4.3.2009 | 13:55
Sameiginleg ákvörðun um trúfélag barns
Hér er frétt á visir.is um fyrirspurn mína til dómsmálaráðherra um afstöðu til þess að forsjáraðilar taki sameiginlega ákvörðun um skráningu barns í trúfélag þegar og ef þeir kjósa að fara þá leið.
Fyrirspurnin er lögð fram í framhaldi af áliti lögfræðings Jafnréttisstofu sem telur að það fari í bága við jafnréttislögin að barn sé sjálfkrafa skráð í trúfélag móður eins og nú tíðkast.
1.3.2009 | 21:49
Athyglisverð þróun
Þessi könnun um andstöðu við ESB-aðild er athyglisverð, ekki síst í ljósi umræðunnar sem varð í kjölfar bankahrunsins um að eina bjargræði okkar væri aðild að Evrópusambandinu. Nú er þjóðin bersýnilega annarrar skoðunar og ef mér skjöplast ekki er það þriðja könnunin í röð sem sýnir þessa stöðu.
Nú geta vindar snúist býsna skjótt í þessu efni, en ef til vill eru þetta skilaboð þjóðarinnar til stjórnmálaflokkanna um að þeir þurfi að einbeita sér að öðrum og þýðingarmeiri málum í komandi kosningabaráttu. Alþingiskosningarnar snúast um afkomu heimila og fjölskyldna nú og á næstu mánuðum. Baráttan við atvinnuleysið og yfirvofandi gjaldþrot, grunnstoðir velferðarkerfisins, réttláta tekjuskiptingu í þjóðfélaginu og lýðræðislega og opna stjórnarhætti. Allt eru þetta brýn úrlausnarefni sem við verðum að takast á við á heimavelli. Núverandi ríkisstjórn hefur þegar hafist handa við að greiða úr þeim málum sem áralangt sinnuleysi Sjálfstæðisflokksins og gjaldþrota stefna hans skilur eftir. Það er úrslitaatriði fyrir framtíð þjóðarinnar að haldið verði áfram á þeirri braut sem ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingar hefur rutt. Við munum aðeins komast út úr erfiðleikunum ef við byggjum upp og endurreisum samfélagið á grundvelli félagshyggju, jöfnuðar og kynjajafnréttis, réttlætis ogsjálfbærrar þróunar.
Meirihluti andvígur ESB-umsókn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
1.3.2009 | 17:35
Víst brást stefnan
Það er bersýnilega einn þáttur í tilraun Sjálfstæðisflokksins til að ná fyrri stöðu sinni að telja þjóðinni trú um að stefna flokksins hafi ekki brugðist, heldur hafi fólk brugðist. Þetta er kattarþvottur.
Einkavæðing bankanna, hömlulaus græðgi, skattalækkun til hálaunahópa og fjármagnseigenda og margt fleira í þeim dúr, var stefna Sjálfstæðisflokksins. Ef það er trú forystumanna flokksins að sú stefna hafi ekki brugðist, hllýtur að vera rökrétt að álykta að flokkurinn hyggist halda þessari stefnu sinni áfram. Ætlar Sjálfstæðisflokkurinn að endurreisa íslenskt samfélag með sömu stefnuna og keyrði samfélagið í þrot?
Sjálfstæðisflokkurinn á greinilega langt í land með að átta sig á því hvað olli hruninu. Við þurfum ekki meira af þessari sömu stefnu. Við þurfum nú alveg nýjar áherslur og ný gildi jöfnuðar, réttlætis og lýðræðislegra stjórnarhátta. Núverandi ríkisstjórn tekur við þrotabúi frjálshyggjunnar og það er vissulega ekki létt verk að koma samfélaginu á rétta braut og byggja upp það sem brotið var niður. En það er hægt. Til þess þarf bjartsýna og vinnusama stjórn sem starfar í þágu almennings í landinu og hafnar sérgæsku og vildarpólitík í þágu útvalinna.
Vinstri græn munu leggja sitt af mörkum til að það takist. Þjóðin stendur frammi fyrir óvenju skýru vali í kosningunum 25. apríl. Átján ár Sjálfstæðisflokksins við stjórnvölinn hafa reynst okkur dýrkeypt, nú er kominn tími til róttækra breytinga og endurreisnar í anda félagshyggju. Látum það tækifæri ekki ganga okkur úr greipum.
Stefna brást ekki, heldur fólk | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
1.3.2009 | 10:20
OPIÐ HÚS HJÁ VINSTRI GRÆNUM Í DAG
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.2.2009 | 09:36
Svein Harald - nýr Seðlabankastjóri
Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra hefur sett nýjan Seðlabankastjóra til bráðabirgða. Fyrir valinu varð Svein Harald Øygard hagfræðingur.
Svein Harald lauk prófi í þjóðhagfræði frá Háskólanum í Osló og vorum við samtíða við nám í hagfræðideildinni þar. Þar var einnig Jens Stoltenberg núverandi forsætisráðherra Noregs og þeir Svein Harald urðu nánir samstarfsmenn í ríkisstjórn Verkamannaflokksins undir forystu Gro Harlem Brundland árið 1990 þegar Stoltenberg varð aðstoðarumhverfisráðherra og Nygard varð aðstoðarfjármálaráðherra.
Øygard hefur mikla og víðtæka reynslu af efnahags- og peningamálum, bæði í stjórnkerfinu í Noregi og eins sem sjálfstæður ráðgjafi víða um heim. Valið á Svein Harald er tvímælalaust mjög traust.
Nýr seðlabankastjóri settur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
27.2.2009 | 08:59
Aukið lýðræði í stjórnarskrá
Auðlindir í þjóðareign
Mikið hefur verið rætt um að þjóðareign á náttúruauðlindum þyrfti að vera stjórnarskrárbundin. Umhverfis- og auðlindamál hafa jafnt og þétt fengið aukið vægi í þjóðfélagsumræðu, einnig í lagalegu tilliti. Alþjóðlegar skuldbindingar á þessum sviðum gera ennfremur ríkari kröfur til okkar en áður var og því sjálfsagt að festa ákvæði um þau í stjórnarskrá. Þannig þarf að ákveða að óheimilt verði að láta náttúruauðlindir í þjóðareign varanlega af hendi og að nýting auðlinda byggist á grundvelli sjálfbærrar þróunar. Það er líka sjálfsagt að tryggja rétt almennings til upplýsinga á sviði umhverfismála og réttinn til að hafa áhrif á ákvarðanir sem varða umhverfið.
Þjóðaratkvæðagreiðslur
Við Íslendingar höfum ekki mikla reynslu af þjóðaratkvæðagreiðslum. Sums staðar í kringum okkur hafa þær öðlast fastan sess og eru órjúfanlegur þáttur í lýðræðissamfélagi. Besta dæmið um það er í Sviss. Þá eru til dæmi um að minnihluti þjóðþings geti krafist þjóðaratkvæðis um tiltekin mál, t.d. umdeilda lagasetningu. Slík ákvæði gæti orðið fyrsta skrefið í þá átt að draga úr ægivaldi framkvæmdavaldsins. Staða þingsins myndi hiklaust styrkjast og við myndum feta okkur inn á braut aukins beins lýðræðis. Annað ákvæði sem þarf að binda í stjórnarskrá og snýr að því að skilja betur að framkvæmdavald og löggjafarvald lýtur að meðferð utanríkismála en þau er lítið fjallað í gildandi stjórnarskrá. Umræða um þetta varð þó töluverð þegar tveir ráðherrar ákváðu án nokkurs samráðs að lýsa yfir stuðningi Íslands við ólögmæta innrás Bandaríkjanna í Írak. Stjórnarskráin þarf að taka af allan vafa um að slíkt ráðslag endurtaki sig aldrei.
Stjórnlagaþing
Fjölmargir hafa að undanförnu reist kröfuna um að sérstakt stjórnlagaþing verði kosið til að annast heildarendurskoðun á stjórnarskránni, kosningalögum o.fl. Til að undirbúa slíkt þing er nauðsynlegt að móta því ákveðinn ramma í stjórnarskrá en á þeim grundvelli yrðu síðan sett lög um stjórnlagaþing sem fælu í sér nánari útlistun á verkefnum þess og starfsfyrirkomulagi. Mörgum spurningum er vissulega ósvarað um stjórnlagaþingið, s.s. um stærð þess og verkefni, en aðalatriðið á þessu stigi er að mínu mati að koma skýrum ákvæðum um það inn í stjórnarskrána.
