22.5.2007 | 16:07
Ráðherrakapallinn
Það getur verið vandasamt verk að manna ríkisstjórn. Ekki vegna þess að það sé ekki nóg framboð, heldur hitt að stólarnir eru takmarkaðir og margs konar sjónarmið þarf að hafa í huga varðandi samsetningu, s.s. kyn, kjördæmi, aldur, reynslu, röð á framboðslista o.fl.
Ég spái því að ekki verði um fækkun ráðherra frá því sem nú er, þeir verði 12, 6 frá hvorum flokki. Í hlut Sjálfstæðisflokks komi forsætisráðuneyti, fjármálaráðuneyti, heilbrigðisráðuneyti, landbúnaðarráðuneyti, dómsmálaráðuneyti og iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti.
Samfylkingin mun fara með utanríkisráðuneyti, sjávarútvegsráðuneyti, umhverfisráðuneyti, samgönguráðuneyti, menntamálaráðuneyti, og félagsmála- og tryggingaráðuneyti.
Ráðherrar gætu t.d. orðið Geir H. Haarde, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Árni M. Mathiesen, Einar K. Guðfinnsson, Björn Bjarnason og Arnbjörg Sveinsdóttir frá Sjálfstæðisflokki og Ingibjörg S. Gísladóttir, Össur Skarphéðinsson, Jóhanna Sigurðardóttir, Þórunn Sveinbjarnardóttir, Kristján Möller og Björgvin G. Sigurðsson frá Samfylkingu.
Þetta skýrist að vísu allt áður en yfir lýkur.
22.5.2007 | 15:34
Kallar Brown Breta heim frá Írak?
Það liggur fyrir að Gordon Brown, fjármálaráðherra Bretlands til 10 ára, tekur við embætti forsætisráðherra í lok næsta mánaðar. Þá lýkur áratugar löngum valdaferli Tony Blair. Gordon Brown, sem verið hefur náinn samstarfsmaður Blair í breska Verkamannaflokknum og í ríkisstjórn um langt skeið, er líklegur til að breyta um stefnu í mörgum mikilvægum málum. Hann mun þó fara sér hægt og taka ákveðin en varfærin skref í því efni.
Gordon Brown studdi ákvörðun Blair um að fylgja Bandaríkjunum í blindni í Íraksstríðið. Með hálfum hug þó. Það er vitað að innan bresku stjórnarinnar mun Brown heldur hafa latt til stríðsrekstursins en hitt, en hann valdi þó ekki þá leið sem ýmsir forystumenn gerðu, eins og Robin Cook utanríkisráðherra, að segja af sér í mótmælaskyni við stefnu Blair. Brown var þá með hugann við að verða arftaki Blair sem leiðtogi Verkamannaflokksins og næsti forsætisráðherra og því gat hann ekki hætt frama sínum með þeim hætti.
Afstaða Gordon Brown til Bandaríkjanna er áreiðanlega önnur en afstaða Blair. Gordon mun frekar styrkja og efla tengsl bresku stjórnarinnar við Demókrataflokkinn, eins og hefðbundið er, en smám saman fjarlægjast Repúblikanaflokk Bush forseta. Þetta er stjórnvöldum í Bandaríkjunum áreiðanlega löngu ljóst. Og munu þau því hafa áhyggjur af því hvaða stefnu Brown mun taka í málefnum Íraks.
Samkvæmt skoðanakönnunum er flest sem bendir til þess að frambjóðandi demókrata muni bera sigur úr býtum í forsetakosningunum þar í landi seint á næsta ári. En það eru þó bara skoðanakannanir og margt getur breyst á löngum tíma í pólitík. Brown mun því sennilega fara sér hægt og hafa náið samráð við forystumenn Demókrata. Hann mun nefnilega seint ganga lengra en Demókratar geta fellt sig við og stutt. Það verður spennandi að fylgjast með þróun mála í þessu efni á næstunni. Mestar líkur eru nefnilega á að Gordon Brown muni einmitt leita leiða til að hefja heimflutning breskra hermanna frá Írak. Slík ákvörðun yrði til vinsælda fallin heima fyrir og gæti styrkt stöðu hans og Verkamannaflokksins fyrir næstu kosningar sem væntanlega verða haldnar innan 3ja ára.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.5.2007 | 14:04
Neitunarvald forsetans
Í umræðunni um endurskoðun stjórnarskrárinnar var mikið rætt um neitunar- eða synjunarvald forseta Íslands. Kom það einkum til af því að Ólafur Ragnar Grímsson synjaði fjölmiðlalögunum staðfestingar á sínum tíma og olli mikilli reiði meðal forystumanna ríkisstjórnarinnar.
Flokkarnir hafa mismunandi afstöðu til þessa máls. Í glænýrri landsfundar samþykkt Sjálfstæðisflokksins stendur þetta um synjunarvald forsetans:
Í því sambandi telur landsfundur óhjákvæmilegt að ákvæði 26. gr. um synjunarvald forseta verði fellt úr gildi.
Þetta viðhorf hefur síður en svo átt upp á pallborðið hjá Samfylkingunni og örugglega ekki hjá forsetanum sjálfum. Verður fróðlegt að sjá hvað tilvonandi stjórnarsáttmáli hefur upp á að bjóða í stjórnarskrármálum og lýðræðismálum.
18.5.2007 | 19:17
Geir Hilmar Haarde - talsmaður Samfylkingarinnar
Forseti Íslands fór þá óvenjulegu leið, og svoldið á skjön við lýðræðislegar hefðir, að fela formanni Sjálfstæðisflokksins umboð til stjórnarmyndunar - án þess að ræða við kjörna fulltrúa annarra flokka.
Forsetar hafa í gegnum tíðina rætt við formenn allra flokka, enda sjálfsögð lýðræðisleg kurteisi af þjóðkjörnum þjóðhöfðingja að sýna öllum stjórnmálaflokkum tilhlýðilega virðingu. Að öðrum kosti verður hann varla talinn forseti allra landsmanna. En allt um það.
Kjarni málsins er sá að forseti taldi ekki nauðsynlegt að heyra sjónarmið annarra en Geirs Hilmars Haarde, enda hafði komið fram í fjölmiðlum að hann væri talsmaður bæði Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Þannig leggst lítið fyrir þá stuðningsmenn Samfylkingar sem vildu að nú yrði tækifærið gripið og kona yrði forsætisráðherra. Það tækifæri er að vísu enn í boði ef Samfylkingin sér að sér og rifjar upp til hvers hún var stofnuð. Að öðrum kosti verður ekki séð annað en að hún hafi gert Geir Haarde að talsmanni sínum.
![]() |
Steingrímur: Ingibjörg hefur afsalað sér umboðinu til stjórnarmyndunarviðræðna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
18.5.2007 | 15:31
Áhrifa Baugsveldisins gætir strax
![]() |
Embætti ríkissaksóknara auglýst á ný síðar á árinu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
17.5.2007 | 20:32
Ingibjörg getur enn orðið forsætisráðherra
Nú þegar ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks er sprungin á limminu kemur upp nú staða. Það eru allar forsendur til að mynda velferðar- og félagshyggjustjórn Samfylkingar, Vinstri grænna og Framsóknarflokks. Vinstri græn og Framsóknarflokkur eru sammála um að leggja til við forseta Íslands að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir fái umboð til stjórnarmyndunar og myndi stjórn þessara þriggja flokka.
Reynt hefur verið að halda því fram að tortryggni milli VG og Framsóknar kæmi í veg fyrir samstarf þeirra í ríkisstjórn. Þetta er vitaskuld alrangt. Vinstri græn hafa ALDREI hafnað þeim kosti, enda þótt málefnaágreiningur hafi verið milli flokkanna á liðnum árum, rétt eins og milli Framsóknar og Samfylkingar. En við stjórnarmyndun horfa menn til framtíðar og slá striki yfir hið liðna - nema hvað?
Nú er einungis spurning hvort Ingibjörg Sólrún Gísladóttir veldur félögum sínum á trúnó.is vonbrigðum og bendir á karlinn Geir Hilmar Haarde til að mynda næstu ríkisstjórn. Hver mun nú klúðra hinu sögulega tækifæri? Jafnaðar- og félagshyggjufólk í flokkunum þremur hlýtur að hvetja til þess að mynduð verði öflug velferðar- og félagshyggjustjórn fremur en ríkisstjórn sem mun eiga allt sitt undir fjármálaöflunum í landinu, eins konar baugsstjórn. Það er augljóst að Samfylkingin á næsta leik - við hvern liggja skyldur hennar og trúnaður?
![]() |
Formlegar stjórnarmyndunarviðræður hefjast væntanlega á morgun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
14.5.2007 | 11:42
Glæsilegur sigur - kærar þakkir
Úrslit þingkosninganna eru glæsilegur sigur Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs. Flokkurinn nær tvöfaldaði þingmannatölu sína sem er afar sjaldgæft í íslenskri pólitík, svo ekki sé meira sagt.
VG er því ótvíræður sigurvegari þessara kosninga. Sjálfstæðisflokkurinn bætir líka við sig og styrkir stöðu sína. Frjálslyndir halda sínum hlut þrátt fyrir klofninginn í vetur en aðrir flokkar tapa fylgi. Einkum geldur Framsóknarflokkurinn afhroð.
Persónulega er það mér ánægjuefni að vera kjörinn á Alþingi. Ég vil nota þetta tækifæri og þakka öllum sem lögðu VG lið í kosningabaráttunni og með atkvæði sínu á kjördag fyrir stuðninginn. Við munum öll leggja okkur fram um að standa undir því trausti og þeim væntingum sem til okkar eru gerðar.
12.5.2007 | 20:43
Spennan eykst
Þá er kjördagur að kvöldi kominn, aðeins hálfönnur klukkustund þar til fyrstu tölur birtast. Spennan magnast.
Dagurinn í dag hefur verið viðburðaríkur, ég hef farið milli kosningamiðstöðva okkar Vinstri grænna hér á höfuðborgarsvæðinu, gengið um bæinn og heimsótt kosningamiðstöðvar Samfylkingar og Frjálslyndra. Þannig að ég hef í dag hitt fjöldann allan af fólki og það er einmitt það sem er hvað skemmtilegast á kjördegi.
Stemningin hjá okkur Vinstri grænum er gríðargóð, við erum sannfærð um að ná góðum árangri í þessum kosningum og jafnvel tvöfalda fylgi okkar frá því síðast. Það væri þá um stórsigur að ræða í pólitísku sögulegu samhengi. Mikilvægast er að sjálfsögðu að ríkisstjórnin missi meirihluta sinn svo núverandi stjórnarandstaða geti tekið við stjórnartaumunum og innleitt jöfnuð, réttlæti og virðingu fyrir umhverfi og náttúru inn í landsstjórnina.
Við sjáum hvað setur.
10.5.2007 | 12:56
Lokasóknin er hafin - byr í seglum VG
Þessi könnun bendir til þess að mjög mjótt sé á munum milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Það er raunhæfur möguleiki að fella ríkisstjórnina og mynda nýja stjórn núverandi stjórnarandstöðuflokka.
Öll viðbrögð stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins ganga út á hræðsluáróður þessa síðustu daga. Þeir telja að ekki sé hægt að mynda hér trausta ríkisstjórn nema undir þeirra eigin forystu. Þetta er að sjálfsögðu bábylja. Stjórn sem leggur megináherslu á velferðarmál, umhverfismál, jafnrétti og jöfnuð þarf að taka við af þeirri sem nú situr. Það verður best tryggt með öflugum stuðningi við Vinstri græn. Lokasóknin er hafin og það er byr í seglum Vinstri grænna.
![]() |
Samfylking og VG bæta við sig |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
9.5.2007 | 23:19
Stjórnin í bullandi vörn - lokasóknin er hafin
Stöð 2 var með ágætan þátt í kvöld þar sem formenn stjórnmálaflokkanna tókust á um meginmál kosninganna á laugardag. Þátturinn var nýstárlegur, bæði sátu formennirnir öll saman en síðan var hvert og eitt þeirra yfirheyrt sérstaklega. Í lokin voru síðan þrír álitsgjafar sem sögðu kost og löst á frammistöðu formannanna.
Þátturinn hófst með því að kynnt var ný og stór skoðanakönnun sem Félagsvísindastofnun gerði fyrir Stöð 2. Þar fær Sjálfstæðisflokkurinn um 38% og Framsókn 8,6% og samanlagt fá stjórnarflokkarnir 30 þingmenn. Samfylkingin hefur náð vopnum sínum og mælist með tæp 30%, sem er að nálgast kjörfylgið í síðustu kosningum, Vinstri græn eru rúm 16% en það er tvöföldun á fylgi frá 2003 og Frjálslyndir eru með rúm 5%. Samanlagt fá stjórnarandstöðuflokkarnir 33 þingmenn. Íslandshreyfingin nær ekki að koma manni að og vantar talsvert á að svo verði.
Í þættinum voru formenn stjórnarflokkanna í bullandi vörn, einkum Jón Sigurðsson. Að mínum dómi stóðu Steingrímur J. Sigfússon og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sig áberandi best, þannig að ég er sammála álitsgjöfum Stöðvar 2 um það atriði. Sömuleiðis um að formaður Framsóknar hafi átt lakastan leik. Hins vegar vekur athygli mína sú skoðun álitsgjafanna að Sjálfstæðisflokkur og Samfylking hafi verið að daðra hvort við annað. Það vekur upp spurningar um það hvort atkvæði greitt Samfylkingu sé hugsanlega ávísun á áframhaldandi stjórnarforystu Sjálfstæðisflokks.
Nú eru aðeins 2 dagar til kjördags. Þótt enn séu talsverðar sveifur í skoðanakönnunum þá eru stóru línurnar samt skýrar. Samfylkingin verður á svipuðu róli og síðast og hið sama má segja um Frjálslynda. Framsókn tapar og Sjálfstæðisflokkur bætir við sig. Vinstrihreyfiingin - grænt framboð stefnir síðan í að tvöfalda fylgi sitt frá síðustu kosningum, og verði það úrslitin á laugardag, þá er það sögulegur pólitískur sigur og skýr skilaboð frá kjósendum um að VG eigi að axla ábyrgð í landsstjórninni. Til þess erum við að sjálfsögðu reiðubúin. Nú verða allir að leggjast á eitt og tryggja VG sögulegan sigur, það er eina raunverulega tryggingin fyrir breytingar. Lokasóknin er hafin, það er hægt að fella ríkisstjórnina og koma sjónarmiðum velferðar, umhverfisverndar, jafnréttis og jöfnuðar að í ríkisstjórn. Látum þann draum rætast.