Þingsetningardagur - rislítill stjórnarmeirihluti

Það var sérstök tilfinning að setjast á Alþingi í fyrsta sinn. Við nýir þingmenn undirrituðum drengskaparheit að stjórnarskránni og tókum við heillasóskum frá forseta Íslands og þingforseta. Í kvöld er stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana og má þá segja að þingstörfin hefjist fyrir alvöru með öllu því sem því fylgir.

Óneitanlega setti það leiðinlegan svip á þingsetningun að stjórnarmeirihlutinn ákvað strax á fyrsta fundi að beita hins mikla aflsmunar og knýja í gegn afbrigði frá þingsköpum og fresta kosningu í efnahags- og viðskiptanefnd, landbúnaðarnefnd og sjávarútvegsnefnd. Þau læti sem ríkisstjórnin efndi til með þessu kemur til af því að hún vill fá fram breytingar á skipan ráðuneyta og að nefndir þingsins taki sambærilegum breytingum. Þessar breytingar á ráðuneytum eiga að sögn að vísu ekki að taka gildi fyrr en um áramót, og því var óskiljanlegt með öllu að beita þyrfti afbrigðum til að fresta kosningu í lögskipaðar nefndir. Það var ekki hátt risið á stjórnarflokkunum á fyrsta fundi en er vonandi ekki til marks um það sem koma skal í vinnubrögðum stjórnarmeirihlutans.

Farið hefur verið fram á fund í sjávarútvegsnefnd til að fjalla um málefni sjávarbyggða, s.s. eins og Flateyrar, en nú hefur stjórnin komið málum þannig fyrir að það er engin starfandi sjávarútvegsnefnd. Jafnframt hefur verið boðað í fjölmiðlum að viðskiptaráðherra hyggist leggja fram frumvarp um kauphallarviðskipti o.fl. sem ætti að fara til efnahags- og viðskiptanefndar, en sú nefnd er heldur ekki til. Þannig má segja að byrjunin hjá stjórninni sé ekki mjög gæfuleg.

Á þessum fyrsta þingfundi var ég kosinn til starfa í samgöngunefnd og umhverfisnefnd, auk þess að vera kjörinn í þingmannanefnd EFTA. Ég hlakka til að takast á við þau krefjandi verkefni sem þessar nefndir fjalla um og mun leggja mig fram um að vinna vel að þeim málum sem bíða úrlausnar. Þá er ég sömuleiðis fullur tilhlökkunar að starfa innan þingflokks Vinstri grænna, andinn þar er afar góður og ljóst að þar er mættur til leiks sérlega öflugur hópur sem mun verða ódeigur við að veita ríkisstjórninni verðskuldað aðhald og hafa frumkvæði á fjölmörgum sviðum þjóðlífsins.


mbl.is Stjórnarandstaðan á Alþingi byrsti sig á þingsetningarfundi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Paul Nikolov

Til hamingju með daginn! Hlakka mikið til vinnan fram undan.

Paul Nikolov, 31.5.2007 kl. 18:26

2 Smámynd: Ásgeir Rúnar Helgason

Til hamingju Árni Þór!

Þú átt þetta svo sannarlega skilið. Ég veit að þú vinnur að heilindum og eftir þinni sannfæringu.

Kveðja úr löndum Ynglinga:

Ásgeir Rúnar Helgason, 2.6.2007 kl. 16:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband