Loksins næst réttlæti

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra hefur lagt fram á Alþingi stjórnarfrumvarp um afnám sérstakra eftirlaunalaga fyrir ráðherra, þingmenn, hæstaréttardómara og forseta Íslands.  Frumvarpið er að efni til í samræmi við tillögur okkar Vinstri grænna í vetur þegar eldri eftirlaunalögum var breytt lítillega. 

Verði frumvarpið samþykkt á Alþingi má segja að loksins náist réttlæti í þessum eftirlaunamálum, sem hafa um árabil verið í mesta ólestri.  Þá munu þeir aðilar sem hér um ræðir hafa nákvæmlega sömu réttindi og skyldur í lífeyrismálum og opinberir starfsmenn.  Ég hef enga trú á öðru en að meirihluti Alþingis sé sama sinnis og núverandi ríkisstjórn og frumvarpið verði samþykkt.


mbl.is Vilja afnema eftirlaunalög
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tek þátt í forvali Vinstri grænna

Forvalsyfirlýsing

 

Ég undirritaður hef ákveðið að gefa kost á mér í forvali Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs í Reykjavík, sem fram fer þann 7. mars nk.  Ég hef setið á þingi síðan 2007 en þá skipaði ég annað sætið í Reykjavíkurkjördæmi norður.  Ég mun sækjast eftir því að skipa áfram 2. sætið í öðru hvoru Reykjavíkur­kjördæmanna.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð hefur nú tekið að sér brýnt og vandasamt verkefni á miklum tímamótum í íslensku samfélagi.  Þátttaka hreyfingarinnar í ríkisstjórn skiptir sköpum við endurmótun samfélagsins á nýjum grunni, samstöðu, jöfnuðar og réttlætis.  Það er sannfæring mín að reynsla af fjölþættum störfum í stjórnmálum og félagsstarfi undanfarin ár geti nýst vel í því endurreisnarstarfi sem framundan er. Þess vegna sækist ég eftir að sinna áfram trúnaðarstörfum fyrir Vinstrihreyfinguna - grænt framboð.

Ég er kvæntur Sigurbjörgu Þorsteinsdóttur, ónæmisfræðingi og við eigum þrjú börn: Sigurð Kára, Arnbjörgu Soffíu og Ragnar Auðun.

Ég á sæti í fjórum nefndum Alþingis: utanríkismálanefnd (formaður), efnahags- og skattanefnd (varaformaður), samgöngunefnd (varaformaður) og allsherjarnefnd.  Nánari persónulegar upplýsingar má nálgast á vef Alþingis: http://www.althingi.is.

Bloggsíða: www.arnith.blog.is.  

Reykjavík, 16. febrúar 2009

Árni Þór Sigurðsson

alþingismaður 


Sjálfstæðisflokkurinn passar sitt

Sjálfstæðisflokkurinn ætlar bersýnilega að þvælast eins og hann mögulega getur fyrir því að unnt verði að endurheimta traust á Seðlabankanum.  Meðan þúsundir landsmanna hafa misst atvinnu sína vegna efnahagsmistaka Sjálfstæðisflokksins hefur hann mestar áhyggjur af atvinnuöryggi örfárra, ekki síst þess sem leiddi nýfrjálshyggjuna og einkavinavæðingu bankanna yfir þjóðina með skelfilegum afleiðingum.  Stórmannlegt!
mbl.is Gagnrýna afgreiðslu meirihluta viðskiptanefndar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ný verkefni

Við ríkisstjórnarskiptin var kosið í allar fastanefndir Alþingis á nýjan leik.  Nú í hádeginu var ég kjörinn formaður utanríkismálanefndar Alþingis. 

Ég hlakka til að fá að starfa að utanríkismálunum og mun áreiðanlega njóta góðs af því að í nefndinni eru margir reyndir þingmenn og raunar 5 fyrrverandi ráðherrar einnig.  Þórunn Sveinbjarnardóttir fyrrv. umhverfisráðherra var kjörin varaformaður.

Á fundinum lýsti ég þeim ásetningi mínum að starfa vel með öllum nefndarmönnum og að ég myndi leggja mig fram um að unnt væri að ná sem víðtækastri samstöðu á vettvangi nefndarinnar um þau mál sem hún mun fá til umfjöllunar.


Ný ríkisstjórn - ný von

Það eru sannarlega miklir umbrotatímar í íslensku samfélagi um þessar mundir.  Hrunið efnahags- og fjármálakerfi og hraðvaxandi atvinnuleysi kippa stoðum undan lífsafkomu fjölmargra fjölskyldna í landinu.  Staða þjóðarbúsins er ein sú alvarlegasta sem við höfum þurft að takast á við sem fullvalda þjóð.  Og það er skiljanlegt að það brjótist út reiði og vonleysi í brjóstum þúsunda og tugþúsunda Íslendinga sem hafa mótmælt dáðleysi stjórnvalda.  Reiði yfir því ranglæti að tiltölulega fámennur hópur fólks hafi getað valsað um og skuldbundið þjóðina að henni fornspurðri, reiði út í stjórnvöld sem brugðust þeirri frumskyldu sinni að tryggja öryggi og afkomu þjóðarinnar. 

Við þurfum að rýna inn í okkar eigið sjálf og spyrja okkur fjölmargra grundvallarspurninga.  Hvar brást okkur bogalistin?  Í nýjársprédikun sinni gerði Biskup Íslands græðgina og hrokann að umtalsefni og sagði að öllu virtist vikið til hliðar nema nauðsynjum fjármagnsins, fátt virtist álitið heilagt nema rétturinn að græða.  Þessi hugsunarháttur gegnsýrði því miður svo ótalmarga þætti í samfélaginu.  Það er hárrétt sem hæstv. viðskiptaráðherra sagði í sjónvarpsviðtali nýlega að hugmyndafræðin sem eftirlitsstofnanir okkar störfuðu samkvæmt var í grundvallaratriðum röng.  Eftirlitsaðilar sem áttu að starfa í þágu almennings í landinu, voru í vitlausu liði. 

Hin fyrirhyggjulausa einkavæðing, þar sem samfélagslegar eigur voru teknar traustataki og látnar lúta taumlausum lögmálum samkeppnis- og markaðshyggju, hefur leikið okkur grátt.  Í nafni frjálshyggjunnar voru miklar skuldbindingar kyrfilega reyrðar á bak almennings í landinu.  En ábyrgðin á óráðsíunni og drambinu – hún var ekki einkavædd.  Hana berum við sameiginlega og undan henni verður ekki vikist. 

Sjálfstæðisflokkurinn hefur farið með forystu í landsstjórninni undanfarin 18 ár.  Hugmyndafræðin sem stefna hans byggir á skilur heimilin og atvinnulífið í landinu eftir í miklum kröggum.  Stoðir þeirrar stefnu, sem svo mjög hefur verið mærð og talin ábyrg efnahagsstjórn, reyndust fúnar og feysknar.  Nú þegar Sjálfstæðisflokkinn hefur þrotið örendið við stjórnvölinn, þarf að tryggja að uppbygging samfélagsins helgist af öðrum gildum og annarri lífssýn. 

Kosningar til Alþingis fara fram innan fárra vikna.  Ríkisstjórnin hefur því ekki langan tíma til að hrinda í framkvæmd þeim fjölþættu ráðstöfunum sem eru svo brýnar til að koma atvinnulífinu í gang á nýjan leik og forða heimilum og fjölskyldum frá efnahagslegri ánauð.  Vitaskuld verðum við að vera raunsæ og horfast í augu við þá erfiðleika sem við blasa og að það verður ekki allt gert á vikunum fram til kosninga.   

En við skulum samt vera bjartsýn.  Það býr mikil elja í íslenskri þjóð og við eigum dýrmætt land sem okkur þykir öllum vænt um.  Við erum rík að auðlindum til sjós og lands, og ekki síst er mikill auður í náttúrunni sem slíkri og fólkinu sjálfu. Vinstri græn hafa á undanförnum mánuðum og misserum talað fyrir breyttri stjórnarstefnu og bent á hætturnar sem fólust í gegndarlausri neyslu sem mestmegnis var tekin að láni, og þeirri ofþenslu sem efnahagslífið var keyrt í undir gunnfána græðgisvæðingar frjálshyggjunnar.  Ný ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs mun nú einhenda sér í það verk að reisa landið úr pólitískum rústum frjálshyggjunnar.  Við vitum að það er ekki létt verk og engar töfralausnir eru til.  En með samhentu átaki og með þjóðina að baki okkur, erum við sannfærð um að það mun takast að reisa Ísland við.  Að endurheimta traust og trúnað inná við og út á við. 

Góðir Íslendingar.Vonina og bjartsýnina eigum við saman.  Við viljum geta sagt stolt við börnin okkar og barnabörn: þetta samfélag höfum við mótað, sjálfbært samfélag réttlætis, jöfnuðar og samvinnu.  Þeirri ábyrgð og því trausti skulum við ekki bregðast.

Góðar stundir.

(Ræða í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra 4. feb. 2009)

Sunnudagur til sigurs!

Í gær, sunnudag, á 105 ára afmæli íslenskrar heimastjórnar, tók við völdum ný ríkisstjórn á Íslandi.  Stjórn Samfylkingar og Vinstri grænna undir forsæti Jóhönnu Sigurðardóttur.  Það eru mörg tímamót sem tengjast myndun þessarar ríkisstjórnar og hún er söguleg fyrir margra hluta sakir.

Í fyrsta skipti er kona skipuð forsætisráðherra hér á landi.  Ríkisstjórnin er skipuð jafn mörgum konum og körlum en það hefur ekki áður gerst hér.  Vinstrihreyfingin - grænt framboð sest nú í ríkisstjórn í fyrsta skipti en flokkurinn fagnar 10 ára afmæli sínu um næstu helgi.

Með myndun þessarar ríkisstjórnar fer Sjálfstæðisflokkurinn frá völdum, sest í stjórnarandstöðu í fyrsta sinn í 18 ár.  Nærfellt tveggja áratuga stjórnarsetu hans og nýfrjálshyggjunnar er lokið.  Það mátti sannarlega ekki dragast eitt augnablik, eftir að sú stefna hafði kollsiglt íslenskt efnahagslíf.  Það segir sína sögu að aðeins 1 af 25 þingmönnum Sjálfstæðisflokksins hefur setið í stjórnarandstöðu, en það er Geir Haarde.  Nú er einfaldlega kominn tími til að önnur gildi og grundvallarsjónarmið ráði för við stjórn þjóðmálanna.  Hvort sem litið er til efnahags- og atvinnulífsins, lýðræðis og stjórnskipunar, velferðar- eða menntamála eða hvaða annarra þátta þjóðlífsins.

Stjórnarflokkarnir ásamt Framsóknarflokknum leggja til að kosið verði til Alþingis 25. apríl nk.  Stjórnin hefur því ekki langan tíma til að sýna hvers hún er megnug.  Vissulega eru miklar væntingar til nýrrar ríkisstjórnar og það er vel, en um leið verðum við að vera raunsæ og gera okkur grein fyrir að á um 80 dögum verða ekki nein kraftaverk unnin.  Þjóðin biður heldur ekki um það.  En það sem þjóðin þarf á að halda er trúnaður og traust milli hennar og stjórnvalda.  Það verður því ekki lítill hluti af starfi ríkisstjórnarinnar að endurvekja það traust sem fyrri stjórn var með öllu rúin.  Þá skiptir mestu máli að verkin tali.

Brýnar aðgerðir í þágu heimila og atvinnulífs í landinu munu fljótlega líta dagsins ljós.  Endurskipulagning stjórnkerfis, ekki síst banka- og eftirlitsmála, ný stjórn í Seðlabanka og Fjármálaeftirlit, endurskoðun stjórnarskrár og ný löggjöf um stjórnlagaþing skipta hér veigamiklu máli.  Ekki síður áform stjórnarinnar um samtal við þjóðina, reglubundna upplýsingagjöf og heiðarleg og hreinskiptin samskipti.  Þjóðin verður að vita undanbragðalaust hver staða þjóðarbúsins er.

Nýrri ríkisstjórn fylgja bestu heillaóskir - hún boðar vonandi upphaf nýrra tíma í íslensku samfélagi og vekur von um að okkur takist í sameiningu að vinna okkur út úr þeirri erfiði stöðu sem við höfum ratað í.


Hvers vegna sögðu Norðmenn NEI?

Frændur okkar Norðmenn hafa tvívegis efnt til þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild að Evrópusambandinu, ESB, (áður Evrópubandalaginu), árin 1972 og 1992. Raunar má rekja samskiptasögu Norðmanna við bandalagið aftur til upphafs sjöunda áratugar en þá var talsverð umræða í Noregi um aðild, en aldrei var þó látið á hana reyna þá, líklega vegna andstöðu innan bandalagsins sjálfs, þótt pólitískar aðstæður í Noregi hafi líka haft sitt að segja.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð stóð fyrir málþingi um Ísland og Evrópu þann 10. janúar sl. Var þar margt ágætra erinda og umræða góð og málefnaleg. Frá Noregi kom Dag Seierstad, landsþekktur baráttumaður gegn aðild Noregs að ESB og forystumaður í SV (Sosialistisk Venstreparti), flokks Kristinar Halvorsen fjármálaráðherra Noregs. Eftir Dag liggur fjöldi greina, bóka og bæklinga, einkum um Evrópumálefni (sumt af því má nálgast á hér eða hér.

Í erindi sínu fjallaði Dag Seierstad um umræðuna í Noregi um ESB-aðild og helstu ástæður þess að Noregur hefur tvívegis hafnað aðild, enda þótt meirihlutinn í stjórnmálalífi, atvinnulífi og fjölmiðlum hafi stutt aðild (það er reyndar sama mynstur og við höfum séð í öðrum löndum þar sem fram hafa farið þjóðaratkvæðagreiðslum um einstök málefni ESB, t.d á Írlandi, í Danmörku, Frakklandi og Hollandi).

Það er fróðlegt fyrir okkur að skoða hvaða rök hafa vegið þyngst í Noregi. Ekki vegna þess að aðstæður séu að öllu leyti sambærilegar eða að við Íslendingar metum málin á nákvæmlega sama hátt og Norðmenn. Miklu fremur vegna þess að við eigum þrátt fyrir allt margt sameiginlegt, atvinnulíf hér og í Noregi er miklu sambærilegra heldur en innan Evrópusambandsins að jafnaði, bæði löndin eru aðilar að samningnum um Evrópska Efnahagssvæðið og hafa þannig sömu stöðu gagnvart ESB, bæði löndin liggja í útjaðri Evrópu og hafa langa strandlengju og eru þannig langtum háðari sjávarútvegi en nokkurt land innan ESB (reyndar má segja að þar sé himinn og haf á milli og ESB er afar háð viðskiptum við þessi tvö lönd með sjávarafurðir). Af þessum og fleiri ástæðum er gagnlegt að skoða reynslu Norðmanna. Helstu ástæður þess að segja nei við aðild að ESB eru m.a. að mati Dags Seierstad:


Ég rek þessi atriði úr erindi Dags Seierstad hér vegna þess að mörg þeirra eiga vel við um aðstæður hér á Íslandi. Ekki öll og sum misvel, en engu að síður er margt sem við eigum sameiginlegt með Norðmönnum hvað varðar sambandið við ESB. Hagstjórnarrökin, rökin um málefni sjávarútvegs og landbúnaðar og byggðamál eiga vel við, og svo að sjálfsögðu allt sem sagt er um lýðræði og sjálfstæða rödd í alþjóðasamfélaginu.  

Í Noregi fór fram ítarleg umræða um ESB-málin, bæði í kringum atkvæðagreiðsluna 1972 og eins 1992. Þar var ekki hrapað að ákvörðun heldur stóð umræðan og upplýsingaöflun í mörg ár og síðan aðildarviðræður sem skiluðu Norðmönnum einungis 3ja ára aðlögunartíma hvað varðaði sjávarútveginn. Það reyndist þeim óaðgengilegt og eitthvað í þá veru væri okkur enn frekar óaðgengilegt.

Það er mikilvægt að við Íslendingar förum ekki fram úr sjálfum okkur í þessu máli. Við búum að skelfilegri reynslu af því að hafa hlaupið of hratt í kapphlaupinu um að græða mest og eiga mest. Við skulum því anda rólega og takast á við þau viðfangsefni sem eru hvað brýnust nú um stundir. Hitt hleypur ekki frá okkur ef svo skyldi fara að þjóðin vilji að Ísland gerist aðili að Evrópusambandinu. Og hún á sjálf að taka þá ákvörðun.

 

(Þessi grein birtist á www.mbl.is 21. janúar 2009).


Hitnar í kolum

Eldur við Alþingishúsið í kvöld

Mótmælin gegn ríkisstjórninni sem fram fóru á Austurvelli í dag og kvöld eru söguleg.  Það eru áratugir síðan stjórnvöldum hér á landi hefur verið mótmælt af ámóta þunga og aldrei jafn ítrekað og gerst hefur nú undanfarnar vikur og mánuði.  Og tilefnið er ærið.  Hér situr vanhæf ríkisstjórn sem hefur komið íslensku þjóðarbúi í þrot.

Andstaðan við ríkisstjórnina fer stigvaxandi og það er þverskurður af samfélaginu sem mætir á Austurvöll reglulega og lætur í sér heyra.  En ráðamenn skella því miður skollaeyrum við og virðast lifa í fullkominni afneitun.  Telja sjálfum sér trú um að mótmælendur séu fámennur hópur stjórnleysingja, sem vinstrimenn skipuleggi.  Þegar svo er komið fyrir forystu ríkisstjórnarinnar er hún algerlega sambandslaus við þjóð sína - hún er hrædd.

Stemningin fyrir framan Alþingishúsið nú í kvöld var einstök.  Fólk á öllum aldri, foreldrar með börn, ömmur og afar, allt pólitíska litrófið (eða svo gott sem).  Krafan var skýr: ríkisstjórnin er vanhæf, hún verður að fara frá og boða til kosninga.  Mælirinn er fullur, ríkisstjórnin misbýður þjóðinni gersamlega.  Einn þingmaður úr stjórnarliðinu sagði við mig á þingi í dag að viðkomandi væri fullkomnlega misboðið yfir framgöngu okkar Vinstri grænna á Alþingi þegar við vöktum máls á ráðleysi ríkisstjórnarinnar og kröfðumst umræðu um raunverulegar aðgerðir.  Vissulega var málflutningur okkar hvass og hávaðasamur á köflum, en væri ekki nær fyrir þingmenn stjórnarflokkanna að hlusta á þjóðina?  Eða tala þeir ekki lengur sama tungumál og þjóðin?  Skilja þeir ekki hvernig fólki er innanbrjósts og að fjöldi fólks er á barmi örvæntingar vegna ástandsins?

Dagar ríkisstjórnarinnar eru taldir.  Spurningin er hvenær það rennur upp fyrir forsætisráðherra og hann mannar sig í að segja af sér.  Sú stund nálgast dag frá degi, því fyrr því betra.  Við þurfum nýja ríkisstjórn sem fer í að endurmóta og byggja upp íslenskt samfélag á grundvelli félagshyggju og jöfnuðar og með það að leiðarljósi að forðast óbærilega skuldbindingar núverandi og komandi kynslóða.  Sjálfstæðisflokkurinn á ekki erindi í þann leiðangur.


En ekki áfram sömu ríkisstjórn

Krafan um breytingar Skúli snýst ekki um að núverandi ríkisstjórn haldi áfram með einhverri málamynda lýtaaðgerð.  Hún snýst um kosningar og nýja ríkisstjórn.  Hvenær skyldi Samfylkingin átta sig á því?  Hún er satt að segja að verða býsna samábyrg Sjálfstæðisflokknum - ábyrg fyrir efnahagshruninu.
mbl.is Skúli Helgason: Krafa um breytingar á rétt á sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kannski nóg að halda einn fund - og pakka svo saman!

Flokksþing Framsóknarflokksins samþykkir að hefja eigi aðildarviðræður við Evrópusambandið.  Hins vegar setur flokkurinn fram skilyrði fyrir aðildarviðræðum.  Þau skilyrðu eru þess eðlis að það þarf varla að halda nema einn fund með Brussel-liðum, því sendinefndin verður áreiðanlega send heim með fyrsta flugi.  Aðalspurningin er hvort Framsókn meinar eitthvað með skilyrðunum:

... tryggi hagsmuni almennings og atvinnulífs og þá sérstaklega sjávarútvegs og landbúnaðar. Þá sé fullveldi og óskorað forræði Íslendinga yfir auðlindum þjóðarinnar grundvallarkrafa í þeim viðræðum.

... að staðfest verði að Íslendingar einir hafi veiðirétt innan íslenskrar fiskveiðilögsögu og að fiskveiðistjórnun verði áfram innanríkismál Íslendinga, enda styðjist hún við reglur ESB um stöðug hlutföll, nálægðarreglu og Lúxemborgarsamkomulagið. Þá verði Ísland sjálfstæður aðili að samningum um flökkustofna.

... einnig verði fæðuöryggi þjóðarinnar tryggt og viðurkennd nauðsyn á sérstökum ákvæðum vegna fámennis þjóðarinnar. Viðurkennt verði að íslenskur landbúnaður sé heimskautalandbúnaður. Þá verði framleiðsla og úrvinnsla íslenskra landbúnaðarafurða tryggð ásamt sérstöðu og hreinleika íslenskra landbúnaðarstofna.


mbl.is Framsókn vill sækja um ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband