Fylgið á ferð og flugi - aðallega flugi samt

Nýjasta Capacent/Gallup könnunin var birt í Morgunblaðinu í dag.  Þar kemur fram að við Vinstri græn erum enn að sækja í okkur veðrið, eiginlega má segja að fylgið sé á flugi til okkar.  Að öðru leyti er fylgið á mikilli ferð.

Framsókn dalar aðeins frá síðustu Gallup-könnun, niður í 8,5%.  Þetta óskiljanlega upphlaup í kringum flokksþingið um stjórnarslit hefur frekar skaðað flokkinn en hitt.  Enda hvernig átti annað að vera?  Allir sáu að þetta var einvörðungu gert í því skyni að greina flokkinn frá Sjálfstæðisflokknum, sem hann hefur verið í ríkisstjórn með í 4300 daga.  Það er bara of seint um rassinn gripið í því sambandi.

Sjálfstæðisflokkurinn er með um 34,5% sem er litlu meira en í síðustu kosningum en talsvert undir síðustu Gallup könnun.  Og sú saga er lífsseig (og líklega sönn) að flokkurinn mælist jafnan mun hærri en kosningar gefa honum svo þetta er vissulega áhyggjuefni fyrir hann.

Hvað Samfylkinguna áhrærir er hún að mælast svipað og í síðustu Gallup könnun.  Það gæti bent til þess að þau hafi náð botninum og fari að fikra sig upp á við á nýjan leik.  Fyrir góðan sigur stjórnarandstöðunnar er það mikilvægt.

Loks eru nýju framboðin óskrifuð blöð.  En þó verður ekki hjá því litið að þar er um að ræða óánægjuframboð sem eru í eðli sínu þannig að þau sundra kröftum stjórnarandstöðunnar.  Þess vegna geta þau hæglega orðið til þess að styrkja ríkisstjórnarflokkana.  Varla er það tilgangur Ómars og eldri borgaranna? Og ef Ómar vill virkilega fjölga "grænum" þingmönnum eins og hann hefur sagt, ætti hann að vera ánægður með fylgi VG í Gallup könnuninni.

Annars eru enn tveir mánuðir í kosningar og margt getur gerst á þeim tíma.  Könnunin nú, eins og aðrar kannanir undanfarið, sýna þó mikil tækifæri fyrir okkur Vinstri græn.  Þær eru skýr skilaboð frá kjósendum um þeir vilja sjá áherslubreytingar í stjórn landsins, og raunar meira til.  Við Vinstri græn eru reiðubúin að axla ábyrgð á stjórn landsins, með ábyrgum, yfirveguðum og trúverðugum málflutningi erum við sannfærð um að þjóðin er sama sinnis og mun fela okkur mikilvægt hlutverk í kosningunum 12. maí.


mbl.is VG bætir enn við sig
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Dante

Ein spurning Árni:

Hvað þýðir á íslensku, Endurskoðun á skattkerfinu! Eins og þið boðuðu á landsþinginu ykkar.

Mín reynsla af vinstri mönnum er sú að þegar þeir minnast á Endurskoðun á skattkerfinu eða aukna tekjuöflun þá þýði það skattahækkanir. Verður einhver breyting á því? Bara forvitni.

Dante, 9.3.2007 kl. 23:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband