13.3.2007 | 19:44
Aðild að ESB þjónar ekki hagsmunum Íslendinga
Evrópunefnd, sem skipuð er fulltrúum allra stjórnmálaflokkanna, kynnti skýrslu sína í dag. Þar kemur margt fróðlegt fram og er skýrslan ítarleg og þar er að finna margvíslegar upplýsingar um allt er varðar tengsl Íslands við Evrópusambandið og aðild okkar að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.
Eins og við er að búast, eru skoðanir flokkana mismunandi varðandi hugsanlega aðild að Evrópusambandinu. Það hefur vakið athygli sumra að fulltrúar Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokks skila að hluta til sameiginlegu áliti, en það byggir þó í raun á afstöðu þessara tveggja flokka sem er löngu kunn og þarf því ekki að koma neinum á óvart. Enda þótt niðurstaða fulltrúa þessara flokka sé sameiginleg dylst engum að nálgun þeirra er ólík. Af hálfu Vinstri grænna hafa Katrín Jakobsdóttir, varaformaður flokksins, og Ragnar Arnalds, fyrrv. ráðherra og þingmaður, tekið þátt í nefndarstarfinu og þau skila eftirfarandi séráliti:
Sérálit Katrínar Jakobsdóttur og Ragnars Arnalds, fulltrúa Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs:
Fulltrúar Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs leggja áherslu á að hagsmunir fjármagns og heimsfyrirtækja séu í alltof ríkum mæli drifkraftar Evrópusamrunans en miðstýring og skrifræði samfara skorti á lýðræði einkenni stofnanir þess um of. Þótt EES-samningurinn sé langt í frá gallalaus og byggist um of á forræði ESB teljum við reginmun á því fyrir Íslendinga að byggja samskipti sín við ESB á EES-samningnum fremur en með inngöngu í Evrópusambandið með þeim stórfelldu ókostum sem ESB-aðild fylgja eins og fyrr er rakið. Á komandi árum gæti það þjónað hagsmunum Íslands betur en ESB-aðild að þróa EES samninginn í átt til einfaldari tvíhliða ramma um viðskipti og samvinnu.
Skýrslu Evrópunefndarinnar má nálgast hér.
![]() |
Ragnar Arnalds: Hugmyndir um yfirráð Íslendinga ótryggar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
12.3.2007 | 21:39
Mannlíf: VG næst stærst og nálgast Sjálfstæðisflokkinn
Tímaritið Mannlíf hefur kannað fylgi við stjórnmálaflokkanna undanfarna mánuði. Nýjasta könnunin er birt í þessari viku en hún var tekin dagana 24. - 26. febrúar sl. Úrtakið í könnuninni er tæplega 4500 manns og 61% taka afstöðu, eða tæplega 2800 kjósendur. Um 31% eru óákveðin.
Samkvæmt þessari könnun fær Sjálfstæðisflokkurinn 33,2% en fékk um 35% í síðustu könnun, Vinstri græn fá 28,5% en voru með um 22% síðast. Samfylking er þriðji stærsti flokkurinn með 22,3% samanborið við um 24% síðast, Framókn með 9,2% sem er óbreytt og Frjálslyndir með 6,9% en þeir voru með um 10% í síðustu könnun.
Þessi könnun staðfestir það sem allar aðrar kannanir hafa verið að sýna að undanförnu að Vinstri græn eru með góðan byr í seglin og eru næststærsti stjórnmálaflokkur landsins. Fylgi VG hefur verið að aukast jafnt og þétt marga undanfarna mánuði. Það vekur vissulega athygli í þessari könnun að munurinn á milli VG og Sjálfstæðisflokks er minni en á milli VG og Samfylkingar. Samanlagt eru VG og Samfylking með rúm 50% atkvæða meðan ríkisstjórnarflokkarnir tveir ná aðeins 42,4%.
Allt bendir því til stjórnarskipta í vor og að Vinstri græn verði helsti burðarás nýrrar ríkisstjórnar. Sannarlega spennandi tímar í vændum.
9.3.2007 | 10:18
Fylgið á ferð og flugi - aðallega flugi samt
Nýjasta Capacent/Gallup könnunin var birt í Morgunblaðinu í dag. Þar kemur fram að við Vinstri græn erum enn að sækja í okkur veðrið, eiginlega má segja að fylgið sé á flugi til okkar. Að öðru leyti er fylgið á mikilli ferð.
Framsókn dalar aðeins frá síðustu Gallup-könnun, niður í 8,5%. Þetta óskiljanlega upphlaup í kringum flokksþingið um stjórnarslit hefur frekar skaðað flokkinn en hitt. Enda hvernig átti annað að vera? Allir sáu að þetta var einvörðungu gert í því skyni að greina flokkinn frá Sjálfstæðisflokknum, sem hann hefur verið í ríkisstjórn með í 4300 daga. Það er bara of seint um rassinn gripið í því sambandi.
Sjálfstæðisflokkurinn er með um 34,5% sem er litlu meira en í síðustu kosningum en talsvert undir síðustu Gallup könnun. Og sú saga er lífsseig (og líklega sönn) að flokkurinn mælist jafnan mun hærri en kosningar gefa honum svo þetta er vissulega áhyggjuefni fyrir hann.
Hvað Samfylkinguna áhrærir er hún að mælast svipað og í síðustu Gallup könnun. Það gæti bent til þess að þau hafi náð botninum og fari að fikra sig upp á við á nýjan leik. Fyrir góðan sigur stjórnarandstöðunnar er það mikilvægt.
Loks eru nýju framboðin óskrifuð blöð. En þó verður ekki hjá því litið að þar er um að ræða óánægjuframboð sem eru í eðli sínu þannig að þau sundra kröftum stjórnarandstöðunnar. Þess vegna geta þau hæglega orðið til þess að styrkja ríkisstjórnarflokkana. Varla er það tilgangur Ómars og eldri borgaranna? Og ef Ómar vill virkilega fjölga "grænum" þingmönnum eins og hann hefur sagt, ætti hann að vera ánægður með fylgi VG í Gallup könnuninni.
Annars eru enn tveir mánuðir í kosningar og margt getur gerst á þeim tíma. Könnunin nú, eins og aðrar kannanir undanfarið, sýna þó mikil tækifæri fyrir okkur Vinstri græn. Þær eru skýr skilaboð frá kjósendum um þeir vilja sjá áherslubreytingar í stjórn landsins, og raunar meira til. Við Vinstri græn eru reiðubúin að axla ábyrgð á stjórn landsins, með ábyrgum, yfirveguðum og trúverðugum málflutningi erum við sannfærð um að þjóðin er sama sinnis og mun fela okkur mikilvægt hlutverk í kosningunum 12. maí.
![]() |
VG bætir enn við sig |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
8.3.2007 | 07:58
Ábyrgð og traust skila árangri
Skoðanakönnun Blaðsins, sem birt er í dag, bendir til þess að Vinstri græn séu enn með mikinn byr í seglin, eins og raunar flestar skoðanakannanir undanfarna mánuði sýna glöggt. Flokkurinn mælist með tæp 24% fylgi. Kjarnmikill og kröftugur landsfundur fyrir 10 dögum staðfestir stöðu flokksins. Málflutningur flokksins er ábyrgur og forysta hans nýtur trausts. Það skilar árangri.
Staða ríkisstjórnarflokkanna er enn of sterk í þessari könnun. Sjálfstæðisflokkum með um 42% og Framsókn um 9%. Raunar er Sjálfstæðisflokkurinn að dala frá síðustu könnun Blaðsins, fyrir um mánuði og Framsókn líka. Það bendir til, sem er þá líka í takt við aðrar kannanir, að ríkisstjórnarflokkarnir séu á undanhaldi og stjórnarandstaðan í sókn. Þar munar að sjálfsögðu mestu um stórsókn VG. Framhaldsflokksþing Framsóknar um síðustu helgi virðist ekki vera að skila flokknum nokkrum hlut, nema síður sé.
Svarhlutfall í þessari Blaðskönnun er um 62%, sem er talsvert hærra en könnun blaðsins fyrir mánuði síðan, þegar um 53% svöruðu. Óvissan hefur því minnkað sem þessu nemur. Það eru greinilega spennandi tímar í vændum í stjórnmálum og fyrir okkur Vinstri græn sannarlega uppörvandi. Sú góða málefnavinna sem flokkurinn hefur unnið og þau ábyrgu vinnubrögð sem forystan stundar á greinilega góðan hljómgrunn meðal landsmanna. Vinstri græn eru traustsins verð og munu standa undir þeirri ábyrgð sem þjóðin felur þeim.
![]() |
Vinstri-grænir með 23,6% en Samfylking 18,5% |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
5.3.2007 | 22:37
Hamskipti Framsóknar
Kannski er þjóðin búin að gleyma upphafi kvótakerfisins í sjávarútvegi en þó hygg ég flestir muni tengja upphaf þess við Framsóknarflokkinn. Enginn er líklega jafntengdur upphafi kvótakerfisins og Halldór Ásgrímsson, sem lengi var sjávarútvegsráðherra og formaður flokksins. Nú - þegar stutt er í kosningar - koma ýmsir forystumenn flokksins fram og láta eins og það sé úrslitaatriði fyrir flokkinn að fá ákvæði um sameign þjóðarinnar á auðlindum bundið í stjórnarskrá. Upp er runninn hamskiptatími Framsóknarflokksins.
Líklega gengur flokkurinn þó lengra nú en hann hefur áður gert og telur til að það geti verið fallið til vinsælda að afneita verkum sínum og stefnumálum. Spunameistarar flokksins, sem síðasta sumar knésettu formann sinn, hafa líkast til lagt á ráðin um að nú skyldi snúa við blaðinu og sýna Sjálfstæðismönnum klærnar. Vandi þeirra er þó sá helstur að klærnar Framsóknar eru vita bitlausar og úr sér gengnar en engu að síður er ólíklegt að samstarfsflokknum sé sérstaklega skemmt.
Allt bendir til að tilteknir forystumenn í Framsóknarflokknum séu nú úrkula vonar um að þeir verði áfram í ríkisstjórn og því sé nauðsynlegt að klóra í bakkann með því skilja sig frá Sjálfstæðisflokknum. Það er þó afar ósannfærandi nú 70 dögum fyrir kosningar, eftir að hafa setið í kjöltu Sjálfstæðisflokksins í um 4300 daga - fjögurþúsund og þrjúhundruð daga! Þessir sömu forystumenn í Framsókn velta því nú fyrir sér að Jón Sigurðsson formaður flokksins muni etv. ekki ná kjöri á þing og því muni koma að formannskosningu á nýjan leik innan skamms. Og þá verða nokkrir kallaðir. Líklegast verður keppnin milli Sivjar Friðleifsdóttur og Valgerðar Sverrisdóttur en Björn Ingi Hrafnsson telur sjálfan sig besta kostinn. Fari formannskosning fram snemma á næsta kjörtímabili á hann þó tæplega raunhæfa möguleika.
En aftur að hamskiptunum. Framsóknarflokkurinn reynir nú að villa á sér heimildir enn eina ferðina. Hann vill að kjósendur trúi því að hann sé (og hafi þá líklega alltaf verið) á móti kvótakerfinu í sjávarútvegi og hann sé nú að berjast af öllum kröftum til að fá þjóðareignina bundna í stjórnarskrá. Þegar málið er hins vegar rifjað upp - og það verður gert - mun sannleikurinn líka verða öllum ljós. Framsóknarflokkurinn hefur aldrei haft neinn áhuga á að binda þjóðareign auðlinda í stjórnarskrána, ef svo væri hefði hann getið tryggt það með samstarfi við núverandi stjórnarandstöðuflokka. Það tækifæri hefur hann ekki nýtt sér.
4.3.2007 | 20:32
Já já og nei nei - og enn er Framsókn söm við sig
Framsóknarflokkurinn hefur verið í stjórnarsamstarfi við Sjálfstæðisflokkinn í um það bil 4300 daga og það eru 70 dagar til kosninga. Þá stígur fram ráðherra Framsóknar og hótar stjórnarslitum! Og ástæðan er sú að ekki hefur tekist að koma ákvæði í stjórnarsáttmála um sameign þjóðarinnar á auðlindum inn í stjórnarskrána. Þó virðist vera meirihlutafylgi við slíkt á Alþingi.
Svo kemur formaður Framsóknar og segir að enginn hafi hótað stjórnarslitum! Það er gamalkunnugt að Framsóknarflokkurinn segi já já og nei nei og það endurspeglast mjög í þessu máli. Það er engu líkara en flokkurinn reyni nú í örvæntingu að fjarlægjast Sjálfstæðisflokkinn í þeirri von að hann nái að reisa sig í skoðanakönnunum. Hið sama gerði flokkurinn í aðdraganda kosninganna 2003 en allt það var svo gleymt og grafið á kosninganótt og stjórnarsamstarfið var endurnýjað. Ég spái því að það sama sé að gerast nú, Framsókn ætlar að draga línu milli sín og Sjálfstæðisflokksins þessar vikur sem eftir eru fram að kosningum, en hitt er ljóst að fái stjórnarflokkarnir nægilegt fylgi munu þeir halda áfram stjórnarsetu. Það er mikilvægt að kjósendur geri sér grein fyrir því.
Svo getur líka verið að Siv Friðleifsdóttir heilbrigðisráðherra, sem tapaði naumlega í formannskjöri í Framsóknarflokknum sl. sumar, hafi með yfirlýsingu sinni um stjórnarslit verið að leika úthugsaðan pólitískan leik. Hún sér, eins og fleiri, að það er vel líklegt að Jón Sigurðsson formaður flokksins, nái ekki kjöri á Alþingi í vor og því muni fyrr en síðar koma að nýrri formannskosningu. Og lendi flokkurinn í löngu tímabærri stjórnarandstöðu, gæti staða Sivjar til að hljóta kosningu sem formaður Framsóknarflokksins verið sterk. Ekki síst eftir að hún hefur nú sent Sjálfstæðismönnum tóninn með afgerandi hætti. Raunar mun hún ekki verða ein um formannsslaginn því fleiri hugsa sér gott til glóðarinnar, t.d. formaður borgarráðs Reykjavíkur, Björn Ingi Hrafnsson.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
3.3.2007 | 23:13
Ómerkilegheit Framsóknar
Frmhaldsflokksþing Framsóknar stóð nú um helgina. Í setningarræðu sinni sagði formaður flokksins m.a.:
"Framsóknarmenn höfðu forgöngu um nýja löggjöf um fjármál stjórnmálaflokkanna. Hún gerbreytir öllum aðstæðum í kosningastarfi og setur skorður við umsvifum, til dæmis í auglýsingum. En nýju lögin losa lýðræðið undan ýmsum ytri áhrifum og það skiptir mestu. Ég get lýst því yfir að við erum reiðubúin til viðræðna við aðra stjórnmálaflokka um miklar takmarkanir á útgjöldum og auglýsingum í kosningabaráttunni fram undan og við lýsum eftir afstöðu annarra flokka í þessu máli. "
Betur ef satt væri. Sannleikurinn er sá að formenn stjórnmálaflokkanna hafa verið að reyna að ná samkomulagi um takmörkun á útgjöldum og auglýsingum í kosningabaráttunni framundan. Og á hverjum hefur strandað - nema Framsóknarflokknum! Ómerkilegri málflutning hefur maður nú sjaldan séð. Ef ekki hefði komið til andstaða Framsóknarflokksins hefðu flokkarnir nú þegar komið sér saman um takmörkun á gegndarlausum útgjöldum í auglýsingar o.þ.h.
Væri nú ekki ráð að fjölmiðlar spyrðu nánar um þetta atriði?
2.3.2007 | 16:22
Lítil grein til Guðlaugs Þórs!
Nauðsynlegt er að taka fram, því auðvelt er að misskilja Guðlaug Þór að þessu leyti, að Vinstrihreyfingin grænt framboð lagðist gegn orkusölusamningi við Alcan vegna stækkunar álbræðslunnar í Straumsvík. Það var m.a. gert á fundi borgarstjórnar þann 6. júní sl. þegar ég greiddi atkvæði gegn samningnum með eftirfarandi bókun:
Vinstrihreyfingin grænt framboð leggur áherslu á að nútímasamfélag byggist á mannauði, þeirri auðlind sem er mikilvægari öllum öðrum auðlindum. Áform stjórnvalda um stækkun og fjölgun álvera einkennist af vantrú á hugmyndaauðgi og anda íbúa þessa lands og ótta við að án álvers fari allt á versta veg. Þau áform sem nú eru til umræðu munu að því er best verður séð sprengja kvóta Kyoto-bókunarinnar og setja skuldbindingu Íslands í hættu. Stækkun álversins í Straumsvík úr 180 þús. í 460 þús. tonn hefur neikvæðar afleiðingar fyrir umhverfi og náttúru, samfélag og efnahag. Ég greiði því atkvæði gegn framlögðum orkusölusamningi.
Hvað varðar stækkun Norðuráls í Hvalfirði er rétt að rifja upp að á þeim tíma voru tveir kostir í boði, annars vegar að ryðjast inn í Þjórsárver með Norðlingaölduveitu á vegum Landsvirkjunar, eða að Orkuveita Reykjavíkur tæki þátt í að afhenda orkuna í stækkun Norðuráls sem þá þegar hafði verið undirbúin. Við í VG tókum augljóslega þann kostinn að berjast fyrir verndun Þjórsárvera í fullu samræmi við það sem við höfðum ávallt sagt að við myndum gera.
Þá er það og rangt í grein Guðlaugs að Vinstri græn hafi í stjórn OR staðið að því að sækja um rannsóknaleyfi s.s. í Kerlingarfjöllum og Brennisteinsfjöllum. Hið rétta er að forstjóri OR sendi þær umsóknir inn án samráðs við stjórnina og VG hefur lagt til að þær rannsóknaleyfisumsóknir verði dregnar til baka.
Um sumarhúsabyggðina við Úlfljótsvatn þarf ekki mikið að fjölyrða. Rangt er þó að það mál hafi byrjað undir forystu Samfylkingar og Vinstri grænna eins og hann segir í grein sinni, forystan í Orkuveitu Reykjavíkur var á hendi Framsóknarflokks sem nú starfar í meirihluta með félögum Guðlaugs Þórs í Sjálfstæðisflokknum. Það liggur fyrir að ég flutti tillögu um það mál fyrir hönd Vinstri grænna á fundi borgarstjórnar í júní sl. Í því máli áttum við Guðlaugur Þór ágætt samstarf og vorum algerlega sammála eins og hann mun kannast við.
(Greinin birtist í Morgunblaðinu 2. mars 2007).
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þjóðarpúls Capacent/Gallup sem birtist í dag sýnir sterka kröfu í samfélaginu um nýja ríkisstjórn, umbótastjórn í þágu velferðar, jafnréttis og umhverfis. Vinstri græn yrðu kjölfestan í slíkri ríkisstjórn.
Fylgi Vinstri grænna hefur ekki mælst hærra í Gallup-könnunum síðustu 5-6 ár. Það sem jafnframt er eftirtektarvert er að fylgið við VG hefur mælst býsna stöðugt í undanförnum könnunum, hjá Gallup, Fréttablaðinu, Blaðinu o.fl. Meðan aðrir flokkar hafa rokkað nokkuð í fylgi hefur VG verið með í kringum 20% fylgi. Það lofar að sjálfsögðu góðu. Jafnframt eru það ánægjuleg tíðindi að í enn einni könnuninni kemur fram að ríkisstjórnin sé fallin og að Vinstri græn og Samfylkingin eru samanlagt með álíka mikið fylgi og stjórnarflokkarnir tveir. Það þýðir með öðrum orðum að það gæti orðið mögulegt að mynda tveggja flokka stjórn VG og Samfylkingar. Sannarlega pólitísk tíðindi.
Einhverjir bloggarar, sem eru litlir aðdáendur VG, telja að flokkurinn muni lækka í fylgi á næstunni, þar sem þessi könnun mæli ekki áhrif landsfundar flokksins um síðustu helgi. Benda þeir sömu á að þar hafi verið samþykkt öfgafull stefna í kvenfrelsismálum og einnig að því er varðar netnotkun.
Nú vill svo til að undirritaður var þingforseti á landsfundi Vinstri grænna og þar fór engin umræða fram um netið eða löggæslu því tengdu. Ummæli eftir landsfund, sem efnislega fjalla um að nauðsynlegt sé að efla öryggi í netnotkun og uppræta ólöglega starfsemi þar, m.a. tengdri barnaklámi, fíkniefnasölu, mansali o.þ.h. hafa verið toguð og teygð og rangtúlkuð af öfundarmönnum VG eins og Guðfríður Lilja Grétarsdóttir rekur ágætlega á bloggsíðu sinni. Það er þeirra vandi.
Framsæknar hugmyndir voru hins vegar kynntar í kvenfrelsismálum og var þeim vísað til frekari skoðunar og umræðu innan stjórnar flokksins og verða þannig þróaðar áfram, leitað viðhorfa og sjónarmiða hagsmunaaðila o.s.frv. Það er þó rétt að halda því til haga að í nýjum stjórnarskrám ýmissa Evrópuríkja fær jafnrétti kynjanna traustari sess en áður og t.d. í Noregi hefur verið farin sú leið að tryggja a.m.k. 40% hlutdeild hvors kyns í stjórnum skráðra fyrirtækja. Hugmyndir þær sem reifaðar voru á landsfundi VG eru því langt í frá byltingarkenndar, fordæmalausar eða öfgakenndar. Þær eru hins vegar metnaðarfullar í þá átt að styrkja jafnrétti kynjanna og það er fróðlegt að sjá hvaða bloggarar það eru sem leggjast gegn því!
Gallup-könnunin í dag vekur vonir um að í vændum sé pólitískt vor á Íslandi. Það er sannarlega kominn tími til eftir fimbulvetur Framsóknar og Sjálfstæðisflokks undanfarin ár. Þjóðin á það skilið.
![]() |
VG með meira fylgi en Samfylking |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
1.3.2007 | 12:10
Kannað verði hvort rifta eigi samningi borgarinnar og Kópavogs.
Á fundi borgarráðs í morgun voru málefni Heiðmerkur til umræðu að beiðni fulltrúa Vinstri grænna. Á fundinum lagði ég fram svohljóðandi tillögu:
Í ljósi þess að Kópavogsbær hefur ráðist í framkvæmdir í Heiðmörk án þess að Reykjavíkurborg hafi gefið út framkvæmdaleyfi, Skógræktarfélag Reykjavíkur hefur kært Kópavogsbæ vegna framkvæmdanna og að viðræður borgarinnar og Kópavogs um viðunandi lausn hafa ekki skilað árangri, samþykkir borgarráð að fela borgarstjóra að kanna möguleika á að rifta samningi Reykjavíkur og Kópavogs frá því í september sl.
Afgreiðslu tillögunnar var frestað.
Með þessari tillögu vilja Vinstri græn láta kanna, hvort unnt sé að rifta umræddum samningi með það fyrir augum að loka þeim sárum sem þegar eru orðin á viðkvæmu svæði í Heiðmörk, m.a. innan vatnsverndarsvæðis, og bæta þau náttúruspjöll sem unnin hafa verið. Af viðbrögðum bæjaryfirvalda í Kópavogi við þessu máli, verður ekki séð að þau séu reiðubúin til að axla ábyrgð á frumhlaupi sínu og bæta fyrir það tjón sem þau hafa valdið, þrátt fyrir að bæði borgaryfirvöld og Skógræktarfélag Reykjavíkur hafi sýnt þolinmæði og sanngirni í samskiptum sínum við Kópavog. VG telur mikilvægt að kanna réttarstöðu borgarinnar í þessu sambandi og hvort hugsanleg riftun á samningnum geti orðið til þess að flýta því að umhverfi og náttúra komist í viðunandi horf og komist verði hjá varanlegu tjóni vegna framkvæmdanna.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)