Stjórnarflokkarnir fastir í viðjum stóriðjustefnunnar

Á fundi borgarstjórnar í gær lögðum við borgarfulltrúar Vinstri grænna fram tvær tillögur til ályktunar um málefni Orkuveitu Reykjavíkur.  Tillögurnar fjalla annars vegar um að einkavæðing Orkuveitunnar komi ekki til álita og hins vegar að fresta áformum um virkjanir í þágu stórðiju í kjölfar atkvæðagreiðslunnar í Hafnarfirði.  Tillögurnar voru svohljóðandi:
Borgarstjórn Reykjavíkur ályktar að einkavæðing Orkuveitu Reykjavíkur komi ekki til álita. Borgarstjórn undirstrikar að Orkuveitan, sem er fyrirtæki í eigu borgarbúa ásamt íbúum nokkurra annarra sveitarfélaga á SV-horninu, gegnir mikilvægu samfélagslegu hlutverki í öflun og dreifingu á rafmagni og heitu og köldu vatni til almennings og sér nú ennfremur um fráveitumál. Það er ásetningur borgarstjórnar að rekstrarform Orkuveitunnar verði óbreytt og hvorki fyrirtækið í heild, né einstakar starfseiningar þess, verði einkavæddar.
Í ljósi niðurstöðu úr atkvæðagreiðslu í Hafnarfirði þar sem stækkun álversins í Straumsvík var hafnað, afstöðu mikils meirihluta Sunnlendinga skv. skoðanakönnun, gegn virkjun í neðri hluta Þjórsár og almennrar vitundarvakningar í samfélaginu í umhverfis- og orkumálum, samþykkir borgarstjórn að beina því til Orkuveitu Reykjavíkur að fresta um sinn öllum áformum um virkjanir í þágu stóriðju. Borgarstjórn telur mikilvægt að vinnu við gerð rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma verði að fullu lokið sem og gerð náttúruverndaráætlunar og engar frekari ákvarðanir um virkjanir til stóriðju eigi að taka fyrr en að þeirri vinnu lokinni.
Borgarstjóri lýsti því yfir fyrir hönd meirihlutans að ekki kæmi til álita að einkavæða Orkuveitu Reykjavíkur en engu að síður lagði hann til að þeirri tillögu yrði vísað frá.  Það var samþykkt með atkvæðum Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks gegn atkvæðum Vinstri grænna og Samfylkingar.  Kemur það vissulega á óvart að meirihlutinn skuli lýsa yfir stuðningi við tillögu en vísa henni samt frá.  Það vekur tortryggni, kannski fylgir hugur ekki máli, enda samþykkti landsfundur Sjálfstæðisflokksins nú á dögunum að huga skuli að einkavæðingu orkufyrirtækja.
Síðari tillögunni var líka vísað frá og þá á þeirri forsendu að Orkuveitan myndi standa við skuldbindingar sínar varðandi orkusölu til stóriðju.  Skýtur það mjög skökku við að meirihlutinn vilji ekki taka mark á niðurstöðum atkvæðagreiðslunnar í Hafnarfirði.  Forstjóri Orkuveitunnar hefur sagt í fjölmiðlum að niðurstaðan hafi áhrif á virkjanaáform fyrirtækisins en meirihlutinn skellir skollaeyrum við.  Bendir það til þess að fái þessir stóriðjuflokkar áfram meirihluta á Alþingi muni þeir halda sig á sömu stóriðjubrautinni og þeir hafa verið til þessa.  Sú staðreynd að þeir hafa báðir, og þó einkum Sjálfstæðisflokkur, reynt að gera sem minnst úr stóriðjupólitíkinni nú í aðdraganda kosninga, kann því að vera svikalogn.
Í kjölfar atkvæðagreiðslunnar um tillögur Vinstri grænna lögðum við fram eftirfarandi bókun:
Það kemur verulega á óvart að meirihluti borgarstjórnar skuli ekki treysta sér til að samþykkja ályktunartillögu sem hann segist sammála og hafa alla tíð verið.  Fullyrðingar meirihlutans um að ekki standi til að einkavæða Orkuveitu Reykjavíkur hljóma ósannfærandi þegar sami meirihluti er ekki reiðubúinn til að samþykkja ályktunartillögu um það efni. Frávísun tillögunnar um að slá á frest áformum um virkjanir í þágu stóriðju undirstrikar að meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks er fastur í viðjum stóriðjustefnunnar. Meirihlutinn virðist ekki reiðubúinn að horfast í augu við þá staðreynd að almenningur í landinu telur nóg komið af atvinnustefnu forræðishyggjunnar sem felst í því að einblína á stóriðju. Hann lætur eins og atkvæðagreiðslan í Hafnarfirði þar sem stækkun álversins í Straumsvík var hafnað, hafi ekki átt sér stað.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Presturinn

Sæll Árni, þú hefur af mörgum verið talinn heilbrigðasti einstaklingurinn í VG og ég var því að velta því fyrir mér hvort að þú værir fær um að fylla í gapandi eyður í stefnu ykkar sem ég bendi á hér.

Presturinn, 22.4.2007 kl. 09:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband