Borgarstjórn samþykkir að vinna hjólreiðaáætlun

Ég sit nú í dag minn síðasta fund í borgarstjórn Reykjavíkur, en ég hef beðist lausnar þar sem ég hef nú tekið sæti á Alþingi.  Á þessum síðasta fundi mínum lagði ég fram tillögu um að unnin verði sérstök hjólreiðaáætlun fyrir Reykjavík.  Skemmst er frá því að segja að tillagan var samþykkt samhljóða og fékk góðar viðtökur allra borgarfulltrúa sem til máls tóku.

Tillagan er þannig:

Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkir að unnin verði sérstök hjólreiðaáætlun fyrir Reykjavík.  Markmið áætlunarinnar verði að gera hjólreiðar að viðurkenndum og fullgildum kosti í samgöngumálum Reykvíkinga.  Áætlunin taki annars vegar til stefnumótunar um aukið og bætt aðgengi hjólreiðafólks í borginni og hins vegar verði um að ræða framkvæmdaáætlun til nokkurra ára sem geri grein fyrir einstökum verkefnum og fjármögnun.  Yfirstjórn verkefnisins verði í höndum umhverfis- og samgönguráðs og skal að því stefnt að áætlunin verði lögð fyrir borgarstjórn eigi síðar en um mitt ár 2008.

Tillögunni fylgdi ítarleg greinargerð sem hér fylgir líka:
Samgöngumálin í borginni eru eitt helsta viðfangsefni á sviði umhverfismála.  Umræðan um sjálfbæra þróun hefur ágerst hin síðari ár og hugmyndafræði hennar hefur ratað inn í stefnumótun stjórnvalda, m.a. í Reykjavík og birtist bæði umhverfisstefnu og samgöngustefnu borgarinnar.  Yfirgnæfandi hluti allra ferða innan borgarinnar eru farnar með einkabíl og aðrir samgöngumátar hafa átt erfitt uppdráttar í samkeppninni við hann.  Engu að síður hefur hlutur hjólreiða heldur verið að aukast þótt hann sé enn miklu minni en gerist og gengur í nágrannalöndum okkar.   Hingað til hefur einkum verið litið á hjólreiðar sem góða útivist og heilsusamlega hreyfingu en síður verið litið á reiðhjólið sem samgöngutæki.  Þess vegna hefur verið talið eðlilegt að hjólreiðafólk nýtti sér útivistarstíga til að stunda hjólreiðar.  Það er gott svo langt sem það nær, en í því sambandi verður að hafa hugfast að þeir stígar hafa fremur verið lagðir með hliðsjón af útivistargildi en sem samgönguásar.Í samgöngustefnu Reykjavíkur, sem samþykkt var 2006, segir m.a.: „Til að ná settum markmiðum um að auka hlutdeild hjólreiða verður ríkisvaldið hvatt til þess að breyta vegalögum á þann hátt að auknu fjármagni verði úthlutað til hjólreiðastíga samfara uppbyggingu þjóðvegakerfis, líkt og 17. gr. núgildandi vegalaga kveður á um. Göngustígakerfi og hjólreiðabrautir skulu hannaðar sem samgönguæðar og viðhaldið sem slíkum. Það þarf að bæta aðgengi reiðhjólsins sem samgöngutækis, sér í lagi aðgengi að verslunum og vinnustöðum. Sveitarfélögin á höfuðborgar­svæðinu skulu hvött til að skapa tengingar stígakerfis á sveitarfélagamörkum þannig að aðstaða fyrir vegfarendur verði viðunandi.“Þar segir ennfremur um hjólreiðar og heilsu:„Auka skal fræðslu um mikilvægi hreyfingar og möguleikann á því að tengja saman samgöngumáta og hreyfingu. Borgarbúum skal bent á heilsufarslegan ávinning af hjólreiðum og göngu og gerð skal athugun á því hvernig hægt er að gera íbúðahverfi hjólreiðavænni. Reiðhjólanámskeið skólabarna eru góð leið til að minna þau á hjólin. Starfsmenn borgarinnar geta einnig verið fyrirmyndir á ferðum sínum um borgina. Ástæða er til þess að taka á vandamálum vegna offitu barna og samgöngur geta verið leið til þess. Borgarbúum skal vera unnt að kjósa reiðhjólið sem samgöngutæki eða að ganga til að stuðla að eigin vellíðan. Stefnt skal að því að auka enn fremur öryggi óvarinna vegfarenda í umferðinni en varast ber að fara í aðgerðir sem hamla hreyfanleika þessara vegfarenda um of í þágu öryggis. Nýta skal þau sóknarfæri sem felast í göngu og höfða sérstaklega til foreldra að láta börn sín ganga eða hjóla í skóla. Auka skal hlutdeild hjólandi og gangandi vegfarenda, sér í lagi á styttri ferðum, til að sporna við loftmengun og samtímis bæta heilsu.“Loks segir um hjólreiðar og borgarbrag:„Þar sem reiðhjól eru áberandi í borgarmyndinni skapast hreyfanleiki og er reiðhjólamenning merki umheilsusamlegan lífsstíl. Kostnaður við hjólreiðar er lítill ef hann er borinn saman við rekstur einkabílsins….  Benda skal borgarbúum á reiðhjólið sem mögulegan valkost og minna þá sem eru akandi á hjólreiðafólkið í umferðinni. Ímynd reiðhjólsins sem samgöngutækis skal efld með fræðslu og vitundarvakningu. Komið skal upp hjólagrindum víðs vegar um borgina og stuðlað að jafnræði á milli allra samgöngumáta. Hrinda skal í framkvæmd átaki um miðborgarmenningu með gangandi og hjólandi umferð.“Þannig hefur borgarstjórn nú þegar markað ákveðna meginstefnu og þar birtist eindreginn vilji til þess að auka hlutdeild hjólreiða og tryggja að þær verði viðurkenndur og fullgildur kostur í samgöngumálum Reykvíkinga.  Til þess að svo megi verða er nauðsynlegt að fylgja málum eftir með sérstakri hjólreiðaáætlun fyrir borgina.  Henni er ætlað að skýra frekar stefnumótun um aukið og bætt aðgengi hjólreiðafólks í borginni, hvaða viðmiðanir skuli gilda um gerð hjólreiðastíga, hvar þá skuli leggja, hvernig umferðaröryggi hjólreiðafólks verði best tryggt o.s.frv.  Hins vegar er áætluninni ætlað að vera framkvæmdaáætlun til nokkurra ára, þar sem gerð er grein fyrir einstökum framkvæmdum og fjármögnun á grundvelli hinnar almennu stefnumótunar.  Með því móti verði tryggt að stefnumörkunin verði ekki einvörðungu gott plagg til tyllidagabrúks, heldur fylgi henni framkvæmdaáætlun um uppbyggingu hjólareiðastígakerfis þar sem einni g komi fram hvaða fjármunir verða lagðir til verkefnisins á hverju ári.  Þannig hefur t.a.m. verið unnið að almennri gatnagerð í borginni, og hið sama má segja um uppbyggingu 30 km hverfa.Hér er lagt til að þetta verkefni verði undir yfirstjórn umhverfis- og samgönguráðs og að áætlunin verði lögð fyrir borgarstjórn fyrir mitt ár 2008.  Í því sambandi getur verið skynsamlegt að ráðið skipi sérstaka verkefnisstjórn, með þátttöku ráðsfulltrúa en einnig með aðild hagsmunaaðila, s.s. samtaka hjólreiðafólks, lögreglu og umferðarráðs og annarra eftir atvikum.Þessa vikuna stendur yfir samgönguvika í Reykjavík sem er hluti af evrópsku verkefni sem um 1300 borgir víðs vegar um Evrópu taka þátt í.  Það er vel við hæfi að einmitt í þeirri viku samþykki borgarstjórn Reykjavík að vinna sérstaka hjólreiðaáætlun.

 

 

Nýtt auðlindastríð í uppsiglingu?

"Eignarhald og nýting náttúruauðlinda hefur um langt skeið verið þrætuepli í íslensku samfélagi og hefur í raun klofið þjóðina í tvennt.  Undanfarna áratugi hafa hatrammar deilur staðið um sjávarauðlindina, nýtingu hennar, framsal veiðiheimilda og eignarhald.  Nú bendir ýmislegt til að í uppsiglingu kunni að vera  sambærileg átök um eignarhald og nýtingu orkuauðlindanna og vatnsins. Slík átök  verða ekki síður alvarleg fyrir íslenskt samfélag.  Þessi átök snúast um grundvallarhugsjónir, hvort tryggja eigi samfélagslegt eignarhald og nýtingu á orkuauðlindum eins og annarri grunnþjónustu eða hvort fórna eigi enn einni sameigninni í þágu peningaaflanna.  
Vinstrihreyfingin – grænt framboð telur mikilvægt að eignarhald á vatnsafli og jarðvarma til orkuframleiðslu sé skilgreind sameign landsmanna. Það sama gildir um ferskvatnið og aðrar náttúruauðlindir. Við teljum eðlilegt að skýrt sé kveðið á um það í stjórnarskrá lýðveldisins.  Orkuveitur  landsins eru  enn sem komið er að fullu í eigu opinberra aðila, með einni undantekningu en blikur eru þó á lofti í þeim efnum.  Nú heyrast háværar kröfur um breytingu á rekstrarformi einstakra orkuveitna.  Slíkar breytingar munu  auðvelda sölu þeirra síðar til einkaaðila. Þá mun bein fjárfesting innlendra og erlendra fjársterkra aðila í orkugeiranum fyrr eða síðar leiða til þess að þjóðin missir eignarhaldið á auðlindunum  sjálfum  til nýrra „kvótakónga“.   
Orkuveiturnar hafa mikilvægu hlutverki að gegna í sveitarfélögunum. Þau sinna grundvallarþjónustu í sínu samfélagi og lögbundnum skylduverkefnum sveitarfélaga.  Þau tryggja aðgang allra að fersku neysluvatni, heitu vatni og rafmagni, auk þess að reka fráveitu.  Að mati sveitarstjórnarráðs  VG er afar þýðingarmikið að þessi samfélagsþjónusta sé á hendi sveitarfélaganna ekki síst vegna þess að  reynslan annars staðar frá mælir eindregið með samfélagslegu eignarhaldi. Þar sem sambærilegar breytingar hafa átt sér stað hefur einkavæðingin haldið innreið sína, verð á raforku og vatni til almennings hækkað og afhendingaröryggi minnkað. 

Sveitarstjórnarráð VG varar við þeirri þróun sem nú er í augsýn og hvetur alla sem vilja tryggja sameign þjóðarinnar á auðlindunum að standa vörð um samfélagslegt eignarhald á orkuveitunum og auðlindunum sem hafa verið í þeirra umsjá.  Það verður best gert með því að festa sameign þjóðarinnar á auðlindunum í lög og tryggja að orkuveiturnar verði áfram í eigu ríkis og sveitarfélaga."

Ályktun frá sveitarstjórnarráði Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs 13. sept. 2007


Hvers vegna standa í stjórnmálum, Steinunn?

Til hvers að standa í stjórnmálum ef menn komast aldrei í stjórn og hafa engin völd?  Svona spyr mín ágæta samstarfskona til margra ára, Steinunn Valdís Óskarsdóttir í grein hér í Blaðinu nýlega.  Og er þar að skrifa um okkur Vinstri græn.  Steinunn telur völdin lykilinn að því að koma málum sínum fram.  En þá mætti líka snúa þessari spurningu á haus og spyrja: til hvers að hafa völd ef það er aðeins til að framkvæma stefnumál annarra?  Það er nefnilega með ólíkindum hvað klausurnar úr landsfundarsamþykktum Sjálfstæðisflokkins hafa ratað greiðlega inn í texta stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar.

En lítum aðeins á þau atriði sem SVÓ gagnrýnir okkur Vinstri græn fyrir (hún slysast reyndar til að skrifa í karlkyni þótt gömul Kvennalistakona sé!!).  Til dæmis nefnir hún ræðu Steingríms J. Sigfússonar á flokksráðsfundi okkar á dögunum og að hann hafi eytt ótrúlega miklu púðri í að gagnrýna Samfylkinguna.  Nú veit ég ekki til þess að Steinunn hafi verið á fundinum eða hvaðan hún hefur heimildir sínar.  Staðreyndin er nefnilega sú að formaður VG notaði afskaplega lítið af tíma sínum í að tala um Samfylkinguna og hið sama á við um aðra ræðumenn á fundinum.  Í samþykkt fundarins kemur skilmerkilega fram að höfuðandstæðingur VG í stjórnmálum sé Sjálfstæðisflokkurinn sem stendur hugmyndafræðilega fyrir frjálshyggju, misskiptingu, óréttlæti, ójafnrétti, hernaðarhyggju svo fátt eitt sé nefnt.  Það gerir Samfylkingin ekki þótt hún hafi álpast inn í ríkisstjórn sem í ríkum mæli byggir á stefnu Sjálfstæðisflokksins.  Þess vegna er Samfylkingin ekki höfuðandstæðingur VG og var þar af leiðandi ekkert sérstakt umtalsefni á flokksráðsfundinum.  Kannski það valdi einhverri gremju?

Steinunn eyðir síðan nokkru púðri á okkur Vinstri græn og talar um það sem kallar „átakakúltúr“ flokksins.  Einn ganginn enn leggst Samfylkingarfólk í þann leiðangur að kenna VG um að Reykjavíkurlistinn  leið undir lok.  Það voru aðrir flokkar en VG sem settu fram úrslitakosti og voru jafnvel á leið út úr samstarfinu eins og Steinunn Valdís veit mætavel.  En upphafið að endalokum R-listans verður þó fyrst og fremst skrifað á þáverandi formann Samfylkingarinnar eins og margoft hefur verið sagt og sýnt fram á.

Nú getur vel verið að Steinunn og félagar hennar í Samfylkingunni líti svo á að völd séu upphaf og endir alls og þess vegna hafi margra ára seta í stjórnarandstöðu verið farin að leika flokkinn svo illa að hann hafi verið auðveld bráð íhaldsins við stjórnarmyndun. Það er að minnsta kosti sú mynd sem margir hafa.  En Steinunn og fleiri forystumenn Samfylkingarinnar hafa nú valið að gera Vinstri græn að höfuðandstæðingi sínum og þannig snúið algerlega við blaðinu.  Samfylkingunni hefur nefnilega aldrei tekist að verða raunverulegur jafnaðarmannaflokkur í anda slíkra flokka á hinum Norðurlöndunum.  Arfleifðin frá viðreisnar- og Viðeyjarstjórnarárum Alþýðuflokksins hefur því miður orðið ofan á í störfum Samfylkingarinnar.  Geðvonskulegar athugasemdir um að Vinstri græn sé hvorki umhverfis- né kvenfrelsisflokkur eru einfaldlega hlálegar enda veit þjóðin betur.  Hitt er rétt hjá Steinunni að völd eru vandmeðfarin, en hlutverk stjórnarandstöðu er líka áhrifamikið og brýnt í hverju lýðræðissamfélagi, mun brýnna en völd valdanna vegna.  Steinunn ætti ekki að gera lítið úr því.

(Greinin birtist í Blaðinu 8. sept.)


Kjósum um Orkuveituna

Vinstri græn hafa opnað á það í tengslum við breytingu á rekstrarformi Orkuveitunnar, að íbúar sveitarfélaganna sem eiga Orkuveituna, kjósi um breytinguna ef niðurstaða meirihluta eigendanna verður að mæla með breytingu.  Þetta er mikilvægt innlegg í umræðuna um Orkuveituna, ekki síst um lýðræðislegar ákvarðanir og meðferð opinberra auðlinda.

Sannleikurinn er sá að spurningin um Orkuveitu Reykjavíkur snýst ekki bara um rekstrarform.  Hún snýst ekki síður um lýðræðislegt ferli og ákvarðanir og hún snýst um eignarhald á mikilvægum auðlindum.  Orkuveitan sér um rafmagn, heitt og kalt vatn og fráveitu á starfsvæði sínu.  Engum dylst að hér er um að ræða grundvallar samfélagsþjónustu sem ekki er hægt að líta á sem hverja aðra vöru á markaði.  Hlutafélagavæðing, og síðar einkavæðing sem hlýtur að fylgja í kjölfarið, mun þess vegna hafa í för með sér að auðlindir, eins og orkan í iðrum lands og kalda vatnið, verður afhent einkaaðilum.  Það verður miklu stærra samfélagsrán en þegar auðlindir sjávar voru gefnar.

Það er þýðingarmikið að svo afdráttarlausar ákvarðanir verði ekki teknar nema að undangenginni atkvæðagreiðslu meðal íbúa svo þeir geti sjálfir tekið af skarið um það, hvort þeir vilja einkavæða þessar mikilvægu auðlindir.  Með hlutafélagavæðingu verður eignarhaldi fyrirtækisins nefnilega skipt í hluta sem eðli máls samkvæmt ganga kaupum og sölum.  Það er ástæða þess að við Vinstri græn viljum halda starfsemi sem á að vera í samfélagslegri eign í samfélagslegu eignarformi.  Hlutafélagaformið er það ekki.


mbl.is Vilja að borgarbúar fái að kjósa um hlutafélagavæðingu OR
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jákvætt tákn Sólrúnar – en Geir snuprar

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra hefur ákveðið að kalla heim eina íslenska starfsmanninn í Írak.  Segja má að um sé að ræða eina áþreifanlega táknið um aðild Íslands að Íraksstríðinu og stuðning stjórnvalda við það.  Þótt þetta framlag sé lítið er það engu að síður táknrænt og að sama skapi er ákvörðun utanríkisráðherra táknræn.  Hún er engu að síður jákvæð og ber að fagna henni og ljóst að allir þeir sem voru andvígir ákvörðun hinnar vígfúsu ríkisstjórnar formanna Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, hljóta að styðja þessa ákvörðun Ingibjargar Sólrúnar.

 

Á sama tíma gerist það að forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins lýsir yfir því að hann hefði ekki tekið þessa ákvörðun og hann styðji hana ekki.  Með því gerir hann tvennt.  Hann snuprar utanríkisráðherra sinn og formann hins stjórnarflokksins, sem hlýtur að taka til varna og mótmæla, en um leið ítrekar hann (alla vega með táknrænum hætti) stuðning Sjálfstæðisflokksins við stríðsreksturinn í Írak.  Það er ef til vill ekki hvað síst alvarlegt og ámælisvert.

 

Við í Vinstri grænum lýstum þeirri skoðun strax í vor við myndun núverandi ríkisstjórnar, að það ylli verulegum vonbrigðum að ný ríkisstjórn, með þátttöku Samfylkingarinnar, skyldi ekki lýsa afdráttarlaust yfir því að Ísland teldi stríðsreksturinn í Írak rangan og ólögmætan og að Ísland væri ekki lengur í hópi hinna vígfúsu þjóða, sem svo hafa verið kallaðar.  Í stjórnarsáttmálanum er stríðið og afleiðingar þess einungis harmaðar og stjórnvöld hafa engan afsökun borið fram á stuðningi sínum.

En nú bítur forsætisráðherra höfuðið af skömminni með því í reynd að lýsa því að hann hefði kosið áframhaldandi beina þátttöku Íslands í Íraksstríðinu, jafnvel þótt hún væri aðeins táknræn.  Er hann nú þegar horfinn frá „harminum“ sem kveðið er á um í stjórnarsáttmálanum?  Og mun Samfylkingin una því?


Mun Grímseyjarferjan sigla?

Mikið hefur verið skrifað og sagt um málefni Grímseyjarferjunnar.  Ljóst er að margt hefur farið úrskeiðis í því ferli öllu.  Þá er alveg ljóst að meðferð fjármuna ríkisins er á skjön við lög og reglur og ætti að sjálfsögðu að kalla á að fjármálaráðherra axlaði ábyrgð á því.

Það er mat okkar í VG að yfirvöld samgöngumála hafi einfaldlega veðjað á rangan hest þegar ákveðið var að kaupa umrædda ferju og gera á henni umtalsverðar breytingar, jafnvel þannig að ráðleggingar skipaverkfræðinga voru að engu hafðar.  Svo er líka bersýnilegt að sjónarmið Grímeyinga sjálfra hafa ekki vegið þungt.  Alls er óvíst að skipið verði nokkru sinni haffært.  Þess vegna höfum við Jón Bjarnason, fulltrúi VG í fjárlaganefnd, og ég sem fulltrúi í samgöngunefnd, skrifað samgönguráðherra og farið fram á að skipuð verði óháð nefnd til að fara yfir málið frá grunni og meta hvort ekki sé jafnvel hagstæðast að selja skipið í núverandi ástandi og smíða nýja ferju sem betur þjónar samgöngum og flutningum milli lands og Grímseyjar.

Bréf okkar til samgönguráðherra er þannig:

Fulltrúar Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs í fjárlaganefnd og samgöngunefnd Alþingis fara hér með fram á að samgönguráðherra skipi nú þegar óháða nefnd með aðild heimamanna í Grímsey til að fara yfir þá kosti sem eru nú í stöðunni varðandi nýja Grímseyjarferju. Nefndin kanni sérstaklega hvort ekki sé hagkvæmara og öruggara og þjóni best framtíðarhagsmunum að endurbætur á þeirri ferju sem nú er unnið að verði stöðvuð og hún seld í því ástandi sem hún er nú. Í stað hennar verði þá samið um byggingu nýrrar ferju sem þjóni farþega- og vöruflutningum sem best á þessari leið. Ef höfð eru snör handtök og ákvörðun tekin fljótlega getur ný ferja, byggð frá grunni, verið tilbúin 2009 þegar undanþáguheimild núverandi ferju rennur út.  Samrit af þessu erindi verður sent fjármálaráðherra og formönnum fjárlaganefndar og samgöngunefndar Alþingis og óskað eftir stuðningi nefndanna við erindið.

Vonandi verður samgönguráðherra við þessu svo hægt sé að koma samgöngumálum Grímseyinga í viðunandi horf til frambúðar.


Ólæsi Staksteina

Staksteinar Morgunblaðsins er undarlegur penni.  Oftast er það hinn sami penni og párar forystugreinar blaðsins.  Það kemur nú æ betur í ljós að sá sem stýrir pennanum við Staksteina og leiðaraskrif Morgunblaðsins er ólæs á pólitík.  Öðruvísi mér áður brá!

Það hefur ekki farið fram hjá neinum sem á annað borð gluggar í Morgunblaðið endrum og eins að ritstjóri blaðsins er í sérstakri herferð gegn formanni Vinstri grænna, Steingrími J. Sigfússyni.  Hann hefur allt frá því vel fyrir kosningar lagt Steingrím í pólitískt einelti og gert allt sem í hans valdi hefur staðið til að koma höggi á hann.  Af einhverjum óútskýrðum ástæðum er það leiðangur ritstjóra Morgunblaðsins og skeytir hann þá hvorki um skömm né heiður til að ná því markmiði sínu.

Einkum hefur ritstjórinn látið það fara í taugarnar á sér að VG skuli ekki vera í ríkisstjórn og kennir hann þar formanni VG um og telur hann hafa klúðrað því máli.  Nú getur vel verið að það hafi verið draumur ritstjóra Mbl að Vinstri græn færu í ríkisstjórn og sú staðreynd að svo varð ekki, skýri ergelsi hans í því efni.  Það er þó sérstakt þegar haft er í huga að Viðreisnarstjórnarmynstur hefur löngum verið þeim Morgunblaðsmönnum kært, og nú hafa þeir fengið það.  Staðreyndin er sú, að miðað við úrslit kosninganna, var varla við því að búast að önnur ríkisstjórn tæki við völdum en sú sem nú vermir stólana.  Það er einfaldlega vegna þess að svo margir og áhrifaríkir aðilar í bæði Sjálfstæðisflokki og Samfylkingu höfðu unnið að því bæði leynt og ljóst um margra vikna skeið fyrir kosningar.  Einkum voru það frjálshyggju- og fjármálamenn úr báðum flokkum sem þetta vildu og Geir H. Haarde var settur upp við vegg.  Ingibjörg Sólrún hefur í nýlegu blaðaviðtali gefið sterklega í skyn að hún hafi aldrei ætlað sér að vinna með VG og Framsókn.  Framganga VG og einstakra forystumanna þar á bæ fékk engu um þetta ráðið.  Er Staksteinahöfundur ólæs á þessa stöðu?

Í aðdraganda kosninga skrifaði Mbl margoft um það að hið nýja framboð Íslandshreyfingarinnar myndi verða VG skeinuhætt og taka fylgi frá flokknum.  Staðreyndin er sú að Í-listinn fékk milli 3 og 4% og flest bendir til að þau hafi að mestu komið frá kjósendum sem ella hefðu kosið VG.  En nú talar ritstjóri Mbl bara um klúður forystu VG en virðist algerlega horfa framhjá áhrifaþáttum sem hann sjálfur vakti máls á fyrir kosningar.  Það hentar bersýnilega ekki þeim sýndarveruleika sem ritstjórinn er að reyna að framkalla.

Nú um helgina var haldinn flokksráðsfundur VG á Flúðum.  Ritstjóri Morgunblaðsins gerir fundinn að umtalsefni og gagnrýnir þar m.a. formanninn fyrir að hafa ekki skynjað misskiptinguna í samfélaginu og skilað auðu í því máli.  Vísar hann m.a. til ræðu formannsins máli sínu til stuðnings.  Nú þykist ég vita að Morgunblaðinu hafi verið send ræðan og kemur þá berlega í ljós ólæsi ritstjórans.  Sannleikurinn er sá að formaðurinn talaði einmitt um þetta atriði og minnti á mikilvægi þess að VG stæði vörð um velferðarkerfið.  Hvaða ræðu var ritstjóri Morgunblaðsins að lesa?  Úr því að Mbl lætur sér svona annt um innri málefni VG, hví var þá blaðið ekki með útsendara sinn á staðnum, eins og t.d. útvarpið?  Þá hefði blaðið getað skynjað beint stemninguna á fundinum og heyrt það sem sagt var.  En kannski var ritstjórinn einfaldlega búinn að ákveða fyrir löngu hvað hann myndi skrifa um fundinn og skeytti því engu hvað þar var sagt og samþykkt.

Í forystugrein fabúlerar ritstjórinn um að formaður VG muni hætta fyrr en síðar og almenn samstaða sé um arftaka hans.  Hvaða tilgangi þjóna þessar vangaveltur?  Augljósa ekki þeim að gagnast draumakandidat ritstjórans því í VG verður það varla talið mönnum til tekna að vera blessaðir í bak og fyrir af Morgunblaðinu.  Er ritstjórinn ólæs á það?  Eða er tilgangur hans etv. að hampa einum einstaklingi sérstaklega til þess að geta síðar ráðist á þann sama einstakling af sama offorsi og blaðið hefur gert gagnvart núverandi formanni?

Í mínum huga er vegferð ritstjóra Mbl augljós.  Hann vill helst koma illu til leiðar innan VG, skapa togsteitu og tortryggni og reyna eftir fremsta megni að veikja helstu forystumenn flokksins.  Það telur hann sig best gera með því að ráðast hatrammlega að Steingrími og hampa Svandísi - amk. í dag.  Sú afstaða getur hæglega snúist á morgun.  En flokksmenn VG skynja þetta.  Og ef Mbl hefði verið á vettvangi á flokksráðsfundinum um helgina hefði það líka áttað sig á þessu.  Þar var gríðarlega góð stemning, eindrægni og baráttuandi.  Milli 30 og 40 félagar úr forystusveit flokksins vítt og breitt um landið héldu ræður á fundinum og fékk formaður flokksins og aðrir í fremstu röð einróma stuðning og hvatningu.  Þar var engan bilbug að finna.  En ritstjóri Morgunblaðsins hefði orðið vonsvikinn.  Þess vegna vildi hann ekki að neinn af blaðinu fylgdist með fundinum og flytti fréttir af því sem þar var raunverulega sagt og gert.

Staksteinahöfundi (sem ég tel öllu jöfnu vera ritstjóra Morgunblaðisins) er farið að fatast flugið í pólitískri átthagafræði.  Hann er einfaldlega orðinn ólæs á stöðu mála.  Hann hefur ákveðið að ráðast að VG og formanninum sérstaklega og þá má sannleikurinn sín lítils.  Svo virðist hann nú einnig ætla að taka Framsóknarflokkinn sömu tökum.  Slíkan leiðangur lagði hann aldrei í gagnvart Halldóri Ásgrímssyni enda þjónaði það þá ekki pólitískum markmiðum blaðsins.  Og Samfylkingin er nú komin í hlé sem samstarfsaðili Sjálfstæðisflokksins, jafnvel þótt flokkurinn hafi nú formlega gefist upp á að sinna hlutverki sínu sem forystuafl og höfuðandstæðingur Sjálfstæðisflokksins í íslenskum stjórnmálum.  Sjálfstæðisflokkinn þarf varla að nefna í þessu samhengi, Morgunblaðið stendur vörð um sitt fólk. 

Svona getur farið fyrir hinu mætasta fólki.  Þegar gremjan tekur völd helgar tilgangurinn meðalið.  Þá er illa komið, en líklega er ritstjórinn einfaldlega að ergja sig yfir því að hann á skammt eftir á ritstjórastóli.  Hvort eitthvað betra tekur við er þó engan veginn víst.

En það sem skiptir öllu fyrir okkur í VG er einfaldlega sú staðreynd að Morgunblaðið stýrir engu í okkar herbúðum, flokksmenn láta ekki ögranir blaðsins slá sig út af laginu.  Við munum halda okkar striki og takast á við þau mikilvægu pólitísku verkefni sem bíða, af nógu er að taka, og nýta til þess þann gríðarlega aukna styrk og stuðning sem við fengum í kosningunum í vor og látum það ekki trufla að sá kosningasigur sé Morgunblaðinu hulinn.  Það er vandamál blaðsins en ekki Vinstri grænna.

 

Einkavæðing Orkuveitunnar yfirvofandi

Meirihluti borgarstjórnar hyggst óska eftir því að iðnaðarráðherra beiti sér fyrir því að lögum um Orkuveitu Reykjavíkur verði breytt í hlutafélag.  Eðlilegri beiðni minnihlutans í stjórn Orkuveitunnar um að fresta málinu var hafnað af meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks og sýnir það best einbeittan ásetning flokkanna um að einkavæða fyrirtækið.

Borgarstjórinn í Reykjavík, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, hefur margsinnis lýst því yfir í borgarstjórn og á öðrum opinberum vettvangi að ekki standi til að einkavæða Orkuveitu Reykjavíkur.  Breyting á opinberu fyrirtæki í hlutafélag hefur þó ævinlega verið undanfari einkavæðingar.  Fulltrúar Vinstri grænna, Samfylkingar og F-listans í borgarstjórn hafa á hinn bóginn gefið lítið fyrir yfirlýsingar borgarstjóra og haldið því fram að ásetningur meirihlutans sé að einkavæða fyrirtækið.

Hvað rekur meirihlutann í borgarstjórn til að fara fram með þessum hætti?  Hefur borgarstjóri tryggingu fyrir því að iðnaðarráðherra muni flytja frumvarp um breytingu á rekstrarformi Orkuveitunnar?  Því verður ekki trúað.  Ljóst er því að borgarstjóri er að taka ótrúlega pólitíska áhættu í málinu sem mun einungis verða til þess að veikja ennfrekar stöðu hans.

Fulltrúar Vinstri grænna og Samfylkingar hafa ákveðið að fara fram á umræðu um málið á næsta fundi borgarstjórnar sem fram fer nk. þriðjudag.  Meirihlutinn í borgarstjórn virðist ætla að keyra þetta mál í ágreiningsferli sem fyrst og fremst mun skaða Orkuveituna, og að sjálfsögðu pólitíska stöðu oddvita meirihlutans.  Það er hans val.


Áframhaldandi hernaðarstefna á "vitrænum forsendum"

Helsti talsmaður Samfylkingarinnar í utanríkismálum, varaformaður utanríkismálanefndar Alþingis, ritar grein í Morgunblaðið í dag þar sem hann útskýrir stefnubreytingu flokks síns í utanríkismálum.  Þar má skilja, að nú þegar flokkurinn er kominn í ríkisstjórn verði að taka á utanríkis- og varnarmálum á "vitrænum forsendum". 

Og hverjar eru hinar "vitrænu forsendur"?  Jú, það er óbreytt hernaðarstefna, áframhaldandi stuðningur íslenskra stjórnvalda við innrásarstríð í Írak, hernaðarbrölt í Afganistan og þannig má vafalaust áfram telja.  Hefur hann uppi allmörg orð um það að friðarstefna Vinstri grænna sé ekki háð á "vitrænum forsendum" - og hvað er þá orðið að málflutningi og baráttu margra góðra hernaðarandstæðinga og friðarsinna sem störfuðu í Alþýðubandalaginu og Kvennalistanum á sinni tíð?  Hvert hafa örlögin leitt það ágæta fólk í sameiningunni við Alþýðuflokkinn?

Blasir ekki við að það er gamla heimsvaldastefnan, hernaðarhyggjan og undirgefni við Bandaríkjastjórn, sem var aðalsmerki Alþýðuflokksins, sem hefur orðið ofan á innan Samfylkingarinnar?  Og þá stefnu er talsmaðurinn að verja í Morgunblaðsgreininni.  Sú stefna sem flokkurinn fylgir nú, var að vísu ekki svo einbeitt og augljós í aðdraganda kosninga og meðan flokkurinn var í stjórnarandstöðu.  Háværar kröfur forystumanna flokksins um uppgjör vegna Írak eru að engu orðnar og hafa dáið drottni sínum.

Það er hins vegar vita gagnslaus málsvörn hjá nafna mínum að ætla að útskýra stefnubreytingu Samfylkingarinnar með því að draga fram Norðmenn og Dani sem skálkaskjól.  Það hefur engin stefnubreyting orðið hjá íslenskum stjórnvöldum við ríkisstjórnarskiptin, eins og kjósendum var lofað að yrði ef Samfylkingin kæmist í ríkisstjórn, og það leyfum við okkur í VG að gagnrýna.  Stjórnarflokkur verður að þola það að vera minntur á kosningaloforðin og þegar þau eru að engu höfð er ekki við neinn að sakast nema hann sjálfan.  En sannleikanum verður hver sárreiðastur, eins og sést glöggt á málsvörn varaformanns utanríkismálanefndar í Morgunblaðinu í dag.


„Þetta er herinn sem byssustingjum beinir að….

… börnum og konum og vopnlausum lýð“ segir í þekktu ljóði Kristjáns Guðlaugssonar. Þar yrkir hann um bandaríska herinn á Miðnesheiði, og margir hernaðarandstæðingar hafa í gegnum árin tekið undir og borið fram kröfuna um herlaust land, afvopnun og frið. Sumir þeirra eru nú, illu heilli, í herbúðum stjórnarliða og hljóta að vera hnípnir mjög þegar forysta þeirra býður velkominn hingað heim innrásarherinn frá Írak.

Því það er einmitt það sem er að gerast. Hingað í heræfingarleiðangur, svokallaðan Norðurvíking, er boðið þeim sama her og stendur í ólögmætum stríðsrekstri í Írak og sem kostað hefur borgarastyrjöld og ómældan fjölda fórnarlamba, ekki síst meðal óbreyttra borgara. Sú ríkisstjórn sem nú situr að völdum harmaði af stórlyndi sínu stríðsreksturinn í Írak, rétt eins og einhverjir væru bættir með því. En forysta íslenskra jafnaðarmanna auðmýkti sjálfa sig með því að setjast í ríkisstjórn án þess að krefjast þess að stjórnvöld bæðust afsökunar á athæfi sínu og skilmálalausum stuðningi við ólögmætar aðgerðir Bandaríkjastjórnar og fleiri ríkja í Írak. Voru stóryrðin og svardagarnir fyrir kosningar þá eingöngu sjónhverfingar til þess eins að ganga í augun á kjósendum? Sjaldan hefur eins lítið lagst fyrir nokkurn kappa og forystu Samfylkingarinnar þar sem hún reynir nú að fóta sig á svelli utanríkis- og varnarmála.

En ríkisstjórn Íslands telur rétt að halda áfram á sömu braut hernaðarstefnu eins og flestar fyrri ríkisstjórnir, enda stýrir Sjálfstæðisflokkurinn för einn ganginn enn. Sem fyrr velur samstarfsflokkur hans að beygja sig í duftið og fylgja leiðsögn hægri aflanna, hernaðarhyggju og undirlægjuháttar gagnvart Bandaríkjunum. Verður það ef til vill erindi okkar í Miðausturlöndum og í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna? Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar býður velkominn þann sama her og réðst með ólögmætum hætti inn í Írak, þann sama her og „beinir byssustingjum að börnum og konum og vopnlausum lýð“ í þeirri barnslegu trú að slíkur her geti reynst þjóðinni vörn á válegri tíð. Væri ef til vill ráð að spyrja almenning í Írak um varnarmátt þeirra vígtóla sem orðið hafa þúsundum að fjörtjóni þar og svo miklu víðar.

Þegar bandaríski herinn hvarf af landi brott bárum við mörg í brjósti þá von að orð Jakobínu skáldkonu Sigurðardóttur yrðu að áhrínsorðum og að börn okkar gætu „án kinnroða nefnt okkar kynslóð og kletta og heiðar og sand“. En þvert á móti veldur framganga íslenskra ráðamanna nú því að þau verða hugstæðari orðin Jakobínu úr sama ljóði: „En smánin í blóði mér brennur. Þú veist hvað sá heitir sem bregst sínu landi og þjóð.“ Vonandi sér stjórnarforystan að sér áður en svo illa er komið.

(Greinin birtist í Morgunblaðinu sunnudaginn 19. ágúst).


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband