25.2.2007 | 23:08
Glæsilegum landsfundi lokið
Þá er lokið 5. landsfundi Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs. Fundurinn var sá fjölmennasti til þessa, um 500 fulltrúar áttu sæti á honum. Óhætt er að fullyrða að fundurinn hafi verið hinn glæsilegasti, mikil eindrægni og stemning einkenndi allt starf og góð málefnavinna bar ríkulegan ávöxt.
Segja má að með þessum landsfundi sé kosningabaráttan formlega hafin af hálfu okkar Vinstri grænna. Efstu frambjóðendur í öllum kjördæmum kynntu kosningaáherslur flokksins og þar er tekið á helstu verkefnum, svo sem í velferðarmálum, umhverfismálum, jafnréttismálum, efnahags- og skattamálum, atvinnu- og byggðamálum og utanríkismálum.
Af umræðunni í þjóðfélaginu er ljóst að margir eru nú að taka upp sömu mál og við Vinstri græn höfum haldið á lofti um langt skeið, og nægir að nefna umhverfismálin í því efni. Það er ánægjuefni að þau brýnu mál skuli nú vera orðin fyrirferðarmikil í íslenskri samfélagsumræðu og líklega eitt af helstu kosningamálunum í vor. Hið sama má segja um jafnréttismálin. Umræðan um nauðsyn þess að koma á raunverulegu jafnrétti kynjanna hefur aukist og flestir sjá nú mikilvægi þess að grípa til raunhæfra aðgerða í stað þeirrar kyrrstöðu sem ríkt hefur í þessum efnum um langt skeið. Og í velferðarmálunum er jafnvel Morgunblaðið farið að kyrja undir með okkur í VG um þá þjóðarskömm sem fátæktin í samfélaginu er, einu ríkasta samfélagi veraldar. Í öllum þessum málum sannast að dropinn holar steininn og sá meðbyr sem við vinstri græn finnum er tvímælalaust til marks um það, að menn uppskera eins og til er sáð. Með einarðri baráttu og stefnufestu, líka þegar á móti blæs, höfum við áunnið okkur traust og trúnað sem er ómetanlegt veganesti í stjórnmálum.
22.2.2007 | 14:37
Til hamingju Hótel Saga!
Stjórn Bændasamtakanna sem eiga Hótel Sögu, hefur ákveðið að vísa frá gestum sem hingað hugðust koma á klámráðstefnu. Barátta femínista og fleiri hefur skilað árangri. Bændasamtökin eiga hrós skilið fyrir þessa djörfu ákvörðun. Hún mun áreiðanlega verða hótelinu til framdráttar.
Með þessari ákvörðun eru send skýr skilaboð út í samfélagið og út í heim. Þau skilaboð eru líklega það mikilvægasta í þessu máli. Klám, vændi og mansal eru ein grófasta birtingarmynd mannréttindabrota og við viljum einfaldlega, bæði með orðum og gerðum, lýsa vanþóknun á þeirri starfsemi. Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkti sl. þriðjudag samhljóða ályktun þar sem fyrirhuguð klámráðstefna var lýst óvelkomin til borgarinnar. Þingflokkarnir á Alþingi hafa í dag sent frá sér sameiginlega ályktun í sama dúr. Einhverjir munu segja að hér sé verið að "hafa vit fyrir" og jafnvel brjóta á rétti þeirra sem vilja koma hingað á þessa ráðstefnu. Sannleikurinn er hins vegar sá að við eigum hér í baráttu við klámiðnaðinn og kynbundið ofbeldi og þau mannréttindabrot sem sú starfsemi byggir á. Ákvörðun Hótel Sögu er lítill áfangasigur á langri leið sem við eigum fyrir höndum. Þeim áfangasigri ber að fagna.
![]() |
Hætt við klámráðstefnu hér á landi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
21.2.2007 | 21:13
Hvað gengur borgarstjóra til?
Þessi frétt vekur vissulega athygli. Hvað gengur borgarstjóra til að blanda sér í það hvað Skógræktarfélag Reykjavíkur tekur sér fyrir hendur? Hefur Skógræktarfélagið verið beitt þvingunum af hálfu borgaryfirvalda með einhverjum hætti? Er borgarstjóri að forða fyrirtæki Gunnar Birgissonar, bæjarstjóra sjálfstæðismanna í Kópavogi, frá málshöfðun?
[Innskot síðar: Skv. athugasemd framkv.stjóra Klæðningar er fyrirtækið ekki lengur í eigu bæjarstjórans, þar kemur þó ekki frem hver á fyrirtækið í dag.]
Nauðsynlegt er að fá fram skýringar borgarstjóra á hlut hans í þessu máli. Eftir því verður leitað á vettvangi borgarráðs. Ekki verður heldur annað séð en fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn tali ekki öll á einum rómi í þessu máli. Málflutningur Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, forseta borgarstjórnar og formanns skipulagsráðs, hefur verið skeleggur og hún hefur hvergi gefið eftir gagnvart þeim spjöllum sem fyrirtækið Klæðning, í umboði Kópavogsbæjar, hefur unnið í Heiðmörkinni. Nú er eins og borgarstjóri ætli að grípa fram fyrir hendur Hönnu Birnu. Í fljótu bragði virðist það vera afar óskynsamlegt hjá borgarstjóra.
![]() |
Stjórn Skógræktarfélags Reykjavíkur samþykkir að fresta að leggja fram kæru |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
19.2.2007 | 16:18
Hvar verður Kristinn í framboði?
Kristinn H. Gunnarsson, sem gekk úr Framsókn fyrir skemmstu, er nú formlega genginn til liðs við Frjálslynda flokkinn. Haft hefur verið á orði að ástæðan fyrir því að hann fór ekki strax yfir í raðir Frjálslyndra þegar hann yfirgaf Framsókn, hafi verið sú að ekki lá fyrir hvar flokkurinn gæti tryggt honum gott framboðssæti. Nú er spurning hvort frá því hafi verið gengið og þá hvar Kristinn fer fram.
Miðað við að Guðjón Arnar verði í norðvesturkjördæmi, Sigurjón er kominn í norðaustur, Magnús Þór verður áreiðanlega áfram í suður og ætli Valdimar Leó (sem nýlega gekk úr Samfylkingunni) verði ekki í kraganum, er varla eftir nema Reykjavík. Færi ekki vel á því að Kristinn væri í Reykjavík norður og Jón Magnússon í Reykjavík suður? Nema hvað Kristinn hefur iðulega haft allt á hornum sér þegar höfuðborgarsvæðið er annars vegar og verður áreiðanlega minntur á það, fari hann í framboð á þeim slóðum. Kannski heldur hann sig bara við norðvesturkjördæmið og lætur sér nægja 2. sætið þar á eftir formanninum. Engum dettur nefnilega í hug að hann verði EKKI í framboði!
![]() |
Kristinn genginn í þingflokk Frjálslynda flokksins |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
15.2.2007 | 11:09
Tillaga VG um loftslagsráð í Reykjavík áfram til umræðu
Á fundi borgarráðs fyrir viku síðan lögðu fulltrúar Vinstri grænna til að stofnað yrði loftslagsráð í Reykjavík til að bregðast við upplýsingum í nýrri skýrslu um loftslagsmál. Lagt var til að metnar yrðu og endurskoðaðar áætlanir borgarinnar í skipulags-, umhverfis- og samgöngumálum í þessu skyni.
Borgarráð samþykkti á fundi sínum í dag að vísa tillögunni til frekari vinnslu í umhverfisráði. Þar með er ljóst að tillagan mun fá efnislega umfjöllun á þeim vettvangi. Við Vinstri græn eru ánægð með þessa málsmeðferð því það er mikilvægt að taka á loftslagsmálunum og loftgæðum í borginni. Umræða undanfarnar vikur styður það að tekið sé á þessum málum. Vonandi tekst góð samstaða á vettvangi borgarstjórnar, meiri- og minnihluta, til að taka þær viðvaranir sem loftslagsskýrslan sannarlega er alvarlega.
Tilgangur okkar Vinstri grænna með tillögunni er einmitt að vekja máls á þessu viðfangsefni og hvetja til þess að tekið sé á því með afgerandi hætti.
Tillöguna í heild ásamt greinargerð má lesa hér.
14.2.2007 | 22:38
Firnasterkir framboðslistar VG
Framboðslistar Vinstri grænna í Reykjavíkurkjördæmunum tveimur og Suðvesturkjördæmi voru samþykktir samhljóða á sameiginlegum fundi kjördæmisráðanna nú í kvöld. Efstu fimm sæti allra listanna eru í samræmi við úrslit forvalsins í byrjun desember.
Listarnir eru allir firnasterkir. Ögmundur Jónasson alþingismaður, skipar efsta sætið í Suðvesturkjördæmi og flytur sig þar með um set úr Reykjavík, þar sem hann hefur verið þingmaður síðan 1995. Kolbrún Halldórsdóttir alþingismaður er í efsta sæti í Reykjavíkurkjördæmi suður en hún var í norðurkjördæminu í síðustu kosningum. Loks er Katrín Jakobsdóttir, varaformaður flokksins, í efsta sæti í Reykjavík norður og þar skipa ég annað sætið. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir skákkona og sagnfræðingur er í öðru sæti í Suðvesturkjördæmi og Álfheiður Ingadóttir líffræðingur í öðru sæti í Reykjavík suður.
Nú eru frambjóðendur Vinstri grænna að undirbúa kosningabaráttuna. Það verður vonandi jákvæð og uppbyggileg barátta, amk. munum við Vinstri græn gera okkar til að svo megi verða. Með markvissu starfi næstu vikur og fram að kjördegi munum við uppskera ríkulega, í samræmi við okkar góða málstað og trúverðuga forystusveit og frambjóðendur. Áfram Vinstri græn!
![]() |
Framboðslistar VG á höfuðborgarsvæðinu samþykktir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
14.2.2007 | 16:24
Furðuleg frétt Moggans
Þessi frétt Moggans vekur nokkra furðu. Er engu líkara en blaðið telji að nú hafi það loks komist í feitt og um leið orðið að hálfgerðri "gulri" pressu.
Nú verð ég að viðurkenna að ég átti ekki sæti í umhverfisráði Reykjavíkur fyrr en haustið 2005, svo þetta tímabil þekki ég ekki. En hitt veit ég að Reykjavíkurborg hefur um langt skeið verið til fyrirmyndar í loftgæðamálum, með mælingum og aðgerðum, upplýsingum og fræðslu. Hafa raunar fáir aðilar gengið jafn vasklega fram í þessu efni, en oftar en ekki hefur borgin mætt einskonar "þöggunarvegg", því sjaldnast hafa fjölmiðlar sýnt því áhuga að taka á með borginni í þeim tilgangi að draga úr loftmengun.
Ég er sannfærður um að umhverfissvið og núverandi formaður umhverfisráðs, Gísli Marteinn Baldursson, munu staðfesta að borgin hafi verið í fararbroddi um aðgerðir til að draga úr svifryksmengun. Hinu má svo ekki gleyma að mengun frá samgöngum er einn helsti umhverfisvandi Reykvíkinga og hann verður ekki leystur svo neinu nemi, nema með minni einkabílaumferð og meiri almenningssamgöngum. Það er viðfangsefni stjórnvalda, ríkis og sveitarfélaganna hér á höfuðborgarsvæðinu, að takast á við það. Ný samgönguáætlun ríkisstjórnarinnar tekur því miður með engum hætti á þessum þætti, og mætti Morgunblaðið gjarnan gerast liðsmaður í þeirri baráttu.
![]() |
Borgin hirti ekki um mengun við leikskóla |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
13.2.2007 | 23:21
Tökum okkur á í málefnum innflytjenda
Í dag kom út skýrsla Evrópunefndarinnar gegn kynþáttafordómum og skorti á umburðarlyndi, ECRI (The European Commission against Racism and Intolerance). Þetta er nefnd sem Evrópuráðið í Strasbourg kom á fót og hún er nú að birta 3ju skýrslu sína um Ísland. Þarna kemur margt athyglisvert í ljós og er alveg skýrt að við Íslendingar getum staðið okkur miklu betur í málefnum innflytjenda enn við gerum. Sumt af því sem betur má fara er á verksviði sveitarfélaga. Því höfum við borgarfulltrúar Vinstri grænna ákveðið að leggja fram tillögu á næsta fundi borgarráðs sem tekur á þessu viðfangsefni. Tillagan er þannig:
Borgarráð samþykkir að fela borgarstjóra að vinna aðgerðaáætlun til að koma til móts við athugasemdir og ábendingar í skýrslu Evrópunefndarinnar gegn kynþáttafordómum og skorti á umburðarlyndi, ECRI (The European Commission against Racism and Intolerance) og varðað geta Reykjavík og Reykvíkinga sérstaklega. Áætlunin verði unnin í samráði við þau ráð er málið varðar helst, s.s. velferðarráð, menntaráð, leikskólaráð, íþrótta- og tómstundaráð og mannréttindanefnd, og verði lögð fyrir borgarráð fyrir 1. maí nk.
Evrópunefndin gegn kynþáttafordómum og skorti á umburðarlyndi (ECRI), sem sett var á laggirnar af Evrópuráðinu í Strasbourg, hefur birt 3ju skýrslu sína um stöðu innflytjendamála á Íslandi. Í skýrslunni koma fram fjölmargar ábendingar um það sem betur má fara af hálfu íslenskra stjórnvalda um leið og greint er frá því sem vel hefur tekist til á undanförnum árum. Nefndin skilaði síðast skýrslu um Ísland árið 2002 og benti þá á allmörg atriði sem íslensk stjórnvöld þyrftu að vinna að og hefur sumum af þeim hlutum þegar verið hrint í framkvæmd en öðrum ekki. Í skýrslunni er m.a. vikið að þörfinni fyrir að auka réttindi erlendra kvenna sem sæta heimilisofbeldi hér á landi, þörf sem mikið hefur verið til umræðu í íslenskum fjölmiðlum að undanförnu. Ennfremur er fjallað um mikilvægi þess að bæta íslenskukunnáttu innflytjenda sem og að auka þekkingu þeirra á réttindum sínum sem starfsmanna og raunar á réttarstöðu þeirra almennt. Þá eru stjórnvöld og hvött til að stuðla að stofnun alþjóðlegra menningarmiðstöðva og leggja þeim til nægilegan mannafla og rekstrarfé. Margt af því sem nefndin leggur til snertir sveitarfélögin með beinum hætti, enda þótt ríkisvaldið sé ábyrgt gagnvart skuldbindingum íslenskra stjórnvalda á alþjóðavettvangi. Nægir þar að nefna hvernig staðið er að móttöku innflytjenda, menntun, bæði í grunn- og leikskólum sem og fullorðinsfræðslu, almenn mannréttindi o.fl. Því er full ástæða fyrir Reykjavík, sem lang stærsta sveitarfélag landsins og höfuðborg, að taka ábendingar nefndarinnar nú þegar til skoðunar að því er varðar borgina og vinna aðgerðaráætlun til að taka á þeim verkefnum sem augljóslega eru í verkahring hennar. Því er lagt til að borgarstjóra verði falið að vinna slíka áætlun og kalla til þeirrar vinnu þau ráð og nefndir sem helst hafa með umrædd málefni að gera og skila tillögum til borgarráðs.
Skýrslu ECRI má nálgast hér.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
12.2.2007 | 10:13
Vinstriflokkarnir með meirihluta
Skoðanakönnun Fréttablaðsins, sem birt var í gærmorgun, sýnir að Vinstri græn og Samfylkingin hafa saman meirihluta og gætu myndað ríkisstjórn. Þetta eru vissulega ánægjuleg tíðindi. Könnunin sýnir að það er mögulegt að skipta algerlega um stjórnarstefnu, leiða umhverfissjónarmið, velferð, jafnrétti og sjálfstæða utanríkisstefnu til öndvegis í íslenskum stjórnmálum.
Nú reynir á að stjórnarandstöðuflokkarnir, og þá einkum Samfylking og Vinstri græn, snúi bökum saman og setjið markið á hreinan meirihluta á Alþingi í kosningunum 12. maí nk. Samstjórn þessara tveggja flokka myndi marka tímamót í íslenskri stjórnmálasögu. Það verður spennandi að sjá í næstu könnunum hvort þessi þróun nær að festa sig í sessi allt fram á kjördag. Það óskandi.
12.2.2007 | 10:07
Steingrímur óumdeildastur
Í skoðanakönnun Fréttablaðsins sem birtist í morgun er greint frá trausti kjósenda á stjórnmálaleiðtogunum. Það vekur athygli að formaður Sjálfstæðisflokksins, Geir Haarde, nýtur stuðnings um 32% meðan flokkurinn fær um 35%. Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna nýtur trausts tæplega 26% kjósenda en flokkurinn fær um 23%. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, leiðtogi Samfylkingarinnar, nýtur trausts um 12% kjósenda en flokkurinn fær um 28% fylgi.
Þegar stuðningur og traust á stjórnmálaleiðtogunum er skoðað og sömuleiðis hverjum þeirra fólk vantreystir mest, þá kemur upp úr dúrnum að Steingrímur J. Sigfússon er óumdeildastur, hann er í öðru sæti yfir þá sem mest trausts njóta og kemst ekki á blað yfir þá sem fólk vantreystir. Rúm 27% vantreysta Ingibjörgu, tæp 12% vantreysta Geir og rúm 8% vantreysta Birni Bjarnasyni.
Þessi niðurstaða staðfestir að málefni Vinstri grænna njóta víðtæks stuðnings og trúverðugleiki forystunnar er mikill. Í því liggja heilmikil sóknarfæri. Þjóðin treystir Steingrími J. augljósa best til að leiða ríkisstjórn ef frá er talinn núverandi forsætisráðherra. Sérstaklega er athyglisvert að Steingrímur nýtur mikils trausts kvenna - athyglisvert ekki síst í ljósi ákveðinnar umræðu um jafnréttishugsjónir stjórnmálaleiðtoganna.
![]() |
Flestir treysta Geir af stjórnmálaleiðtogunum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)