Ögmundur spurður um "bankana úr landi" hjá Kaupþingi

Framsóknarflokkurinn auglýsir að Vinstrihreyfingin grænt framboð vilji senda bankana úr landi. Þar er vísað í gagnrýni Ögmundar Jónassonar þingflokksformanns VG nýlega  í garð bankaforstjóra sem honum þótti skammta sér um og ganga fram af samfélaginu með ýmsum hætti. Ögmundur mun hafa sagt á þá leið að hann vildi ekki fórna íslensku jafnaðarsamfélagi fyrir "þotuliðið í bönkunum".

 

Þetta hefur síðan verið túlkað á þann veg að Ögmundur Jónasson eigi sér þann draum æðstan að koma öllum íslenskum bönkum úr landi!

Ég hafði í bland gaman og fróðleik af því að sitja frambjóðendafund í Kaupþingi ásamt Ögmundi þar sem þessi mál bar á góma. Ögmundur var að vonum spurður út í staðhæfingar Framsóknar. Hann minnti á að hann væri stjórnarformaður stærsta lífeyrissjóðs landsins, Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, LSR, sem hefði fjárfest í íslenskum fjármálafyrirtækjum fyrir milljarðatugi. Eignarhluti sjóðsins í íslensku bönkunum væri á milli 35 og 40 milljarðar króna. Auk þess ætti sjóðurinn skuldabréf hjá bönkunum að verðmæti 15 – 20 milljarða. Þessi tiltekni lífeyrissjóður hefði fjárfrest hjá íslenskum útrásrafyrirtækjum fyrir milljarða á milljarða ofan. "Allt er þetta gert með mínum velvilja og mínu atkvæði", sagði Ögmundur.

 

"Halda menn virkilega að ég vilji ekki þessum stofnunum vel? Að sjálfsögðu geri ég það. Íslenskir lífeyrisþegar og þar með verkalýðshreyfingin vill hag þeirra sem bestan. En við ætlumst til þess að farið sé vel með þessa fjármuni og þá ekki síður þau völd sem fjármagnið veitir. Forsvarsmenn bankanna verða að geta tekið gagnrýni þegar þeir ögra samfélaginu."

 

Ögmundur minnti einnig á að ein ástæðan fyrir því að VG hefði viljað hafa þjóðarbanka væri einmitt sú að forðast að bankarnir yrðu fluttir úr landi. Því miður væri það smám saman að gerast. Þannig væri eignarhald Landsbankans nú komið 70% úr landi. Lífeyrissjóðirnir væru hins vegar ekkert á leið úr landi.

 

Mér þótti boðskapur Ögmundar Jónassonar vera trúverðugur og heyrði ég ekki betur en fundarmönnum þætti það líka. Þeim mun ómerkilegri held ég að sanngjörnu fólki þyki auglýsingar Framsóknar sem byggja á skrumskælingu og útúrsnúningum. 

 

Bankarnir og aðrar fjármálastofnanir eru mikilvægar og okkur Vinstri grænum þykir nauðsynlegt að þær búi við gott starfsumhverfi.  Ekki síður viljum við tryggja góð starfskjör almennra starfsmanna þeirra og raunar alls launafólks í landinu.  Þar liggur trúnaður VG, öfugt við það sem á við um núverandi stjórnarflokka sem sannarlega þurfa að komast í langþráð frí.

 

Góð frammistaða VG kvenna í Kastljósi

Umhverfismál og atvinnu- og byggðamál voru viðfangsefni Kastljóssins í kvöld.  Fyrir hönd okkar Vinstri grænna, mættu Kolbrún Halldórsdóttir og Guðfríður Lilja Grétarsdóttir.

Kolbrún talaði um umhverfismálin og eins og  allir sem fylgst hafa með þjóðmálum vita, hefur Kolbrún verið í stafni þeirra sem barist hafa fyrir stefnubreytingu í þeim málum.  Hún hefur verið óþreytandi við að tala um mikilvægi sjálfbærrar þróunar, skuldbindingar okkar við komandi kynslóðir og náttúruna sem auðlind.  Öllu þessu kom hún vel til skila í þættinum og var augljóst að hún er vel heima í þessum málaflokki.

Guðfríður Lilja er að hasla sér völl í stjórnmálum nú í þessum kosningum.  Hún hefur heillað alla hvar sem hún kemur fram og í allri framgöngu geislar hún af gleði, sannfæringarkrafti og sterkri réttlætiskennd.  Í umræðum um atvinnu- og byggðamál lagði hún áherslu á að lausnir núverandi stjórnvalda byggðu á fortíðarhyggju, stóriðju með öllum þeim fórnum sem hún hefði í för með sér í stað þess að leggja rækt við uppbyggingu samgangna, fjarskipta, menntunar, nýsköpunar og þróunar, og styðja við sprotafyrirtæki sem allra víðast.

Vissulega reyndu talsmenn stjórnarflokkanna að koma fram sem frelsandi englar, nú leggur Framsókn fram stefnu um nýtingu og verndun í umhverfis- og orkumálum, þegar flokkurinn hefur gengið fram fyrir skjöldu í því að fórna mikilvægum náttúruperlum þjóðarinnar.  Sjálfstæðisflokkurinn virtist ekki hafa neina skýra stefnu í umhverfismálum og Samfylkingin lenti enn einu sinni í vandræðum með að skýra stefnu sína í þessum málaflokki og æpandi voru mismunandi svör fulltrúa flokksins í umhverfisþættinum annars vegar og atvinnuþættinum hins vegar við spurningu um álver við Húsavík.  Svo kenndi fulltrúi Framsóknar Sjálfstæðisflokknum eiginlega um allt sem ekki hefði tekist að gera í byggðamálum og vék sér undan allri ábyrgð í þjóðlendumálinu.

Þegar á heildina er litið var frammistaða okkar kvenna fín í kvöld.


Kosningabrella meirihlutans í borgarstjórn

Borgarstjóri hefur undirritað viljayfirlýsingu ásamt menntamálaráðherra og rektor Listaháskólans um lóðamál fyrir skólann í Vatnsmýri.  Það vekur athygli að á viljayfirlýsingunni er auð lína sem var ætluð staðfestingu fjármálaráðherra, en hann er greinilega ekki með í leiknum.

Ég hef gagnrýnt þessi vinnubrögð meirihlutans.  Þarna er verið að egna saman velunnurum Listaháskólans annars vegar og Náttúruminjasafns hins vegar.  Listaháskólinn þarf að sjálfsögðu að fá viðunandi lausn á sínum málum en hann vill helst vera í miðbænum en ekki í Vatnsmýri.

Sannleikurinn er sá að í gildandi skipulagi fyrir lóðina kemur fram að hún verði EINUNGIS nýtt fyrir Náttúruminjasafn eða starfsemi tengda Náttúrufræðistofnun.  Skyldi Listaháskólinn hafa vitað af því?  Meirihlutinn í borgarstjórn hefur ekki kynnt málið innan skipulagsráðs eða borgarráðs og gerir sig enn einu sinni sekan um gerræðisleg og ólýðræðisleg vinnubrögð.

Síðan til að kóróna allt þá kemur fram að Listaháskólinn megi ráðstafa lóðinni til þriðja aðila.  Sem þýðir að þessi lóð í Vatnsmýrinni, sem er eyrnamerkt Náttúrufræðistofnun og starfsemi á hennar vegum, verður áður en við er litið komin í lóðabraskdansinn. 

Þetta eru vinnubrögð Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks þegar þeir leggja saman.  Væri ekki nær að leysa einfaldlega húsnæðismál Listaháskólans þar sem hann vill vera, t.d. á svokölluðum stjórnarráðsreit milli Sölvhólsgötu og Skúlagötu (þar sem skólinn er að hluta til nú) og þar sem hann vill vera.  Ef ríkið og ráðherrar Sjálfstæðisflokksins hafa einhvern minnsta áhuga á að leysa mál Listaháskólans þá geta þeir gert það á þessum reit, án þess að blanda málefnum Náttúrufræðistofnununar í það. 

Ég er ekki viss um að mál Náttúrufræðistofnunar séu sett í uppnám með vitund og vilja Listaháskólans.  Hverra hagsmuna er verið að gæta?


Frábær þáttur um Vinstri græn í sjónvarpi

Sjónvarpið sýndi í kvöld kynningarþátt um Vinstrihreyfinguna - grænt framboð.  Þar kynna Steingrímur J. Sigfússon, Katrín Jakobsdóttir, Benedikt Davíðsson og Guðfríður Lilja Grétarsdóttir helstu baráttumál flokksins.

Þátturinn var sérstaklega líflegur og skemmtilegur og var ólíku saman að jafna þegar myndband Sjálfstæðisflokksins kom í kjölfarið, sem reyndist þá vera mánudagsviðtal við Geir Haarde.

Kynningarþáttinn um VG má sjá hér.


Skemmtilegur fundur í Brimborg

Í hádeginu í dag var efnt til almenns stjórnmálafundar í bifreiðaumboðinu Brimborg.  Þetta var skemmtilegt frumkvæði hjá fyrirtækinu að bjóða fulltrúum allra framboða að koma og ræða um samgöngumál og málefni bílgreina.  Matsalurinn var þétt setinn og stemningin góð.

Þarna mætti ég fyrir hönd Vinstri grænna en aðrir frambjóðendur voru Össur Skarphéðinsson (S), Birgir Ármannsson (D), Jónína Bjartmarz (B), Magnús Þór Hafsteinsson (F) og Ómar Ragnarsson (I).  Mikið var rætt um samgöngumálin hér á höfuðborgarsvæðinu, Sundabrautina vitaskuld, Suðurlandsveg o.fl.  Umræðurnar snérust m.a. um fjármögnun, skattlagningu og syndaregistur ríkisstjórnarinnar í samgöngumálum höfuðborgarsvæðisins.

Birgir og Jónína voru í nokkurri vörn fyrir hönd stjórnarinnar, einkum Birgir, en Össur sótti hart að stjórnarflokkunum (var samt ekki alltaf mjög málefnalegur).  Ómar lét móðann másan og fór á flug eins og honum er lagið, talaði um lengdar- og breiddargjöld á bíla.

Af minni hálfu kom fram mikilvægi þess að skoða samgöngumálin í samhengi við umhverfismál, draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, auka almenningssamgöngur og breyta skattlagningu bíla þannig að hún samræmist betur markmiðum í umhverfis- og umferðaröryggismálum.

Sem sagt, skemmtilegur fundur í Brimborg og vona að starfsfólkið þar hafi haft gagn og gaman að.


Lóðaríið í Úlfarsárdal

Á fundi borgarráðs í dag lagði ég fram fyrirspurn í framhaldi af tillögum meirihlutans um lóðaúthlutanir í Úlfarsárdal.  Vinstri græn vilja að lóðum sé úthlutað á föstu verði og lóðaverði verði haldið í lágmarki.  Hins vegar teljum við upphæðirnar orka tvímælis og ennfremur að íbúar hverfisins eigi sérstaklega að greiða kostnað við byggingu skóla, leikskóla, íþróttasvæða o.s.frv. í stað þess að sá kostnaður sé greiddur af almennum skatttekjum borgarinnar eins og annars staðar.  Í þessu getur falist mismunun.

  1. Hvaða forsendur liggja að baki lóðaverðinu?
  2. Hvernig samrýmist lóðaverðið ákvæðum laga nr. 153/2006 um gatnagerðargjöld, einkum 4. og 10. gr.?
  3. Hver er kostnaður borgarinnar við gatnagerð í hverfinu og hvernig standa tekjur af lóðaúthlutun undir þeim kostnaði?
  4. Hver eru gatnagerðargjöld/lóðaverð við úthlutun í nágrannasveitarfélögum og að hvaða leyti eru þær reglur sem nú eru lagðar til, frábrugðnar þeim reglur sem þar gilda og þeim reglum sem gilt hafa í Reykjavík?
  5. Í frétt frá borgaryfirvöldum kemur fram að héðan í frá er fyrirhugað að úthluta 1000 íbúðum í nýjum hverfum og 500 í eldri hverfum árlega.  Óskað er eftir sundurliðun á þessum áformum, skipt á einstök svæði og ár.
Svör munu væntanlega koma í borgarráði nk. fimmtudag.

Baráttudagur verkafólks - treystum velferð!

Í dag er alþjóðlegur baráttudagur verkafólks um allan heim.  Þennan dag reisir vinnandi fólk kröfuna um réttlátt samfélag, jöfnuð og velferð öllum til handa.  Þennan dag sýnir vinnandi fólks um allan heim órofa samstöðu í kröfum sínum um betri heim, frið og öryggi.

Ekki svo að skilja að baráttan standi einungis í einn dag á ári.  Þvert á móti, baráttan er viðvarandi en 1. maí er táknrænn baráttudagur, almennur frídagur þar sem færi gefst á að brýna raust og berja sér.  Minna á samtakamátt verkafólks og láta kröfurnar enduróma.

Kjörorð íslenskrar verkalýðshreyfingar á þessum degi er: Treystum velferð.  Það er viðeigandi.  Eftir 12 daga getur hver einasti einn látið til sín taka í kjörklefanum, lagt sitt af mörkum til að tryggja velferð.  Til þess þarf að skipta um ríkisstjórn.  Látum það verða verkefni okkar, heitum því á baráttudegi verkafólks að tryggja velferð 12. maí.

Til hamingju með daginn!


Sjálfstæð utanríkisstefna

Fullt tilefni er til að ræða stefnumál stjórnmálaflokkanna í utanríkis og alþjóðamálum nú þegar fáeinar vikur eru til kosninga.  Tvennt stendur vissulega upp úr í því efni undanfarin ár.  Þátttaka Íslands í ólöglegu árásarstríði í Írak og brottför Bandaríkjahers frá Íslandi. Nú bætist við nýr hernaðarsamningur við Noreg sem vekur óneitanlega hugrenningartengsl við gamla sáttmála 1262. Í aðdraganda hans var ekki leitað eftir áliti þjóðarinnar frekar en venjulega þegar utanríkismál eiga í hlut.

Það var mikið fagnaðarefni þegar bandaríski herinn hvarf af landi brott sl. haust.  Íslendingar eru best settir án hers, hvort sem hann er innlendur eða erlendur. Satt að segja væri tíma og fjármunum stjórnvalda betur varið í mörg önnur verkefni á sviði utanríkismála en að “varnarviðræður” við hvert einasta land sem hefur áhuga á því. 

Raunhæft og brýnt verkefni væri að friðlýsa landið og lögsögu þess fyrir kjarnorku- sýkla- og efnavopnum og banna umferð kjarnorkuknúinna farartækja. Tillaga þess efnis hefur ítrekað verið flutt á alþingi síðan 1995 en aldrei fengið efnislega meðferð. Þar hefur herseta Bandaríkjanna eflaust tafið fyrir. Bandaríkjastjórn hefur aldrei viljað útiloka að herskip eða flugvélar sem koma í íslenska lögsögu beri kjarnorkuvopn.

Núna er herinn farinn og því engin ástæða til að láta tillitsemi við Bandaríkin koma í veg fyrir aðgerðir. Allir eru í orði kveðnu sammála um þá ógn sem stafar af kjarnorkuvopnum – en æsingurinn virðist oft aukast eftir því sem þau eru fjær okkur sjálfum. Við getum sýnt viðhorf okkar til kjarnorkuvopna í verki með því að friðlýsa eigin rann. Annars væri það hrein sýndarmennska að berjast fyrir afvopnun einhvers staðar annars staðar á hnettinum. Samhliða þessu þyrfti auðvitað að beina aukinni athygli að umhverfisöryggi og vernda hafið fyrir úrgangi frá kjarnorkuverum og herstöðvum.

Í aðdraganda Íraksstríðsins kom það fram af hálfu ýmissa stjórnarþingmanna að vera Bandaríkjahers á Íslandi skipti sköpum fyrir stuðning íslenskra stjórnvalda við innrásina í Írak. Þjóðin á rétt á því að stjórnarflokkarnir geri hreint fyrir sínum dyrum og svara því afdráttarlaust hvort vænta megi frekari stuðnings við hernaðaraðgerðir Bush-stjórnarinnar.Afstaða Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs í þessu máli er skýr: Við höfnum áframhaldandi þjónkun við hernaðarhyggju eins og þá sem birtist í stuðningi stjórnarflokkanna við stríðið í Írak. Atkvæði greitt okkur sendir skýr skilaboð um afstöðu til Íraksstríðsins og setu Íslands á lista „hinna staðföstu þjóða”. 

Greinin birtist í Fréttablaðinu 29. apríl 2007.


háge skrifar um háttvirt atkvæði

Félagi minn, Helgi Guðmundsson, sem ritstýrir vefritinu "Þjóðviljinn á Skaganum" skrifar áhugaverðan pistil um háttvirt atkvæði.  Pistilinn má nálgast hér.

Lítill munur á stjórn og stjórnarandstöðu

Nýjasta könnun Capacent/Gallup sýnir að stjórnarflokkarnir fengju 32 þingmenn en stjórnarandstaðan 31 þingmann ef niðurstöður kosninga yrðu í samræmi við könnunina.  Hættan á að núverandi stjórn sitji áfram er því yfirvofandi en um leið eru sóknarfærin mikil fyrir stjórnarandstöðuna.

Við Vinstri græn erum að sjálfsögðu prýðilega sátt við þessa skoðanakönnun, skv. henni eykst fylgi flokksins úr 8,8% í síðustu kosningum í 21,2%.  Raunar hefur fylgi við flokkinn verið í kringum 20% nú um langt skeið, sveiflast örlítið upp og niður eins og gengur en í heildina litið verið býsna stöðugt.

Framsóknarflokkur og Frjálslyndir bæta aðeins stöðu sína frá síðustu könnun en eru báðir að tapa fylgi frá síðustu kosningum, einkum Framsókn.  Sjálfstæðisflokkurinn dalar frá síðustu könnun en er talsvert yfir kjörfylgi fyrir fjórum árum.  Samfylkingin dalar lítillega milli vikna og er umtalsvert undir kjörfylginu 2003.  Íslandshreyfingin nær engu flugi og hljóta amk. tvær grímur að renna á forsvarsmenn framboðsins, ef tilkoma þeirra verður til þess að tryggja stjórnarflokkunum meirihluta.

Könnunin sýnir að núverandi stjórnarflokkar halda naumum meirihluta en lítið vantar á að hlutföllin milli stjórnar og stjórnarandstöðu snúist við.  Nú er mikilvægt að vinna að því öllum árum að unnt verði að skipta um ríkisstjórn, en allar kannanir benda til þess að það sé fyrst og fremst sterk staða VG sem getur tryggt það.  Kjósum allt annað líf - xV!


mbl.is Fylgi Samfylkingar og VG jafnmikið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband