Fluttur á visir.is

Eigendur Morgunblaðsins ákveða fyrir sig hvernig þeir haga sínum málum, en ég hef ákveðið hvað mig snertir að flytja bloggsíðu mína af mbl.is og yfir á visir.is.  Ég þakka fyrir samfylgdina á þessum vettvangi og býð þeim sem vilja taka þátt í skoðanaskiptum við mig á netinu að gera þá á nýjum vettvangi.

Ný bloggsíða er því blogg.visir.is/arnithor.

 


Obama snýr við blaðinu

Barack Obama Bandaríkjaforseti hefur snúið við blaðinu hvað varðar eldflaugastöðvar í Póllandi og Tékklandi sem forveri hans hóf undirbúning að.  Þetta eru jákvæðar fréttir fyrir alla sem vilja stuðla að friðsamlegri sambúð ríkja og trúa ekki á hernaðarmáttinn sem tæki til þess.

Stjórnvöld í Póllandi og Tékklandi höfðu að vísu lýst sig hlynnt áformunum en mikil andstaða var við þau meðal almennings í báðum löndunum.  Ennfremur var ljóst að þau höfðu mjög neikvæð áhrif á sambúðina við Rússa, en mikilvægt er að efla samstarfið enda geta Rússar haft mikilvægu hlutverki að gegna við að auka stöðugleika og bæta sambúð ríkja.

Breytt afstaða Bandaríkjaforseta er því fagnaðarefni og vonandi til marks um nýjar og allt aðrar áherslur í utanríkis- og alþjóðamálum af hálfu Bandaríkjanna, ekki veitir af.


mbl.is Hætt við eldflaugastöðvar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ráðherrar eru þingbundnir

Alþingi ákvað hinn 16. júlí sl. að fela ríkisstjórninni að leggja inn umsókn um aðild Íslands að Evrópusambandinu og að síðan færi fram þjóðaratkvæðagreiðsla um væntanlegar niðurstöður aðildarviðræðna.  Ákvörðunin var vissulega umdeild, m.a. innan míns flokks, Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs.  Hún er þó í samræmi við það sem lagt var upp með í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og flokksráð VG samþykkti.  Á þeim tíma lá þó jafnframt fyrir að nokkrir þingmenn flokksins myndu ekki styðja tillögu þessa efnis.  Ákveðið var að tillagan fengi þinglega meðferð og meirihluti Alþingis yrði einfaldlega að ráða hvaða leið yrði farin.  Og Alþingi tók ákvörðun eins og kunnugt er eftir ítarlega vinnu í utanríkismálanefnd og langa umræðu í þingsal.

Í stjórnarskránni kemur fram að Ísland sé lýðveldi með þingbundinni stjórn.  Það þýðir að ríkisstjórn á hverjum tíma þarf að njóta stuðnings meirihluta Alþingis.  Hið sama á að sjálfsögðu við um einstaka ráðherra.  Þeir eru þingbundnir.  Í fjölmiðlum nú nýverið lýsti sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Jón Bjarnason, yfir því að hann teldi réttast að fresta viðræðum við ESB um aðild vegna þeirrar veiku stöðu sem Ísland væri í um þessar mundir.  Vísaði hann í því efni m.a. til yfirlýsinga hollenska utanríkisráðherrans sem tengdi saman ESB-umsókn Íslands og lausn Icesavedeilunnar.  Ég tel að yfirlýsingar hollenska ráðherrans hafi fyrst og fremst verið til heimabrúks.  Hið sama á við um yfirlýsingar Jóns Bjarnasonar.  Þær eru að mínu mati einkum til heimabrúks í kjördæmi ráðherrans.  Eða – ef ráðherranum er alvara með tillögu sinni hlýtur hann að fylgja henni eftir með því að leggja fram á Alþingi þingsályktunartillögu um að fresta ESB-viðræðum.  Ráðherrann verður nefnilega að hlíta niðurstöðu Alþingis.

Það er ljóst að í viðræðum við ESB munu sjávarútvegsmálin og landbúnaðarmálin skipa veigamikinn sess.  Ég skora því að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að hefja nú þegar vandlegan undirbúning viðræðnanna á málasviði hans, þar eru ríkustu hagsmunir lands og þjóðar.  Hvað sem okkur kann að finnast um ESB-aðild (sem þjóðin mun að sjálfsögðu ráða til lykta) þá ber okkur öllum að taka samþykkt Alþingis alvarlega og vinna í samræmi við hana af fullum heilindum að hagsmunum þjóðar í hvívetna.  Jón Bjarnason eins og aðrir.


Efnahagshrunið dregur úr lífsgæðum

Ætli það sé ekki nær að segja að efnahagshrunið í haust muni draga úr lífsgæðum hér á landi næstu misseri og ár.  Icesave skuldbindingin sem slík er vissulega grábölvuð en af hverju er Morgunblaðið og aðrir fjölmiðlar ekki að fjalla um kostnað þjóðarbúsins af efnahagshruninu sem slíku?  Af hverju er ekki verið að fjalla um það hvað við Íslendingar þurfum að blæða fyrir vegna óstjórnar og fullkomins sinnuleysis stjórnvalda undanfarinna ára?  Af hverju útrásinni var leyft að binda þjóðinni slíka bagga?  Eru fjölmiðlar að spyrja réttu spurninganna?  Eða eru þeir of tengdir útrásarliðinu og pólitískum bandamönnum þeirra?  Er nema von að spurt sé?
mbl.is Icesave: Gæti stefnt í óefni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Um veikleika og styrkleika

Í augum sumra vekur atkvæðagreiðslan á Alþingi um ESB-viðræður spurningar um veikleika og styrkleika í stjórnmálum.  Um þetta vitna fjölmiðlaumræða og bloggfærslur.  Er jafnvel gengið svo langt að telja ráðherra illsætt í embætti vegna afstöðu sinnar í málinu.

Lítum aðeins á málið.  Það vakti athygli í ESB-atkvæðagreiðslunni að nokkrir andstæðingar ESB-aðildar greiddu atkvæði með tillögu stjórnarinnar (eftir breytingu frá utanríkismálanefnd) og á sama hátt greiddu ýmsir fylgismenn ESB-aðildar atkvæði gegn tillögunni! Þessi staðreynd er til marks um að atkvæðagreiðslan á Alþingi sl. fimmtudag var ekki um aðild Íslands að ESB, heldur snérist hún um málsmeðferð.  Við þingmenn Vinstri grænna sem studdum tillöguna gerðum það flest vegna þess að við vildum koma þessu máli í lýðræðislega farveg og að þjóðin myndi leiða málið til lykta á grundvelli efnislegrar niðurstöðu viðræðna við ESB.  Þeir þingmenn sem eru fylgjandi ESB-aðild en voru á móti málinu báru fyrir sig formlegar og tæknilegar ástæður - þeir voru ekki sáttir við málsmeðferðina m.a. að því er varðar þjóðaratkvæðagreiðslur.  Enn aðrir létu svo afstöðu sína til annarra mála ráða atkvæði sínu í þessu máli eins og kunnugt er.

Felst í þessu einhver sérstakur veikleiki eða styrkleiki?  Í mínum huga sýnir þessi afstaða fyrst og fremst styrk ef eitthvað er.  Það er enginn veikleiki að einstakir þingmenn eða forystumenn í stjórnmálaflokkum hafi greitt atkvæði á annan veg en meirihluti þingmanna viðkomandi flokks.  Kannski er eini veikleikinn sá að allir þingmenn Samfylkingarinnar hafi greitt atkvæði á sama veg, þar er bersýnilega enginn efi á ferð.

Svo er sérstaklega verið að hnýta í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Jón Bjarnason, og því jafnvel haldið fram að honum muni reynast illsætt í embætti eftir að hafa greitt atkvæði gegn ESB-viðræðunum.  Einkum og sér í lagi þar sem flóknustu málaflokkarnir sem við munum þurfa að ræða við ESB eru einmitt landbúnaðarmálin og sjávarútvegsmálin.  Þessu er ég alveg ósammála.  Í fyrsta lagi er rétt að hafa í huga að sú regla hefur verið við lýði hér á landi í öllum samsteypustjórnum að hver flokkur um sig tilnefnír sína ráðherra.  Þess vegna mun Jón Bjarnason gegna ráðherraembætti á meðan Vinstrihreyfingin grænt framboð kýs svo á sama hátt og VG mun ekki skipta sér af því hverjir skipa ráðherrastóla Samfylkingarinnar.  Á hitt er svo að líta að það er einmitt styrkur fyrir viðræður íslenskra stjórnvalda við ESB að þar sé efinn með í för.  Ef til vill er rétt að minna á að þegar Norðmenn fóru í aðildarviðræður við ESB 1992 skipaði þáverandi forsætisráðherra, Gro Harlem Brundtland, þekktan ESB-andstæðing í embætti sjávarútvegsráðherra, Jan Henry T. Olsen.  Af hverju gerði hún það?  Vegna þess að Gro vissi sem var að það var gagnslaust að vera bara með já-menn í þeim viðræðum.  Hvernig skyldu flokkssystur hennar á Íslandi hugsa þetta mál?

Efinn er ætíð góður förunautur.  Sá sem aldrei spyr gagnrýninna spurninga er ólíklegri til að ná árangri en hinn sem tekur ekki alla hluti gefna.  Þessu viðhorfi er mikilvægt að halda til haga í komandi viðræðum Íslands og Evrópusambandsins.


Meira um Dalai Lama - og íslensk yfirvöld

Eins og ég hef greint frá hér á síðunni mun ég hitta Dalai Lama á morgun, þriðjudag.  Þá heimsækir hann Alþingi og fundar með utanríkismálanefnd.

Nokkur umræða hefur verið í fjölmiðlum um það hvort íslenskir ráðamenn muni hitta þennan aufúsugest og hver sé þá skýringin á því ef svo er ekki.  Hefur líka verið sagt að þingmenn hafi ekki svarað boði um að óska eftir fundi með trúarleiðtoganum og friðarverðlaunahafanum.  Ekki veit ég um aðra en get talað fyrir sjálfan mig.

Þann 17. febrúar sl. átti ég fund með þremur fulltrúum þeirra sem skipuleggja heimsókn Dalai Lama til Íslands.  Þá var ég nýorðinn formaður utanríkismálanefndar og fannst mikilvægt að kynna mér tildrög þess að honum var boðið hingað til lands, hvernig dagskránni yrði háttað og hvort flötur væri á að hann hitti íslenska ráðamenn eða stjórnmálamenn.  Það var alveg ljóst af minni hálfu að ég hafði áhuga á heimsókninni og vildi gjarnan að utanríkismálanefnd ætti þess kost að eiga með honum fund.  Á hinn bóginn var ekki vitað í febrúar hverjir yrðu í nefndinni eftir kosningar.  Þegar svo ný nefnd hafði verið kosin eftir að Alþingi kom saman í kjölfar kosninga, og fyrirspurn barst frá skipuleggjendum heimsóknarinnar hvort nefndin vildi hitta Dalai Lama, lagði ég til við nefndina að þeir nefndarmenn sem vildu gætu átt fund með honum í Alþingishúsinu.  Að höfðu samráði við forseta Alþingis mun hann heimsækja þinghúsið þar sem þingforseti tekur á móti honum og síðan mun hann eiga fund með nefndarmönnum í utanríkismálanefnd.

Mér finnst rétt að þetta komi fram hér, ekki síst vegna þess að fjölmiðlar hafa einkum beint kastljósinu að ráðherrum í tengslum við heimsókn Dalai Lama, en lítið fjallað um heimsóknina í þingið.  Má í þessu efni benda á að Alþingi er æðsta stofnun þjóðarinnar og því má fullyrða að Dalai Lama sé sýndur mikill sómi með heimsókninni þangað og fundi með þingmönnum úr utanríkismálanefnd.  En nú hafa svo einnig nokkrir ráðherrar greint frá því að þeir hyggist hitta tíbetska gestinn og vonandi takast þeir fundir vel og verða ríkisstjórninni til sóma.


Evrópumálin í utanríkismálanefnd

Þá eru komnar fram á Alþingi tvær þingsályktunartillögur er varða tengsl Íslands og Evrópusambandsins.  Utanríkisráðherra mælti fyrir annarri þeirra, hin er sameiginleg tillaga þingmanna Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks.  Eftir fyrri umræðu um tillögurnar á fimmtudag og föstudag var þeim vísað til utanríkismálanefndar til umfjöllunar.

Lesa meira >>


Mun hitta Dalai Lama

Dalai LamaÁ þriðjudag mun Dalai Lama koma í heimsókn í Alþingi.  Þar mun forseti Alþingis taka á móti honum og síðan mun hann hitta fulltrúa úr utanríkismálanefnd þingsins. 

Þá gefst mér, sem formanni nefndarinnar, tækifæri til að ræða við þennan góða gest og friðarverðlaunahafa Nóbels.  Ég hlakka sannarlega til þess að heyra hvað hann hefur að segja um stöðu mála í Tíbet, en einnig um viðhorf hans til friðarmála og alþjóðamála almennt.  Vonandi verður einnig unnt að gera honum grein fyrir þeirri stöðu sem er uppi í íslensku þjóðlífi.  Dalai Lama er aufúsugestur á Íslandi.


mbl.is Dalai Lama í heimsókn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Norræn samvinna í utanríkis- og öryggismálum

Thorvald StoltenbergÍ næstu viku kemur hingað til lands Thorvald Stoltenberg, fyrrv. utanríkisráðherra Noregs, til að fjalla um norræna samvinnu á sviði utanríkis- og öryggismála.  Stoltenberg er þrautreyndur stjórnmálamaður og diplómat og var um langt skeið í forystusveit norska Verkamannaflokksins.  Hann hefur að undanförnu unnið á vegum utanríkisráðherra Norðurlandanna að skýrslu og tillögum um aukna samvinnu Norðurlandanna.

Stoltenberg kynnti norrænu utanríkisráðherrunum skýrslu sína í febrúar sl. og fékk hún umfjöllun, m.a. á vettvangi utanríkismálanefndar Alþingis.  Hefur tillögum hans yfirleitt verið vel tekið þótt einstaka tillögur eigi varla við hér á landi.  Að mínu mati felst í tillögunum viðleitni til að taka utanríkis- og öryggismálin nýjum tökum, auka norræna samvinnu á því sviði og víkka sjónarhornið á öryggismál.  Það er mjög jákvætt og í anda þess málflutnings sem vinstri menn og friðarsinnar hafa lengi haldið á lofti.  Það felast því mörg tækifæri í þeirri nýju sýn sem Stoltenberg fjallar um.

Fyrirlestur Stoltenbergs verður í Háskóla Íslands nk. miðvikudag (27. maí) kl. 12.15.


Að stýra neyslu - um sykurskattinn

Nokkurt fjaðrafok hefur orðið vegna hugmynda Ögmundar Jónassonar heilbrigðisráðherra um sérstaka skattlagningu sykraðra gosdrykkja og etv. einnig annarrar óhollustu.  Hafa bæði forsvarsmenn iðnaðarins og jafnvel formaður Neytendasamtakanna brugðist hart við og mótmælt öllum áformum um meinta neyslustýringu.

Á sama tíma kemur framáfólk úr heilbrigðisgeiranum, fólk sem hefur mikla reynslu af að vinna að tannheilbrigðismálum, og fagnar hugmyndunum og segir að það hafi verið mikil afturför þegar virðisaukaskattur á gosdrykki var lækkaður fyrir skemmstu (á þensluskeiðinu).

Lesa meira>>


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband