2.8.2007 | 23:10
Fjármálaráðherra verður ekki tekinn alvarlega
Árni Mathiesen fjármálaráðherra lýsir því yfir í fjölmiðlum í dag að ekki komi til álita að sveitarfélögin fái hlutdeild í fjármagnstekjuskatti. Þessi yfirlýsing vekur furðu, ekki síst í ljósi þess að sami fjármálaráðherra var ekki þessarar skoðunar fyrir kosningar a.m.k. ekki opinberlega.
Sveitarfélögin hafa um langt skeið lagt áherslu á að fá hlutdeild í fjármagnstekjuskatti. Ástæðan er einföld og öllum skiljanleg sem nenna að setja sig inn í málið. Þeim hefur fjölgað á undanförnum árum sem greiða lítinn sem engan tekjuskatt en hafa mestan hluta tekna sinna af fjármagni greiða þá fjármagnstekjuskatt til ríkisins en lítið sem ekkert útsvar til sveitarfélaga. Engu að síður nýta þeir hinir sömu sér þjónustu sveitarfélaga, eiga t.d. börn í grunnskólum og leikskólum, aka á götum sveitarfélaganna, njóta menningar sem styrkt er af sveitarfélögunum o.s.frv. Jafnvel fjármagnstekjugreiðendur nýta velferðarþjónustuna og holræsakerfið, en öll þessi starfsemi sveitarfélaganna er að miklu eða einhverju leyti fjármögnuð með útsvarstekjum. Af hverju eiga bara þeir íbúar sveitarfélaganna sem hafa almennar launatekjur að greiða fyrir þessa þjónustu en ekki þeir sem hafa tekjur af fjármagni? Hvaða sanngirni er í því?
Þessi sjónarmið voru reifuð á árlegum samráðsfundi sveitarfélaganna með fjármálaráðherra og félagsmálaráðherra snemma á þessu ári. Þann fund sátu sveitarstjórnarmenn úr öllum flokkum sem eiga fulltrúa í stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga, m.a. sat ég fundinn. Þótt fjármálaráðherra hafi ekki lýst sig sammála þessum sjónarmiðum, þá var af og frá að hann hafnaði því eða afskrifaði, en þá voru reyndar kosningar í aðsigi og það var etv. ástæða þess að ráðherrann vildi ekki ögra sveitarstjórnarfólki. Yfirlýsing ráðherrans nú er því í mótsögn við afstöðu hans á samráðsfundi með sveitarstjórnarfólki fyrir fáum mánuðum og varla hægt að taka hann alvarlega.
Og fyrirsláttur hans um að það myndi mismuna sveitarfélögum ef þau fengju hlutdeild í fjármagnstekjuskatti er aumkunarverður enda er tiltölulega einfalt að nýta Jöfnunarsjóð sveitarfélaga til að jafna tekjur milli sveitarfélaga eins og nú þegar er gert. Það er staðreynd að sveitarfélögin hafa orðið af verulegum tekjum vegna þess að æ fleiri landsmenn flytja skattgreiðslur úr tekjuskatti og útsvari yfir í fjármagnstekjuskatt. Ríkissjóður hefur notið góðs af þessu og fjármálaráðherra vill bersýnilega halda sínum hlut í því efni. Sveitarfélögin þurfa hins vegar á frekari tekjustofnum að halda til að bæta fyrir þá skerðingu sem þau hafa orðið fyrir, og til að gæta allrar sanngirni í skattgreiðslum milli íbúa. Fjármálaráðherra mun verða haldið við efnið í þessu máli á næstu mánuðum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.7.2007 | 18:01
Næst besti kosturinn á ballinu!
"Bakkafjöruhöfn er næst besti kosturinn en það er orðið vinsælt hjá ráðamönnum þjóðarinnar að velja næst besta kostinn á ballinu." Þetta eru ummæli stjórnarþingmannsins Árna Johnsen í kjölfar ákvörðunar ríkisstjórnarinnar um að ýta öllum frekari vangaveltum um jarðgöng til Vestmannaeyja út af borðinu.
Án þess að fara meira út í umræðu um Vestmannaeyjagöngin þá vekja þessi ummæli Árna Johnsen nokkra athygli. Hér er á ferðinni stjórnarþingmaður, annar maður á lista Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi sem vann þar góðan sigur í prófkjöri flokksins. Það er ekki hægt að skilja ummæli hans öðruvísi en að hann sé að vísa til ákvörðunar formanns flokksins að mynda ríkisstjórn með Samfylkingunni. Í augum Árna var Samfylkingin alls ekki sætasta stelpan á ballinu svo vitnað sé í fræg ummæli forsætisráðherra, en hún gerir augljóslega sama gagn! Hvernig ætli Samfylkingarfólki þyki þessi sending frá samherja í stjórnarliðinu?
![]() |
Engin jarðgöng til Vestmannaeyja en ferðum Herjólfs fjölgað |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
15.7.2007 | 17:33
Samstarfsmaður fellur frá
Einar Oddur Kristjánsson, alþingismaður, er látinn. Á björtum sumardegi í fjallgöngu á heimaslóðum kom kallið. Það minnir okkur svo óþyrmilega á að enginn veit sína ævina fyrr en öll er.
Leiðir okkar Einars Odds lágu aðeins skamma hríð saman á Alþingi, þar sem ég settist í fyrsta skipti nú í vor að loknum þingkosningum, en Einar Oddur hafði þá setið þrjú kjörtímabil á þingi. Raunar lágu leiðir okkar fyrst saman fyrir allmörgum árum, þegar hann sem nefndarmaður í sjávarútvegsnefnd kom og heimsótti Reykjavíkurhöfn, þar sem ég var þá stjórnarformaður.
Ég hafði fyrir löngu, eins og þjóðin öll, séð að þar fór maður sem var fylginn sér, sjálfum sér samkvæmur, skoðanafastur og lét ekki bugast eða bogna svo auðveldlega. Hvað sem líður ágreiningi um grundvallarskoðanir í stjórnmálum, verður Einar Oddur ávallt virtur fyrir störf sín í atvinnulífi og á þingi. Hann var litríkur stjórnmálamaður og hafði góða kímnigáfu og þannig munu samstarfsmenn hans minnast hans.
Aðstandendum Einars Odds votta ég samúð mína.
![]() |
Einar Oddur Kristjánsson látinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
1.7.2007 | 09:41
Er einkavæðing vatnsveitunnar ekki ólögmæt?
Einkavæðing orkugeirans er hafin fyrir tilstilli stjórnvalda. Þar á meðal er vatnið. Engu að síður eru í gildi í landinu lög sem kveða á um að vatnsveitur megi ekki vera í eigu einkaaðila. Ekki enn að minnsta kosti. Hvernig stendur þá á því að einkavæðing vatnsveitna er látin óáreitt?
Og hvar eru fjölmiðlarnir? Þeirra hlutverk er mikilvægt í hverju lýðræðissamfélagi. Hvers vegna hamast þeir ekki í málinu? Ná eigna- og hagsmunatengslin e.t.v. svo langt inn í íslenskan fjölmiðlaheim að þar er ekki amast við neinu sem þjónar hagsmunum fjármagns og valds?
Í gildandi lögum um vatnsveitur segir m.a.:
4. gr. Heimild til ráðstöfunar á einkarétti sveitarfélags.Sveitarfélag hefur einkarétt á rekstri vatnsveitu og sölu vatns sem hún getur fullnægt innan staðarmarka sveitarfélagsins, sbr. þó ákvæði 3. og 4. mgr. 1. gr. Sveitarstjórn er heimilt að fela stofnun eða félagi, sem að meiri hluta er í eigu ríkis og/eða sveitarfélaga, skyldur sínar og réttindi samkvæmt þessum lögum.
30.6.2007 | 14:58
Einkavæðing orkugeirans hafin - með vitund og vilja stjórnvalda?
Það er bersýnilegt að ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að selja hlut ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja á eftir að draga dilk á eftir sér. Einkavæðing orkugeirans er hafin og slagurinn getur orðið mjög harður.
Þrátt fyrir svardaga forystumanna ríkisstjórnarinnar um að ekki standi til að einkavæða orkugeirann, þá er hið gagnstæða að gerast. Fyrri ríkisstjórn ákvað að selja hlut ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja og var m.a. opinberum aðilum bannað að bjóða í umræddan hlut. Hann skyldi aðeins falur einkaaðilum. Getur einkavæðingin verið meðvitaðri? Nú heldur einkafyrirtækið sem keypti hlut ríkisins áfram og vill kaupa hlut sveitarfélaga. Og býður vel. Sveitarfélögin láta fallerast og selja hlut sinn. Slagur hefst milli Hafnarfjarðar og Reykjanesbæjar en bæði þessi sveitarfélög vilja neyta forkaupsréttar síns og eignast þann hlut sem ríkið átti áður og einnig hlut þeirra sveitarfélaga sem ákváðu að selja Green Energy sinn hlut.
Það er grátlegt að fylgjast með þessum atgangi öllum. Og það sem verst er: það eru íbúarnir sem munu blæða fyrir einkavæðingu orkugeirans með hærra orkuverði og óöryggi í orkuafhendingu eins og gerst hefur víða um heim þar sem orkugeirinn hefur verið einkavæddur.
Ef ríkisstjórnin meinar eitthvað raunverulega með því að ekki eigi að einkavæða orkugeirann, verður hún að grípa í taumana. Hún verður að beita sér og tryggja að salan á hlut ríkisins gangi til baka eða að aðrir opinberir aðilar geti eignast hlutinn. Það er brýnt að standa vörð um samfélagslega eign orkufyrirtækjanna og nú ríður á að stjórnin sýni að hún meinar eitthvað með yfirlýsingum um að orkugeirinn verði áfram í opinberri eigu. Að öðrum kosti verður ekki dregin önnur ályktun en sú að einkavæðing orkufyritækja sé með vitund og vilja ríkisstjórnarinnar.
![]() |
Óska eftir aukafundi í bæjarstjórn vegna málefna Hitaveitu Suðurnesja |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
22.6.2007 | 22:58
Hótanir um ofbeldi í vöggu lýðræðis!!!
Evrópusambandið telur sig vöggu og verndara lýðræðis. Þeir sem hvað harðast eru talsmenn sambandsins segja hið sama. Gagnrýnendur Evrópusambandsins hafa á hinn bóginn hamrað á því að lýðræði sé fyrir borð borið og þátttaka almennings í störfum og stefnumótun sé hverfandi. Nú hafa leiðtogar ESB-ríkjanna setið á rökstólum og rætt um framtíðina. Efasemdum Pólverja og sum part Breta er mætt með hótunum og ofbeldi. Getur þessi "vagga lýðræðis" staðið undir nafni?
Það er vissulega álitamál. Kröfur stærstu ríkjanna, einkum Þýskalands, eru að völd og áhrif þeirra verði stórlega aukin en að sama skapi verði dregið úr áhrifum smáríkja. Pólland, sem telur um 40 milljónir íbúa, telur sig verða fyrir barðinu á þessum breytingartillögum. Hvað mega enn fámennari ríki þá segja?
Innan Evrópusambandsins hefur verið rætt um "lýðræðishalla" og mikilvægi þess að nálgast hinn almenna borgara, grasrótina. En það er eins og stjórnendum sambandsins sé fyrirmunað að vinna í þá áttina. Tillögur um nýja stjórnarskrá líta sum part vel út á blaði, talað um valddreifingu og aukin áhrif hins almenna borgara, en þegar á hólminn er komið snýst þetta samt allt um valdajafnvægi stóru ríkjanna, einkum Þýskalands og Frakklands, Bretland og Ítalía eru svo í næsta nágrenni.
Og nú, þegar Pólverjar malda í móinn er haft í hótunum við þá. Aðalframkvæmdastjórinn, Barrosso, segir að þeir muni hafa verra af og kanslari Þýskalands, frú Merkel, sem er í forsæti sambandsins um þessar mundir, virðist ætla að sniðganga Pólverjana. Hvernig hún mun akta gagnvart Bretum á eftir að koma í ljós.
Evrópusambandið er í öngstræti. Það minnir helst á sovéskt ríkisbákn sem lifir orðið algerlega sjálfstæði lífi, lýtur eigin lögmálum og snýst um allt annað en hagsmuni og kjör fólksins sem byggir löndin innan sambandsins. Hverjir vilja fórna sjálfstæði smáþjóðar á altari þessa sundurlynda og hrokafulla valdabandalags?
![]() |
Þjóðverjar vilja nýjan ESB-sáttmála, jafnvel án þátttöku Póllands |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
22.6.2007 | 11:28
Í takt við stefnu VG
Sjónarmið iðnaðarráðherra um að færa beri Hafrannsóknastofnun út úr sjávarútvegsráðuneyti, er ekki nýtt af nálinni. Vinstri græn hafa í hugmyndum sínum um eflingu umhverfisráðuneytis í umhverfis- og auðlindaráðuneyti, lagt þetta til. Fleiri hafa í gegnum árin viðrað sömu sjónarmið.
Það er athyglisvert að iðnaðarráðherra skuli nú koma þessu viðhorfi á framfæri skömmu eftir að nokkuð ítarlega var rætt um málefni stjórnarráðsins á sumarþingi sem er nýlega lokið. Ríkisstjórnin, sem iðnaðarráðherra situr jú í, lagði þar fram frumvarp um breytingu á stjórnarráðslögum. Þar var hvergi vikið að þessari hugsun, en hún bar þó á góma í umræðum um málið. Í umræðum um frumvarp stjórnarinnar sagði ég m.a.:
Þarna mætti t.d. taka auðlindanýtinguna almennt. Við gætum verið að tala um málefni sjávarútvegsins. Tökum t.d. Hafrannsóknastofnun sem oft hefur verið rætt um að ætti gjarnan heima undir umhverfisráðuneyti enda þótt stjórn fiskveiðanna, ákvörðun um það hvernig aflaheimildum er úthlutað o.s.frv. sé á hendi atvinnuvegaráðuneytis. Þannig eru orkumálin til að mynda. Mörg rök eru fyrir því að orkumálin séu að hluta til umhverfismál og að hluta til atvinnugreinin.
Þessi sjónarmið mín og okkar í VG ríma ágætlega við þau sem iðnaðarráðherra er að segja. En þau rök sem ráðherrann notar eiga ekki bara við um Hafrannsóknastofnun. Þau eiga í hæsta máta einnig við um orkumálin. Því er fróðlegt að vita hvort iðnaðarráðherra sé sjálfum sér samkvæmur og tali næst fyrir því að orkurannsóknir og auðlindanýtingin í orkumálum fari yfir í umhverfisráðuneyti. Verður fróðlegt að fylgjast með vinnu ríkisstjórnarinnar í þessu efni á næstunni.
![]() |
Össur vill færa Hafró frá sjávarútvegsráðuneytinu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
17.6.2007 | 18:39
Verðskuldaður heiður
Ragnar Bjarnason söngvari var í dag útnefndur borgarlistamaður Reykjavíkur árið 2007. Ragnar er vel að þessum heiðri kominn, hann hefur í meira en hálfa öld glatt unga sem aldna með list sinni.
Ég er stoltur af því að hafa tekið þátt í ákvörðuninni um borgarlistamann sem fulltrúi í menningar- og ferðamálaráði Reykjavíkur, en ráðið ákveður hver verður fyrir valinu ár hvert. Ekki voru allir fulltrúar í ráðinu á sama máli en það er önnur saga. Ég óska Ragnari til hamingju með útnefninguna.
![]() |
Raggi Bjarna er borgarlistamaður Reykjavíkur 2007 |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
13.6.2007 | 09:30
Laumufarþegi í lagafrumvarpi
Ríkisstjórnin hefur lagt fram frumvarp til breytinga á stjórnarráðslögunum. Frumvarpið lætur lítið yfir sér og virðist fyrsta kastið fremur saklaust. Á yfirborðinu snýst það um að sameina sjávarútvegsráðuneytið og landbúnaðarráðuneytið annars vegar og hins vegar að flytja tryggingamálefni úr heilbrigðisráðuneytinu og í félagsmálaráðuneytið.
Er ástæða til að hafa mörg orð um þessar breytingar? Í sjálfu sér ekki. Nema fyrir þá sök að ríkisstjórnarflokkarnir hafa líka látið í veðri vaka að fyrirhugaðir séu viðamiklir flutningar á málaflokkum milli ráðuneyta, fyrir utan það sem lagafrumvarpið gerir ráð fyrir. Má þar nefna flutningur sveitarstjórnarmála úr félagsmálaráðuneyti í samgönguráðuneyti, ferðamála úr samgönguráðuneyti í iðnaðarráðuneyti, matvælamála úr umhverfisráðuneyti í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti og jafnvel flutnignur Íbúðalánasjóðs úr félagsmálaráðuneyti í fjármálaráðuneyti. Og vafalaust ýmislegt fleira.
Nei, það sem er sérlega athugavert við lagafrumvarp ríkisstjórnarinnar er að þar leynist laumufarþegi sem bersýnilegt er að stjórnin ætlað að setja inn í lög þótt það hafi ekkert, nákvæmlega ekkert, með breytingarnar á ráðuneytunum að gera. En þær breytingar eru sagðar meginefni og tilgangur frumvarpsins. Það sem mestu máli skiptir er að lagt er til að draga mjög úr réttindum starfsmanna, m.a. með því að fella niður skyldu til að auglýsa laus störf í stjórnarráðinu. Auglýsingaskyldan gegnir veigamiklu hlutverki, annars vegar til að tryggja jöfn tækifæri allra til starfa og starfsframa og hins vegar til að tryggja að hæfasti einstaklingurinn sem völ er á hverju sinni sé ráðinn til starfa. Augljóst er að ríkisstjórnin vill kasta þessum markmiðum fyrir róða úr því hún sækir það svo stíft að fá fram þessar lagabreytingar.
Í umsögn BSRB við frumvarpinu er þessum breytingum mótmælt. Enn fremur bendir BSRB í umsögn sinni á að breytingin geti haft áhrif á aðkomu og möguleika kvenna á viðkomandi störfum. Bandalagið bendir jafnframt á að með þessari breytingu er verið að stíga stórt skref aftur á bak og að auki fyrsta skrefið í þá átt að afnema auglýsingaskyldu á störfum hjá hinu opinbera. Getur verið að þetta sé ásetningur ríkisstjórnarinnar. Ríkisstjórnar með aðild jafnaðarmanna? Því verður ekki trúað fyrirfram.
Í stefnuyfirlýsinguna ríkisstjórnarinnar er m.a. talað um gott samstarf við stjórnarandstöðuna og í ræðu sinni í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra lagði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir formaður Samfylkingarinnar áherslu á að farnar væru leiðir sátta og samræðu. Nú getur reynt á þau dýru orð.
Það er sérkennilegt, að þegar ríkisstjórnin leggur fram lagafrumvarp, sem á yfirborðinu er einungis ætlað að gera tiltölulega litlar efnisbreytingar á stjórnarráðinu, skuli hún um leið velja að lauma inn í það frumvarp ákvæðum sem rýra réttarstöðu starfsmanna og hafa ekkert með meint meginefni frumvarpsins að gera. Og hyggst svo bíta höfuðið af skömminni með því að skella skollaeyrum við viðvörunarorðum og andmælum samtaka starfsmanna og stjórnarandstöðunnar. Hver er tilgangurinn með þessum vinnubrögðum?
(Greinin birtist í Morgunblaðinu 12. júní 2007)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
10.6.2007 | 21:51
Frábær menningarhátíð í Munaðarnesi
Í gær skrapp ég í Munaðarnes á menningarhátíð BSRB. Við Ragnar sonur minn fórum saman, hann varð svo eftir í Borgarfirðinum.
Menningarhátíðin var fín, Steinunn Sigurðardóttir rithöfundur las úr verkum sínum, stöllurnar Auður Hafsteinsdóttir, Bryndís Halla Gylfadóttir og Steinunn Birna Ragnarsdóttir léku nokkur lög og síðan var opnuð myndlistarsýning Guðbjargar Hákonardóttur, Guggu. Umfjöllun um hátíðina má lesa í Skessuhorninu.
Í máli Ögmundar Jónassonar, formanns BSRB, kom fram að menningarhátíð í Munaðarnesi á sér 20 ára langa sögu. Þetta er vissulega lofsvert framtak sem auðgar mannlíf og samfélag. Húsfyllir var í þjónustumiðstöðinni og listafólkið fékk allt prýðilegar viðtökur.
BSRB fær hrós fyrir frábæra stund í Munaðarnesi.