjórnarslitum þegar allir viðurkenna að þetta er sterk og mjög góð stjórn sem er að vinna að góðum málum. Þér þótti það ekki góð pólitík að skipta um stjórn hjá Reykjavíkurborg á miðju kjörtímabili, en nú er það í lagi ef þú kemst í völd. Árni valdagræðgin og fýluköstin í þér í skrifum þínum undanfarið svo ég tali nú ekki um þunglyndið í þér í frægum Kastljósþætti þar sem Sigurður Kári tók þig á hnén og þerraði af þér tárin, hafa gengisfellt þig í pólitík. Það skrítna er að mér líkaði vel við þig  hér áður, en þá kyntirðu líka þína eigin kjötkatla. Ég áttaði mig ekki á því þá hvað þú ert valdagírugur.

Ómar Sigurðsson, 31.1.2008 kl. 22:55

2 Smámynd: Ingibjörg Hinriksdóttir

Sæll Árni, það er margt til í þessu hjá þér. Vissulega er það athyglisvert að sjá þá vinstri sveiflu sem virðist vera núna og það er alveg klárt að meririhlutaskiptin í borginni hafa þar mikið að segja. Ég er hins vegar ekki viss um að skýring þín um að Samfylkingin sé að taka fylgi af Sjálfstæðisflokknum sé alveg rétt. Sjálfstæðisflokkurinn missir einn mann samkvæmt könnuninni og þið bætið við ykkur manni. Frjálslyndi flokkurinn tapar fjórum mönnum og Framsókn einum, Samfylkingin bætir við sig fimm mönnum! Er það ekki frekar skýringin að Samfylkingin sæki aukinn stuðning í rann frjálslyndra heldur en að segja að sá stuðningur komi frá Sjálfstæðiflokknum ... svo getum við þráttað um það hvort  ykkar viðbótarmaður komi frá Framsóknar- eða Sjálfstæðisflokknum.

Stuðningur við ríkisstjórnina er 68,7%, stuðningur við Samfylkingu og Vinstri græna er samtals 51,8%, ég tel að sú ríkisstjórn sem nú situr sé sú ríkisstjórn sem þjóðin vill. Það er því engin sérstök ástæða til þess að lesa milli línanna í könnuninni. Hún segir allt sem þarf.

Ómar, hvernig fór leikurinn Liverpool - West Ham í vikunni?

Ingibjörg Hinriksdóttir, 31.1.2008 kl. 23:53

3 Smámynd: Árni Þór Sigurðsson

Þessi geðvonskuskrif Ómars eru þess eðlis að ég nenni ekki að elta ólar við að svara þeim, get þó sagt að hann er eini maðurinn sem ég hef hitt eða heyrt frá sem hefur þessa skoðun á téðum Kastljósþætti.

Hvað efnislegar athugasemdir Ingibjargar varðar þá er það rétt að Sjálfstæðisflokkurinn tapar aðeins einum manni, en þegar hlutfallstölurnar eru skoðaðar þá sýnist mér að sá flokkur sé að dala nokkuð.  Þá er líka rétt að Framsókn og Frjálslyndir tapa og hvert það fylgi fer er ekki gott að segja.  Ég verð hins vegar að brýna mína ágætu Samfylkingarvinkonu Ingibjörgu og segi að það sé frekar dapurlegt að Samfylkingin, sem ætlaði að vera helsta mótvægið við Sjálfstæðisflokkinn, skuli viðhalda völdum hans sem þegar eru orðin alltof langvinn, í stað þess að vinna með þeim sem þó vilja raunverulegan jöfnuð og réttlæti í anda góðrar jafnaðarstefnu.  Ég er sannfærður um að skilaboðin frá kjósendum eru þessi: vinnið til vinstri!

Árni Þór Sigurðsson, 1.2.2008 kl. 00:17

4 Smámynd: Óðinn Þórisson

Það er mjög mikilvægt að á Íslandi á hverjum tíma sé sterk ríkisstjórn, sem nýtur trausts þjóðarinnar og með verkstjóra sem stýrir skútunni vel og örugglega.
Það ríkir greinilega mikið trausts milli þeirra hjónakorna sem leiða hana. 
Þau er samt óhrædd við að takast á og komast að sameiginlegri niðurtöðu sem er Íslendingum til góðs.
Sá dimmi dagur að vg verði aðili að ríkisstjórn kemur vonandi aldrei.

Sólin heldur vonandi áfram að skýna á okkur Íslendinga. Reykviíngar upplifa nú bjarta daga og geta horft með bros á vör til framtíðar.

Óðinn Þórisson, 1.2.2008 kl. 11:55

5 Smámynd: Einar Ólafsson

Þetta orð "stjórntækur" er merkilegt orð. Af hverju er stjórnmálaflokkur ekki "stjórntækur"? Og frá hvaða sjónarmiði er hann ekki "stjórntækur"? Sumir vilja alls ekki að VG eigi aðild að ríkisstjórn, frá þeirra sjónarmiði er VG ekki stjórntækur. Frá mínu sjónarmiði er Sjálfstæðisflokkurinn ekki stjórntækur, ég vil ekki Sjálfstæðisflokkinn í ríkisstjórn. Af hverju? Jú, af því að Sjálfstæðisflokkurinn vinnur að því að breyta samfélaginu á mjög óheppilegan hátt með einkavæðingu, markaðsvæðingu, vaxandi ójöfnuði, hernaðarstefnu o.s.frv. Þessi stefna Sjálfstæðisflokksins er ekki aðeins óheppileg þegar til lengdar lætur fyrir almenning, þetta er líka afturhaldsstefna, það er verið að snúa samfélaginu til baka til þess sem var fyrir miðja síðustu öld. Allir aðrir flokkar, nema VG, taka meira og minna undir þessa afturhaldsstefnu (þeir eru mismunandi "stjórntækir"), VG er eini flokkurinnn sem horfir til framtíðar, sem vill styrkja velferðarsamfélagið og þróa það áfram, sem horfist af alvöru í augu við umhverfisvandann og þann vanda að skapa sjálfbært samfélag, sem vill uppræta þá hernaðarstefnu sem hefur verið ríkjandi öldum saman o.s.frv. Þessi framfarastefna er í mótsögn við afturhaldsstefnu hinna flokkanna, þess vegna segja margir fylgismenn þeirra að VG sé ekki "stjórntækur". En stefna VG vinnur smám saman á, ekki bara með fylgisaukningu VG, heldur líka af því að hinir flokkarnir taka hana smám saman upp af því að hún horfir til framtíðar - sbr. umhverfismálin.

Einar Ólafsson, 1.2.2008 kl. 13:06

6 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Samfylking og Vg geta bara ekki unnið saman :-)

Samfylking getur ekki ákveðið sig og Vg er eitt það svartasta afturhald sem um getur í stjórnmálasögu þjóðarinnar:-)

Heimir Lárusson Fjeldsted, 1.2.2008 kl. 13:52

7 Smámynd: Sigurjón

Sæll Árni.

Að túlka það sem svo að 50,2% samanlagt fylgi Sf og VG séu ,,skilaboð kjósenda um að vinna til vinstri" er óskiljanlegt.  Það getur varla verið minni meirihluti sem þar er á ferðinni!

Auk þess er Ingibjörg nógu skýr í kollinum til að átta sig á því að það væri glapræði að treysta einni skoðanakönnun Baugstíðinda til þess að leysa upp þing og boða til kosninga, ekki með meira en 50,2%, sem fara auðveldlega niður fyrir meirihlutastrikið.

Þú segir að valdatíð Sjálfstæðismanna sé orðin allt of löng.  Ég segi: Það er ekkert undarlegt við að flokkur sem er, hefur ávallt verið og mun ávallt verða stærsti stjórnmálaflokkur landsins sitji við völd!  Það er líka gott að Samfylkingin áttaði sig á því að það er betra að vera í stjórn og hafa einhver áhrif, heldur en að vera í stjórnarandstöðu (mótvægi, eins og þú vilt kalla það) og koma engum málum í gegn.

Sigurjón, 1.2.2008 kl. 16:30

8 Smámynd: Árni Gunnarsson

Sú hatursumræða sem frjálshyggjumenn hafa beint að Vinstri grænum allt frá því deilur hófust um Kárahnjúkavirkjun er búin að tryggja þeim áhrif í stjórnmálum okkar til frambúðar.

Aldrei hef ég skilið af hverju þessi flokkur hefur verið svona steingeldur í umræðunni um stjórnun fiskveiða. Þó hafa þeir Atli, Hóla-Jón og núna Ögmundur eitthvað rumskað.

Batnandi mönnum er best að lifa.     

Árni Gunnarsson, 1.2.2008 kl. 19:40

9 Smámynd: Ásgeir Rúnar Helgason

Gaman að sjá hvað VG nýtur mikils trausts í Reykjavík.

Langt frammúr kjörfylgi.

Ásgeir Rúnar Helgason, 2.2.2008 kl. 11:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband