Tilefnislausar áhyggjur

Í kjölfar álverskosningar í Hafnarfirði hafa ýmsir, m.a. iðnaðarráðherra, lýst áhyggjum af því að sem við tekur ef vinstri flokkarnir komast til áhrifa í landsstjórninni.  Talar hann þar um "stóra stopp" og segir að stóriðjustefnan sé alls ekki dauð, heldur haldi hún áfram.

Þetta er auðvitað mjög skondið.  Þegar umræddur ráðherra tók við formennsku í Framsóknarflokknum í haust lýsti hann því yfir að Íraksstríðið væri mistök, og að engin stóriðjustefna væri til hjá stjórnvöldum.  Maður verður nú hálfruglaður á þessum misvísandi yfirlýsingum.

En af hverju að hafa áhyggjur?  Vissulega verður breytt um stefnu í fjölmörgum málum ef stjórnin fellur í kosningunum 12. maí nk.  Hvað er það sem við í VG viljum t.d. stöðva og veldur Jóni Sigurðssyni svona miklu hugarangri?  Tökum nokkur dæmi um það sem við viljum stöðva:

  • hávaxtastefnan og aukin skuldabyrði heimilanna
  • viðskiptahallinn
  • einkavæðing samfélagsþjónustunnar
  • launamunur kynjanna
  • vaxandi misskipting milli þjóðfélagshópa
  • einhæf atvinnuuppbygging
  • byggðaflótti
  • niðurskurður í samgöngumálum
  • skuldasöfnun sveitarfélaga
  • stuðningur við árásarstefnu Bandaríkjanna
  • kynbundið ofbeldi, vændi og mansal
  • félagslegur ójöfnuður
  • eyðilegging á náttúruperlum landsins

Þetta er meðal þess sem við viljum ekki standa að, en vitaskuld getur verið að ríkisstjórnarflokkarnir vilji halda áfram á þessari braut.  Vinstrihreyfingin grænt framboð vill breyta um stjórnarstefnu og leggja m.a. áherslu á:

  • stöðugleika í efnahagsmálum
  • lækkun vaxta
  • jafnvægi í gengismálum
  • fjölbreytt og sjálfbært atvinnulíf um allt land
  • að sérstaklega verði hlúð að starfsskilyrðum útflutnings- og samkeppnisgreina
  • að sprota- og nýsköpunarfyrirtæki búi við góð skilyrði
  • að styrkum stoðum verði rennt undir lífræna matvælaframleiðslu
  • réttlátt skattkerfi m.a. með hækkuðum skattleysismörkum
  • félagslegan jöfnuð
  • mannsæmandi kjör fyrir aldraða og öryrkja
  • samfélagsþjónustu fyrir alla óháð efnahag
  • stóreflt og fjölþætt menntakerfi, allt frá leikskóla og upp í háskóla
  • jafnrétti kynja í raun
  • blómlegt fjölmenningarlegt samfélag
  • markvissar aðgerðir í byggða- og samgöngumálum, m.a. með jöfnun flutningskostnaðar
  • umhverfis- og náttúruvernd í verki
  • sjálfstæða utanríkisstefnu

Og margt margt fleira.  Eru það þessi stefnumál sem valda iðnaðarráðherra hugarangri?  Það er fásinna að láta eins og allt sé í voða ef skipt verður um ríkisstjórn.  Raunar er það löngu orðið tímabært.  Áhyggjur formanns Framsóknarflokksins og ýmissa annarra af hugsanlegum stjórnarskiptum eru tilefnislausar.  Þvert á móti getur vel verið að ríkisstjórnarflokkarnir séu orðnir svo þreyttir á hvor öðrum að það færði þeim raunverulega hugarró að þurfa ekki að sitja lengur saman við ríkisstjórnarborðið.  Kannski þeir ættu að fara að venja sig við þá tilhugsun?


Nú er rétt að staldra við

Hafnfirðingar tóku þá skynsömu ákvörðun í kosningu um stækkun álversins í Straumsvík að segja nei - hingað og ekki lengra.  Það er kominn tími til að staldra við og ljá umræðunni um atvinnu- og umhverfismál nýja hugsun.  Þingkosningarnar 12. maí nk. þurfa að innsigla þann vilja almennings sem endurspeglast í Hafnarfjarðarkosningunni í gær.

Það er ótrúlegt að eftir alla umræðuna um umhverfis- og náttúruverndarmál, umræðuna um óstöðugleikann í efnahagsmálum, viðskiptahallann og svimandi háa vexti, skuli enn örla á því viðhorfi að það sé svartur dagur í sögu lands og þjóðar að Hafnfirðingar skuli hafa hafnað stækkuninni.  Og að nú þurfi að hefjast þegar handa við Helguvík eða Húsavík!

Nei, einmitt núna er lag til að staldra við, halda áfram og ljúka við vinnu við rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma, skoða af einhveri alvöru margvíslega aðra atvinnukosti sem henta betur okkar litla samfélagi og koma landsmönnun öllum til góða, hvar sem þeir búa.  Sannleikurinn er sá að með gríðarlega mikilli innspýtingu inn á eitt atvinnusvæði, eins og eitt stykki álver sannarlega er, verður rýmið í litlu efnahagskerfi okkar nánast ekkert fyrir fjárfestingu í öðrum greinum og um leið verða aðrir landshlutar algerlega afskiptir í atvinnumálum.  Á sama tíma eykst viðskiptahallinn með alvarlegum afleiðingum fyrir útflutnings- og samkeppnisgreinarnar, t.d. sjávarútveg og ferðaþjónustu, og vextir halda áfram að hækka.  Það leiðir til vaxandi skuldasöfnunar heimilanna og atvinnulífsins í landinu.  Hverjir vilja virkilega halda áfram á þessari braut?

Við eigum marga góða kosti í atvinnumálum.  Hvað mikilvægast í því efni er að hlúa að sprotafyrirtækjum og nýsköpun og þróun, stuðla að fjölbreyttu atvinnulífi í hverjum landshluta, smáum og meðalstórum fyrirtækjum í ferðaþjónustu, matvælaframleiðslu, smáiðnaði, handverki, hugbúnaði, menningu, listum og sögu svo fátt eitt sé nefnt.  Ennfremur þarf að leggja enn meiri kraft í menntun og rannsóknir til að auka samkeppnishæfni Íslands til framtíðar.  Tækifærin eru víða ef stjórnvöld bera gæfu til að opna augun og skapa góð skilyrði fyrir fjölbreytt atvinnulíf í stað þess að einblína á eina allsherjarlausn sem þar að auki veldur óstöðugleika, þenslu, háum vöxtum og hefur einungis lítil staðbundin áhrif á vinnumarkað.  Atvinnustefna núverandi stjórnvalda sver sig óþyrmilega í ætt við stórkarlalegar lausnir í ráðstjórnarríkjum víða um heim og ætti að vera löngu aflögð.  Tækifærið til að segja skilið við hana er þann 12. maí nk.  Látum það tækifæri ekki ónotað.


mbl.is Hafnfirðingar höfnuðu stækkun álversins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Blindir þurfa betri menntun

ÞAÐ er kunnara en frá þurfi að segja að þótt jafnrétti til náms sé við lýði á Íslandi í orði kveðnu, er það ekki þannig í reynd. Ýmsir einstaklingar og hópar búa við lakari aðstæður hvað menntun snertir, vegna þess að þeim er ekki gert kleift að afla sér þeirrar menntunar sem almennt er í boði. Þetta á til dæmis við um blinda. Þess vegna hafa hagsmunasamtök blindra barist fyrir því að blindum og sjónskertum verði tryggð viðunandi þjónusta í skólum landsins.


Nýlega átti ég þess kost að sækja kynningarfund sem Blindrafélagið efndi til og var sjónum beint að stjórnmálamönnum, bæði í landsmálum og sveitarstjórnarmálum. Þar var kynnt afar áhugaverð skýrsla sem tveir breskir sérfræðingar hafa unnið og tekur á stöðu blindra og sjónskertra nemenda innan íslenska skólakerfisins. Sjónstöð Íslands telur að hér á landi séu um 120 blind og alvarlega sjónskert börn. Þau eiga að sjálfsögðu allan rétt á viðhlítandi úrræðum í skólakerfinu til að sitja við sama borð og sjáandi einstaklingar. Í grein sem Ágústa Gunnarsdóttir, ritari Blindrafélagsins, ritar í Morgunblaðið 12. mars sl. kemur fram að aðstæður blindra og sjónskertra voru til muna betri á árum áður, en þær hafa versnað mjög eftir að sérdeild fyrir blind og alvarlega sjónskert börn var lögð niður. Þar voru þá starfandi sérmenntaðir blindrakennarar sem gátu leiðbeint og veitt ráðgjöf öðrum kennurum sem höfðu sjónskerta nemendur í sinni umsjá.

Bresku ráðgjafarnir leggja til margvíslegar aðgerðir til að bæta menntun blindra og sjónskertra á Íslandi. Ein af tillögum þeirra er að stofna þekkingar- og ráðgjafarmiðstöð í skólamálum. Það er talið afar þýðingarmikið að koma slíkri miðstöð á laggirnar en verkefni hennar yrðu m.a. að semja staðla fyrir landið, þróa samþætta þjónustu við blinda og sjónskerta námsmenn með þátttöku þeirra og í samvinnu við stofnanir á sviði menntamála o.fl. Með aðalbækistöð í Reykjavík og aðgengilegri gagnamiðstöð yrði unnt að veita slíka þjónustu í sveitarfélögum um land allt.

Á opnum fundi á vegum Blindrafélagsins í febrúar sl. um menntunarmál blindra og sjónskertra, undir yfirskriftinni "Þurfa blindir menntun?", var ályktað um þessi mál. Í ályktun fundarins segir:

Fundurinn skorar á menntamálayfirvöld að beita sér nú þegar fyrir því að sett verði á fót þekkingar- og ráðgjafarmiðstöð í skólamálum blindra og sjónskertra. Í skýrslu sem samin hefur verið af tveimur breskum sérfræðingum, þeim John Harris og Paul Holland, og gerð var fyrir tilstuðlan Blindrafélagsins, kemur glöggt fram að brýn nauðsyn er á að stofna slíka miðstöð. Fundurinn leggur áherslu á að fyrrnefnd skýrsla verði höfð að leiðarljósi þegar skipulögð verður þjónusta við blinda og sjónskerta námsmenn.  Fundurinn skorar á menntamálayfirvöld að tryggja að allir grunn- og framhaldsskólanemendur landsins hafi jöfn tækifæri til að afla sér menntunar.   Fundarmenn telja að tími umræðna og vangaveltna sé liðinn og tími framkvæmda runninn upp.

Það eru sannarlega orð að sönnu að tími aðgerða sé runninn upp. Tillögur um að þekkingarmiðstöð verði komið á fót og hún vistuð hjá Blindrafélaginu og/eða Sjónstöð Íslands hafa legið í menntamálaráðuneyti, en ráðuneytið mun ekki hafa talið heppilegt að slík miðstöð yrði rekin af þeim aðilum. Engar aðrar lausnir eru þó í sjónmáli. Nú þarf að taka til hendinni og tryggja blindum og sjónskertum nemendum vafningalaust rétt sinn til náms til jafns við aðra og það á að sjálfsögðu að gera í samstarfi við Blindrafélagið og Sjónstöðina. Það er vel hægt og tækni hefur fleygt fram á undanförnum árum sem gerir allt starf í þessa veru auðveldara. Íslenskt samfélag getur ekki verið þekkt fyrir að mismuna nemendum með þeim hætti sem blindir og sjónskertir búa við.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 23. mars sl.

 


Fátækt og heimilsofbeldi til umræðu

Á fundi stjórnar sveitarstjórnarþings Evrópuráðsins, sem nú stendur yfir hér í Strasbourg, hefur sjónum einkum verið beint að fátækt og heimilisofbeldi.  Mikill vilji er til þess að beina því til sveitarstjórna í aðildarríkjum Evrópuráðsins, að taka þessi mál föstum tökum.

Augljóslega er það mikið áhyggjuefni hvað misskipting hefur aukist og fátækt er útbreidd.  Því hefur sveitarstjórnarþing Evrópuráðsins falið félagsmálanefnd sinni að fjalla um þetta viðfangsefni og leita leiða til að sveitarfélög geti haft meiri áhrif í baráttunni við fátækt sem er vaxandi vandamál í evrópskum borgum.  Fjárhagsaðstoð sveitarfélaganna fer vaxandi og enn er við mikið atvinnuleysi að stríða víða.  Aðgerðir sveitarfélaga beinast því einkum að því að þjálfa langtímaatvinnulausa þannig að þeir verði betur í stakk búnir til að fara út á vinnumarkaðinn.

Heimilisofbeldi og baráttan gegn því og mansali er verkefni sem sveitarstjórnarþingið í Evrópuráðinu lætur sig varða.  Hér er um að ræða einn alsvartasta blettinn á samfélagi nútímans og sem brýnt er að vinna gegn með öllum tiltækum ráðum.  Evrópuráðið hefur nú hrint af stað herferð, "Stöðvum heimilisofbeldi", sem mun standa næstu tvö ár og er ætlunin að nota tímann til að vekja fólk til umhugsunar um þennan smánarblett og leita áhrifaríkra leiða til að berjast gegn honum í samstarfi við þjóðþing, ríkisstjórnir, sveitarstjórnir, félagasamtök o.fl.  Meðal þess sem hér er rætt um er viðunandi aðstaða fyrir konur og börn sem búa við heimilisofbeldi.  Þá hefur Evrópuráðið og sveitarstjórnarþing þess einnig, hafið baráttu gegn mansali undir slagorðinu "Human being - not for sale!"  Hægt er að skoða nánar yfirlýsinguna um þetta mál á slóðinni www.coe.int/stop-trafficking

Þá er rétt að nefna að hér hefur líka verið til umfjöllunar og afgreiðslu ályktun um réttindi samkynhneigðra, tvíkynhneigðra og kynskiptinga. Í ályktun sem var samþykkt hér eru aðildarríki Evrópuráðsins hvött til að taka afstöðu gegn hvers kyns mismunun og ofbeldi gegn þessum hópum og tryggja mannréttindi þeirra í hvívetna.  Áhersla var lögð á að nýta skólakerfið markvisst til þess að fræða og upplýsa um mannréttindi og það, að fólk er mismunandi og má vera það.  Það kom ekki á óvart að Rússar og fleiri Austur-Evrópuþjóðir vildu fara varlegar í sakirnar og lögðu til að ályktunartextinn yrði þynntur aðeins út, en það var sem betur fer ekki samþykkt. 

Í öllum þessum málum hafa sveitarstjórnir hlutverki að gegna sem vafalaust er vanmetið víða.  Hins vegar er sjálfsagt að efla starf sveitarfélaganna að mannréttindamálum hvers konar og nýta þau tæki sem þau ráða yfir í því efni.


Óttinn við kjósendur

Það er gömul saga og ný að þegar stjórnmálaflokkar eiga engin svör við spurningum kjósenda, þegar þeir hafa gefist upp á eigin stefnu og þegar þeir horfa fram á eigið afhroð, þá grípa þeir til hræðsluáróðurs.  Þetta er auðvitað ein lágkúrulegasta baráttuaðferð í stjórnmálum sem þekkist, en hefur stundum gefist vel – en getur líka snúist upp í andhverfu sína.  Við því var að búast, að nú þegar Vinstri græn hafa um langt skeið mælst með mikinn stuðning meðal kjósenda og stjórnarflokkarnir virðast missa meirihluta sinn, yrði gripið til þess óyndisúrræðis sem hræðsluáróðurinn er.  Engum kemur á óvart að spunapiltar hægri flokkanna stundi slíka iðju.  Hitt vekur auðvitað athygli að varaformaður Framsóknarflokksins og margreyndur ráðherra, skuli munda stílvopnið í svo auvirðilega iðju, en Morgunblaðið birtir grein eftir hann í dag.  Þar ræðst Guðni Ágústsson á Vinstrihreyfinguna – grænt framboð, og er helst að skilja á skrifunum að landið muni sökkva í sæ ef vinstri græn sjónarmið komast að landsstjórninni.  Nú er rétt að taka fram að við Vinstri græn kveinkum okkur ekki – og munum aldrei gera – undan gagnrýni pólitískra mótherja.  Vitaskuld erum við reiðubúin að ræða inntak stjórnmálanna og takast á um grundvallarsjónarmið, markmið og leiðir.  Þannig stjórnmálabaráttu heyjum við og höfum gaman af.  En hræðsluáróður af því tagi sem landbúnaðarráðherra býður upp á í Morgunblaðinu í dag er náttúrulega ekki samboðinn forystumanni í stjórnmálaflokki og ráðherra.  Annan eins reyk hefur maður sjaldan séð nokkurn ábyrgan stjórnmálamann vaða, og er engu líkara en Guðni sé innilokaður í miðri bæjarbrennunni á Bergþórshvoli forðum, og mun honum þó ekki þykja samlíkingin leiðinleg!  Í hræðsluáróðri af þessu tagi birtist grímulaus ótti við kjósendur.  Og lítilsvirðing.  Með þessum málflutningi er einfaldlega verið að segja að kjósendur viti ekki hvað þeir gera.  Sannleikurinn er hins vegar sá að kjósendur vita mætavel hvað klukkan slær og stjórnmálamenn ættu aldrei að sýna þeim lítilsvirðingu og efast um dómgreind þeirra.  Það hittir þá sjálfa fyrir.  Einkum vekur það eftirtekt að í grein sinni reynir Guðni Ágústsson á engan hátt að gera grein fyrir sjónarmiðum Framsóknarflokksins í neinu máli heldur gerir hann Vinstri grænum upp skoðanir sem eru algerlega út í bláinn.  Slíkur málflutningur ber vott um fullkomna örvæntingu sem augljóslega hefur gripið um sig í herbúðum framsóknarmanna.  Lykillinn að velgengni VG um þessar mundir er að mínu viti m.a. sá, að flokkurinn hefur verið sjálfum sér samkvæmur, hann hefur barist fyrir sínum stefnumálum óháð því hvernig vindar blása – og það vita kjósendur.  Þegar straumurinn liggur til VG nú, þá er það einfaldlega vegna þess að kjósendur finna samhljóm með málflutningi flokksins og vilja að áherslur hans í umhverfismálum, velferðarmálum, jafnréttismálum og friðarmálum svo eitthvað sé nefnt, verði áberandi í næstu ríkisstjórn.  Og bersýnilega finnst kjósendum að forysta og frambjóðendasveit Vinstri grænna sé traustsins verð.  Hver veit nema kjósendum finnist einmitt tímabært að skipta um ríkisstjórn og þeir láti sér fátt um finnast svartagallsraus framsóknarmanna?  Íslenskt samfélag á gnægð tækifæra og við erum ríkt samfélag.  Við getum boðið upp á góð lífskjör og dregið úr misskiptingunni í samfélaginu.  Við getum útrýmt fátækt eins og Morgunblaðið hefur m.a. kallað eftir (og í því efni beðið um forystu Vinstri grænna).  Við getum gengið vel um auðlindir okkar og tryggt að komandi kynslóðir taki ekki við lakara búi en við gerðum.  Við getum búið öldruðum áhyggjulaust ævikvöld.  Við getum komið á jafnrétti kynjanna í reynd.  Við getum tryggt efnahagslegan stöðugleika með samstarfi við aðila vinnumarkaðarins og fleiri aðila.  Við getum byggt upp fjölskrúðugt, margbreytilegt og sjálfbært atvinnulíf um allt land og lagt grunn að velsæld í nútíð og framtíð.  En til þessa þarf nýja ríkisstjórn.  Ríkisstjórn þar sem Vinstrihreyfingin – grænt framboð gegnir burðarhlutverki.  Og kannanir undanfarið sýna að þjóðin er sama sinnis.  Þann vilja á ekki að vanmeta eða tortryggja.

Vinstri græn vilja styrkja stöðu sveitarfélaganna

Nýstofnað sveitarstjórnarráð Vinstri grænna kom saman til fyrsta fundar í gær.  Þar var fjallað ítarlega um stöðu sveitarfélaganna og flutti Finnbogi Rögnvaldsson, formaður byggðaráðs í Borgarbyggð, framsögu um málið.  Á fundinum var samþykkt eftirfarandi ályktun:

Ályktun um stöðu sveitarfélaganna

Sveitarstjórnarráð Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs telur mikilvægt að styrkja stöðu sveitarfélaganna í landinu.  Sveitarfélögin gegna æ þýðingarmeira hlutverki í samfélagsþjónustunni en á sama tíma og verkefni þeirra hafa aukist, skortir verulega á að tekjustofnar þeirra nægi almennt til að standa undir verkefnum þeirra og veita öfluga þjónustu. Sveitarstjórnarráð Vinstri grænna telur óhjákvæmilegt að bæta verulega afkomu sveitarfélaganna og tryggja þeim nettó tekjuauka af stærðargráðunni 5 milljarða króna. Tekjuskipting ríkis og sveitarfélaga er í engu samræmi við þau verkefni sem sveitarfélögin hafa á sinni könnu, sérstaklega varðandi félagsleg velferðarverkefni, verkefni á sviði skólamála o.fl. sem flutt hafa verið frá ríki til sveitarfélaga.  Þetta veldur því að mikill meiri hluti sveitarfélaga getur ekki sinnt þessum brýnu verkefnum og þarf því að steypa sér í skuldir vegna nauðsynlegra  fjárfestinga og til að sinna almennri grunnþjónustu sem þykir sjálfsögð í hverju sveitarfélagi. Jafnframt leggur sveitarstjórnarráð VG áherslu á að sveitarfélögunum verði, í samstarfi við ríkisvaldið, tryggðar tekjur til að mæta verkefnum á sviði umhverfis- og velferðarmála, svo sem á sviði sorpförgunar- og fráveitumála, til að auka endurvinnslu og til að koma á gjaldfrjálsum leikskóla og grunnskóla. 

Sveitarstjórnarráðið skorar á þá ríkisstjórn sem við tekur í vor, að rétta nú þegar hlut sveitarfélaganna í landinu þannig að þau geti uppfyllt lögmætar skyldur sínar  við íbúana með sóma.


Staðan breytist lítið

Nýjasta skoðanakönnun Gallup, fyrir Ríkisútvarpið og Morgublaðið, sýnir að staðan í stjórnmálunum breytist lítið.  Fylgi við Vinstri græna eykst um 2%, hið sama á við um Framsókn og Frjálslynda en Sjálfstæðisflokkurinn missir 4%.  Samfylkingin mælist með svipað fylgi og fyrir viku.

Undanfarnar margar vikur hefur fylgi flokkanna verið á svipuðu róli.  Þó má segja að fylgi VG hafi verið einna stöðugast og sé að festast í sessi í kringum 24-25%, sé tekið varfærið tillit til skekkjumarka.  Athygli vekur að VG er stærsti flokkurinn meðal kvenna og sömuleiðis er flokkurinn stærstur í Norðausturkjördæmi, þar sem Steingrímur J. Sigfússon leiðir flokkinn.

Framboð Íslandshreyfingarinnar kom formlega fram í gær og mælist því ekki í þessari könnun.  Á hinn bóginn hefur það verið í undirbúningi lengi en eftir sem áður hafa fáir nefnt það sem kost í könnunum.  Það á  þó eftir að koma á daginn hvernig þessu framboði reiðir af.  Enginn efast um að framboðið talar máli umhverfisins, en lítið sem ekkert er vitað um afstöðu framboðsins í öðrum málum.  Forystumenn framboðsins leggja áherslu á að þau séu til hægri í stjórnmálum og því á eftir að skýrast hvaða afstöðu þau hafa t.d. til einkavæðingar heilbrigðisþjónustunnar og skólakerfisins, stríðsrekstursins í Írak, skatta- og efnahagsmála, byggðamála, landbúnaðar- og sjávarútvegsmála o.s.frv.  Það verður fróðlegt að sjá.


mbl.is VG áfram í mikilli sókn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tækifæri til breytinga

 

Flestir vilja að Samfylkingin og Vinstri græn myndi næstu ríkisstjórn.  Þetta kemur fram í könnun sem Capacent/Gallup hefur gert fyrir Morgunblaðið og Ríkisútvarpið.  Jafnframt kemur fram að um 60% kjósenda vilja að Vinstri græn verði í næstu stjórn, álíka margir og nefna Sjálfstæðisflokkinn.

Þessar niðurstöður eru um margt áhugaverðar.  Það er greinileg þreyta meðal þjóðarinnar með langa stjórnarsetu núverandi stjórnarflokka og eftirspurn eftir nýrri og kröftugri ríkisstjórn.  Kjósendur sjá það helst gerast með því að Vinstri græn og Samfylkingin nái meirihluta saman.  Skoðanakannanir að undanförnu benda til að slík stjórn gæti orðið að veruleika.  Einkum ræður þar hin sterka staða Vinstri grænna í hverri könnuninni á fætur annarri en jafnframt er ljóst að Samfylkingin þarf að ná betur vopnum sínum ef róttæk og víðsýn velferðar- og jafnaðarstjórn á að verða að veruleika.  Til þess þarf hún að sækja fylgi inn í raðir núverandi stjórnarflokka.

Í mínum huga er engum blöðum um það að fletta að samstjórn VG og Samfylkingar yrðu mikil tíðindi í íslenskum stjórnmálum og myndi valda mestum straumhvörfum.  Greinilegt er að það er einnig sjónarmið flestra sem svöruðu í þessari Gallup-könnun.  Nú er bara að láta hendur standa fram úr ermum næstu vikurnar og tryggja að þjóðin fái þá ríkisstjórn sem hún vill og þarf svo sárlega á að halda.


mbl.is
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þvílík öfugmæli!

Jón Sigurðsson formaður Framsóknarflokksins kennir stjórnarandstöðunni um klúðrið í eigin flokki.  Furðulegt upphlaup flokksins í kringum flokksþing og hótanir um stjórnarslit dugðu skammt, Sjálfstæðisflokkurinn hefur snúið málinu á sinn hátt og skilur Framsókn eftir með skömmina eina í fanginu.

Skyldi Siv segja af sér?

Það kom á daginn að frumvarp formanna stjórnarflokkanna var stórgallað, og það voru ekki bara þingmenn stjórnarandstöðunnar sem bentu á það.  Fjölmargir fræðimenn á sviði lögfræði komu á fund þingnefndarinnar og sögðu nákvæmlega það sama, ákvæðið væri óskýrt og gæti allt eins fest fiskveiðiheimildir sem einkaeignarrétt viðkomandi aðila til langframa.  Og til þess var nú leikurinn ekki gerður.

Ekki verður sagt að Jón Sigurðsson sé mikill bógur að viðurkenna ekki vanmátt Framsóknar í þessu máli og að yfirlýsingar ýmissa forystumanna voru bersýnilega liður í leikfléttu flokksins sem ekki gekk upp.  En voru tilbúnir til að gera stjórnarskrána að leiksoppi.  Það eru hin einu sönnu svik í þessu máli.


mbl.is Jón Sigurðsson: Stjórnarandstaðan gekk á bak orða sinna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aumkunarvert upphlaup Guðjóns Ólafs

Þingmaðurinn Guðjón Ólafur Jónsson, hefur nú í þrígang ráðist til atlögu að Vinstri grænum og reynt að telja þjóðinni trú um að flokkurinn sé ekki trúverðugur í umhverfismálum og hafi stutt hverja stóriðjuna á fætur annarri.  Þessi málflutningur er aumkunarverður og þjóðin sér í gegnum hann.

Sannleikurinn er sá að nú er farið að fara um stjórnarflokkana, þegar innan við tveir mánuðir eru til kosninga og margt bendir til að dagar ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks séu senn taldir.  Í hverri skoðanakönnuninni á fætur annarri kemur fram að stjórnarandstaðan nýtur meiri stuðnings en ríkisstjórnin og verði það úrslit kosninganna eru það um leið skýr skilaboð frá kjósendum um nýja stjórnarstefnu.

Þegar kannaður er stuðningur við forystumenn stjórnmálaflokkanna kemur ítrekað fram að formaður Vinstri grænna, Steingrímur J. Sigfússon, nýtur mikils trausts og stuðnings.  Þetta fer fyrir brjóstið á þingmönnum stjórnarliðsins og augljóst að þeir vildu helst að hann væri hvergi nálægur í íslenskum stjórnmálum.  En í staðinn fyrir að vera með ómálefnalegar og útíbláinn dylgjur væri nær að takast á um þau málefni sem hvað mest ríður á á næstunni.  Velferðarmálin og kjör aldraðra og öryrkja, umhverfismálin og sjálfbær atvinnu- og orkustefna, raunverulegt jafnrétti kynjanna, sjálfstæð utanríkisstefna sem byggir á íslenskum hagsmunum, og síðast en ekki síst ábyrg efnahagsstefna sem tekur á misréttinu í skattamálum, gegndarlausum viðskiptahalla og ofurháum vöxtum og kemur á jafnvægi og stöðugleika í ríkisbúskapnum á nýjan leik. 

Þetta eru mikilvæg málefni sem við Vinstri græn viljum beita okkur fyrir og ræða um í aðdraganda þingkosninganna 12. maí nk.  Kjósendum er mest virðing sýnd með slíkum málefnalegum umræðum en ekki aumkunarverðu upphlaupi í þingsölum eins og það sem Guðjón Ólafur hefur staðið fyrir ítrekað.

Ný ríkisstjórn sem mynduð verður eftir kosningar þarf að takast á við öll þessi viðfangsefni og mörg fleiri.  Sá stuðningur sem stjórnarandstaðan hefur mælst með í könnunum að undanförnu er vísbending um að næsta ríkisstjórn verði róttæk velferðarstjórn sem er reiðubúin til að beita sér fyrir tímabærum breytingum í íslensku samfélagi.  Upphlaup stjórnarliðanna í þinginu bendir hins vegar til að Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur ætli að læsa sig saman og berjast með kjafti og klóm fyrir áframhaldandi völdum.  Því er nú enn mikilvægara en áður að Vinstri græn, Samfylking og Frjálslyndir stilli saman strengi og beini spjótum sínum að ríkisstjórnarflokkunum og kalli þá til ábyrgðar á stjórnarstefnu síðustu 12 ára.  Það er forsenda þess að hér verði skipt um ríkisstjórn.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband