Baráttudagur kvenna

Í dag er alþjóðlegur baráttudagur kvenna.  Ég óska öllum konum hjartanlega til hamingju með daginn sem er helgaður baráttunni fyrir kvenfrelsi og kynjajöfnuði.

Það er sérlega vel við hæfi að einmitt í nótt, voru kynnt úrslit í forvali Vinstri grænna í Reykjavík vegna Alþingiskosninganna í vor.  Tvær öflugar konur, þær Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra og Svandís Svavarsdóttir borgarfulltrúi, hlutu afgerandi kosningu og munu leiða hvor sinn listann í Reykjavík.

Þeim og öllum öðrum konum óska ég til hamingju og vonandi mun hlutur kvenna aukast í komandi þingkosningum svo raunverulegu jafnrétti verði náð.


Þakka góðan stuðning

Forvali Vinstri grænna í Reykjavík er lokið.  Það eru sterkir framboðslistar sem koma út úr forvalinu, Katrín Jakobsdóttir varaformaður VG og menntamálaráðherra og Svandís Svavarsdóttir borgarfulltrúi fá yfirburða kosningu í 1. sæti á sitt hvorum Reykjavíkurlistanum.  Þær eru glæsilegir fulltrúar og forystukonur sem við vinstri græn erum stolt af.

Í forvalinu stefndi ég að 2. sæti á öðrum hvorum listanum.  Það gekk eftir og er ég þakklátur öllum þeim sem lögðu mér lið.  Lilja Mósesdóttir hagfræðingur fékk örugga kosninga í hitt 2. sætið og kemur sterk til leiks í stjórnmálum.  Álfheiður Ingadóttir alþingismaður og Kolbrún Halldórsdóttir umhverfisráðherra skipa sæti 3 á listunum tveimur.  Þessi sæti verða baráttusætin hjá okkur vinstri grænum í Reykjavík og það er sannarlega traustvekjandi að þessar öflugu stjórnmálakonur skipi þau.

Í sætum 4 og 5 eru annars vegar tvær ungar konur sem hafa starfað ötullega fyrir ungliðahreyfingu Vinstri grænna, þær Auður Lilja Erlingsdóttir og Steinunn Þóra Árnadóttir og hins vegar tveir nýliðar í hreyfingunni, Ari Matthíasson og Davíð Stefánsson.

Með góðri blöndu af fólki sem hefur víðtæka reynslu af stjórnmálastörfum og hinum sem koma nýir til leiks mun VG mæta í kosningabaráttuna með öfluga sveit sem er reiðubúin að vinna landi og þjóð af öllu afli.  Ég býð Lilju, Ara og Davíð velkomin til liðs við Vinstri græn og óska okkur öllum hjartanlega til hamingju með góða útkomu og sterka framboðslista.


Friðlýsing Íslands á dagskrá

Á fundi Alþingis föstudaginn 6. mars er á dagskrá tillaga mín og 10 annarra þingmanna úr öllum flokkum nema Sjálfstæðisflokki um friðlýsingu Íslands og bann við umferð kjarnorkuknúinna faratækja.  Þetta mál hefur margoft verið flutt áður en nú er það loksins komið á dagskrá Alþingis.

Skemmst er að minnas atburðar sunnar í Atlantshafi nú nýverið þegar tveir kjarnorkukafbátar, breskur og franskur, rákust saman.  Ekki þarf að spyrja að leikslokum ef geislavirk efni hefðu lekið út úr bátunum.  Fyrir okkur Íslendinga, sem erum svo háðir sjávarauðlindunum, yrði það einfaldlega hræðilegt slys með skelfilegum afleiðingum ef kjarnorkuknúin farartæki á ferð um íslenskt yfirráðasvæði yrði fyrir óhappi.

Þess vegna eru það brýnir hagsmunir okkar að landið verði friðlýst og umferð kjarnorkuknúinna farartækja um íslenska loft- og landhelgi og efnahagslögsögu verði bönnuð og leitað verði alþjóðlegrar viðurkenningar á slíkri friðlýsingu.  Fyrir liggur að þingmenn úr 4 af 5 þingflokkum standa að málinu og nú þegar Sjálfstæðisflokkurinn er ekki lengur í aðstöðu til að stöðva þau mál sem honum hugnast ekki í krafti stjórnarsetu sinnar, eygjum við von um að Alþingi taki nú af skarið og samþykki þetta mikla hagmunamál okkar. 

Frumvarpið má lesa hér.


Stefnum hiklaust á rauðgræna ríkisstjórn

Það hefur ekki verið venja í íslenskum stjórnmálum að flokkar gangi bundnir til kosninga.  "Við göngum óbundin til kosninga" er viðkvæði sem er alþekkt úr stjórnmálaumræðunni hér á landi.  Nú eru aðstæður í samfélaginu hins vegar þær að það er skynsamlegt að horfa á þessi mál öðrum augum en hingað til.

Ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingar er að vísu minnihlutastjórn.  Slíkar stjórnir eru algengar á hinum Norðurlöndunum.  Þar er það líka almenna reglan að flokkar lýsa því fyrir kosningar hvernig stjórn þeir vilja mynda í kjölfarið.  Núverandi ríkisstjórn er líka myndið við óvenjulegar aðstæður.  Hún hefur farið vel af stað og engum dylst að henni hefur tekist að skapa sátt og ró og myndun hennar var mikilvægt skref til að endurheimta traust milli þings og þjóðar.  Stjórnin nýtur stuðnings Framsóknarflokksins en margir þar á bæ vilja gjarnan líta til samstarfs við núverandi stjórnarflokka að kosningum loknum, þótt skoðanir þar séu ugglaust eitthvað skiptar.

Að mínu mati eiga stjórnarflokkarnir hiklaust að stefna að áframhaldandi stjórnarsamstarfi.  Hin rauðgræna ríkisstjórn nýtur almenns velvilja og stuðnings í skoðanakönnunum og engum dylst að þjóðin hefur meiri trú á störfum hennar en fráfarandi stjórnar, þótt sú stjórn hafi stuðst við 2/3 meirihluta þingmanna en núverandi stjórn sé minnihlutastjórn.  Það er góð samstaða og traust milli stjórnarflokkanna, bæði almennra þingmanna sem og forystumanna stjórnarinnar.  Ríkisstjórnin hefur unnið hörðum höndum að því að koma heimilum og atvinnulífi til aðstoðar eftir efnahagshrunið sem reið yfir landið eftir 18 ára samfellda stjórnarsetu Sjálfstæðisflokksins.  Þeim flokki þarf að gefa langt frí frá ríkisstjórnarborðinu.  Það tekst aðeins ef núverandi stjórnarflokkar fá aukið og styrkt umboð frá þjóðinni.  Besta leiðin er að flokkarnir segi kjósendum það skýrt fyrirfram að þeir stefni hiklaust að rauðgrænni ríkisstjórn að loknum kosningum 25. apríl.  Þá vita kjósendur hvaða kosti þeir eiga.


"Sturlaður" á sál og sinni

Sturla Böðvarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrum forseti Alþingis, skrifar grein í Fréttablaðið í dag og ræðst harkalega að núverandi ríkisstjórn. Sérstaklega finnur hann henni það til foráttu að hún hafi skipt um Seðlabankastjóra, og ekki síst að nýr maður í því starfi um stundarsakir sé Norðmaður.

En það er líka annað í grein Sturlu sem vekur sérstaka athygli.  Í grein sinni veitist hann með afar ósmekklegum hætti að Vinstrihreyfingunni - grænu framboði og skrifar m.a.:

Á mínum langa ferli í stjórnmálum hef ég ekki áður orðið vitni að öðrum eins vinnubrögðum og þeim sem Jóhanna og Steingrímur J. viðhafa á öllum sviðum. Og það er vert að minnast þess og rifja upp að þau komust til valda í skjóli ofbeldisfullra aðgerða gegn Alþingi. Aðgerða sem ráðherra Vinstri grænna hefur hreykt sér af að hafa staðið að baki og margir telja að hafi verið skipulagðar í skjóli Vinstri grænna bæði innan þingsins og utan. Það geta ekki verið vinnubrögð sem við viljum innleiða á Íslandi.

Er engu líkara en að fyrrum þingforseti sé að gefa í skyn að minnihlutastjórn Samfylkingar og Vinstri grænna hafi hrifsað til sín völdin með ofbeldi og jafnvel á ólögmætan hátt.  Hugarfarið sem ræður þessu skrifum Sturlu ber þess merki að þar fer maður sem getur ekki sætt sig við að hann og flokkur hans sé ekki lengur við völd á Íslandi.  Maður sem er heltekinn af þeirri bábylju að Sjálfstæðisflokkurinn einn sé réttborinn til valda.

Sturla Böðvarsson er bersýnilega úr öllum tengslum við þjóðina og má segja að það sé eins gott að maður sem ber ekkert skynbragð á vilja þjóðarinnar sé ekki forseti Alþingis.  Hann getur ekki fellt sig við að það hafi verið þjóðin sjálf, með kröftugum mótmælum sínum, hafi komið Sjálfstæðisflokknum úr ríkisstjórn.  Hann virðist algerlega samviskulaus yfir því að hann og flokkur hans hafi komið Íslandi í þrot með óstjórn sinni.  Enda hefur hvorki hann né formaður Sjálfstæðisflokksins, beðið þjóðina afsökunar á afdrifaríkum mistökum sínum við landsstjórnina.  Sturla Böðvarsson er, svo ekki verður um villst, illa haldinn á sál og sinni yfir því að Sjálfstæðisflokkurinn hafi misst völdin, en lætur sér um leið í léttu rúmi liggja þær efnahagslegu og félagslegu hörmungar sem flokkur hans hefur leitt yfir þjóðina.  Í stað þess kastar hann óhróðri í aðra flokka sem hann beinlínis sakar um ólýðræðisleg vinnubrögð. 

Sturla Böðvarsson á að skammast sín og biðjast afsökunar á skrifum sínum.


Sameiginleg ákvörðun um trúfélag barns

Hér er frétt á visir.is um fyrirspurn mína til dómsmálaráðherra um afstöðu til þess að forsjáraðilar taki sameiginlega ákvörðun um skráningu barns í trúfélag þegar og ef þeir kjósa að fara þá leið.

Fyrirspurnin er lögð fram í framhaldi af áliti lögfræðings Jafnréttisstofu sem telur að það fari í bága við jafnréttislögin að barn sé sjálfkrafa skráð í trúfélag móður eins og nú tíðkast.


Athyglisverð þróun

Þessi könnun um andstöðu við ESB-aðild er athyglisverð, ekki síst í ljósi umræðunnar sem varð í kjölfar bankahrunsins um að eina bjargræði okkar væri aðild að Evrópusambandinu.  Nú er þjóðin bersýnilega annarrar skoðunar og ef mér skjöplast ekki er það þriðja könnunin í röð sem sýnir þessa stöðu.

Nú geta vindar snúist býsna skjótt í þessu efni, en ef til vill eru þetta skilaboð þjóðarinnar til stjórnmálaflokkanna um að þeir þurfi að einbeita sér að öðrum og þýðingarmeiri málum í komandi kosningabaráttu.  Alþingiskosningarnar snúast um afkomu heimila og fjölskyldna nú og á næstu mánuðum.  Baráttan við atvinnuleysið og yfirvofandi gjaldþrot, grunnstoðir velferðarkerfisins, réttláta tekjuskiptingu í þjóðfélaginu og lýðræðislega og opna stjórnarhætti.  Allt eru þetta brýn úrlausnarefni sem við verðum að takast á við á heimavelli.  Núverandi ríkisstjórn hefur þegar hafist handa við að greiða úr þeim málum sem áralangt sinnuleysi Sjálfstæðisflokksins og gjaldþrota stefna hans skilur eftir.  Það er úrslitaatriði fyrir framtíð þjóðarinnar að haldið verði áfram á þeirri braut sem ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingar hefur rutt.  Við munum aðeins komast út úr erfiðleikunum ef við byggjum upp og endurreisum samfélagið á grundvelli félagshyggju, jöfnuðar og kynjajafnréttis, réttlætis ogsjálfbærrar þróunar.


mbl.is Meirihluti andvígur ESB-umsókn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Víst brást stefnan

Það er bersýnilega einn þáttur í tilraun Sjálfstæðisflokksins til að ná fyrri stöðu sinni að telja þjóðinni trú um að stefna flokksins hafi ekki brugðist, heldur hafi fólk brugðist.  Þetta er kattarþvottur.

Einkavæðing bankanna, hömlulaus græðgi, skattalækkun til hálaunahópa og fjármagnseigenda og margt fleira í þeim dúr, var stefna Sjálfstæðisflokksins.  Ef það er trú forystumanna flokksins að sú stefna hafi ekki brugðist, hllýtur að vera rökrétt að álykta að flokkurinn hyggist halda þessari stefnu sinni áfram.  Ætlar Sjálfstæðisflokkurinn að endurreisa íslenskt samfélag með sömu stefnuna og keyrði samfélagið í þrot?

Sjálfstæðisflokkurinn á greinilega langt í land með að átta sig á því hvað olli hruninu.  Við þurfum ekki meira af þessari sömu stefnu.  Við þurfum nú alveg nýjar áherslur og ný gildi jöfnuðar, réttlætis og lýðræðislegra stjórnarhátta.  Núverandi ríkisstjórn tekur við þrotabúi frjálshyggjunnar og það er vissulega ekki létt verk að koma samfélaginu á rétta braut og byggja upp það sem brotið var niður.  En það er hægt.  Til þess þarf bjartsýna og vinnusama stjórn sem starfar í þágu almennings í landinu og hafnar sérgæsku og vildarpólitík í þágu útvalinna. 

Vinstri græn munu leggja sitt af mörkum til að það takist.  Þjóðin stendur frammi fyrir óvenju skýru vali í kosningunum 25. apríl.  Átján ár Sjálfstæðisflokksins við stjórnvölinn hafa reynst okkur dýrkeypt, nú er kominn tími til róttækra breytinga og endurreisnar í anda félagshyggju.  Látum það tækifæri ekki ganga okkur úr greipum.


mbl.is Stefna brást ekki, heldur fólk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

OPIÐ HÚS HJÁ VINSTRI GRÆNUM Í DAG

Stjórn Vinstri grænna í Reykjavík býður félögum að koma á opið hús í dag, sunnudag, 1. mars. Þar munu frambjóðendur í forvalinu hafa orðið og kynna sig í stuttu máli.  Opna húsið er í nýrri kosningamiðstöð VG að Tryggvagötu 11 klukkan 14-18.
------------------------------
ALLIR VELKOMNIR.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband