6.6.2007 | 23:18
Eigum við að hætta í fótbolta?
Þessi leikur gegn Svíum var náttúrulega ekki góður og kemur í kjölfar dapurlegrar frammistöðu gegn Liechtenstein.
En við bjuggumst nú kannski ekki beint við að bera sigur úr býtum í leiknum í kvöld. Hins vegar hefði sigur um helgina verið kærkominn. Spurningin er hvort við eigum að vera að basla þetta, það er bersýnilega mikill skortur á góðum fótboltamönnum, þjálfarinn (alveg sama hvað hann heitir) hefur líklega ekki úr svo miklu að moða.
Eins og það er mikil skemmtun að horfa á góðan fótboltaleik, er það sárgremjulegt að fylgjast með íslenska liðinu tapa svona illa eins og í kvöld.
![]() |
Íslendingar sáu aldrei til sólar í fimm marka tapleik |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
6.6.2007 | 09:49
Og hvað segir heilög Jóhanna?
Hún var ekki smá launahækkunin sem bankaráð Seðlabankans ákvað að skaffa bankastjórunum. Litlar 200 þúsund krónur á mánuði! Fulltrúar allra flokka samþykktu hækkunina, nema fulltrúi Vinstri grænna, Ragnar Arnalds.
Ekki veit ég í hvaða veröld þeir lifa sem ráða þessum málum. Þeir virðast vera gersamlega úr öllum tengslum við raunveruleikann í íslensku samfélagi. Á undanförnum árum hefur Jóhanna Sigurðardóttir verið ötull talsmaður lágtekjufólks í landinu og gagnrýnt harkalega sukk og ósvinnu í fjármálageiranum. Nú er Jóhanna enn á ný orðin ráðherra vinnumarkaðsmála, launa- og kjaramála. Hvernig bregst hún við þessum tíðindum?
Telur heilög Jóhanna ekki tilefni til að gera athugasemdir við þessa ákvörðun?
![]() |
Samþykkt að hækka laun seðlabankastjóra um 200.000 kr. á mánuði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
5.6.2007 | 11:17
Jómfrúarræða á Alþingi
Í gær flutti ég svokallaða jómfrúarræða á Alþingi, en það er fyrsta ræða sem nýr þingmaður heldur. Á dagskrá var frumvarp ríkisstjórnarinnar um breytingu á lögum um Stjórnarráðið.
Tillaga stjórnarinnar er að sameina landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneyti og að flytja tryggingamál frá heilbrigðisráðuneyti til félagsmálaráðuneytis. Einnig er lagt til að heimilt verði að sameina ráðuneyti án lagabreytinga. Í raun eru þessar breytingar ekki stórfelldar í sjálfu sér, nema ákvæðið um að með forsetaúrskurði sé hægt að sameina ráðuneyti. Þar er í raun brotið blað, því allt frá því Bjarni Benediktsson beitti sér fyrir setningu stjórnarráðslaga árið 1969, hefur fjöldi og heiti ráðuneyta verið bundið í lögum. Það var gert til að koma sæmilegu skikki á stjórnsýsluna og til að tryggja vissan stöðugleika. Engin sérstök rök eru fyrir þessari breytingu, því eftir sem áður er hægt að flytja málaflokka milli ráðuneyta með reglugerð.
Það sem vekur sérstaka athygli er að ríkisstjórnin hyggst ráðast í umfangsmiklar breytingar á stjórnarráðinu fyrir utan þær breytingar sem lagafrumvarpið sýnir, eða það var amk. boðað við myndun stjórnarinnar. Þær breytingar eru hins vegar hvergi sýnilegar og algerlega óeðlilegt að ræða stjórnarráðsbreytingar án þess að hafa heildarmyndina til hliðsjónar.
Ræðu mína um málið má lesa hér á síðunni.
![]() |
Forsætisráðherra fái vald til að fækka ráðuneytum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
3.6.2007 | 11:57
Til hamingju með daginn sjómenn!
Í dag er sjómannadagurinn - hátíðisdagur sjómanna og fjölskyldna þeirra. Og raunar allrar þjóðarinnar sem hefur átt og á enn svo mikið undir sjósókn og auðlindum hafsins.
Á sjómannadaginn er sjómönnum þökkuð mikilvæg störf í þágu þjóðarinnar, glaðst yfir sigrum og minnst þeirra sem farist hafa við sjómannsstörf. Sjórinn gaf og sjórinn tók. Um leið og við vitum og viðurkennum að sjórinn er undirstöðuauðlind og atvinnugrein landsins þá vottum við virðingu okkar þeim sem hafa fórnað lífi sínu í þágu þjóðarinnar.
Við eigum að hlúa vel að menningu og sögu þjóðarinnar. Þar með talið atvinnusögu. En við eigum líka að búa atvinnugreinunum góð starfsskilyrði og tryggja að auðlindirnar séu sameign þjóðarinnar. Því miður hafa nú að undanförnu borist fréttir af erfiðu ástandi víða í sjávarbyggðum, sem einkum má rekja til fiskveiðistjórnunarkerfisins og þeirra ágalla sem á því eru. Á sama tíma leggur Hafrannsóknastofnunin til umtalsverðan niðurskurð á fiskveiðiheimildum, einkum í botnfiski, næsta fiskveiðiár. Það er því hætt við að þær geti orðið margar Flateyrarnar á næstunni!
Ég óska sjómönnum öllum og fjölskyldum þeirra til hamingju með daginn. Megi gæfa fylgja störfum þeirra alla tíð.
2.6.2007 | 19:08
Áfram Þjórsárvirkjun – ekkert stopp?
Landsvirkjun virðist, eftir því sem best verður séð, staðráðin í að halda áfram með áform um virkjun í neðri hluta Þjórsár. Hart hefur verið tekist á um þessi virkjanaáform.
Í aðdraganda atkvæðagreiðslunnar í Hafnarfirði um stækkun álversins í Straumsvík, birtu bændur og aðrir hagsmunaaðilar við Þjórsá áskorun til Hafnfirðinga um að hugsa til Þjórsár og hafna stækkuninni. Þeim varð að ósk sinni. Þar með hefði maður haldið að áformin um virkjun í neðri hluta Þjórsár væru úr sögunni.
Í allri umræðunni um umhverfis- og virkjanamál í aðdraganda kosninga virtist líka sem samstaða gæti tekist um að nú yrði að staldra við og meta virkjanakosti, nýtingu og verndun, og vinna náttúruverndaráætlun. Yfirlýsingar stjórnmálamanna, jafnvel þeirra sem standa að núverandi ríkisstjórn, gáfu fullt tilefni til þess að ætla að náttúrna yrði látin njóta vafans, að hægt yrði á stóriðjuæðinu. Kjósendur hafa áreiðanlega reiknað með að með því að kjósa t.d. VG eða Samfylkingu yrði tryggt að Þjórsá og fleiri náttúruperlur fengju að vera í friði.
En - ó nei ó nei! Landsvirkjun heldur áfram eins og ekkert hafi í skorist. Og ef til vill hefur nefnilega ekkert í skorist. Kannski er bara fylgt nákvæmlega sömu stóriðjustefnunni eins og hefur verið við lýði undanfarin ár. Ef til vill breytist ekkert við það að Samfylkingarmaður tekur við iðnaðarráðuneytinu af Framsóknarmanni! Og hið sama á við um umhverfisráðuneytið. Þótt ég hafi miklu meiri trú á mannaskiptunum á þeim bæ! Raunar hafa nú komið hressilegar yfirlýsingar frá nýjum iðnaðarráðherra að því er varðar Þjórsárver og Norðlingaölduveitu og ber að sjálfsögðu að fagna þeim. En orðum þurfa að fylgja gjörðir.
Það virðist allt benda til þess að haldið verði áfram með Þjórsárvirkjun, þar verði ekkert stopp. Landsvirkjun heldur sínu striki og stjórnarsáttmáli hinnar nýju ríkisstjórnar gefur engin fyrirheit um að fossinn Dynkur í Þjórsá fái að vera óáreittur, gefur engin fyrirheit um að horfið verði frá virkjunaráformum í neðri hluta Þjórsár.
Í fjölmiðlum má sjá greinar og skrif áhugafólks um verndun Þjórsár þar sem því er fagnað sem segir í stjórnarsáttmála um Þjórsárver og það yfirfært á Þjórsá alla. Vonandi reynist það rétt en núverandi stjórnarflokkar höfðu þó verndun neðri hluta Þjórsár ekki inni í sínum kosningastefnuskrám. Yfirlýsingar einstakra forystumanna í aðdraganda kosninga, einkum frambjóðenda á Suðurlandi, vekja þó vonir um að það takist að koma í veg fyrir Þjórsárvirkjun. En hér gildir einnig að orðin ein og sér mega sín lítils. Vonandi verður þess ekki langt að bíða að umhverfisráðherra og iðnaðarráðherra taki af allan vafa um framtíð neðri hluta Þjórsár og við fáum að sjá friðlýsingu árinnar innan tíðar.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 1. júní 2007.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
31.5.2007 | 17:39
Þingsetningardagur - rislítill stjórnarmeirihluti
Það var sérstök tilfinning að setjast á Alþingi í fyrsta sinn. Við nýir þingmenn undirrituðum drengskaparheit að stjórnarskránni og tókum við heillasóskum frá forseta Íslands og þingforseta. Í kvöld er stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana og má þá segja að þingstörfin hefjist fyrir alvöru með öllu því sem því fylgir.
Óneitanlega setti það leiðinlegan svip á þingsetningun að stjórnarmeirihlutinn ákvað strax á fyrsta fundi að beita hins mikla aflsmunar og knýja í gegn afbrigði frá þingsköpum og fresta kosningu í efnahags- og viðskiptanefnd, landbúnaðarnefnd og sjávarútvegsnefnd. Þau læti sem ríkisstjórnin efndi til með þessu kemur til af því að hún vill fá fram breytingar á skipan ráðuneyta og að nefndir þingsins taki sambærilegum breytingum. Þessar breytingar á ráðuneytum eiga að sögn að vísu ekki að taka gildi fyrr en um áramót, og því var óskiljanlegt með öllu að beita þyrfti afbrigðum til að fresta kosningu í lögskipaðar nefndir. Það var ekki hátt risið á stjórnarflokkunum á fyrsta fundi en er vonandi ekki til marks um það sem koma skal í vinnubrögðum stjórnarmeirihlutans.
Farið hefur verið fram á fund í sjávarútvegsnefnd til að fjalla um málefni sjávarbyggða, s.s. eins og Flateyrar, en nú hefur stjórnin komið málum þannig fyrir að það er engin starfandi sjávarútvegsnefnd. Jafnframt hefur verið boðað í fjölmiðlum að viðskiptaráðherra hyggist leggja fram frumvarp um kauphallarviðskipti o.fl. sem ætti að fara til efnahags- og viðskiptanefndar, en sú nefnd er heldur ekki til. Þannig má segja að byrjunin hjá stjórninni sé ekki mjög gæfuleg.
Á þessum fyrsta þingfundi var ég kosinn til starfa í samgöngunefnd og umhverfisnefnd, auk þess að vera kjörinn í þingmannanefnd EFTA. Ég hlakka til að takast á við þau krefjandi verkefni sem þessar nefndir fjalla um og mun leggja mig fram um að vinna vel að þeim málum sem bíða úrlausnar. Þá er ég sömuleiðis fullur tilhlökkunar að starfa innan þingflokks Vinstri grænna, andinn þar er afar góður og ljóst að þar er mættur til leiks sérlega öflugur hópur sem mun verða ódeigur við að veita ríkisstjórninni verðskuldað aðhald og hafa frumkvæði á fjölmörgum sviðum þjóðlífsins.
![]() |
Stjórnarandstaðan á Alþingi byrsti sig á þingsetningarfundi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
30.5.2007 | 11:02
Landsvirkjun slakar hvergi á klónni!
Landsvirkjun virðist, eftir því sem best verður séð, staðráðin í að halda áfram með áform um virkjun í neðri hluta Þjórsár. Hart hefur verið tekist á um þessi virkjanaáform.
Skömmu fyrir atkvæðagreiðsluna í Hafnarfirði um stækkun álversins í Straumsvík, birtu bændur og aðrir hagsmunaaðilar við Þjórsá áskorun til Hafnfirðinga um að hugsa til Þjórsár og hafna stækkuninni. Þeim varð að ósk sinni. Þar með hefði maður haldið að áformin um virkjun í neðri hluta Þjórsár væru úr sögunni.
En svo virðist samt ekki vera. Allt bendir til þess að haldið verði áfram með Þjórsárvirkjun, þar verði ekkert stopp. Landsvirkjun heldur sínu striki og stjórnarsáttmáli hinnar nýju ríkisstjórnar gefur engin fyrirheit um að fossinn Dynkur í Þjórsá fái að vera óáreittur, gefur engin fyrirheit um að horfið verði frá virkjunaráformum í neðri hluta Þjórsár. Nú reynir hins vegar á nýja stjórnarherra í ráðuneytum umhverfismála og orkumála.
Áskorun Náttúruverndarsamtaka Íslands er tímabær áminning um að full þörf er á að halda vöku sinni í þessu brýna umhverfis- og náttúruverndarmáli.
![]() |
Náttúruverndarsamtök skora á ríkisstjórnina að stöðva framkvæmdir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
26.5.2007 | 11:08
Vorþing nýs Alþingis
Boðað hefur verið að nýkjörið Alþingi komi saman á fimmtudag í næstu viku. Fyrir mig sem nýjan þingmann verður spennandi að takast á við þau verkefni sem bíða, bæði á vorþinginu sjálfu og eins í framhaldinu.
Væntanlegt vorþing stendur ef að líkum lætur í 1-2 vikur og hefur ríkisstjórnin boðað ýmis mál sem lögð verða fyrir þingið. Meðal annars eru nefnd málefni barna og aldraðra og einnig breytingar á stjórnarráðslögum til að hrinda í framkvæmd þeim breytingum á verkefnum ráðuneyta sem koma fram í samkomulagi stjórnarflokkanna.
Stjórnarandstaðan gegnir mikilvægu hlutverki í lýðræðisþjóðfélagi. Hún er jafnvel aldrei eins mikilvæg og þegar ríkisstjórn styðst við mikinn meirihluta á Alþingi og þegar flestir fjölmiðlar hafa með einum eða öðrum hætti stutt við þá flokka sem mynda ríkisstjórnina. Um leið er brýnt að skoða rækilega starfsaðstæður stjórnarandstöðunnar eins og sumir stjórnarþingmenn hafa raunar haft orð á. Verður fróðlegt að sjá hvort og þá hvaða frumkvæði ríkisstjórnin mun hafa í þeim efnum.
Að loknu vorþingi verður næsta verkefni að undirbúa þinghaldið næsta vetur. Að venju mun Alþingi koma saman að nýju 1. október en í aðdraganda þess munu þingmenn leggja drög að þeim þingmálum sem þeir hyggjast flytja og skipuleggja starfið. Ég hlakka til að takast á við þau krefjandi verkefni sem bíða í landsmálum. Undanfarin 13 ár hef ég verið borgarfulltrúi í Reykjavík og haft bæði gaman og gagn af þeim störfum og komið margvíslegum málum fram. Það verður vissulega ákveðinn söknuður sem fylgir því að hætta afskiptum af borgarmálum þegar þing kemur saman í haust, en vonandi gefst þó færi á að halda tengslum við sveitarstjórnarmálin að vissu marki, þótt ég setjist nú á Alþingi.
25.5.2007 | 20:27
Vandinn á Vestfjörðum
Fréttir berast af erfiðleikum í atvinnumálum á Vestfjörðum. Nú síðast er það sjávarútvegsfyrirtækið Kambur á Flateyri sem hefur sagt upp starfsfólki og kvótinn væntanlega á leið burt. Bæjarstjórinn telur að vísu að bærinn eigi að nýta forkaupsrétt og tryggja að veiðiheimildirnar verði áfram á staðnum. Við sjáum hvað setur í því efni.
Öllum er hygg ég löngu ljóst að fyrirkomulag fiskveiðistjórnunarmála, kvótakerfið og einkum framsalið, á drjúgan þátt í hvernig komið er fyrir mörgum sjávarbyggðum vítt og breitt um landið. Stjórnvöld hafa því miður ekki horfst í augu við rætur vandans og líklega eru of áhrifamiklir hagsmunaaðilar í kringum stjórnarflokkana, einkum Sjálfstæðisflokkinn, til þess að nokkuð verði að gert.
Á undanförnum árum hefur Samfylkingin haldið uppi harðri gagnrýni á stjórnkerfi fiskveiðimála og lýst ásetningi sínum að gera verulegar breytingar á því ef flokkurinn kæmist í aðstöðu til þess. Nú er flokkurinn kominn í ríkisstjórn, að vísu hægri stjórn með Sjálfstæðisflokknum, en engu að síður hljóta þær kröfur að vera gerðar að til aðgerða verði gripið til að taka til í þessu rangláta kerfi.
Því miður gefur stjórnarsáttmálinn nýi engin fyrirheit um að svo verði gert. Stefnumið Samfylkingarinnar í sjávarútvegsmálum hafa í engu ratað inn í þann sáttmála, frekar en í mörgum öðrum málaflokkum. Vandinn á Vestfjörðum er þess eðlis að það þolir enga bið að á honum verði tekið. Vinstri græn munu í stjórnarandstöðu beita sér fyrir því að málefni Vestfjarða sérstaklega verði tekin til umræðu og viðunandi og varanlegra lausna leitað. Það mun ekki veita af kröftugu aðhaldi við þá ríkisstjórn sem nú er að stíga sín fyrstu skref, henni þarf að halda við efnið.
22.5.2007 | 22:12
Baugalín styrkir stöðu Sjálfstæðisflokksins
Hin nýja ríkisstjórn hefur tekið á sig mynd. Það er ljóst að hlutur Samfylkingarinnar varðandi skiptingu ráðuneyta er rýrari en hlutur Framsóknarflokksins var í fráfarandi stjórn. Sjálfstæðisflokkurinn fær í raun 7 ráðuneyti og Samfylking 5 í stað helmingaskipta sem áður ríktu.
Sjálfstæðisflokkurinn fær bæði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti en Samfylkingin mun þurfa að skipta iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu upp í tvennt milli Össurar og Björgvins. Auk forsætis- og fjármálaráðuneyta fær Sjálfstæðisflokkurinn útgjaldafrekustu ráðuneytin, heilbrigðisráðuneyti og menntamálaráðuneyti og þegar hefur nýr heilbrigðisráðherra lýst yfir því að hafin verði einkavæðing í heilbrigðisgeiranum.
Ekki verður annað séð en að hin nýja ríkisstjórn og verkaskipting innan hennar styrki stöðu Sjálfstæðisflokksins mjög og gleymdar eru allar heitstrengingar um hlutverk Samfylkingarinnar í íslenskum stjórnmálum. Ég man a.m.k. ekki eftir því að þar hafi verið lagt upp með að Samfylkingin ætti að auka vægi Sjálfstæðisflokksins og tryggja setu hans á valdastólum. En allt um það. Samfylkingin hefur þá um leið tekið sér sömu stöðu og Alþýðuflokkurinn hafði í Viðreisn og Viðeyjarstjórn, sem hækja eða göngugrind Sjálfstæðisflokksins.
Við völdum mun nú taka enn ein hægri stjórnin, stjórn auðvalds og sérhyggju, ójafnvægis í byggðamálum og tvískinnungs í umhverfismálum. Sjálfsagt er þó, með hagsmuni lands og þjóðar að leiðarljósi, að vonast eftir því að stjórninni farnist vel. Stjórnarandstaðan mun þau ef að líkum lætur hafa í nógu að snúast.