Endurspeglum þjóðarviljann
Breytingar á stjórnarskránni í þá veru sem ég nefni hér eru mikilvægar og þurfa að ná fram að ganga fyrir vorið. Stjórnarskrárbreytingu þarf að samþykkja á tveimur þingum með kosningum á milli og til að þær öðlist gildi þarf því fyrst að samþykkja þær á yfirstandandi þingi og síðan að nýju á fyrsta þingi eftir kosningar. Þessu fyrirkomulagi ætti að vísu hiklaust að breyta, og verður e.t.v. gert, en það hefur ekki áhrif á gildandi aðferðarfræði við að breyta stjórnarskránni. Aukið lýðræði, skarpari skil milli framkvæmdavalds og löggjafarvalds, þjóðaatkvæðagreiðslur og sameign þjóðarinnar á náttúruauðlindum eru allt mál sem rík krafa er um í samfélaginu. Spurningin er hvaða stjórnmálaflokkar vilja endurspegla vilja þjóðarinnar í verki.
(Greinin birtist í Morgunblaðinu 27. febrúar 2009)
26.2.2009 | 23:18
Forval Vinstri grænna í Reykjavík - 7. mars
ÁRNI ÞÓR SIGURÐSSON
2. SÆTI
Árni Þór Sigurðsson er alþingismaður og skipaði 2. sæti í Reykjavíkurkjördæmi norður í þingkosningunum 2007. Árni Þór er fæddur í Reykjavík 30. júlí 1960, er kvæntur Sigurbjörgu Þorsteinsdóttur ónæmisfræðingi og börn þeirra eru þrjú: Sigurður Kári, Arnbjörg Soffía og Ragnar Auðun.
Árni Þór lauk prófi í hagfræði og rússnesku frá Oslóarháskóla og stundaði framhaldsnám í Stokkhólmi og Moskvu. Árni var fréttamaður hjá RÚV og Þjóðviljanum og starfaði í samgönguráðuneytinu og hjá Kennarasambandinu. Hann var borgarfulltrúi í Reykjavík 1994-2007. Í borgarstjórn vann hann m.a. að leikskólamálum, umhverfis- og samgöngumálum og skipulags- og hafnarmálum og var forseti borgarstjórnar. Hann sat í stjórn Sambands sveitarfélaga og var fulltrúi þess á Evrópuráðsþinginu í Strasbourg 2003-2007. Á Alþingi hefur Árni Þór einkum beitt sér í umhverfismálum, samgöngu- og sveitarstjórnarmálum og málefnum heimila og atvinnulífs. Hann er nú formaður utanríkismálanefndar. Árni Þór er félagi í Heimssýn, Samtökum hernaðarandstæðinga og Amnesty International.
Meginverkefni á komandi misserum verður að reisa íslenskt samfélag úr rústum nýfrjálshyggjunnar og skjóta undir það nýjum lýðræðisstoðum. Ennfremur þarf að endurheimta traust milli þjóðarinnar og stjórnmálanna, sem og orðstír Íslands. Árni Þór telur brýnt að tryggja fjárhagslegt öryggi heimila og atvinnulífs og treysta undirstöður velferðar og menntunar. Hann vill sérstaklega beita sér fyrir kjarajöfnun, kynjajafnrétti og lýðræðislegum stjórnarháttum. Forsenda þess að það takist að skapa nýtt og betra samfélag sem standi traustum fótum er að endurmótunin byggi á stefnu Vinstri grænna um samstöðu, jöfnuð og félagslegt réttlæti, kvenfrelsi og umhverfisvernd.
(Úr frambjóðendabæklingi VG í Reykjavík vegna forvalsins 7. mars: http://www.vg.is/media/kosningar/2009/forvalsbaekl_RVK_net.pdf)
24.2.2009 | 09:26
Eftirlaunalögin verði afnumin
Á Alþingi er nú til umfjöllunar frumvarp ríkisstjórnarinnar um að afnema hin umdeildu eftirlaunalög, sem tryggja ráðherrum, þingmönnum og hæstaréttardómurum sérstök vildareftirlaun. Það eru Vinstri græn og Samfylkingin sem leggja málið fram.
Óþarft er að rekja þær miklu deilur sem urðu um ný eftirlaunalög sem samþykkt voru árið 2003. Þegar fyrrverandi ríkisstjórn, undir forystu Sjálfstæðisflokksins, gerði breytingar á lögunum nú í desember, voru þeim hópum sem lögin ná til áfram tryggð ákveðin sérkjör, einkum á það við um ráðherra og hæstaréttardómara en síður um almenna þingmenn. Engu að síður á að taka skrefið til fulls og samræma lífeyrisréttindi þingmanna, ráðherra og dómara við það sem almennt gerist hjá starfsmönnum ríkisins.
Frumvarpið sem nú liggur fyrir gerir ráð fyrir að gildandi sérlög verði afnumin og reglur Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins gildi að öllu leyti um ráðherra, þingmenn og hæstaréttardómara. Verði það samþykkt munu engin sérkjör verða í gildi fyrir þessa hópa. Þar sem ríkisstjórnin er minnihlutastjórn er ekki vitað fyrirfram um stuðning annarra flokka við málið en fróðlegt verður að fylgjast með afstöðu þeirra við endanlega afgreiðslu þess.
18.2.2009 | 21:31
Friðlýsing fyrir kjarnorkuvopnum
Atvikið í Atlantshafi nýverið, þegar tveir stórir kjarnorkukafbátar rákust saman, hlýtur að vekja okkur öll til umhugsunar um hætturnar sem okkur stafa af skipurm og flugvélum sem bera kjarnorkuvopn.
Í allmörg ár, hafa þingmenn úr mörgum flokkum lagt til að Alþingi samþykkti lög um friðlýsingu Íslands fyrir kjarnorkuvopnum og bann við umferð kjarnorkuknúinna farartækja. Slíkt frumvarp liggur einnig fyrir núverandi Alþingi. Fullt tilefni er til að taka það til efnislegrar umræðu og láta reyna á stuðning við málið á þingi.
Kjarnorkukafbátar rákust saman | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 1.3.2009 kl. 21:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
17.2.2009 | 21:46
Varnarmálastofnun óþörf
Á þessum nefnda fundi um málefni Norðurslóða fjallaði ég um þessi mál undir heitinu "Norræn samvinna - nýtt upphaf." Þar kom ég m.a. inn á Varnarmálastofnunina og sagði þar m.a.:
Það er rétt að undirstrika strax að um loftrýmisgæsluna almennt var pólitískur ágreiningur og hann er enn til staðar. Vel kann að vera að í hugum ýmissa sé geðþekkara að Norðurlöndin taki að sér þessa loftrýmisgæslu fremur en ýmis önnur ríki, og skemmst er að minnast að að ekki þótti heppilegt að Bretar kæmu hingað á aðventunni í kjölfar hryðjuverkalaganna sem þeir beittu okkur. En grundvallaratriði í þessu efni er samt hvort gæsla af þessum toga hefur yfirleitt einhvern tilgang. Mín afstaða í því efni hefur ekki breyst. Ég tel að það séu engar haldbærar forsendur fyrir loftrýmisgæslunni og þær byggja sannarlega ekki á sjálfstæðu íslensku hagsmunamati, enda liggur slíkt ekki fyrir. Ég tel að það hafi verið beinlínis rangt að taka ákvörðun um þær æfingar á sínum tíma og bíða ekki eftir þeirri vinnu sem var sett af stað af hálfu stjórnvalda til að meta áhættu og greina þörf okkar fyrir starfsemi af þessum toga. Sú vinna mun þó vonandi fljótlega líta dagsins ljós. Í meginatriðum er ég þeirrar skoðunar að það eftirlit með loftrými sem við teljum nauðsynlegt eigi að vera í höndum stofnana eins og Flugmálastjórnar og Landhelgisgæslu og stofnun Varnarmálastofnunar hafi verið óþörf. Þá ákvörðun á hiklaust að endurmeta. Efnahagshrunið og þrotið kallar á mikinn niðurskurð og það er fráleitt annað en að varnarmálin verði hluti af því dæmi og raunar miklu fremur en margir aðrir málaflokkar.
Varnarmálastofnun leifar af liðnum tíma | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |