Hroki og hleypidómar

Lúðvík Bergvinsson, formaður þingflokks Samfylkingarinnar, skrifar grein í Morgunblaðið í dag.  Þar gerir hann tilraun til að verja ríkisstjórnina og sannfæra sjálfan sig og aðra um að það sé allt í besta lagi að hún sitji sem fastast.

Það er skondið að jafnvel þótt þingmaðurinn viðurkenni að kerfið hafi hrunið og að stjórnvöld hafi brugðist, finnst honum engin ástæða til að ríkisstjórnin axli ábyrgð á ástandinu.  Um leið og hann segir að krafan um kosningar sé ekki ósanngjörn, má hann ekki til þess hugsa að kosið verði nú fljótlega (nema náttúrulega ef Sjálfstæðisflokkurinn tekur ekki upp stefnu Samfylkingarinnar í Evrópumálum!).  Hann segir það hlutverk stjórnvalda (þeirra sömu og brugðust hlutverki sínu og skyldum) að sannfæra almenning um að hann hafi rangt fyrir sér þegar hann krefst kosninga!  Það hvarflar ekki að þingmönnum stjórnarflokkanna að ÞEIR hafi rangt fyrir sér og þjóðin rétt.  Að það sé einmitt mikilvægt að stjórnvöld stigi til hliðar og boði til kosninga svo þjóðin geti sjálf ákveðið hverjum hún treystir til að leiða endurmótun samfélagsins.  Nei, þeir vilja bara fá frið fyrir kvabbinu í þjóðinni.

Þvílíkur hroki og hleypidómar í garð þjóðarinnar.  Og svo vogar þingmaðurinn sér að segja að enginn þingmeirihluti en sá sem núverandi ríkisstjórn styðst við sé líklegri til að koma í gegn mikilvægum og nauðsynlegum breytingum!  Sami meirihluti og kollkeyrði íslenskt samfélag og kann ekki einu sinni að skammast sín.  Sami Sjálfstæðisflokkur og hefur rekið harða nýfrjálshyggjustefnu undanfarin 18 ár og sem ber höfuðábyrgð á því hvernig komið er, á að stýra uppbyggingarstarfinu í boði Samfylkingarinnar.  Áfram á sérgæskan og gróðahyggjan að ráða för, einkavæðing í velferðarþjónustu, spillingin í stjórnkerfinu, þmt. í bankageiranum (Seðlabanki, Fjármálaeftirlit o.fl.). 

Samfylkingin átti sér etv. viðreisnar von fram undir lok síðasta árs, enda var hún ekki jafn þvæld í stjórnleysi undanfarinna ára eins og Sjálfstæðisflokkurinn.  Nú er hins vegar hætt við að það fari að halla undan fæti í þeim herbúðum eftir því sem flokkurinn sekkur dýpra í ábyrgðarfenið og límir sig fastar að Sjálfstæðisflokknum.  Skyldi manninum líða vel?


Ríkishryðjuverk og stríðsglæpir

Frá því fyrir áramót hefur Ísraelsher beitt stórvirkum vígtólum sínum á palestínska þjóð og nú liggja um 1000 manns í valnum.  Meira en 95% þeirra eru Palestínumenn, fallnir ísraelskir hermenn nokkrir tugir.  Um helmingur fallinna eru konur og börn.  Dæmi eru um að Ísraelsmenn hafi þvingað palestínska borgara inn í hús til þess eins að varpa síðan á þau sprengjum.

Ísraelsríki brýtur alþjóðalög og samninga, meðal annars um mannréttindi.  Þar má nefna Genfarsáttmálann um vernd óbreyttra borgara.  Ísraelsríki virðir ekki samþykktir Sameinuðu þjóðanna og virðist gera það með stuðningi Bandaríkjastjórnar.  Ísraelsher hefur gerst sekur um að varpa sprengjum á starfsstöðvar hjálparstofnana Sameinuðu þjóðanna á Gaza svo þeim er gert ómögulegt að sinna mannúðar- og hjálparstörfum.  Atburðirnir á Gaza eru ekkert annað en hryðjuverk af hálfu ríkisstjórnar Ísraels, stríðsglæpir, og þetta er hvergi nærri í fyrsta skipti sem Ísraelsher gerir sig sekan um svona framferði. Ísraelsher beitir ólögmætum vopnum, gerir óbreytta borgara að skotmörkum, lætur sprengjum rigna á starfsstöðvar hjálparstofnana, skerðir fjölmiðlafrelsi, kemur í veg fyrir að fólk geti flúið átakasvæðið og svo framvegis.  Hér á ekki við lögmálið um auga fyrir auga heldur miklu fremur auga fyrir augnhár svo vitnað sé í Ísraelsmanninn Avi Shlaim. Og alþjóðasamfélagið lætur þetta viðgangast. 

Greinin er lengri og hefur þegar birst í heild á vefsvæði Smugunnar: http://www.smugan.is/pistlar/adsendar-greinar/nr/605


Ríkisstjórn á flótta

Það vekur athygli að í morgun safnaðist hópur fólks fyrir framan Alþingishúsið til að mótmæla ríkisstjórninni þegar hún kom saman til reglubundins ríkisstjórnarfundar.  Hvers vegna ekki í Ráðherrabústaðnum í Tjarnargötu eða í stjórnarráðshúsinu við Lækjartorg?

Á Íslandi gildir þrískipting ríkisvaldsins.  Löggjafarvald, framkvæmdavald og dómsvald.  Ráðherrar í ríkisstjórninni eiga að vísu yfirleitt sæti á Alþingi (með örfáum undantekningum) og þeir víka ekki sæti þar þótt þeir setjist í ríkisstjórn (eins og t.d. í Noregi).  En ráðherrar hafa til þessa fyrst og fremst komið í Alþingishúsið til að mæla fyrir þingmálum og taka þátt í almennum þingstörfum og þingflokksstörfum.  En nú ber nýrra við.

Alþingishúsið er allt í einu orðin fundarstaður ríkisstjórnarinnar fyrir hefðbundna fundi hennar (m.a.s. meðan þing starfar ekki).  Eins konar griðastaður ríkisstjórnar sem er orðin leið á að mæta ávallt mótmælum þegar hún kemur saman.  Þess vegna tók hún upp á því að funda í skjólinu í Alþingishúsinu, í fundarherbergi forsætisnefndar Alþingis, og átti von á að fá þá meiri frið, hún kæmist alltént klakklaust á fundarstað. 

En ríkisstjórnin verður að átta sig á því að það skiptir engu máli hvar hún fundar.  Hún er jafnóvinsæl og jafn trausti rúin.  Hún verður væntanlega leituð uppi hvar sem hún fundar, jafnvel þótt hún fari á fjöll, því það er rík þörf hjá þjóðinni til að koma á framfæri mótmælum við störfum hennar og kröfunni um að hún fari frá og boðað verði til kosninga.  Ríkisstjórn sem er komin á þvílíkan flótta frá þjóð sinni, gerði best í því að flýja líka ráðherrastólana og skila umboði sínu til þjóðarinnar.  Það verður hennar að veita nýju Alþingi og nýrri ríkisstjórn umboð til að byggja hið "Nýja Ísland".


Var fjölmiðlum líka hótað?

Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir, stjórnsýslufræðingur, sem var einn frummælenda á almennum borgarafundi í Háskólabíói í gærkvöldi, greindi svo frá í upphafi máls síns:  einn ráðherra ríkisstjórnarinnar hafði samband við hana fyrir fundinn og ráðlagði henni að tala varlega á fundinum, sjálfrar sín og starfsframa síns vegna!

Sem sagt: ráðherrann hafði í hótunum við Sigurbjörgu, ef hún talaði ekki varlega gæti hún haft verra af.  Þótt Sigurbjörg hefði ekki nafngreint ráðherrann kom glöggt fram í erindi hennar að um var að ræða heilbrigðisráðherra, Guðlaug Þór Þórðarson.  Ráðherrann misbeitti augljóslega valdi sínu og umboði og þess á að krefjast að hann geri grein fyrir afskiptum sínum og stjórnarathöfnum í þessu máli.

Nú bregður svo við að fjölmiðlar, sem þó hafa sagt af fundinum, greina ekki frá þessum tíðindum.  Eina undantekningin frá því er að vefritið smugan.is er með frétt um málið.  Eyjan vísar síðan í þá frétt.  Aðrir miðlar virðast mér hafa þagað þunnu hljóði.  Hvernig stendur á því?  Er ekki komið nóg af meðvirkni þeirra með spillingar- og eyðileggingaröflunum í þjóðfélaginu?  Var þeim kannski líka hótað rétt eins og Sigurbjörgu?

Er nema von að spurt sé!

 

Viðbót kl. 12.40.

Í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins var fjallað um málið og greint frá ofangreindum orðum dr. Sigurbjargar.  Jafnframt var skýrt frá því að hún hefði ekki viljað tjá sig frekar um málið en með þeim hætti sem hún gerði á fundinum.  Þá var haft eftir Guðlaugi Þór Þórðarsyni heilbrigðisráðherra að hann kannaðist ekki við að vera umræddur ráðherra, hann hefði ekki talað við "þessa manneskju" eins og hann komst að orði, um langt skeið.  Sé það rétt, er enn spurningin, hver er ráðherrann ungi sem varaði dr. Sigurbjörgu við og sagði hana að tala varlega?  Enn er spurt.

Eftir kvöldfréttir

Og nú kom yfirlýsing frá Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, formanni Samfylkingarinnar, að hún væri ráðherrann sem hefði sent Sigurbjörgu skilaboðin um að tala varlega.  Fátt kemur manni nú orðið á óvart!


Og þetta vill Þorgerður Katrín ekki fordæma!

Fréttir hafa borist af því að hjálparstofnanir hafi hætt starfsemi á Gaza vegna sífelldra árása Ísraelsmanna á svæðið, þar sé enginn vegur lengur að aðstoða særða og sjúka.  Ísraelsmenn eru sakaðir um brot á alþjóðalögum og ljóst er að þeir hafa hertekið land og virða að vettugi samþykktir Sameinuðu þjóðanna.  Fjöldamorðum þeirra á blásaklausu fólki linnir ekki og verst eru örlög barna og ungmenna.  Þennan stríðsrekstur og ólögmætu aðgerðir Ísraela vill Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir varaformaður Sjálfstæðisflokksins ekki fordæma.  Hvað vakir eiginlega fyrir henni og öðrum þeim sem eru sömu skoðunar?
mbl.is Ísraelsmenn sakaðir um brot á alþjóðalögum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjálfstæðisflokkur á hröðum flótta

Sjálfstæðisflokkurinn heldur landsfund sinn í lok janúarmánaðar.  Forysta flokksins ákvað að flýta landsfundinum til að ræða stefnuna í Evrópumálunum.  Fundurinn verður haldinn undir hótunum formanns samstarfsflokksins í ríkisstjórn, Samfylkingarinnar, um að stjónarsamstarfinu sé sjálfhætt ef Sjálfstæðisflokkurinn breytir ekki um stefnu og tekur stefnuna með Samfylkingunni inn í Evrópusambandið.

Eitt er að Sjálfstæðisflokkurinn skuli láta aðra flokka ráða því hvenær hann heldur landsfund og um hvað á að ræða.  Það er í sjálfu sér aumkunarvert.  Hitt er svo annað að það getur vel hafa hentað forystu Sjálfstæðisflokksins að flýta landsfundi og láta hann snúast um Evrópumálin í þeim tilgangi að breiða yfir hneykslið sem er efnahagshrunið og skuldabyrðarnar sem íslensk þjóð stendur nú frammi fyrir.

Hugmyndafræði nýfrjálshyggjunar, sem í ríkum mæli hefur verið leiðarljós ríkisstjórna Sjálfstæðisflokksins allt frá 1991, hefur beðið skipbrot.  En Sjálfstæðisflokkurinn og forysta hans forðast að ræða þá staðreynd.  Ólíklegt er að landsfundurinn muni gera upp við þá stefnu sína, sem þó væri gustuk.  (Úr þessum herbúðum eru menn amk. vanir að krefjast uppgjörs við hrun eða fall pólitískrar hugmyndafræði, einkum ef það á við aðra en þá sjálfa!).

Nei, Sjálfstæðisflokkurinn neitar að horfast í augu við ábyrgð sína á hruninu í efnahags- og atvinnulífi þjóðarinnar.  Hann neitar að axla ábyrgð, á stóru og smáu, og allir gæðingarnir sem og léttadrengirnir sitja sem fastast í sínum stólum.  Á meðan er slóðin hulin, slóð mistaka og afglapa.  Og þá er gott að geta ornað sér við umræðu um Evrópumál, sem öll mun snúast um að þóknast samstarfsflokknum svo þeir geti vermt valdastólana enn lengur, í óþökk þjóðarinnar.  Sérsveit Sjálfstæðisflokksins í Evrópumálum þeysist um landið til að leita einhvers konar málamiðlunar og á meðan verður ekki rætt um neyðarástandið sem flokkurinn ber ábyrgð á.  Það heitir að vera í miðjum skafli við að moka!  Það snjóar og snjóar á ríkisstjórnarheimilinu þótt hvarvetna um landið sjái almenningur auða jörð - og sviðna - eftir hátt í tveggja áratuga stjórnarsetu Sjálfstæðisflokksins, sem íslenskir jafnaðarmenn hafa verið svo hupplegir að framlengja.  Einnig það í óþökk þjóðarinnar.

Væri ekki nær að flokkurinn sem kennir sig við sjálfstæði, og fékk í síðustu alþingiskosningum flest atkvæði, gerði upp við fallít hugmyndafræði og léti öðrum eftir landsstjórnina?  Öðrum sem eru reiðubúnir að moka flórinn eftir nýfrjálshyggjuna og byggja upp samfélag á nýjum og breyttum grunni, grunni velferðar, réttlætis, jöfnuðar og lýðræðis.  Það held ég nú.


Lagfæring

Smáhnökrar hafa verið á bloggsíðu minni síðustu tvo sólarhringa eða svo, þannig hefur ekki verið unnt að senda mér athugasemdir eða skilaboð en það ætti nú að vera komið í lag.

Norskur þingmaður vill að Simon Peres skili friðarverðlaununum

Friðarverðlaun Nóbels er líklega sú viðurkenning í friðarmálum sem nýtur hvað mestrar virðingar.  Símon Peres, núverandi forseti Ísraels, hlaut þau árið 1994 ásamt Yasser Arafat og Yitzak Rabin.  Nú hefur Peres horfið frá boðskap friðar og ver fjöldamorðin á Gaza.  Þetta hefur orðið norskum þingmanni Verkamannaflokksins, Espen Johnsen, tilefni til að krefjast þess að Peres skili verðlaununum.  Um þetta er fjallað í Aftenposten (sem vel að merkja er hægrisinnað dagblað):

Sjá hér.


"Við vöðum í dauða, blóði og limlestingum"

Fjöldamorð Ísraela á Gaza halda áfram af auknum þunga.  Lýsingar sjónarvotta eru skelfilegar og vekja hvarvetna viðbjóð og fordæmingu.  Allir sanngjarnir menn, burtséð frá afstöðu þeirra til deilunnar að öðru leyti, hljóta að sjá að framferði stjórnar Ísraels er ófyrirgefanlegt og hlýtur að kalla á hörð viðbrögð heimsbyggðarinnar.  Norska dagblaðið Aftenposten birtir nú síðdegis lýsingar frá norskum lækni, Mads Gilbert.  Óhætt er að kalla sms-skilaboð hans NEYÐARÓP.  Þar segir:

De bombet det sentrale grønnsaksmarkedet i Gaza by for to timer siden. 80 skadde, 20 drepte, alt kom hit til Shifa. Hades! Vi vasser i død, blod og amputater. Masse barn. Gravid kvinne. Jeg har aldri opplevd noe så fryktelig. Nå hører vi tanks. Fortell videre, rop det videre. Alt. GJØR NOE! GJØR MER! Vi lever i historieboka nå!

Sjá nánar á www.aftenposten.no

 


Hryðjuverkin á Gaza

Það verða kosningar í Ísrael í byrjun febrúar.  Stjórnarflokkarnir óttast að þeir missi völdin.  Þeir grípa til gamalkunnugra aðferða aðþrengdra stjórnarherra: að fara í stríð til að þjóðin eignist sameiginlegan óvin, annan en stjórnvöld sjálf.  Fórnarlömbin eru almenninr palestínskir borgarar, börn og aldraðir, konur og karlar.  Ráðamenn í Ísrael skirrast einskis, líf almennra borgara eru einskis metin, völd þeirra sjálfra eru jú í húfi.

Þetta er því miður ekkert einsdæmi.  Átökin fyrir botni Miðjarðarhafs hafa staðið um margra áratuga skeið, einstaka vopnahléstímabil inn á milli, en í meginatriðum hafa þessi átök staðið áratugum saman.  Og fátt sem bendir til að alþjóðasamfélaginu takist að hlutast til um frið á svæðinu.  Ástæðan er fyrst og fremst blindur stuðningur Bandaríkjanna við hryðjuverk Ísraels og fjöldamorð þeirra á saklausum palestínskum borgurum.  Lengi vel andstaða þeirra við sjálfstætt palestínskt ríki.  Og enn á ný lýsir Bush Bandaríkjaforseti yfir skýlausum stuðningi við Ísrael og ódæðisverk þeirra, enda er hann löngu orðinn þekktur af því að fótum troða mannréttindi.  Í því skjóli stunda stjórnvöld í Ísrael hernaðaraðgerðir sínar, aðgerðir sem eru ekkert annað en hryðjuverk.  Með stuðningi Bandaríkjanna og annarra sem fylgja Bandaríkjastjórn í blindni í alþjóðamálum.

Varaformaður Sjálfstæðisflokksins kemur í útvarpsviðtal í dag og segir ekki unnt að fordæma Ísrael.  Það gera þó stjórnvöld vítt og breitt um heiminn, m.a. afdráttarlaus fordæming af hálfu ríkisstjórna Noregs og Svíþjóðar.  Og utanríkisráðherra Íslands sendir tilkynningu beint inn í sama fréttatíma, bersýnilega í tilefni af hreint ótrúlegu viðtali við menntamálaráðherra, um að hún fordæmi framferði Ísraela á Gaza.  Og tekur þar með undir með formanni VG, Steingrími J. Sigfússyni.  Nema hvað!

Staðan á Gaza er skelfileg.  Stjórnvöld um allan heim fordæma aðgerðir Ísraela en þó eiga þeir hauka í horni þar sem er m.a. Bandaríkjastjórn (og að því er virðist Sjálfstæðisflokkurinn á Íslandi).  Þessir aðilar styðja beint eða óbeint fjöldamorðin á palestínsku þjóðinni.  Þeim verður að linna og alþjóðasamfélagið getur ekki lengur setið hjá og látið mótmæli í orði duga ein.  Nú þarf að bregðast við með miklu meira afgerandi hætti.  Það verður að beita ísraelsk stjórnvöld þrýstingu sem þau skilja og finna fyrir.  Efnahags- og viðskiptaþvinganir eru nærtækar og einnig að slíta pólitísk tengsl.  Slíkar aðgerðir urðu ásamt öðru á sínum tíma til að fella aðskilnaðarstjórnina í Suður-Afríku.  Nú verða aðgerðir að fylgja orðum.

Utanríkismálanefnd Alþingis fundar um málið á morgun, mánudag.  Þaðan þurfa að koma skýr skilaboð, ég er sannfærður um að það er meirihluti fyrir því á Alþingi að fordæma aðgerðir Ísraelsstjórnar og beita hörku í samskiptum við hana.  Ef ekki vill betur, verður að skilja Sjálfstæðisflokkinn eftir í þjónkun sinni við ríkisstjórnir Bandaríkjanna og Ísraels.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband