31.5.2007 | 17:39
Þingsetningardagur - rislítill stjórnarmeirihluti
Það var sérstök tilfinning að setjast á Alþingi í fyrsta sinn. Við nýir þingmenn undirrituðum drengskaparheit að stjórnarskránni og tókum við heillasóskum frá forseta Íslands og þingforseta. Í kvöld er stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana og má þá segja að þingstörfin hefjist fyrir alvöru með öllu því sem því fylgir.
Óneitanlega setti það leiðinlegan svip á þingsetningun að stjórnarmeirihlutinn ákvað strax á fyrsta fundi að beita hins mikla aflsmunar og knýja í gegn afbrigði frá þingsköpum og fresta kosningu í efnahags- og viðskiptanefnd, landbúnaðarnefnd og sjávarútvegsnefnd. Þau læti sem ríkisstjórnin efndi til með þessu kemur til af því að hún vill fá fram breytingar á skipan ráðuneyta og að nefndir þingsins taki sambærilegum breytingum. Þessar breytingar á ráðuneytum eiga að sögn að vísu ekki að taka gildi fyrr en um áramót, og því var óskiljanlegt með öllu að beita þyrfti afbrigðum til að fresta kosningu í lögskipaðar nefndir. Það var ekki hátt risið á stjórnarflokkunum á fyrsta fundi en er vonandi ekki til marks um það sem koma skal í vinnubrögðum stjórnarmeirihlutans.
Farið hefur verið fram á fund í sjávarútvegsnefnd til að fjalla um málefni sjávarbyggða, s.s. eins og Flateyrar, en nú hefur stjórnin komið málum þannig fyrir að það er engin starfandi sjávarútvegsnefnd. Jafnframt hefur verið boðað í fjölmiðlum að viðskiptaráðherra hyggist leggja fram frumvarp um kauphallarviðskipti o.fl. sem ætti að fara til efnahags- og viðskiptanefndar, en sú nefnd er heldur ekki til. Þannig má segja að byrjunin hjá stjórninni sé ekki mjög gæfuleg.
Á þessum fyrsta þingfundi var ég kosinn til starfa í samgöngunefnd og umhverfisnefnd, auk þess að vera kjörinn í þingmannanefnd EFTA. Ég hlakka til að takast á við þau krefjandi verkefni sem þessar nefndir fjalla um og mun leggja mig fram um að vinna vel að þeim málum sem bíða úrlausnar. Þá er ég sömuleiðis fullur tilhlökkunar að starfa innan þingflokks Vinstri grænna, andinn þar er afar góður og ljóst að þar er mættur til leiks sérlega öflugur hópur sem mun verða ódeigur við að veita ríkisstjórninni verðskuldað aðhald og hafa frumkvæði á fjölmörgum sviðum þjóðlífsins.
![]() |
Stjórnarandstaðan á Alþingi byrsti sig á þingsetningarfundi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
30.5.2007 | 11:02
Landsvirkjun slakar hvergi á klónni!
Landsvirkjun virðist, eftir því sem best verður séð, staðráðin í að halda áfram með áform um virkjun í neðri hluta Þjórsár. Hart hefur verið tekist á um þessi virkjanaáform.
Skömmu fyrir atkvæðagreiðsluna í Hafnarfirði um stækkun álversins í Straumsvík, birtu bændur og aðrir hagsmunaaðilar við Þjórsá áskorun til Hafnfirðinga um að hugsa til Þjórsár og hafna stækkuninni. Þeim varð að ósk sinni. Þar með hefði maður haldið að áformin um virkjun í neðri hluta Þjórsár væru úr sögunni.
En svo virðist samt ekki vera. Allt bendir til þess að haldið verði áfram með Þjórsárvirkjun, þar verði ekkert stopp. Landsvirkjun heldur sínu striki og stjórnarsáttmáli hinnar nýju ríkisstjórnar gefur engin fyrirheit um að fossinn Dynkur í Þjórsá fái að vera óáreittur, gefur engin fyrirheit um að horfið verði frá virkjunaráformum í neðri hluta Þjórsár. Nú reynir hins vegar á nýja stjórnarherra í ráðuneytum umhverfismála og orkumála.
Áskorun Náttúruverndarsamtaka Íslands er tímabær áminning um að full þörf er á að halda vöku sinni í þessu brýna umhverfis- og náttúruverndarmáli.
![]() |
Náttúruverndarsamtök skora á ríkisstjórnina að stöðva framkvæmdir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
26.5.2007 | 11:08
Vorþing nýs Alþingis
Boðað hefur verið að nýkjörið Alþingi komi saman á fimmtudag í næstu viku. Fyrir mig sem nýjan þingmann verður spennandi að takast á við þau verkefni sem bíða, bæði á vorþinginu sjálfu og eins í framhaldinu.
Væntanlegt vorþing stendur ef að líkum lætur í 1-2 vikur og hefur ríkisstjórnin boðað ýmis mál sem lögð verða fyrir þingið. Meðal annars eru nefnd málefni barna og aldraðra og einnig breytingar á stjórnarráðslögum til að hrinda í framkvæmd þeim breytingum á verkefnum ráðuneyta sem koma fram í samkomulagi stjórnarflokkanna.
Stjórnarandstaðan gegnir mikilvægu hlutverki í lýðræðisþjóðfélagi. Hún er jafnvel aldrei eins mikilvæg og þegar ríkisstjórn styðst við mikinn meirihluta á Alþingi og þegar flestir fjölmiðlar hafa með einum eða öðrum hætti stutt við þá flokka sem mynda ríkisstjórnina. Um leið er brýnt að skoða rækilega starfsaðstæður stjórnarandstöðunnar eins og sumir stjórnarþingmenn hafa raunar haft orð á. Verður fróðlegt að sjá hvort og þá hvaða frumkvæði ríkisstjórnin mun hafa í þeim efnum.
Að loknu vorþingi verður næsta verkefni að undirbúa þinghaldið næsta vetur. Að venju mun Alþingi koma saman að nýju 1. október en í aðdraganda þess munu þingmenn leggja drög að þeim þingmálum sem þeir hyggjast flytja og skipuleggja starfið. Ég hlakka til að takast á við þau krefjandi verkefni sem bíða í landsmálum. Undanfarin 13 ár hef ég verið borgarfulltrúi í Reykjavík og haft bæði gaman og gagn af þeim störfum og komið margvíslegum málum fram. Það verður vissulega ákveðinn söknuður sem fylgir því að hætta afskiptum af borgarmálum þegar þing kemur saman í haust, en vonandi gefst þó færi á að halda tengslum við sveitarstjórnarmálin að vissu marki, þótt ég setjist nú á Alþingi.
25.5.2007 | 20:27
Vandinn á Vestfjörðum
Fréttir berast af erfiðleikum í atvinnumálum á Vestfjörðum. Nú síðast er það sjávarútvegsfyrirtækið Kambur á Flateyri sem hefur sagt upp starfsfólki og kvótinn væntanlega á leið burt. Bæjarstjórinn telur að vísu að bærinn eigi að nýta forkaupsrétt og tryggja að veiðiheimildirnar verði áfram á staðnum. Við sjáum hvað setur í því efni.
Öllum er hygg ég löngu ljóst að fyrirkomulag fiskveiðistjórnunarmála, kvótakerfið og einkum framsalið, á drjúgan þátt í hvernig komið er fyrir mörgum sjávarbyggðum vítt og breitt um landið. Stjórnvöld hafa því miður ekki horfst í augu við rætur vandans og líklega eru of áhrifamiklir hagsmunaaðilar í kringum stjórnarflokkana, einkum Sjálfstæðisflokkinn, til þess að nokkuð verði að gert.
Á undanförnum árum hefur Samfylkingin haldið uppi harðri gagnrýni á stjórnkerfi fiskveiðimála og lýst ásetningi sínum að gera verulegar breytingar á því ef flokkurinn kæmist í aðstöðu til þess. Nú er flokkurinn kominn í ríkisstjórn, að vísu hægri stjórn með Sjálfstæðisflokknum, en engu að síður hljóta þær kröfur að vera gerðar að til aðgerða verði gripið til að taka til í þessu rangláta kerfi.
Því miður gefur stjórnarsáttmálinn nýi engin fyrirheit um að svo verði gert. Stefnumið Samfylkingarinnar í sjávarútvegsmálum hafa í engu ratað inn í þann sáttmála, frekar en í mörgum öðrum málaflokkum. Vandinn á Vestfjörðum er þess eðlis að það þolir enga bið að á honum verði tekið. Vinstri græn munu í stjórnarandstöðu beita sér fyrir því að málefni Vestfjarða sérstaklega verði tekin til umræðu og viðunandi og varanlegra lausna leitað. Það mun ekki veita af kröftugu aðhaldi við þá ríkisstjórn sem nú er að stíga sín fyrstu skref, henni þarf að halda við efnið.
22.5.2007 | 22:12
Baugalín styrkir stöðu Sjálfstæðisflokksins
Hin nýja ríkisstjórn hefur tekið á sig mynd. Það er ljóst að hlutur Samfylkingarinnar varðandi skiptingu ráðuneyta er rýrari en hlutur Framsóknarflokksins var í fráfarandi stjórn. Sjálfstæðisflokkurinn fær í raun 7 ráðuneyti og Samfylking 5 í stað helmingaskipta sem áður ríktu.
Sjálfstæðisflokkurinn fær bæði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti en Samfylkingin mun þurfa að skipta iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu upp í tvennt milli Össurar og Björgvins. Auk forsætis- og fjármálaráðuneyta fær Sjálfstæðisflokkurinn útgjaldafrekustu ráðuneytin, heilbrigðisráðuneyti og menntamálaráðuneyti og þegar hefur nýr heilbrigðisráðherra lýst yfir því að hafin verði einkavæðing í heilbrigðisgeiranum.
Ekki verður annað séð en að hin nýja ríkisstjórn og verkaskipting innan hennar styrki stöðu Sjálfstæðisflokksins mjög og gleymdar eru allar heitstrengingar um hlutverk Samfylkingarinnar í íslenskum stjórnmálum. Ég man a.m.k. ekki eftir því að þar hafi verið lagt upp með að Samfylkingin ætti að auka vægi Sjálfstæðisflokksins og tryggja setu hans á valdastólum. En allt um það. Samfylkingin hefur þá um leið tekið sér sömu stöðu og Alþýðuflokkurinn hafði í Viðreisn og Viðeyjarstjórn, sem hækja eða göngugrind Sjálfstæðisflokksins.
Við völdum mun nú taka enn ein hægri stjórnin, stjórn auðvalds og sérhyggju, ójafnvægis í byggðamálum og tvískinnungs í umhverfismálum. Sjálfsagt er þó, með hagsmuni lands og þjóðar að leiðarljósi, að vonast eftir því að stjórninni farnist vel. Stjórnarandstaðan mun þau ef að líkum lætur hafa í nógu að snúast.
22.5.2007 | 16:07
Ráðherrakapallinn
Það getur verið vandasamt verk að manna ríkisstjórn. Ekki vegna þess að það sé ekki nóg framboð, heldur hitt að stólarnir eru takmarkaðir og margs konar sjónarmið þarf að hafa í huga varðandi samsetningu, s.s. kyn, kjördæmi, aldur, reynslu, röð á framboðslista o.fl.
Ég spái því að ekki verði um fækkun ráðherra frá því sem nú er, þeir verði 12, 6 frá hvorum flokki. Í hlut Sjálfstæðisflokks komi forsætisráðuneyti, fjármálaráðuneyti, heilbrigðisráðuneyti, landbúnaðarráðuneyti, dómsmálaráðuneyti og iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti.
Samfylkingin mun fara með utanríkisráðuneyti, sjávarútvegsráðuneyti, umhverfisráðuneyti, samgönguráðuneyti, menntamálaráðuneyti, og félagsmála- og tryggingaráðuneyti.
Ráðherrar gætu t.d. orðið Geir H. Haarde, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Árni M. Mathiesen, Einar K. Guðfinnsson, Björn Bjarnason og Arnbjörg Sveinsdóttir frá Sjálfstæðisflokki og Ingibjörg S. Gísladóttir, Össur Skarphéðinsson, Jóhanna Sigurðardóttir, Þórunn Sveinbjarnardóttir, Kristján Möller og Björgvin G. Sigurðsson frá Samfylkingu.
Þetta skýrist að vísu allt áður en yfir lýkur.
22.5.2007 | 15:34
Kallar Brown Breta heim frá Írak?
Það liggur fyrir að Gordon Brown, fjármálaráðherra Bretlands til 10 ára, tekur við embætti forsætisráðherra í lok næsta mánaðar. Þá lýkur áratugar löngum valdaferli Tony Blair. Gordon Brown, sem verið hefur náinn samstarfsmaður Blair í breska Verkamannaflokknum og í ríkisstjórn um langt skeið, er líklegur til að breyta um stefnu í mörgum mikilvægum málum. Hann mun þó fara sér hægt og taka ákveðin en varfærin skref í því efni.
Gordon Brown studdi ákvörðun Blair um að fylgja Bandaríkjunum í blindni í Íraksstríðið. Með hálfum hug þó. Það er vitað að innan bresku stjórnarinnar mun Brown heldur hafa latt til stríðsrekstursins en hitt, en hann valdi þó ekki þá leið sem ýmsir forystumenn gerðu, eins og Robin Cook utanríkisráðherra, að segja af sér í mótmælaskyni við stefnu Blair. Brown var þá með hugann við að verða arftaki Blair sem leiðtogi Verkamannaflokksins og næsti forsætisráðherra og því gat hann ekki hætt frama sínum með þeim hætti.
Afstaða Gordon Brown til Bandaríkjanna er áreiðanlega önnur en afstaða Blair. Gordon mun frekar styrkja og efla tengsl bresku stjórnarinnar við Demókrataflokkinn, eins og hefðbundið er, en smám saman fjarlægjast Repúblikanaflokk Bush forseta. Þetta er stjórnvöldum í Bandaríkjunum áreiðanlega löngu ljóst. Og munu þau því hafa áhyggjur af því hvaða stefnu Brown mun taka í málefnum Íraks.
Samkvæmt skoðanakönnunum er flest sem bendir til þess að frambjóðandi demókrata muni bera sigur úr býtum í forsetakosningunum þar í landi seint á næsta ári. En það eru þó bara skoðanakannanir og margt getur breyst á löngum tíma í pólitík. Brown mun því sennilega fara sér hægt og hafa náið samráð við forystumenn Demókrata. Hann mun nefnilega seint ganga lengra en Demókratar geta fellt sig við og stutt. Það verður spennandi að fylgjast með þróun mála í þessu efni á næstunni. Mestar líkur eru nefnilega á að Gordon Brown muni einmitt leita leiða til að hefja heimflutning breskra hermanna frá Írak. Slík ákvörðun yrði til vinsælda fallin heima fyrir og gæti styrkt stöðu hans og Verkamannaflokksins fyrir næstu kosningar sem væntanlega verða haldnar innan 3ja ára.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.5.2007 | 14:04
Neitunarvald forsetans
Í umræðunni um endurskoðun stjórnarskrárinnar var mikið rætt um neitunar- eða synjunarvald forseta Íslands. Kom það einkum til af því að Ólafur Ragnar Grímsson synjaði fjölmiðlalögunum staðfestingar á sínum tíma og olli mikilli reiði meðal forystumanna ríkisstjórnarinnar.
Flokkarnir hafa mismunandi afstöðu til þessa máls. Í glænýrri landsfundar samþykkt Sjálfstæðisflokksins stendur þetta um synjunarvald forsetans:
Í því sambandi telur landsfundur óhjákvæmilegt að ákvæði 26. gr. um synjunarvald forseta verði fellt úr gildi.
Þetta viðhorf hefur síður en svo átt upp á pallborðið hjá Samfylkingunni og örugglega ekki hjá forsetanum sjálfum. Verður fróðlegt að sjá hvað tilvonandi stjórnarsáttmáli hefur upp á að bjóða í stjórnarskrármálum og lýðræðismálum.
18.5.2007 | 19:17
Geir Hilmar Haarde - talsmaður Samfylkingarinnar
Forseti Íslands fór þá óvenjulegu leið, og svoldið á skjön við lýðræðislegar hefðir, að fela formanni Sjálfstæðisflokksins umboð til stjórnarmyndunar - án þess að ræða við kjörna fulltrúa annarra flokka.
Forsetar hafa í gegnum tíðina rætt við formenn allra flokka, enda sjálfsögð lýðræðisleg kurteisi af þjóðkjörnum þjóðhöfðingja að sýna öllum stjórnmálaflokkum tilhlýðilega virðingu. Að öðrum kosti verður hann varla talinn forseti allra landsmanna. En allt um það.
Kjarni málsins er sá að forseti taldi ekki nauðsynlegt að heyra sjónarmið annarra en Geirs Hilmars Haarde, enda hafði komið fram í fjölmiðlum að hann væri talsmaður bæði Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Þannig leggst lítið fyrir þá stuðningsmenn Samfylkingar sem vildu að nú yrði tækifærið gripið og kona yrði forsætisráðherra. Það tækifæri er að vísu enn í boði ef Samfylkingin sér að sér og rifjar upp til hvers hún var stofnuð. Að öðrum kosti verður ekki séð annað en að hún hafi gert Geir Haarde að talsmanni sínum.
![]() |
Steingrímur: Ingibjörg hefur afsalað sér umboðinu til stjórnarmyndunarviðræðna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
18.5.2007 | 15:31
Áhrifa Baugsveldisins gætir strax
![]() |
Embætti ríkissaksóknara auglýst á ný síðar á árinu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |