Hreinar línur - já takk!

Nýjasta skoðanakönnun Capacent/Gallup sýnir að línurnar eru að verða býsna hreinar í íslenskum stjórnmálum.  Annars vegar standa stjórnarflokkarnir, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, fastir í viðjum stóriðjustefnunnar, vaxandi misskiptingar og óréttlætis.  Hins vegar eru Vinstri græn og Samfylkingin sem boða jöfnuð, réttlæti, umhverfisvernd, endurreisn efnahagslegs stöðugleika og breytta utanríkisstefnu.  Aðrir flokkar komast ekki á blað.

Það eru um margt áhugaverðar vísbendingar sem við sjáum í þessari könnun.  Línurnar eru óvenjuskýrar.  Sterk staða Sjálfstæðisflokksins getur hins vegar orðið til þess að stjórn þeirra með Framsóknarflokki, sem varað hefur í 12 ár (og 16 ár hvað Sjálfstæðisflokkinn varðar) sitji áfram.  Það er áreiðanlega ekki það sem þjóðin vill.Nú er hins vegar lag til að berjast fyrir hreinum stjórnarskiptum.  Samfylkingin lagar stöðu sína frá undanförnum könnunum og Vinstri græn eru að ríflega tvöfalda fylgi sitt frá síðustu kosningum.  Nú vantar aðeins herslumuninn að þessir tveir flokkar geti myndað starfhæfa ríkisstjórn.  Að því verður að vinna öllum árum.


Stjórnarflokkarnir fastir í viðjum stóriðjustefnunnar

Á fundi borgarstjórnar í gær lögðum við borgarfulltrúar Vinstri grænna fram tvær tillögur til ályktunar um málefni Orkuveitu Reykjavíkur.  Tillögurnar fjalla annars vegar um að einkavæðing Orkuveitunnar komi ekki til álita og hins vegar að fresta áformum um virkjanir í þágu stórðiju í kjölfar atkvæðagreiðslunnar í Hafnarfirði.  Tillögurnar voru svohljóðandi:
Borgarstjórn Reykjavíkur ályktar að einkavæðing Orkuveitu Reykjavíkur komi ekki til álita. Borgarstjórn undirstrikar að Orkuveitan, sem er fyrirtæki í eigu borgarbúa ásamt íbúum nokkurra annarra sveitarfélaga á SV-horninu, gegnir mikilvægu samfélagslegu hlutverki í öflun og dreifingu á rafmagni og heitu og köldu vatni til almennings og sér nú ennfremur um fráveitumál. Það er ásetningur borgarstjórnar að rekstrarform Orkuveitunnar verði óbreytt og hvorki fyrirtækið í heild, né einstakar starfseiningar þess, verði einkavæddar.
Í ljósi niðurstöðu úr atkvæðagreiðslu í Hafnarfirði þar sem stækkun álversins í Straumsvík var hafnað, afstöðu mikils meirihluta Sunnlendinga skv. skoðanakönnun, gegn virkjun í neðri hluta Þjórsár og almennrar vitundarvakningar í samfélaginu í umhverfis- og orkumálum, samþykkir borgarstjórn að beina því til Orkuveitu Reykjavíkur að fresta um sinn öllum áformum um virkjanir í þágu stóriðju. Borgarstjórn telur mikilvægt að vinnu við gerð rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma verði að fullu lokið sem og gerð náttúruverndaráætlunar og engar frekari ákvarðanir um virkjanir til stóriðju eigi að taka fyrr en að þeirri vinnu lokinni.
Borgarstjóri lýsti því yfir fyrir hönd meirihlutans að ekki kæmi til álita að einkavæða Orkuveitu Reykjavíkur en engu að síður lagði hann til að þeirri tillögu yrði vísað frá.  Það var samþykkt með atkvæðum Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks gegn atkvæðum Vinstri grænna og Samfylkingar.  Kemur það vissulega á óvart að meirihlutinn skuli lýsa yfir stuðningi við tillögu en vísa henni samt frá.  Það vekur tortryggni, kannski fylgir hugur ekki máli, enda samþykkti landsfundur Sjálfstæðisflokksins nú á dögunum að huga skuli að einkavæðingu orkufyrirtækja.
Síðari tillögunni var líka vísað frá og þá á þeirri forsendu að Orkuveitan myndi standa við skuldbindingar sínar varðandi orkusölu til stóriðju.  Skýtur það mjög skökku við að meirihlutinn vilji ekki taka mark á niðurstöðum atkvæðagreiðslunnar í Hafnarfirði.  Forstjóri Orkuveitunnar hefur sagt í fjölmiðlum að niðurstaðan hafi áhrif á virkjanaáform fyrirtækisins en meirihlutinn skellir skollaeyrum við.  Bendir það til þess að fái þessir stóriðjuflokkar áfram meirihluta á Alþingi muni þeir halda sig á sömu stóriðjubrautinni og þeir hafa verið til þessa.  Sú staðreynd að þeir hafa báðir, og þó einkum Sjálfstæðisflokkur, reynt að gera sem minnst úr stóriðjupólitíkinni nú í aðdraganda kosninga, kann því að vera svikalogn.
Í kjölfar atkvæðagreiðslunnar um tillögur Vinstri grænna lögðum við fram eftirfarandi bókun:
Það kemur verulega á óvart að meirihluti borgarstjórnar skuli ekki treysta sér til að samþykkja ályktunartillögu sem hann segist sammála og hafa alla tíð verið.  Fullyrðingar meirihlutans um að ekki standi til að einkavæða Orkuveitu Reykjavíkur hljóma ósannfærandi þegar sami meirihluti er ekki reiðubúinn til að samþykkja ályktunartillögu um það efni. Frávísun tillögunnar um að slá á frest áformum um virkjanir í þágu stóriðju undirstrikar að meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks er fastur í viðjum stóriðjustefnunnar. Meirihlutinn virðist ekki reiðubúinn að horfast í augu við þá staðreynd að almenningur í landinu telur nóg komið af atvinnustefnu forræðishyggjunnar sem felst í því að einblína á stóriðju. Hann lætur eins og atkvæðagreiðslan í Hafnarfirði þar sem stækkun álversins í Straumsvík var hafnað, hafi ekki átt sér stað.

VG fagnar því að Hólmsheiði sé talin besti flugvallarkosturinn

Borgarstjórnarflokkur Vinstri grænna sendi nú síðdegis í dag frá sér eftirfarandi fréttatilkynningu:

  

Á fundi borgarstjórnar í dag fór fram umræða utan dagskrár um málefni Reykjavíkurflugvallar að beiðni Vinstri grænna.Vinstri græn fagna því að niðurstaða starfshópsins sem unnið hefur að úttekt á flugvallarkostum, bendir til þess að flugvöllur á Hólmsheiði sé besti kosturinn frá þjóðhagslegu sjónarmiði.  

Sú staðsetning sameinar kosti þess að byggja upp Vatnsmýrina en um leið tryggja góðan og greiðan aðgang landsmanna allra að höfuðborginni sem við Vinstri græn teljum óhjákvæmilegt.  Vinstri græn fagna þeirri samstöðu sem virðist geta tekist í borgarstjórn um nýja staðsetningu innanlandsflugvallar í Reykjavík. 

Borgarstjórnarflokkur Vinstri grænna leggur kapp á að samhliða veðurrannsóknum verði hafin vinna við umhverfismat hinna mismunandi flugvallarkosta, en telur þó að flutningur innanlandsflugs til Keflavíkur komi ekki til álita.

mbl.is Fagna niðurstöðu skýrslu um Hólmsheiði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikil fylgisaukning VG í Suðurkjördæmi

Ný skoðanakönnun sem birt var í dag um fylgi flokka í Suðurkjördæmi bendir til þess að fylgi Vinstri grænna allt að því fjórfaldist frá síðustu kosningum.  Og jafnvel þótt um tvöföldun væri að ræða þá væri það í sjálfu sér stórsigur, enda slíkt fátítt í íslenskum stjórnmálum. 

Raunar hafa skoðanakannanir að undanförnu verið misvísandi um fylgi flokka.  Skýrist það að mati stjórnmálafræðinga einkum af mismunandi aðferðum þeirra aðila sem eru að kanna viðhorf almennings.  Þannig hefur Capacent/Gallup allt aðrar aðferðir en t.d. Fréttablaðið og Blaðið.  En það sem virðist sameiginlegt öllum könnununum er að fylgi núverandi stjórnarflokka annars vegar og annarra framboða hins vegar er ámóta mikið þegar tekið er tillit til skekkjumarka.

Í því felst að ríkisstjórnarflokkarnir munu halda áfram stjórnarsamstarfi fái þeir til þess umboð, en einnig hitt að það getur vel tekist að fella stjórnina.  Það gerist þó ekki af sjálfu sér og við sem viljum knýja fram breytta stjórnarstefnu verðum að leggja okkur mjög fram á þeim vikum sem eftir eru til kosninga.

Könnunin í Suðurkjördæmi sýnir að vísu sterka stöðu Sjálfstæðisflokksins en Framsóknarflokkurinn missir mikið fylgi.  Vinstri græn eru að bæta mjög mikið við sig en Samfylkingin tapar nokkrum prósentum.  Frjálslyndir missa líka mikið fylgi.  Íslandshreyfingin mælist varla.  Þótt margt geti gerst á þeim ríflega 3 vikum sem eftir eru til kosninga eru í öllum könnunum sterkar vísbendingar um að þjóðin vilji nýja ríkisstjórn.  Þær áherslur sem Vinstri græn hafa kynnt í umhverfismálum, velferðarmálum, efnahags- og skattamálum, atvinnu- og byggðámálum, jafnréttismálum og utanríkismálum þurfa nauðsynlega að fá rými við ríkisstjórnarborðið.  En til þess þarf að tryggja Vinstri grænum góða kosninga þann 12. maí.


mbl.is VG og Sjálfstæðiflokkur auka fylgi sitt í Suðurkjördæmi á kostnað Framsóknar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Menntamál eru kosningamál

Við vinstri græn erum þeirrar skoðunar að menntamál séu mikilvægur málaflokkur sem, ásamt öðru, verði kosið um í kosningunum 12. maí nk.  Í tilefni af ályktun Stúdendaráðs Háskóla Íslands samþykkti stjórn VG eftirfarandi ályktun:

Stjórn Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs fagnar þeirri kröfu Stúdentaráðs Háskóla Íslands að menntamál verði kosningamál enda er öflug menntastefna grundvöllur fyrir samfélagslegum umbótum.

Stjórn Vinstri-grænna minnir á að mörg stefnumál SHÍ eru í samhljómi við menntastefnu Vinstri-grænna sem samþykkt var 2005. Þar er kveðið á um gjaldfrjálst nám frá leikskóla upp í háskóla, öflugri rannsóknasjóði fyrir meistara- og doktorsnema, nauðsyn þess að fjölbreytt nám sé í boði á háskólastigi, öfluga samkeppnissjóði, vel sé búið að háskólum um land allt og tekið sé tillit til sérstöðu Háskóla Íslands. Stjórn Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs ítrekar einnig nauðsyn þess að endurskoða framfærslugrunn námslána og hækka grunnframfærsluna í framhaldi af því þannig að full námslán dugi til framfærslu. Þá skiptir einnig máli að gera Lánasjóð íslenskra námsmanna sveigjanlegri þannig að nemendur í hlutastarfi eigi rétt á lánum og að þeim sem eru að koma beint af vinnumarkaði sé gert kleift að framfleyta sér á námslánum.  Lánasjóðurinn á að vera tæki til jöfnuðar og veita öllum tækifæri til fjölbreytts náms.


Rætt um stöðu og framtíð sveitarfélaganna

Í dag var ég á kosningafundi í Háskólanum á Akureyri.  Þar var viðfangsefnið staða og framtíð sveitarstjórnarstigsins og voru fulltrúar 5 framboða mættir.  Auk mín voru þarna Birkir Jón Jónsson (B), Kristján Þór Júlíusson (D), Þorkell Jóhannsson (F) og Einar Már Sigurðarson (S).

Þetta var líflegur fundur, við fengum 10 mínútur hver í framsögur og hefði ég reyndar getað talað miklu lengur.  Í máli mínu lagði ég áherslu á lýðræðishlutverk sveitarfélaganna og hvernig við gætum styrkt það í sessi.  Talsvert var fjallað um verkefni sveitarfélaganna, tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga, sameiningu sveitarfélaga og samskiptin við ríkið.

Þarna voru nemendur og kennarar og umræður urðu býsna líflegar, margar góðar spurningar úr sal og við reyndum að svara fyrir stefnu flokka okkar í málum sveitarfélaganna.  Ég undirstrikaði mikilvægi þess að efla sveitarstjórnarstigið með frekari verkefnum og að tryggja þyrfti efnahagslegt og lýðræðislegt sjálfstæði sveitarfélaga en ekki einblína á stærð þeirra eða fjölda.  Slíkt skilaði engu.  Í umræðum um kosningar um sameiningu sveitarfélaga og hvort sveitarfélög ættu að geta séð sig um hönd og klofið sig út úr sameinuðu sveitarfélagi ef þeim líkaði ekki árangurinn, gat ég þess að mikilvægt væri að íbúar gætu kosið um slíkt með sama hætti og þeir gætu kosið um sameiningu, brennivínsútsölur, hundahald, álver o.fl.  Ótækt væri að ákveða fyrirfram að um tiltekin mál mætti ekki kjósa.

Mikið var spurt um lýðræðið og hvernig auka mætti aðgang almennings að sveitarstjórnunum og jafnframt að auðvelda þátttöku í ákvörðunum.  Af minni hálfu kom fram að ekki væri nóg að íbúar gætu kosið á fjögurra ára fresti eða að íbúum væri gert kleift að kjósa um mál sem sveitarstjórnin sjálf ákveður heldur yrði að tryggja tilteknum fjölda íbúa að setja mál í atkvæðagreiðslu og jafnvel að koma með beinar tillögur fyrir sveitarstjórn.  Þá vakti ég máls á samhengi sveitarstjórnar- og byggðamála og lýsti þeirri skoðun minni að þessi mál ættu heima saman í ráðuneyti, líkt og víða væri í löndunum í kringum okkur.

Vonandi voru fundarmenn nokkru nær um stefnu flokkanna í þessum málum og alla vega hygg ég að mér hafi tekist þokkalega að koma sjónarmiðum Vinstri grænna á framfæri.


Stjórnmálaleiðtogar í Kastljósi

Fyrsti umræðuþáttur leiðtoga stjórnmálaflokkanna fyrir kosningarnar í vor, var í Kastljósi nú í kvöld.  Þátturinn fór hægt af stað en eftir því sem á leið færðist meira fjör í leikinn.

Ég var að sjálfsögðu mjög ánægður með minn mann.  Steingrímur J. var yfirvegaður og kurteis, en um leið fylginn sér og ákveðinn og kom málstað okkar Vinstri grænna vel á framfæri.  Umræðan um stórðjumálin, velferðarmálin og skattamálin sýndi vel muninn á stefnu núverandi ríkisstjórnar og stjórnarandstöðunnar.

Stóriðjustefnan er í raun komin í þrot og meira að segja Sjálfstæðisflokkurinn viðurkennir það, þótt formaður hans hafi reynt að verja stóriðjustefnuna með hangandi hendi.  Steingrími tókst líklega best upp í umræðunni um skattamálin, einkum vegna þess að hann kom vel á framfæri þeirri óréttlátu skattastefnu sem rekin hefur verið af núverandi stjórnarflokkum með aukinni misskiptingu og ennfremur skýrði hann vel út á skýru og einföldu máli kjarnann í skattastefnu Vinstri grænna. 

Í heildina fannst mér Steingrímur bera af, en einnig komust Ingibjörg Sólrún og Geir Haarde vel frá sínu, þótt formaður Sjálfstæðisflokksins mætti alveg létta brúnina endrum og eins.  Guðjóni Arnari tókst ekki vel að rökstyðja stefnu flokks síns í málefnum innflytjenda og Jón Sigurðsson virkaði á mig eins og biluð plata sem annars vegar spilar bara stoppsönginn gagnvart stjórnarandstöðunni og hins vegar hálftilbiður Sjálfstæðisflokkinn.  Ekki góð taktík.  Ómar var í fyrsta skipti í hlutverki sínu sem stjórnmálaleiðtogi og komst ágætlega frá því en skýrði auðvitað ekkert út hvað "hægri" stefnan hans gengur út á.  Það kemur vonandi síðar.

Stjórnendurnir, Sigmar og Jóhanna Vigdís, stóðu sig prýðilega og höfðu ágæta stjórn á þættinum  og komust yfir þokkalega mikið. Sem sagt, ég var bara ánægður með þáttinn.


Góð stemning á Akureyri

Á miðvikudaginn var ók ég norður til Akureyrar til að vera gestur á opnum fundi Vinstri grænna í kosningamiðstöðinni í Hafnarstrætinu.  Fundurinn var liður í fundaröðinni "Vinstri græn um allt land" sem nú stendur yfir.  Það er mikilvægt fyrir okkur frambjóðendur af höfuðborgarsvæðinu að kynnast áherslur vítt og breitt um landið og heilsa upp á kjósendur þar ekki síður en á suðvesturhorninu.  Það eykur víðsýni og breidd.

Þetta er fjórði fundurinn sem ég sæki utan suðvesturhornsins í þessari kosningabaráttu.  Áður hef ég heimsótt Reykjanesbæ, Akranes og Hornafjörð.  Fundurinn á Akureyri var vel sóttur og umræður feikigóðar.  Auk mín fluttu heimaframbjóðendurnir Björn Valur Gíslason (3. sæti í NA-kjördæmi) og Dýrleif Skjóldal (4. sæti í NA-kjördæmi) ræður.  Allt gekk það vel og umræður snérust um atvinnu- og byggðamál, samgöngumál, efnahagsmál, menntamál, umhverfismál og sjávarútvegsmál svo það helsta sé nefnt.  Stemningin var og er sem sagt mjög góð á Akureyri, höfuðvígi kjördæmisins.

Frambjóðendurnir í efstu sætum, þau Steingrímur J. Sigfússon og Þuríður Backman, voru að sjálfsögðu á fundinum líka og tóku þátt umræðum.  Í þessari fundaröð VG um landið höfum við kostað kapps um að blanda saman frambjóðendum af fleiri listum og það hefur gefist vel.  Með því móti kynnast frambjóðendur flokksins vel, þeim gefst kostur á að kynna sig og það kemur síðan glöggt fram að VG hefur eina stefnu óháð því í hvaða kjördæmi við erum.

Áður en fundurinn hófst gafst okkur tækifæri að vera viðstödd beina útsendingu Stöðvar 2 á umræðum oddvita flokkanna í norðausturkjördæmi frá safnaðarheimilinu á Akureyri.  Þar var Steingrímur J. að sjálfsögðu og stóð sig vel eins og endra nær.  Kynntar voru niðurstöður úr skoðanakönnun innan kjördæmisins þar sem kemur fram að VG er að bæta við sig um 8% frá síðustu kosningum, eða rúmlega 50% aukning, sem verður að teljast mjög gott.  Sjálfstæðisflokkurinn bætir líka verulega við sig, og er þar væntanlega að gæta áhrifanna af oddvitaskiptum.  Tíðindin mestu þar eru þó þau að Framsóknarflokkurinn hrynur úr 33% í um 12% sem hlýtur að vera flokknum mikið áfall.

Að fundi loknum ók ég frá Akureyri suður í Borgarfjörð þar sem ég eyði páskahelginni með fjölskyldunni.


Stórbæra þarf kjör og aðstæður aldraðra

Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hefur ekki staðið sig í málefnum aldraðra. Kjör þeirra hafa versnað á undanförnum árum, jafnvel í góðærinu og skattalækkunum sem orðið hafa, eru aldraðir einkum sá hópur sem hefur setið eftir. Lífeyrir hefur ekki fylgt almennri launaþróun og skattalækkanir ríkisstjórnarinnar hafa einkum komið hinum tekjuháu til góða. Aldraðir fylla almennt ekki þann hóp. Á þessu þarf að verða breyting.

Íslenskt samfélag hefur tekið miklum stakkaskiptum á undanförnum áratugum. Tuttugasta öldin er öld stórstígustu framfara sem orðið hafa á Íslandi. Kynslóðin sem skaut traustum stoðum undir atvinnulífið, sem barðist fyrir bættum kjörum og félagslegum rétti, kynslóðin sem byggði upp velferðarkerfið sem við búum við í dag, það er kynslóðin sem nú fyllir flokk aldraðra. Þjóðinni ber skylda til að búa vel að brautryðjendum sínum og sjá til að aldraðir þurfi ekki að hafa áhyggjur af afkomu sinni og aðbúnaði. Það er það minnsta sem við getum gert. Á það hefur hins vegar skort og það er afar brýnt að á því verði breyting. Tækifærið til þess er í vor þegar gengið verður að kjörborðinu og það tækifæri má ekki láta ónotað.

Á sama tíma og kaupmáttur hefur almennt aukist, bæði vegna kjarasamninga, skattalækkana og annarra atriða, hefur kaupmáttur lífeyrisgreiðslna ekki fylgt með. Lífeyrir hækkar ekki reglubundið eins og laun skv. kjarasamningum og skattalækkanir hafa ekki skilað sér til tekjulægstu hópanna, þ.m.t. þeirra sem eru á lífeyri hvers konar. Persónuafslátturinn hefur langt í frá fylgt almennri verðlagsþróun frá því honum var komið á með staðgreiðslunni á níunda áratugnum. En persónuafslátturinn í skattkerfinu er sá þáttur sem skiptir lágtekjufólk mestu máli, hann ræður því við hvaða tekjumörk fólk byrjar að greiða tekjuskatt. Fyrir aldraða, sem flestir hverjir hafa eingöngu lífeyrisgreiðslur til framfærslu, myndi hækkun persónuafsláttar hafa mikil áhrif til að bæta kjör þeirra. Vel má hugsa sér að sérstakur persónuafsláttur bætist við þá sem eingöngu eru með lífeyrisgreiðslur, vilji menn koma í veg fyrir að allir, líka þeir tekjuhæstu, njóti hækkunar persónuafsláttar. Hugmyndir um lægra skattþrep fyrir lífeyrisgreiðslur koma einnig vel til álita. Meginatriðið er að það verður að auka kaupmátt lífeyrisgreiðslna, og það strax.

En fleira en kaupmátturinn varðar aldraða sérstaklega. Uppbygging þjónustu fyrir aldraða hefur því miður setið á hakanum um langt skeið. Stórbæta þarf heimahjúkrun og samþætta hana félagslegri heimaþjónustu sveitarfélaganna. Aukin og bætt hjúkrun og þjónusta á heimilum getur gert mörgum kleift að búa lengur heima og það eru vissulega margir sem það kjósa. Ennfremur þarf að taka á í uppbyggingu hjúkrunarheimila, einkum á höfuðborgarsvæðinu þarf sem biðlistar eru langir. Þar þarf sérstaklega að horfa til þess að breyta fjölbýlum óskyldra í einbýli en einnig að tryggja að hjón séu ekki aðskilin þegar annað þarf á mikilli umönnun að halda en hitt ekki. Því miður eru sífellt að berast fréttir um slíkt og það er samfélaginu til vansa.

Núverandi ríkisstjórn hefur ekki sinnt þessum málaflokki sem skyldi. Hún hefur verið of upptekin við álæðið og stóriðjustefnuna og að hlúa að fjármagnseigendum og hátekjufólki. Í vor þarf að verða breyting. Vinstrihreyfingin – grænt framboð leggur m.a. höfuðáherslu á samábyrgt velferðarkerfi. Í því felst að við viljum nýta hinar almennu skatttekjur til að greiða fyrir grunnþjónustu velferðarkerfisins og ýmist fella niður eða draga verulega úr þjónustugjöldum hvers konar á móti. Forsenda þess að það verði stefnubreyting í málefnum aldraðra er að Vinstri græn viðhorf verði ráðandi í næstu ríkisstjórn. Atkvæði greitt Vinstri grænum er verðmætt atkvæði. Það er ávísun á allt annað líf. 

(Greinin birtist í Morgunblaðinu 3. apríl 2007.)


Afleikir Jóns

Jón Sigurðsson, formaður Framsóknarflokksins, er fremur seinheppinn í yfirlýsingum sínum að mínu mati.  Í kjölfar almennrar og lýðræðislegrar kosningar í Hafnarfirði um stækkun álversins í Straumsvík, þar sem Hafnfirðingar höfnuðu stækkuninni, lýsir hann því yfir að bæjaryfirvöld séu ekki bundin af þeirri niðurstöðu og er á honum að skilja að þau geti sem best haft hana að engu.

Í viðtali á Stöð 2 í kvöld lýsir hann svo þeirri skoðun sinni að samstarf við flokka sem vilja ekki halda áfram á stóriðjubrautinni komi ekki til greina.  Er það kannski ekki úr vegi að rifja upp viðtal við þann sama Jón í Morgunblaðinu 28. júní sl. en þar er haft eftir honum:  "Hann [Jón] segir marga standa í þeirri trú að hér sé rekin virk stóriðjustefna en mikilvægt sé að leiðrétta þennan misskiling."

Þarna er formaður Framsóknarflokksins, þá nýlega orðinn iðnaðarráðherra, að afneita tilveru stóriðjustefnunnar.  Nú lýsir hann því yfir að hann vilji ekki vinna með neinum nema þeim sem vilja viðhalda stóriðjustefnunni!!  Í hve marga hringi ætlar maðurinn eiginlega?

Þessi útspil formanns Framsóknarflokksins, nú þegar 6 vikur eru til þingkosninga eru ekki pólitísk klók.  Enda þótt margir (og e.t.v. flestir) áhrifamenn innan flokksins telji nú að líkur á því að núverandi stjórnarflokkar fái afl til að sitja áfram séu hverfandi, er vitaskuld ekki útséð um hvernig ríkisstjórnarmynstur geta komið til álita.  Ætlar Framsóknarflokkurinn að dæma sig úr leik fyrirfram? 

Við í VG höfum t.d. ekki útilokað samstarf við neinn flokk þótt við eigum vissulega meiri samleið með núverandi stjórnarandstöðuflokkum en stjórnarflokkum.  Nýlegt útspil Frjálslynda flokksins í innflytjendamálum hefur vissulega komið illa við okkur mörg í VG, en á þessu stigi er ekki rétt að útiloka samstarf enda alls óvíst hvaða mál verða sett á oddinn í stjórnarmyndunarviðræðum.  Hið sama hlýtur að eiga við um Framsókn.  Þótt flokkurinn hafi verið í forystu fyrir stóriðjustefnunni og umhverfisfórnum sem við í VG höfum barist hatrammlega gegn, er aldrei að vita nema þar á bæ séu menn reiðubúnir að hugsa þau mál upp á nýtt að loknum kosningum. 

Á síðasta kjörtímabili störfuðu Vinstri græn, Samfylking og Framsóknarflokkur saman í meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur og náðu margháttuðum árangri þótt vissulega væru skoðanir oft skiptar.  Á þessu kjörtímabili starfa þessir flokkar saman í meirihluta í Árborg.  Ber að skilja yfirlýsingar formanns Framsóknarflokksins þannig að hann útiloki þess háttar stjórnarsamstarf á landsvísu?  Ef svo er, þá er það athyglisvert en augljóslega ekki klókt.  Þessi útspil Jóns Sigurðssonar eru afleikir og raunar afar ósennilegt að raunsæir og reyndir stjórnálamenn í forystu flokksins bakki formanninn upp í þessari afstöðu.  Við sjáum hvað setur.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband