Vinstri græn vilja styrkja stöðu sveitarfélaganna

Nýstofnað sveitarstjórnarráð Vinstri grænna kom saman til fyrsta fundar í gær.  Þar var fjallað ítarlega um stöðu sveitarfélaganna og flutti Finnbogi Rögnvaldsson, formaður byggðaráðs í Borgarbyggð, framsögu um málið.  Á fundinum var samþykkt eftirfarandi ályktun:

Ályktun um stöðu sveitarfélaganna

Sveitarstjórnarráð Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs telur mikilvægt að styrkja stöðu sveitarfélaganna í landinu.  Sveitarfélögin gegna æ þýðingarmeira hlutverki í samfélagsþjónustunni en á sama tíma og verkefni þeirra hafa aukist, skortir verulega á að tekjustofnar þeirra nægi almennt til að standa undir verkefnum þeirra og veita öfluga þjónustu. Sveitarstjórnarráð Vinstri grænna telur óhjákvæmilegt að bæta verulega afkomu sveitarfélaganna og tryggja þeim nettó tekjuauka af stærðargráðunni 5 milljarða króna. Tekjuskipting ríkis og sveitarfélaga er í engu samræmi við þau verkefni sem sveitarfélögin hafa á sinni könnu, sérstaklega varðandi félagsleg velferðarverkefni, verkefni á sviði skólamála o.fl. sem flutt hafa verið frá ríki til sveitarfélaga.  Þetta veldur því að mikill meiri hluti sveitarfélaga getur ekki sinnt þessum brýnu verkefnum og þarf því að steypa sér í skuldir vegna nauðsynlegra  fjárfestinga og til að sinna almennri grunnþjónustu sem þykir sjálfsögð í hverju sveitarfélagi. Jafnframt leggur sveitarstjórnarráð VG áherslu á að sveitarfélögunum verði, í samstarfi við ríkisvaldið, tryggðar tekjur til að mæta verkefnum á sviði umhverfis- og velferðarmála, svo sem á sviði sorpförgunar- og fráveitumála, til að auka endurvinnslu og til að koma á gjaldfrjálsum leikskóla og grunnskóla. 

Sveitarstjórnarráðið skorar á þá ríkisstjórn sem við tekur í vor, að rétta nú þegar hlut sveitarfélaganna í landinu þannig að þau geti uppfyllt lögmætar skyldur sínar  við íbúana með sóma.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Gott að sjá góðan hug ykkar til sveitarfélaga.

Með tilliti til þessarar viljayfirlýsingar má þá ekki treysta því að VG styðji með ráðum og dáð baráttu Norðurþings til að tryggja viðsnúning á versnandi atvinnuástandi og sífellt bágari efnahag með því að fá stórt og traust atvinnufyrirtæki eins og álver er í héraðið? 

Má ekki búast við því að VG hefjist handa strax í komandi kosningabaráttu að leggja norðlendingum lið í þessu lifshagsmunamáli þeirra? 

Sigurjón Pálsson (IP-tala skráð) 23.3.2007 kl. 09:49

2 Smámynd: Þorleifur Ágústsson

sæll, afhverju finnst mér eins og VG séu heldur máttlausir vestur á fjörðum? Vantar VG baráttumál þar?

Þorleifur Ágústsson, 23.3.2007 kl. 10:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband