Laumufarþegi í lagafrumvarpi

Ríkisstjórnin hefur lagt fram frumvarp til breytinga á stjórnarráðslögunum.  Frumvarpið lætur lítið yfir sér og virðist fyrsta kastið fremur saklaust.  Á yfirborðinu snýst það um að sameina sjávarútvegsráðuneytið og landbúnaðarráðuneytið annars vegar og  hins vegar að flytja tryggingamálefni úr heilbrigðisráðuneytinu og í félagsmálaráðuneytið. 

Er ástæða til að hafa mörg orð um þessar breytingar?  Í sjálfu sér ekki.  Nema fyrir þá sök að ríkisstjórnarflokkarnir hafa líka látið í veðri vaka að fyrirhugaðir séu viðamiklir flutningar á málaflokkum milli ráðuneyta, fyrir utan það sem lagafrumvarpið gerir ráð fyrir.  Má þar nefna flutningur sveitarstjórnarmála úr félagsmálaráðuneyti í samgönguráðuneyti, ferðamála úr samgönguráðuneyti í iðnaðarráðuneyti, matvælamála úr umhverfisráðuneyti í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti og jafnvel flutnignur Íbúðalánasjóðs úr félagsmálaráðuneyti í fjármálaráðuneyti.  Og vafalaust ýmislegt fleira. 

Nei, það sem er sérlega athugavert við lagafrumvarp ríkisstjórnarinnar er að þar leynist laumufarþegi sem bersýnilegt er að stjórnin ætlað að setja inn í lög þótt það hafi ekkert, nákvæmlega ekkert, með breytingarnar á ráðuneytunum að gera.  En þær breytingar eru sagðar meginefni og tilgangur frumvarpsins.  Það sem mestu máli skiptir er að lagt er til að draga mjög úr réttindum starfsmanna, m.a. með því að fella niður skyldu til að auglýsa laus störf í stjórnarráðinu.  Auglýsingaskyldan gegnir veigamiklu hlutverki, annars vegar til að tryggja jöfn tækifæri allra til starfa og starfsframa og hins vegar til að tryggja að hæfasti einstaklingurinn sem völ er á hverju sinni sé ráðinn til starfa.  Augljóst er að ríkisstjórnin vill kasta þessum markmiðum fyrir róða úr því hún sækir það svo stíft að fá fram þessar lagabreytingar. 

Í umsögn BSRB við frumvarpinu er þessum breytingum mótmælt.  Enn fremur bendir BSRB í umsögn sinni á að breytingin geti haft áhrif á aðkomu og möguleika kvenna á viðkomandi störfum. Bandalagið bendir jafnframt á að með þessari breytingu er verið að stíga stórt skref aftur á bak og að auki fyrsta skrefið í þá átt að afnema auglýsingaskyldu á störfum hjá hinu opinbera.  Getur verið að þetta sé ásetningur ríkisstjórnarinnar.  Ríkisstjórnar með aðild jafnaðarmanna?  Því verður ekki trúað fyrirfram. 

Í stefnuyfirlýsinguna ríkisstjórnarinnar er m.a. talað um gott samstarf við stjórnarandstöðuna og í ræðu sinni í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra lagði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir formaður Samfylkingarinnar áherslu á að farnar væru leiðir sátta og samræðu.  Nú getur reynt á þau dýru orð. 

Það er sérkennilegt, að þegar ríkisstjórnin leggur fram lagafrumvarp, sem á yfirborðinu er einungis ætlað að gera tiltölulega litlar efnisbreytingar á stjórnarráðinu, skuli hún um leið velja að lauma inn í það frumvarp ákvæðum sem rýra réttarstöðu starfsmanna og hafa ekkert með meint meginefni frumvarpsins að gera.  Og hyggst svo bíta höfuðið af skömminni með því að skella skollaeyrum við viðvörunarorðum og andmælum samtaka starfsmanna og stjórnarandstöðunnar.  Hver er tilgangurinn með þessum vinnubrögðum?

(Greinin birtist í Morgunblaðinu 12. júní 2007)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Grímur Kjartansson

Hvað sem líður þessari gagnrýni þinni þá eru þessi lög meingölluð og þurfa endurskoðunar við.

Það er líka verið að fara illa með fólk þegar auglýst eru störf sem búið er að ráða í og vekja þar með upp væntingar hjá fólki sem sækir um í góðri trú.
Ég veit ekki til þess að nokkur hafi verið lögsóttur fyrir að fara ekki eftir þessari auglýsinga lagaskyldu þannig að sennilega eru engin viðurlög og í neyð hafa menn birt auglýsingu í Lögbirting og hvergi annars staðar og þannig gefið fyllilega í skyn að búið sé að ráðstafa því embætti og auglýsingin sé bara prump.

Bendi líka á að sum ráðuneyti birta aldrei lista yfir hverjir sækja um stöður þannig að ómögulegt er að gera sér grein fyrir hvort hæfasti umsækjandinn hafi verið valinn.

Grímur Kjartansson, 13.6.2007 kl. 14:08

2 Smámynd: Toshiki Toma

Kæri Árni Þór, sæll.


Þakka þér fyrir að samþykkja því að vera blogvinur !!
Bestu kveðjur og góða helgi.

Toshiki Toma, 15.6.2007 kl. 00:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband