2.1.2009 | 11:21
Er of flókið að kjósa?
Margir hafa lýst þeirri skoðun, í umræðunni um Evrópumálin, að eðlilegt sé að viðhafa tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu. Með því er átt við að áður en stjórnvöld taka stefnumótandi ákvörðun um að fara í aðildarviðræður við Evrópusambandið, eigi þau að leita eftir umboði frá þjóðinni til þess, burtséð frá niðurstöðum viðræðnanna. Nái stjórnvöld síðan samningi við ESB um aðild, yrði slíkur samningur að sjálfsögðu einnig borinn undir þjóðaratkvæði. Geir Haarde formaður Sjálfstæðisflokksins bættist um áramótin óvænt í hóp þeirra sem vilja tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu.
Þessi afstaða fer mjög fyrir brjóstið á Samfylkingarfólki, og yfirleitt þeim sem eru mjög áfram um aðild Íslands að Evrópusambandinu. Varaformaður Samfylkingarinnar segir í Fréttablaðinu m.a. um þessa hugmynd: "Mér finnst miklu skynsamlegra að við förum ekki í þjóðaratkvæði fyrr en við höfum einhvern samning til að kjósa um þannig að staðreyndirnar séu á hreinu. Annars er hætta á að umræðan fyrir kosningarnar verði öfgafull snúist um óraunhæfar væntingar og svartsýnishjal." Þessi sjónarmið hef ég heyrt frá fleirum úr forystu Samfylkingarinnar. T.d. sagði Skúli Helgason framkvæmdastjóri flokksins, þegar við ræddum málin í sjónvarpinu í þætti Björn Inga "Markaðurinn", að við misstum of mikinn tíma með tvöfaldri þjóðaratkvæðagreiðslu.
Það er athyglisvert að bera þessa afstöðu saman við kosningastefnuskrá Samfylkingarinnar. Þar segir m.a.: "Í lifandi lýðræði felst að almenningur eigi þátt í töku ákvarðana með virkum hætti. Vinnubrögð og viðhorf þeirra sem starfa í umboði þjóðarinnar þurfa að endurspegla virðingu fyrir lýðræðislegum gildum. Stjórnvaldsathafnir eiga að vera gagnsæjar, studdar málefnalegum rökum og lúta lýðræðislegu eftirliti. Þróa þarf leiðir og setja skýrar reglur um hvernig almenningur getur haft bein áhrif á ákvarðanir sem varða nánasta umhverfi. Samfylkingin vill: Setja ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur í stjórnarskrá og setja ákvæði lög um framkvæmd atkvæðagreiðslna meðal almennings til að tryggja jafnræði og lýðræðislega umgjörð. " Samkvæmt þessu vill Samfylkingin innleiða atkvæðagreiðslur um mikilsverð mál í ríkari mæli en við Íslendingar höfum nýtt okkur til þessa. En þó ekki um Evrópumálin!
Í mínum huga er holur hljómur í þessum málflutningi. Hugsunin með hinni fyrri atkvæðagreiðslu er einföld. Flestir stjórnmálaflokkar hafa hingað til gengið til kosninga með andstöðu við ESB-aðild í farteskinu og það er sú afstaða sem þjóðin hefur kosið út frá. Það má því halda því fram með sterkum rökum að stjórnmálamenn og -flokkar hafi ekki raunverulegt umboð frá þjóðinni til að fara af stað í ferli sem gæti endað með aðild að ESB. Vafalítið er hægt að halda því fram að Alþingi gæti tekið ákvörðun um að hefja viðræður, en er ekki betra í svo afdrifaríku máli að leita eftir beinu umboði frá þjóðinni? Höfum við ekki tíma fyrir beint lýðræði? Fyrri atkvæðagreiðslan myndi þannig í meginatriðum snúast um það hvort hugmyndafræðin á bak við Evrópusambandið sé eitthvað sem hugnast okkur. Stefna sambandsins í helstu samfélagsmálum, s.s. í auðlindamálum, lýðræðismálum, friðar- og mannréttindamálum, umhverfismálum, utanríkismálum, félags- og velferðarmálum o.s.frv. væri þá undir ef svo má segja, þannig fengist fram almenn afstaða þjóðarinnar til þess, hvort hún vill að Ísland gangi í Evrópusambandið. Verði svarið neikvætt liggur það þá fyrir og það þarf ekki að eyða tíma í viðræður við sambandið um aðild. Ef þjóðin svarar þessari spurningu játandi, myndu stjórnvöld þá fara í aðildarviðræður, með aðild allra stjórnmálaflokka, og niðurstaða slíkra viðræðna yrði síðan einnig borin undir þjóðina. Þá gæfist kostur á að taka endanlega afstöðu til aðildarskilmála, s.s. að því er varðar sjávarútveg, landbúnað o.fl.
Getur verið að það sé of flókið að kjósa? Getur verið að það sé of flókið að viðhafa beint lýðræði á mörgum stigum málsins? Af hverju óttast stuðningsmenn ESB-aðildar þjóðina? Frá mínum bæjardyrum er einmitt mikilvægt að stíga varlega til jarðar, að þjóðin sé ávallt beint og milliliðalaust með í ráðum, að þjóðin eigi ekki bara síðasta orðið eins og það er oft kallað, heldur taki sjálf ákvörðun um það hvort fyrsta skrefið verður stigið. Það er lýðræði.
15.12.2008 | 14:11
Þjóðin kjósi um ESB
Í hinni almennu umræðu um hugsanlega ESB-aðild Íslands hefur verið á það bent að þjóðin yrði sjálf að taka ákvörðun í því máli, og þar að auki yrði að breyta stjórnarskrá ef af aðild yrði. Um þessar forsendur er vafalítið breið samstaða óháð því hvaða skoðun menn kunna að hafa á aðild að Evrópusambandinu. Í þessu sambandi hafa komið fram sjónarmið um að fyrst verði að ákveða eins konar vegvísi, það er að segja aðferðafræði við að leita álits þjóðarinnar og einnig hefur þeirri skoðun verið haldið á lofti að kjósa eigi um aðild samhliða næstu þingkosningum sem ef til vill verða fyrr en síðar.
Í umræðum um skýrslu utanríkisráðherra um Evrópumál á Alþingi í janúar sl. lýsti ég þeirri skoðun minni að ef pólitískur vilji myndi skapast til að sækja um aðild að Evrópusambandinu ætti fyrst að spyrja þjóðina þeirrar grundvallarspurningar hvort hún væri fylgjandi eða andvíg aðild að ESB. Þá því aðeins að svarið við þeirri spurningu yrði jákvætt yrði síðan farið í viðræður og samningsniðurstaða þá einnig borin undir þjóðina í annað sinn. Mér er ljóst að um þetta atriði eru skiptar skoðanir í samfélaginu og vafalaust innan allra stjórnmálaflokka. Flokkarnir búa líka við mjög svo mismunandi hefðir en í VG er t.d. mjög lagt upp úr því að fara með grundvallarumræðu niður í svörðinn ef svo má segja, leita til grasrótarinnar og virkja hana í stefnumótun. Það hefur gefið góða raun og það væri því mjög í anda okkar vinstri grænna að viðhafa einmitt svona vinnubrögð. Fyrir þessu sjónarmiði eru einnig margvísleg mikilvæg rök sem lúta m.a. að lýðræðislegum vinnubrögðum og því að skapa sem minnsta togstreitu og klofning í þjóðfélaginu um þá leið sem farin verður. Við svo afdrifarík skref í sögu þjóðar er einnig mikilvægt að fyrir liggi ljós vilji hennar í upphafi en að stjórnvöld geti ekki stillt þjóðinni upp við vegg í lok ferlis sem er alls óvíst að þjóðin hafi viljað og raunar færi í bága við gildandi stjórnarskrá.
Það getur verið hollt að rifja upp í þessu efni að þjóðin hefur um áratugaskeið verið klofin í afstöðu sinni til utanríkismála. Ákvarðanir stjórnvalda á sínum tíma um aðild að NATO og um herverndarsamninginn við Bandaríkin ollu miklu uppnámi og skiptu þjóðinni í tvær fylkingar. Sumir tala nú um að breytt heimsmynd, brottför hersins og fall múrsins ætti að geta sameinað þjóðina á ný í utanríkismálum. Um það verður ekki rætt sérstaklega hér en á það bent að þjóðinni hefði áreiðanlega farnast betur í þessum efnum ef hún hefði verið spurð á sínum tíma um afstöðuna til NATO annars vegar og bandaríska herliðsins hins vegar. Það hefði orðið meiri sátt um niðurstöðu sem þjóðin hefði sjálf tekið á lýðræðislegan hátt, á hvorn veginn sem það hefði orðið. Hið sama á við um aðild eða ekki aðild að Evrópusambandinu. Þjóðin verður sjálf að taka þá ákvörðun hvort hún vill ganga inn í það bandalag eða ekki. Við Íslendingar stöndum á krossgötum. Ráðandi öfl í samfélaginu hafa komið þjóðarbúinu í þrot eða því sem næst. Fyrir liggur að þjóðin verður bundin þungum skuldaböggum til margra ára. Það þarf að hefja endurreisn samfélagsins og sú uppbygging þarf að byggja á bjargi en ekki sama sandinum og Sjálfstæðisflokkurinn byggir sína hugmyndafræði og hefur því miður ráðið för allt allt of lengi. Því miður eigum við sem þjóð ekki endilega jafn margra kosta völ nú og við hefðum átt ef ekki hefði komið til efnahagshrunsins. Þá kosti sem við samt eigum verður að skoða gaumgæfilega með framtíðarhagsmuni þjóðarinnar að leiðarljósi. Flokksráð VG ræddi nýlega um þetta mál. Þar samþykkti flokksráðið efnislega tillögu stjórnar flokksins að málsmeðferð, hvað Evrópumálin varðar. Hún gengur út á breiða og lýðræðislega nálgun og umræðu og að þjóðin kjósi um málið.
Þjóðaratkvæðagreiðslu af þessu tagi á ekki að blanda saman við almennar kosningar, hvorki til Alþingis eða sveitarstjórna. Þjóðaratkvæðagreiðsla um ESB-aðild á að snúast um það mál eingöngu. Það á að tryggja frjálsum félagasamtökum með og móti ESB-aðild jafna möguleika til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri og annast kynningu, ákveða til dæmis atkvæðagreiðsluna með hálfs til eins árs fyrirvara eða svo, og síðan tekur þjóðin sína ákvörðun. Það er sannfæring mín að þetta sé ein lýðræðislegasta aðferðin sem í boði er hvað þetta álitamál áhrærir og að bæði fylgjendur og andstæðingar Evrópusambandsaðildar eigi að geta sameinast um hana. Þannig ætti þjóðin ekki bara síðasta orðið, heldur tæki hún sjálf ákvörðun um það hvort fyrsta skrefið verður stigið eða ekki.
(Greinin birtist í Morgunblaðinu 15. des. 2008.)
2.12.2008 | 22:53
Valdhafarnir eru viti bornir - en það er þjóðin ekki!
Ótrúlegt er að fylgjast með valdhöfum þjóðarinnar, forvígismönnum ríkisstjórnarflokkanna, um þessar mundir. Þeir umgangast þjóðina eins og hún sé hver annar óþurftarlýður sem skilur ekkert hvað hann býr við góða og göfuga ríkisstjórn.
Formaður Sjálfstæðisflokksins kannast ekki við að bera nokkra ábyrgð á því ástandi sem við búum nú við. Hann hefur þó verið ráðherra síðan 1998 eða í 10 ár, lengst af sem fjármálaráðherra, síðan um stundarkorn utanríkisráðherra og svo nú sem forsætisráðherra síðan 2006. En hann ber enga ábyrgð! Hvernig geta menn verið svona fullkomnlega lausir við alla sjálfsgagnrýni? Formaður Samfylkingarinnar segir að fjöldinn sem mætir á borgarafund sé ekki þjóðin og segir síðan í tilefni af slöku gengi ríkisstjórnarinnar í skoðanakönnunum að þjóðin hafi bara ekki áttað sig á því hvað ríkisstjórnin sé að vinna góð verk! Valdhafarnir eru þeir sem vitið hafa, þjóðin veit ekki hvað hún hefur það gott að búa við ríkisstjórn Geirs og Ingibjargar. Því líkur hroki.
Ráðamönnum kemur ekki til hugar að þjóðin viti hvað hún vill, að hún viti hvað sé henni fyrir bestu! Ráðamönnum kemur ekki til hugar að þjóðin geti haft rétt fyrir sér, t.d. þegar hún krefst afsagnar stjórnarinnar, afsagnar Seðlabankastjóra og krefst þingkosninga. Nei, það kemur ráðamönnum ekki í hug. Þeir eru að moka skafl, en líklega eru þeir á góðri leið með að moka sjálfa sig inn í skaflinn og þar munu þeir sitja fastir og komast ekki spönn frá rassi. Fyrr en þjóðin hefur kastað þessari ríkisstjórn Geirs, Ingibjargar og Davíðs.
Ánægja með stjórnarandstöðu vex | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
27.11.2008 | 10:38
Friðþæging forsetans
Hinn nýkjörni forseti Alþýðusambandsins hefur áhyggjur af draumaríkisstjórn sinni. Hann skynjar óróleikann og friðþæging hans felst í því að skipta út tveimur ráðherrum.
En það má ekki fyrir nokkurn mun kjósa, þjóðin gæti nefnilega tekið það upp hjá sér að skipta um ríkisstjórn. Og það finnst forseta Alþýðubandsins, verkalýðsleiðtoganum, ekki gott. Skiptir þá engu þótt þúsundir Íslendinga, þ.á.m. félagsmenn í ASÍ, mótmæli ríkisstjórninni hástöfum og krefjist kosninga.
Hvernig væri að forsetinn hlustaði á landsmenn í stað þess aðð standa vörð um handónýta ríkisstjórn, ríkisstjórn sem ber ábyrgð á mistökum Seðlabankans, Fjármálaeftirlitsins og sjálfu hruni efnahagskerfisins á Íslandi. Hvar í veröldinni gæti slík ríkisstjórn setið áfram eins og ekkert hefði í skorist?
Ríkisstjórnin stokki upp | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
24.11.2008 | 23:35
Ríkisstjórnarflokkarnir taka ábyrgð á Davíð
Tillaga stjórnarandstöðuflokkanna um vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar var felld á Alþingi í dag. Það kom svo sem ekki á óvart að stjórnarliðið yrði allt dregið í sína dilka hvað sem líður yfirlýsingum einstaklinga innan þeirra herbúða um að það eigi að kjósa fyrr en síðar.
Það sem vekur auðvitað sérstaka athygli er að nú tóku báðir stjórnarflokkarnir af skarið um að þeir beri alla ábyrgð á ástandi efnahagsmálanna, þeir beri ábyrgð á bankahruninu og þeirri kreppu sem nú ríður yfir íslenskt samfélag. Og að þeir beri ábyrgð á Seðlabankanum og stjórnendum þar, og þeim mistökum sem Seðlabankinn hefur gert að undanförnu.
Bankastjórn Seðlabankans starfar í skjóli og umboði ríkisstjórnarinnar, þingrof og kosningar hefðu án efa leitt til myndunar nýrrar ríkisstjórnar sem hefði m.a. látið það verða sitt fyrsta verk að hreinsa út úr Seðlabankanum það sem þar þarf að hreinsa út. En nei, stjórnarflokkarnir báðir vilja heldur halda áfram á sömu vegferð og hingað til og vilja bersýnilega gerast klappstýrur Seðlabankastjóra. Þá vitum við það!
23.11.2008 | 18:48
Hver gætir íslenskra fanga í útlöndum?
Af og til koma fram í fjölmiðlum upplýsingar um Íslendinga sem sitja í fangelsum erlendis. Víða um lönd er aðbúnaður fanga skelfilegur. Burtséð frá því hvaða ástæður liggja að baki því að einstaklingar lenda í fangelsum er mikilvægt að berjast fyrir sómasamlegum aðbúnaði og réttlátri málsmeðferð. Það er grundvöllur réttarríkisins og lýðræðissamfélags.
Að gefnu tilefni hef ég lagt fram á Alþingi fyrirspurn til utanríkisráðherra um málefni íslenskra fanga erlendis. Fyrirspurnin er þannig:
1. Hversu margir Íslendingar eru í fangelsum erlendis? Svar óskast sundurliðað eftir löndum, lengd fangelsisdvalar og aldursbili fanga (yngri en 20 ára, 2029 ára, 3039 ára o.s.frv.).
2. Hver er aðbúnaður íslenskra fanga í erlendum fangelsum? Svar óskast sundurliðað eftir fangelsum.
3. Með hvaða hætti gæta íslensk stjórnvöld hagsmuna íslenskra fanga erlendis?
4. Vinna íslensk stjórnvöld að því að íslenskir fangar erlendis geti fengið að afplána dóma sína hér á landi? Liggja fyrir óskir um slíkt frá einstökum föngum?
Skriflegt svar óskast.
Vonast ég til að fá svar ráðherra innan 2ja vikna.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
22.11.2008 | 18:30
"Fólkið fyrst" segir Sólrun, og fólkið vill kosningar
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir formaður Samfylkingarinnar sagði á flokksstjórnarfundi nú í dag að fyrst kæmi fólkið, flokkurinn svo. Þess vegna getur hún ómögulega komist að þeirri niðurstöðu að það eigi ekki að kjósa fljótlega, því það er einmitt það sem fólkið vill. Hefur forysta Samfylkingarinnar ekki hlustað á raddir landsmanna?
Líklega er þó sá ásetningur forystunnar að ríghalda íhaldinu við völd, það sem kemur í veg fyrir kosningar nú. Það er sem sagt flokkurinn fyrst, fólkið svo. Meira að segja Sjálfstæðisflokkurinn fyrst!
Svo er býsnast út í Vinstri græn og Seðlabankann. Og kvartað yfir því að VG vilji ekki skitpa um stjórnendur í Seðlabankanum. Þetta er auðvitað mikill misskilningur. Vinstri græn vilja einmitt skipta um stjórnendur í Seðlabankanum, en líka í Fjármálaeftirliti, bönkunum sjálfum og í ríkisstjórninni. En það vilja stjórnarflokkarnir auðvitað ekki. Og það eru þeir sem hafa völdin og ráðin í hendi sér. Það eru Sjálfstæðisflokkur og Samfylkingin sem halda Davíð Oddssyni í vinnu sem Seðlabankastjóra.
Síðan eru það Evrópumálin. Aðild að ESB og upptaka evru er eina bjargræðið í huga margra í Samfylkingunni. Og lýst er eftir stefnu VG um leið og því er fagnað að Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur ætli hugsanlega að skoða málin. Stefna Vinstri grænna er skýr í tengslum við Evrópusambandið líkt og stefna Samfylkingar. En hefur það farið fram hjá forystu Samfylkingar að á vegum VG hefur allt þetta ár verið starfandi Evrópunefnd undir forystu varaformannsins, Katrínar Jakobsdóttur? Á þeim vettvangi er einmitt verið að skoða alla helstu þætti Evrópumálanna, þmt. gjaldmiðilsmálin. Og Vinstrihreyfingin - grænt framboð er flokkur sem talar fyrir auknu beinu lýðræði og það er því dagljóst í okkar huga að spurningin um tengsl Íslands við Evrópusambandið verður ráðin í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Ef formanni Samfylkingarinnar er raunverulega annt um hagsmuni þjóðarinnar þá myndi hún hlusta á boðskapinn sem ómar um allt land, á fundum og mannamótum: kosningar og nýja ríkisstjórn. Ábyrgð Sjálfstæðisflokksins á efnahagshruninu er öllum ljós, ábyrgð þeirra sem halda honum við völd eykst dag frá degi.
Áfallastjórnuninni lokið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
18.11.2008 | 23:04
Ekki bend'á mig!
Hvað er hvers og hvers er hvað og hvernig á að vita það?
Nú keppast ráðamenn og embættismenn við að benda hver á annan. Enginn vill axla ábyrgð á bankahruninu og efnahagskreppunni sem fylgdi í kjölfarið. Seðlabankinn bendir á bankana, Fjármálaeftirlitið og ríkisstjórnina. Fjármálaeftirlitið bendir á Seðlabankann, bankana og stjórnvöld. Ríkisstjórnin bendir á Seðlabankann og Fjármálaeftirlitið (þ.e.a.s. Samfylkingin bendir á Seðlabankann og Sjálfstæðisflokkur á Fjármálaeftirlitið - takið eftir að flokkarnir passa hvor upp á sitt lið!).
Farsinn er fullkominn. Einu afsagnirnar koma úr röðum Framsóknarflokksins. Og situr þó enn sem fastast bankamálaráðherra þess flokks sem einkavæddi bankana. Alls kyns glósur ganga á milli stjórnarflokkanna og einstakra ráðherra. Jafnvel iðnaðarráðherra segir að það sé "mikill ábyrgðarhluti" af ríkisstjórninni og forystu hennar að halda áfram störfum með óbreytta stjórn í Seðlabankanum. Þessi ráðherra hlýtur annað hvort að knýja fram brottrekstur Seðlabankastjóra, ella segja af sér sjálfur til að forðast að burðast með þessa miklu ábyrgð til langrar framtíðar.
Vitaskuld bera allir þeir aðilar sem að málum hafa komið mikla ábyrgð. Stjórnendur bankanna sjálfra, stofnanir eins og Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið og síðast en ekki síst ríkisstjórnin sjálf. Henni mátti vera ljóst hvert stefndi og hún bar ábyrgð á því að gripið yrði til nauðsynlegra ráðstafana til að forðast afleiðingar bankahruns. Það var ekki gert, a.m.k. ekki tímanlega. Þess vegna er mikilvægt að allir þessr aðilar axli ábyrgð. Bankarnir hafa verið ríkisvæddir og settar yfir þá nýjar stjórnir, hið sama þarf að gera við Seðlabankann og Fjármálaeftirlitið (e.t.v. með samruna þessara stofnana) og svo þarf nýja ríkisstjórn með nýtt umboð kjósenda.
Þess vegna er að verða æ brýnna að gengið verði til kosninga sem fyrst svo þjóðin geti tekið ákvörðun um það í hvaða átt verður haldið við uppbyggingu og endurreisn íslensks samfélags.
6 fundir með seðlabankastjórn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
16.11.2008 | 21:31
Og fjölmiðlar spyrja engra spurninga!
Það vakti athygli að þegar þessi frétt var birt þá tóku fjölmiðlar við henni gagnrýnislaust og spurðu engra ágengra spurninga, t.d. hvort búið væri að skrifa undir samkomulagið, hvaða skuldbindingar væru nákvæmlega í því, hvenær það yrði lagt fyrir Alþingi, hvort fjölmiðlar fengju að sjá skjalið og svo framvegis.
Ráðamenn hafa svo oft orðið tvísaga í þessum málum öllum að það verður að fá allt upp á borðið. Fjölmiðlar gegna ríku lýðræðislegu hlutverki í því efni. Munu þeir standa sig?
Icesave-deilan leyst | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
10.11.2008 | 09:12
Þjösnaskapur Evrópusambandsins
Eitruð tenging
Nú kemur í ljós að Evrópusambandið, félagsskapur sem margir vilja að Ísland gangi í, beitir okkur sem þjóð ótrúlegum þjösnaskap þegar við erum að reyna að koma samfélaginu á lappirnar á nýjan leik. Það hefur komið á daginn, eins og við þingmenn VG sögðum strax í upphafi, að lánveiting frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum yrði með beinum eða óbeinum hætti tengd því að Ísland féllist á kröfur Breta, Hollendinga og fleiri aðila um uppgjör vegna innistæðureikninga íslenskra banka í þessum löndum. Þessi baneitraða tenging milli umsóknar um lán frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og deilnanna við Breta, Hollendinga o.fl. vegna innlánsreikninganna býður þeirri hættu heim að Ísland verði þvingað pólitískt til að ábyrgjast langtum meira en lagaleg skylda býður. Á fundi þingmannanefndar EES-svæðisins með fulltrúum frá framkvæmdastjórn og ráðherraráði Evrópusambandsins sl. þriðjudag kom fram ítrekað að sum aðildarríki ESB hygðust tengja atkvæði sín í stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins því að niðurstaða næðist í deilum við Íslendinga. Þessi framganga ESB er að mínu mati ekkert annað en fjárkúgun og lét ég þá skoðun skilmerkilega í ljós á umræddum fundi. Formaður utanríkismálanefndar Alþingis tók undir þau sjónarmið mín.