Aukið lýðræði í stjórnarskrá

VINSTRI græn og Samfylkingin hafa einsett sér að gera nokkrar mikilvægar breytingar á stjórnarskrá Íslands fyrir vorið. Vonandi verður breið samstaða um þær þótt Sjálfstæðisflokkurinn hafi þegar boðað að hann telji ekki nægilegan tíma til stefnu. Breytingarnar lúta að því að skilja betur að löggjafarvald og framkvæmdavald slá föstu eignarhaldi þjóðarinnar á náttúruauðlindum, auðvelda þjóðaratkvæðagreiðslur um mikilsverð mál, koma á stjórnlagaþingi o.fl.

 

Auðlindir í þjóðareign

Mikið hefur verið rætt um að þjóðareign á náttúruauðlindum þyrfti að vera stjórnarskrárbundin. Umhverfis- og auðlindamál hafa jafnt og þétt fengið aukið vægi í þjóðfélagsumræðu, einnig í lagalegu tilliti. Alþjóðlegar skuldbindingar á þessum sviðum gera ennfremur ríkari kröfur til okkar en áður var og því sjálfsagt að festa ákvæði um þau í stjórnarskrá. Þannig þarf að ákveða að óheimilt verði að láta náttúruauðlindir í þjóðareign varanlega af hendi og að nýting auðlinda byggist á grundvelli sjálfbærrar þróunar. Það er líka sjálfsagt að tryggja rétt almennings til upplýsinga á sviði umhverfismála og réttinn til að hafa áhrif á ákvarðanir sem varða umhverfið.

 

Þjóðaratkvæðagreiðslur

Við Íslendingar höfum ekki mikla reynslu af þjóðaratkvæðagreiðslum. Sums staðar í kringum okkur hafa þær öðlast fastan sess og eru órjúfanlegur þáttur í lýðræðissamfélagi. Besta dæmið um það er í Sviss. Þá eru til dæmi um að minnihluti þjóðþings geti krafist þjóðaratkvæðis um tiltekin mál, t.d. umdeilda lagasetningu. Slík ákvæði gæti orðið fyrsta skrefið í þá átt að draga úr ægivaldi framkvæmdavaldsins. Staða þingsins myndi hiklaust styrkjast og við myndum feta okkur inn á braut aukins beins lýðræðis. Annað ákvæði sem þarf að binda í stjórnarskrá og snýr að því að skilja betur að framkvæmdavald og löggjafarvald lýtur að meðferð utanríkismála en þau er lítið fjallað í gildandi stjórnarskrá. Umræða um þetta varð þó töluverð þegar tveir ráðherrar ákváðu án nokkurs samráðs að lýsa yfir stuðningi Íslands við ólögmæta innrás Bandaríkjanna í Írak. Stjórnarskráin þarf að taka af allan vafa um að slíkt ráðslag endurtaki sig aldrei.

 

Stjórnlagaþing

Fjölmargir hafa að undanförnu reist kröfuna um að sérstakt stjórnlagaþing verði kosið til að annast heildarendurskoðun á stjórnarskránni, kosningalögum o.fl. Til að undirbúa slíkt þing er nauðsynlegt að móta því ákveðinn ramma í stjórnarskrá en á þeim grundvelli yrðu síðan sett lög um stjórnlagaþing sem fælu í sér nánari útlistun á verkefnum þess og starfsfyrirkomulagi. Mörgum spurningum er vissulega ósvarað um stjórnlagaþingið, s.s. um stærð þess og verkefni, en aðalatriðið á þessu stigi er að mínu mati að koma skýrum ákvæðum um það inn í stjórnarskrána.

 

Endurspeglum þjóðarviljann

Breytingar á stjórnarskránni í þá veru sem ég nefni hér eru mikilvægar og þurfa að ná fram að ganga fyrir vorið. Stjórnarskrárbreytingu þarf að samþykkja á tveimur þingum með kosningum á milli og til að þær öðlist gildi þarf því fyrst að samþykkja þær á yfirstandandi þingi og síðan að nýju á fyrsta þingi eftir kosningar. Þessu fyrirkomulagi ætti að vísu hiklaust að breyta, og verður e.t.v. gert, en það hefur ekki áhrif á gildandi aðferðarfræði við að breyta stjórnarskránni. Aukið lýðræði, skarpari skil milli framkvæmdavalds og löggjafarvalds, þjóðaatkvæðagreiðslur og sameign þjóðarinnar á náttúruauðlindum eru allt mál sem rík krafa er um í samfélaginu. Spurningin er hvaða stjórnmálaflokkar vilja endurspegla vilja þjóðarinnar í verki.

(Greinin birtist í Morgunblaðinu 27. febrúar 2009)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband