22.3.2008 | 18:02
Þið munið hann Jörund
Ætla að fara í kvöld að sjá leikritið "Þið munið hann Jörund" í Logalandi í Reykholtsdal í uppfærslu Ungmennafélags Reykdæla. Félagið heldur upp á 100 ára afmæli sitt um þessar mundir. Mun bæta inn í þessa færslu þegar ég kem af sýningunni.*
*Bráðskemmtileg og vel uppfærð sýning hjá Ungmennafélagi Reykdæla undir leikstjórn Reykdælingsins Guðmundar Inga Þorvaldssonar. Að öllum ólöstuðum fannst mér Sigurður Halldórsson í hlutverki Stúdíósusar skila sína hvað best og svo verð ég að segja að Jón Pétursson í hlutverki Charlie Brown var einnig afar skemmtilegur. Margir ungir þátttakendur, sumir hverjir enn í grunnskóla, skiluðu einnig sínu mjög vel og má þar nefna Loga Sigurðsson, Þorstein Þórarinsson og Helga Axel Davíðsson. Arnoddur Magnús Danks í hlutverki Jörundar lék skemmtilega en hefði mátt hafa sterkari og öruggari söngrödd. Loks má nefna tríóið ómissandi, þau Hildi Jósteinsdóttur, Þorvald Jónsson go Jón Guðbrandsson sem áttu stórgóðan leik og söng.
Sem sagt, mjög góð skemmtun og er full ástæða til að óska þeim Reykdælum til hamingju með aldarafmælið og góða sýningu.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:46 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.