Námavinnsla í Kollafirði

Þessi frétt á mbl.is rifjar upp fyrir mér þegar ég var formaður hafnarstjórnar í Reykjavík að takast á við iðnaðarráðuneytið um efnistöku í Kollafirði.  Þá kom einmitt fram, það sem umhverfis- og samgönguráð ályktar um nú, að stjórnsýsla þessara mála er alls ekki í lagi.  Þess vegna var það, að í stjórnarmyndunarviðræðum nú milli Vinstri grænna og Samfylkingar, var ákveðið að styrkja umhverfisráðuneytið og gera það að raunverulegu umhverfis- og auðlindaráðuneyti um leið og á hinn bóginn verður til atvinnuvegaráðuneyti.  Þessar breytingar gætu orðið á næsta ári.  Þá myndi efnistaka á hafsbotni flytjast til umhverfis- og auðlindaráðuneytis frá iðnaðarráðuneytinu.  Það yrði að mínu viti til mikilla bóta.


mbl.is Telja stjórnsýslu umhverfismála veika
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góðar óskir fylgja nýrri stjórn

Ný ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingar hefur tekið til starfa.  Hún á fyrir höndum mörg risavaxin og erfið verkefni.  Meginstarfið á næstu mánuðum og misserum mun lúta að því að koma atvinnulífinu á réttan kjöl og treysta og tryggja hag heimila og fjölskyldna í landinu.  Ekkert mál má skyggja á þetta brýna viðfangsefni.

Íslenskt samfélag er brotið og beyglað eftir áralanga stjórnarsetu Sjálfstæðisflokksins og hægri aflanna í landinu.  Hugmyndafræði frjálshyggjunnar og markaðsvæðingar, fylgt af taumlausri græðgi eftir efnislegu ríkidæmi, setti samfélagið á hliðina og hefur valdið ómældu tjóni með alvarlegum félagslegum afleiðingum.  Verkefnið sem bíður nýrra stjórvalda er að byggja upp samfélag á nýjum grunni, með ný gildi að leiðarljósi.  Við viljum ekki og þurfum ekki sömu grunngildi og hrundu í hausinn á okkur í haust. 

Stjórnarflokkarnir heita því að byggja upp norrænt velferðarsamfélag í þess orðs bestu merkingu.  Vonandi tekst það.  Mikil áhersla á samstarf við samtök launafólks og atvinnulífs, sveitarfélög og fleiri lykilaðila gefur fyrirheit um að stjórninni takist að hafa forystu um að við vinnum okkur út úr kreppunni.  Ríkisstjórnin mun ekki ein vinna verkið, þjóðin öll verður að koma að því og það þarf að skapa samstöðu um réttlátt þjóðfélag, jöfnuð og velferð.  Stjórnarandstaðan hefur líka hlutverki að gegna eins og ávallt í lýðræðislegu þjóðfélagi, hún þarf að veita stjórninni aðhald en um leið hvatningu og stuðning og ríkisstjórnin á að tileinka sér ný vinnubrögð þar sem önnur stjórnmálaöfl en þau sem sitja í ríkisstjórn eiga sinn sess og skipta máli.

Stjórnarflokkarnir, Vinstri græn og Samfylking, eiga um margt sameiginlegan málefnagrundvöll.  Báðir byggja flokkarnir á félagshyggju og jöfnuði, lýðræði og sjálfbærri þróun.  Báðir vilja flokkarnir líta til hinna Norðurlanda um grunngerð samfélagsins.  Þeir eiga því margt sameiginlegt sem mun auðvelda þeim samstarfið á erfiðum tímum. 

Það er einkum í Evrópusambandsmálum sem flokkana greinir á.  Samfylkingin hefur um langt skeið viljað að Ísland gengi í Evrópusambandið meðan Vinstri græn eru því andsnúin.  Snertiflötur flokkanna í málinu er þó sá að vilja að þjóðin sjálf ráði örlögum sínum í þessu stóra máli.  Samkomulag þeirra gengur einmitt út á að þjóðin fái málið til sín í kjölfar viðræðna við ESB þar sem allir þættir málsins verða krufnir til mergjar og lagðir á borðið.  Jafnframt áskilja flokkarnir sé fullan rétt að halda uppi málflutningi sínum og vinna sjónarmiðum sínum fylgis meðal þjóðarinnar.  Það er lýðræðisleg nálgun.  Einhverjum þykir að málið sé sett í hendur stjórnarandstöðunnar en sannleikurinn er sá að málið fær einfaldlega lýðræðislega umfjöllun á Alþingi og þar verður úr því skorið hvort farið verður í viðræður eða ekki.  Það er í senn lýðræðislegt og þingræðislegt. 

Er það óvenjulegt eða óeðlilegt að í ríkisstjórnarsamstarfi sé treyst á þingræðið?  Varla.  Sérhver þingmaður er bundinn af sannfæringu sinni einni og þannig mun málið verða útkljáð á Alþingi og síðar í þjóðaratkvæðagreiðslu ef meirihluti þingmanna vill koma málinu til þjóðarinnar.  Ef að líkum lætur verður það fyrst eftir tvö og hálft til þrjú og hálft ár.  Á meðan mun ríkisstjórnin hafa í nógu að snúast við að koma samfélaginu á réttan kjöl.

Nýrri ríkisstjórn fylgja góðar óskir.  Henni mun ekki af veita.  Verkefni hennar er risavaxið og verður vafalítið vanþakklátt á köflum.  Ég er sannfærður um að sérhver ráðherra, og ríkisstjórnin í heild, mun starfa af fullri einlægni og besta vilja til að vinna landi og þjóð vel.  Þegar öllu er á botninn hvolft er það besta loforðin sem ný stjórn getur gefið þjóðinni.

Greinin birtist fyrst á www.pressan.is 11. maí 2009.


Pressupenni

Fyrsta grein mín sem pressupenna birtist í morgun og fjallar um kröfuna um réttlátt samfélag.  Baráttudagur verkalýðsins, 1. maí, var haldinn hátíðlegur sl. föstudag í skugga efnahagskreppu og alvarlegra atvinnuástands en við höfum upplifað hér á landi um áratugaskeið. 

Verkefni nýrrar ríkisstjórnar verður ekki síst að vinna að endurreisn samfélagsins úr rústum frjálshyggjunnar, í þágu fjölskyldna og atvinnulífs og að tala bjartsýni og kjark í þjóðina.  Þar varðar mestu að verkin sýni merkin.


Góður kjördagur

Fjölmenni í kosningakaffi Vinstri grænnaKjörsókn í þingkosningunum í dag virðist ætla að verða heldur meiri en í síðustu kosningum.  Það er ánægjulegt hve kjórsókn er almennt góð hér á landi og er til marks um virkt lýðræði.

Eftir að hafa farið í sund í morgun og kosíð í Hagaskóla á ellefta tímanum, fór ég í kosningamiðstöð Vinstri grænna í Tryggvagötunni og var þar lengi fram eftir degi.  Nokkur þúsund manns lagði leið sína þangað og man ég ekki eftir því að svo margir hafi komið til okkar í VG í kaffi á kjördag.  Stemningin var frábær.  Það er góður andi í okkar liði og við erum bjartsýn á góðan stuðning landsmanna í kosningunum í dag.

Gleðilegan kjördag!


Hræðslubandalagið

Enn eina ferðina hafa Sjálfstæðisflokkurinn og Morgunblaðið stillt saman strengi í aðdragandi kosninga. Enda þótt það gerist í hvert sinn sem kosningar nálgast, veldur það jafnframt vonbrigðum að fjölmiðill sem vill láta taka sig alvarlega, skuli æ ofan í æ falla í á gryfju að gerast pólitískur erindreki Sjálfstæðisflokksins. Nú, eins og svo oft áður, er það hræðsluáróðurinn sem sameinar flokkinn og fjölmiðilinn.

Íslensk þjóð horfist nú í augu við meiri erfiðleika en hún hefur upplifað um langt langt skeið. Hrunið í efnahags- og atvinnulífinu hefur í för með sér skelfilegar afleiðingar, atvinnuleysi, tekjufall, húsnæðismissi, gjaldþrot o.s.frv. Stórkostlegt gáleysi og getuleysi við stjórn landsins, hinn pólitíski ásetningur um afskiptaleysi hins opinbera og trúin á að taumlaus græðgi og endalaus vöxtur myndu auka velsæld, ætla að reynast okkur Íslendingum dýrkeypt lexía. Þótt margri aðilar í samfélaginu beri ábyrgð á því hvernig komið er, verður ekki framhjá því horft að á hinu pólitíska sviði er ábyrgðin fyrst og fremst Sjálfstæðisflokksins. Hugmyndafræði hans, nýfrjálshyggjan og hömlulaus markaðstrú, hefur beðið skipbrot og þjóðin mun þurfa að bera byrðarnar af þeirri ægilegu skuldsetningu sem þetta þrotabú Sjálfstæðisflokksins skilur eftir sig. 

Sjá greinina í heild á http://www.smugan.is/pistlar/adsendar-greinar/nr/1488.


Baráttudagur kvenna

Í dag er alþjóðlegur baráttudagur kvenna.  Ég óska öllum konum hjartanlega til hamingju með daginn sem er helgaður baráttunni fyrir kvenfrelsi og kynjajöfnuði.

Það er sérlega vel við hæfi að einmitt í nótt, voru kynnt úrslit í forvali Vinstri grænna í Reykjavík vegna Alþingiskosninganna í vor.  Tvær öflugar konur, þær Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra og Svandís Svavarsdóttir borgarfulltrúi, hlutu afgerandi kosningu og munu leiða hvor sinn listann í Reykjavík.

Þeim og öllum öðrum konum óska ég til hamingju og vonandi mun hlutur kvenna aukast í komandi þingkosningum svo raunverulegu jafnrétti verði náð.


Þakka góðan stuðning

Forvali Vinstri grænna í Reykjavík er lokið.  Það eru sterkir framboðslistar sem koma út úr forvalinu, Katrín Jakobsdóttir varaformaður VG og menntamálaráðherra og Svandís Svavarsdóttir borgarfulltrúi fá yfirburða kosningu í 1. sæti á sitt hvorum Reykjavíkurlistanum.  Þær eru glæsilegir fulltrúar og forystukonur sem við vinstri græn erum stolt af.

Í forvalinu stefndi ég að 2. sæti á öðrum hvorum listanum.  Það gekk eftir og er ég þakklátur öllum þeim sem lögðu mér lið.  Lilja Mósesdóttir hagfræðingur fékk örugga kosninga í hitt 2. sætið og kemur sterk til leiks í stjórnmálum.  Álfheiður Ingadóttir alþingismaður og Kolbrún Halldórsdóttir umhverfisráðherra skipa sæti 3 á listunum tveimur.  Þessi sæti verða baráttusætin hjá okkur vinstri grænum í Reykjavík og það er sannarlega traustvekjandi að þessar öflugu stjórnmálakonur skipi þau.

Í sætum 4 og 5 eru annars vegar tvær ungar konur sem hafa starfað ötullega fyrir ungliðahreyfingu Vinstri grænna, þær Auður Lilja Erlingsdóttir og Steinunn Þóra Árnadóttir og hins vegar tveir nýliðar í hreyfingunni, Ari Matthíasson og Davíð Stefánsson.

Með góðri blöndu af fólki sem hefur víðtæka reynslu af stjórnmálastörfum og hinum sem koma nýir til leiks mun VG mæta í kosningabaráttuna með öfluga sveit sem er reiðubúin að vinna landi og þjóð af öllu afli.  Ég býð Lilju, Ara og Davíð velkomin til liðs við Vinstri græn og óska okkur öllum hjartanlega til hamingju með góða útkomu og sterka framboðslista.


Friðlýsing Íslands á dagskrá

Á fundi Alþingis föstudaginn 6. mars er á dagskrá tillaga mín og 10 annarra þingmanna úr öllum flokkum nema Sjálfstæðisflokki um friðlýsingu Íslands og bann við umferð kjarnorkuknúinna faratækja.  Þetta mál hefur margoft verið flutt áður en nú er það loksins komið á dagskrá Alþingis.

Skemmst er að minnas atburðar sunnar í Atlantshafi nú nýverið þegar tveir kjarnorkukafbátar, breskur og franskur, rákust saman.  Ekki þarf að spyrja að leikslokum ef geislavirk efni hefðu lekið út úr bátunum.  Fyrir okkur Íslendinga, sem erum svo háðir sjávarauðlindunum, yrði það einfaldlega hræðilegt slys með skelfilegum afleiðingum ef kjarnorkuknúin farartæki á ferð um íslenskt yfirráðasvæði yrði fyrir óhappi.

Þess vegna eru það brýnir hagsmunir okkar að landið verði friðlýst og umferð kjarnorkuknúinna farartækja um íslenska loft- og landhelgi og efnahagslögsögu verði bönnuð og leitað verði alþjóðlegrar viðurkenningar á slíkri friðlýsingu.  Fyrir liggur að þingmenn úr 4 af 5 þingflokkum standa að málinu og nú þegar Sjálfstæðisflokkurinn er ekki lengur í aðstöðu til að stöðva þau mál sem honum hugnast ekki í krafti stjórnarsetu sinnar, eygjum við von um að Alþingi taki nú af skarið og samþykki þetta mikla hagmunamál okkar. 

Frumvarpið má lesa hér.


Stefnum hiklaust á rauðgræna ríkisstjórn

Það hefur ekki verið venja í íslenskum stjórnmálum að flokkar gangi bundnir til kosninga.  "Við göngum óbundin til kosninga" er viðkvæði sem er alþekkt úr stjórnmálaumræðunni hér á landi.  Nú eru aðstæður í samfélaginu hins vegar þær að það er skynsamlegt að horfa á þessi mál öðrum augum en hingað til.

Ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingar er að vísu minnihlutastjórn.  Slíkar stjórnir eru algengar á hinum Norðurlöndunum.  Þar er það líka almenna reglan að flokkar lýsa því fyrir kosningar hvernig stjórn þeir vilja mynda í kjölfarið.  Núverandi ríkisstjórn er líka myndið við óvenjulegar aðstæður.  Hún hefur farið vel af stað og engum dylst að henni hefur tekist að skapa sátt og ró og myndun hennar var mikilvægt skref til að endurheimta traust milli þings og þjóðar.  Stjórnin nýtur stuðnings Framsóknarflokksins en margir þar á bæ vilja gjarnan líta til samstarfs við núverandi stjórnarflokka að kosningum loknum, þótt skoðanir þar séu ugglaust eitthvað skiptar.

Að mínu mati eiga stjórnarflokkarnir hiklaust að stefna að áframhaldandi stjórnarsamstarfi.  Hin rauðgræna ríkisstjórn nýtur almenns velvilja og stuðnings í skoðanakönnunum og engum dylst að þjóðin hefur meiri trú á störfum hennar en fráfarandi stjórnar, þótt sú stjórn hafi stuðst við 2/3 meirihluta þingmanna en núverandi stjórn sé minnihlutastjórn.  Það er góð samstaða og traust milli stjórnarflokkanna, bæði almennra þingmanna sem og forystumanna stjórnarinnar.  Ríkisstjórnin hefur unnið hörðum höndum að því að koma heimilum og atvinnulífi til aðstoðar eftir efnahagshrunið sem reið yfir landið eftir 18 ára samfellda stjórnarsetu Sjálfstæðisflokksins.  Þeim flokki þarf að gefa langt frí frá ríkisstjórnarborðinu.  Það tekst aðeins ef núverandi stjórnarflokkar fá aukið og styrkt umboð frá þjóðinni.  Besta leiðin er að flokkarnir segi kjósendum það skýrt fyrirfram að þeir stefni hiklaust að rauðgrænni ríkisstjórn að loknum kosningum 25. apríl.  Þá vita kjósendur hvaða kosti þeir eiga.


"Sturlaður" á sál og sinni

Sturla Böðvarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrum forseti Alþingis, skrifar grein í Fréttablaðið í dag og ræðst harkalega að núverandi ríkisstjórn. Sérstaklega finnur hann henni það til foráttu að hún hafi skipt um Seðlabankastjóra, og ekki síst að nýr maður í því starfi um stundarsakir sé Norðmaður.

En það er líka annað í grein Sturlu sem vekur sérstaka athygli.  Í grein sinni veitist hann með afar ósmekklegum hætti að Vinstrihreyfingunni - grænu framboði og skrifar m.a.:

Á mínum langa ferli í stjórnmálum hef ég ekki áður orðið vitni að öðrum eins vinnubrögðum og þeim sem Jóhanna og Steingrímur J. viðhafa á öllum sviðum. Og það er vert að minnast þess og rifja upp að þau komust til valda í skjóli ofbeldisfullra aðgerða gegn Alþingi. Aðgerða sem ráðherra Vinstri grænna hefur hreykt sér af að hafa staðið að baki og margir telja að hafi verið skipulagðar í skjóli Vinstri grænna bæði innan þingsins og utan. Það geta ekki verið vinnubrögð sem við viljum innleiða á Íslandi.

Er engu líkara en að fyrrum þingforseti sé að gefa í skyn að minnihlutastjórn Samfylkingar og Vinstri grænna hafi hrifsað til sín völdin með ofbeldi og jafnvel á ólögmætan hátt.  Hugarfarið sem ræður þessu skrifum Sturlu ber þess merki að þar fer maður sem getur ekki sætt sig við að hann og flokkur hans sé ekki lengur við völd á Íslandi.  Maður sem er heltekinn af þeirri bábylju að Sjálfstæðisflokkurinn einn sé réttborinn til valda.

Sturla Böðvarsson er bersýnilega úr öllum tengslum við þjóðina og má segja að það sé eins gott að maður sem ber ekkert skynbragð á vilja þjóðarinnar sé ekki forseti Alþingis.  Hann getur ekki fellt sig við að það hafi verið þjóðin sjálf, með kröftugum mótmælum sínum, hafi komið Sjálfstæðisflokknum úr ríkisstjórn.  Hann virðist algerlega samviskulaus yfir því að hann og flokkur hans hafi komið Íslandi í þrot með óstjórn sinni.  Enda hefur hvorki hann né formaður Sjálfstæðisflokksins, beðið þjóðina afsökunar á afdrifaríkum mistökum sínum við landsstjórnina.  Sturla Böðvarsson er, svo ekki verður um villst, illa haldinn á sál og sinni yfir því að Sjálfstæðisflokkurinn hafi misst völdin, en lætur sér um leið í léttu rúmi liggja þær efnahagslegu og félagslegu hörmungar sem flokkur hans hefur leitt yfir þjóðina.  Í stað þess kastar hann óhróðri í aðra flokka sem hann beinlínis sakar um ólýðræðisleg vinnubrögð. 

Sturla Böðvarsson á að skammast sín og biðjast afsökunar á skrifum sínum.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband