Óttinn við kjósendur

Það er gömul saga og ný að þegar stjórnmálaflokkar eiga engin svör við spurningum kjósenda, þegar þeir hafa gefist upp á eigin stefnu og þegar þeir horfa fram á eigið afhroð, þá grípa þeir til hræðsluáróðurs.  Þetta er auðvitað ein lágkúrulegasta baráttuaðferð í stjórnmálum sem þekkist, en hefur stundum gefist vel – en getur líka snúist upp í andhverfu sína.  Við því var að búast, að nú þegar Vinstri græn hafa um langt skeið mælst með mikinn stuðning meðal kjósenda og stjórnarflokkarnir virðast missa meirihluta sinn, yrði gripið til þess óyndisúrræðis sem hræðsluáróðurinn er.  Engum kemur á óvart að spunapiltar hægri flokkanna stundi slíka iðju.  Hitt vekur auðvitað athygli að varaformaður Framsóknarflokksins og margreyndur ráðherra, skuli munda stílvopnið í svo auvirðilega iðju, en Morgunblaðið birtir grein eftir hann í dag.  Þar ræðst Guðni Ágústsson á Vinstrihreyfinguna – grænt framboð, og er helst að skilja á skrifunum að landið muni sökkva í sæ ef vinstri græn sjónarmið komast að landsstjórninni.  Nú er rétt að taka fram að við Vinstri græn kveinkum okkur ekki – og munum aldrei gera – undan gagnrýni pólitískra mótherja.  Vitaskuld erum við reiðubúin að ræða inntak stjórnmálanna og takast á um grundvallarsjónarmið, markmið og leiðir.  Þannig stjórnmálabaráttu heyjum við og höfum gaman af.  En hræðsluáróður af því tagi sem landbúnaðarráðherra býður upp á í Morgunblaðinu í dag er náttúrulega ekki samboðinn forystumanni í stjórnmálaflokki og ráðherra.  Annan eins reyk hefur maður sjaldan séð nokkurn ábyrgan stjórnmálamann vaða, og er engu líkara en Guðni sé innilokaður í miðri bæjarbrennunni á Bergþórshvoli forðum, og mun honum þó ekki þykja samlíkingin leiðinleg!  Í hræðsluáróðri af þessu tagi birtist grímulaus ótti við kjósendur.  Og lítilsvirðing.  Með þessum málflutningi er einfaldlega verið að segja að kjósendur viti ekki hvað þeir gera.  Sannleikurinn er hins vegar sá að kjósendur vita mætavel hvað klukkan slær og stjórnmálamenn ættu aldrei að sýna þeim lítilsvirðingu og efast um dómgreind þeirra.  Það hittir þá sjálfa fyrir.  Einkum vekur það eftirtekt að í grein sinni reynir Guðni Ágústsson á engan hátt að gera grein fyrir sjónarmiðum Framsóknarflokksins í neinu máli heldur gerir hann Vinstri grænum upp skoðanir sem eru algerlega út í bláinn.  Slíkur málflutningur ber vott um fullkomna örvæntingu sem augljóslega hefur gripið um sig í herbúðum framsóknarmanna.  Lykillinn að velgengni VG um þessar mundir er að mínu viti m.a. sá, að flokkurinn hefur verið sjálfum sér samkvæmur, hann hefur barist fyrir sínum stefnumálum óháð því hvernig vindar blása – og það vita kjósendur.  Þegar straumurinn liggur til VG nú, þá er það einfaldlega vegna þess að kjósendur finna samhljóm með málflutningi flokksins og vilja að áherslur hans í umhverfismálum, velferðarmálum, jafnréttismálum og friðarmálum svo eitthvað sé nefnt, verði áberandi í næstu ríkisstjórn.  Og bersýnilega finnst kjósendum að forysta og frambjóðendasveit Vinstri grænna sé traustsins verð.  Hver veit nema kjósendum finnist einmitt tímabært að skipta um ríkisstjórn og þeir láti sér fátt um finnast svartagallsraus framsóknarmanna?  Íslenskt samfélag á gnægð tækifæra og við erum ríkt samfélag.  Við getum boðið upp á góð lífskjör og dregið úr misskiptingunni í samfélaginu.  Við getum útrýmt fátækt eins og Morgunblaðið hefur m.a. kallað eftir (og í því efni beðið um forystu Vinstri grænna).  Við getum gengið vel um auðlindir okkar og tryggt að komandi kynslóðir taki ekki við lakara búi en við gerðum.  Við getum búið öldruðum áhyggjulaust ævikvöld.  Við getum komið á jafnrétti kynjanna í reynd.  Við getum tryggt efnahagslegan stöðugleika með samstarfi við aðila vinnumarkaðarins og fleiri aðila.  Við getum byggt upp fjölskrúðugt, margbreytilegt og sjálfbært atvinnulíf um allt land og lagt grunn að velsæld í nútíð og framtíð.  En til þessa þarf nýja ríkisstjórn.  Ríkisstjórn þar sem Vinstrihreyfingin – grænt framboð gegnir burðarhlutverki.  Og kannanir undanfarið sýna að þjóðin er sama sinnis.  Þann vilja á ekki að vanmeta eða tortryggja.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hlynur Þór Magnússon

Ég vorkenni þeim vandaða manni Jóni Sigurðssyni að bera þann klafa sem sumir af ráðherrum Framsóknarflokksins og fleiri í forystusveitinni eru.

Hlynur Þór Magnússon, 25.3.2007 kl. 00:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband