31.1.2007 | 11:42
Staðan í stjórnmálum
Þegar flokksmálgögnin voru og hétu (ja sumir segja að þau séu nú enn við lýði!) þá mátti oft sjá í tilkynningum um flokksstarfið að tiltekinn forystumaður viðkomandi stjórnmálaflokks myndi ræða "stjórnmálaástandið" á flokksfundi. Þetta kom upp í hugann nú um daginn vegna allra þeirra atburða, viðtala, bloggfærslna, yfirlýsinga o.s.frv. sem dunið hafa á okkur úr heimi stjórnmálanna að undanförnu. Það er sannarlega tilefni til að ræða "stjórnmálaástandið".
Framsóknarflokkurinn hefur nú um alllangt skeið goldið ríkisstjórnarsetu sinnar í skoðanakönnunum. Fylgi flokksins mælist á bilinu 6-10% sem lætur nærri að vera um helmingur þess fylgis sem flokkurinn fékk í síðustu kosningum. Þá er gjarnan rifjað upp að flokkurinn hefur tilhneigingu til að mælast lægri í könnunum en síðan kemur á daginn í kosningum. Kann vel að vera. Hitt er ljóst að flokkurinn má sannarlega muna sinn fífil fegurri og ekki er alveg laust við átök innan flokksins, eins og prófkjörin í norðvestur- og suðurkjördæmum sýna glöggt. Nýr for(n)maður hefur ekki náð viðunandi fótfestu og alls ekki tekist að rífa flokkinn upp úr þeirri lægð sem löng seta við ríkisstjórnarborðið með Sjálfstæðisflokknum hefur komið honum í. Og fátt sem bendir til að honum muni takast það. Í röðum yngri forystumanna flokksins er líka greinilegur áhugi á að flokkurinn fari í stjórnarandstöðu á næsta kjörtímabili, noti þá tímann til að byggja upp flokksstarfið og styrkja málefnagrunn sinn - og - til að endurnýja forystu flokksins. Líklegt er að Valgerður Sverrisdóttir, Siv Friðleifsdóttir og Björn Ingi Hrafnsson muni blanda sér í þá baráttu og fyrir þann síðastnefnda er stjórnarandstaða örugglega ákjósanlegust til þess að ná árangri.
Samfylkingin á í augljósi basli með að koma málefnum sínum til skila á trúverðugan hátt. Fylgi í könnunum sem losar 20% er langt í frá að vera viðunandi miðað við 31% fylgi í síðustu kosningum og eftir að hafa verið stærsti stjórnmálaflokkurinn í stjórnarandstöðu um langt skeið. Við þær aðstæður eru margir sem finna hjá sér þörf til að finna blóraböggul og benda á formanninn, Ingibjörgu Sólrúnu. Samherjar, eins og Jón Baldvin og Stefán Jón, reiða rýtinginn hátt til höggs í bak formannsins, eins lúalegt og það getur orðið, sbr. Kastljós núna í vikunni. Og á hliðarlínunni er Össur, sem sagðist ætla að standa með formanninum eftir tapið í formannskjörinu, en hefur trúlega aldrei meint það og kyndir ófriðarbálið. Ég tel að vandi Samfylkingarinnar sé ekki sök formannsins, hugsanlega hefur hún verið ólánsöm í einstaka formúleringum. Vandinn er dýpri, hann á sér rætur í því að hugsunin um samfylkingu vinstri manna og aðferðafræðin við það allt, er einhvern veginn á skjön við raunverulega íslenska hefð, sögu og menningu í stjórnmálum. Einhvern tímann var sagt að íslensk þjóðarsál væri í meginatriðum í fjórum stjórnmálaflokkum, nokkuð til í því. Hins vegar er ljóst að ef stjórnarandstöðunni á að takast að fella ríkisstjórnina í vor, verður Samfylkingin að ná vopnum sínum og sækja fylgi sem nú er að gefa sig upp á stjórnarflokkana, hún verður að sækja lengra á miðju- og hægrimiðin. Tekst henni það?
Farsinn í Frjálslynda flokknum er dapurlegur. Landsþingið tókst með afspyrnum illa og forysta flokksins fór illa að ráði sínu þegar hún valtaði yfir Margréti Sverrisdóttur og hennar fólk og bolaði því í raun úr flokknum. Hið félagslega og umhverfisvæna yfirbragð sem Frjálslyndi flokkurinn hefur borið, ekki síst í borgarstjórn Reykjavíkur, er farið veg allrar veraldar. Og áherslurnar sem lagðar voru á stefnumiðin í innflytjendamálum eru ógeðfelldar. Í raun alveg með ólíkindum að sá mæti maður Guðjón Arnar Kristjánsson hafi villst inn á þessa braut. Sumir telja jafnvel að hann hafi stútað kaffibandalaginu svonefnda. Það er að vísu of snemmt að fullyrða um það, en hitt er ljóst að flokkurinn mun ekki fá hljómgrunn fyrir innflytjendastefnu sína í samstarfi við aðra flokka, hann gerði því réttast í því að ýta henni strax út f borðinu. Mér þykir sennilegast að flokkurinn muni missa flugið í næstu skoðanakönnunum eftir þessa skelfilegu tragíkómedíu.
Staða Sjálfstæðisflokksins er ótrúlega stöðug. Fylgið mælist 36-40% en flokkurinn fékk um 34% í síðustu kosningum, sem raunar var lakasta fylgi flokksins um langt árabil. Á hitt er að líta að flokkurinn mælist jafnan nokkuð hærra í könnunum en hann fær í kosningum og er nýjasta dæmið um það einmitt borgarstjórnarkosningarnar í vor. Engu að síður er staða flokksins góð, hann siglir á lygnum sjó ef svo má segja og þarf að því er virðist aldrei að gjalda fyrir afspyrnu lélega frammistöðu í ríkisstjórn. Ótrúlegt! Eins og staðan er nú er líklegt að flokkurinn bæti við sig fylgi, etv. 1-2 þingmönnum, en þó gæti framboðslistinn í suðurkjördæmi, með Árna Johnsen í öðru sæti, haft áhrif, einkum í öðrum kjördæmum. Framboð aldraðra og öryrkja sem etv. verða tvö, gætu tekið fylgi af Sjálfstæðisflokknum og ugglaust líka af Framsóknarflokknum en stjórnarandstöðuflokkarnir geta líka liðið fyrir slíkt framboð og kannski verða heildaráhrifin lítil. En hvað sem öðru líður, þá stendur Sjálfstæðisflokkurinn nokkuð traustur og ef stjórnarandstaðan ætlar sér að fella ríkisstjórnina þarf hún ekki síst að beina sjónum sínum að forystuflokki hennar og þvinga flokkinn í pólitíska umræðu.
Vinstri græn hafa nú um langt skeið mælst með stöðugt fylgi á bilinu 15-20%. Það er vitaskuld gríðarlega góður árangur m.v. að flokkurinn fékk um 9% í síðustu kosningum. Útkoma flokksins í sveitarstjórnarkosningunum í vor er líka fyrirheit um að gengi flokksins verði gott í komandi þingkosningum. Málefnastaðan er sterk og skýr og æ fleiri finna samhljóm með stefnu og málflutningi flokksins. Þá er forysta flokksins trúverðug og traust og nýtur mikils almenningsálits. Flokkurinn þarf hins vegar að halda vel á sínum spilum og má ekki taka góða stöðu í skoðanakönnunum sem ávísun á góð kosningaúrslit. Það má hvergi slaka á og ekki sýna neina værukærð. Haldi flokkurinn hins vegar áfram á sömu braut og hann hefur verið er full ástæða til bjartsýni fyrir vorið.
Í raun má segja að aðeins tveir flokkar séu í nokkuð góðum málum. Ef horft er til málefnastöðu, fylgis í skoðanakönnunum, einingar innan flokks og styrks og trausts flokksforystunnar, eru það einungis Sjálfstæðisflokkur og Vinstri græn sem mega vel við una. Spurning er hvert það skilar flokkunum á þeim mánuðum sem enn eru til kosninga!
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
30.1.2007 | 21:29
Æ æ, svo sárt, svo sárt!
Leikur Íslands og Danmerkur í 8-liða úrslitum á heimsmeistaramótinu í handbolta var hreint ótrúlegur. Og svo nálægt því sem við vorum að komast í undanúrslitin. Þvílík frammistaða og þvílíkur spenningur - en jafnframt þvílík vonbrigði þegar við misstum af tækifærinu til að innsigla sigur á síðustu mínútu í framlengdum leik.
Danir voru sigurvissir fyrir leikinn, töldu það nánast formsatriði að leika leikinn við Ísland. Það kom í ljós að það var mikið vanmat. Staðan var meira og minna jöfn, liðin áttu bæði góða spretti og náðu forystu. Og það mátti heyra á manni leiksins, Snorra Steini Guðjónssyni, að það var sárt, svo sárt að missa af tækifærinu að ná lengra en íslenskt handboltalið hefur nokkru sinni náð fyrr á heimsmeistarakeppni.
Engu að síður er frammistaða íslensku strákanna frábær, þeir eiga hrós skilið. Framundan er leikur við Rússland um 5. - 8. sæti á fimmtudag og nú er bara að gefast ekki upp heldur sýna að við erum í hópi fimm bestu handknattleiksþjóða í heimi. Áfram Ísland!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
29.1.2007 | 12:44
Hvað komumst við langt?
Ísland keppir við Danmörku á heimsmeistaramótinu í handbolta á morgun. Það er mikilvægur leikur, vinningsliðið er komið í hóp fjögurra efstu liða og keppir um að komast á verðlaunapall. Danskir fjölmiðlar greina frá því að íslensku strákarnir séu þeir sem Danirnir vildu helst lenda á móti.
Árangur íslensku strákanna hingað til er glæsilegur, og raunar hvernig sem fer. Þeir hafa staðið sig með stakri prýði, eru í hópi 8 bestu handknattleiksliða í heiminum. En vitaskuld munu þeir leggja allt í sölurnar í leiknum við Dani. Það er ekki laust við að danskurinn telji Ísland auðvelda bráð í leiknum á morgun, það er a.m.k. undirtónninn í umfjöllun danskra fjölmiðla. Þeim væri þó hollast að sýna Íslendingum tilhlýðilega virðingu í þessu efni.
Liðin eru auðvitað bæði firnasterk og leikurinn getur farið á hvorn veg sem er. Vinni Ísland, keppum við við vinningsliðið úr leik Póllands og Rússlands í undanúrslitum. Það er því mikið í húfi fyrir bæði liðin og þau munu bæði leika upp á sigur. Þess vegna er viðbúið að þetta verði hörkuleikur. Áfram Ísland!
27.1.2007 | 18:40
Frábær barátta Íslands á HM
Íslenska handknattleiksliðið barðist stórkostlega allan leikinn á móti Slóvenum, en leiknum lauk nú fyrir stundu með sigri Íslands, 32-31. Síðustu mínúturnar voru að vísu óþægilega spennandi þegar Slóvenum tókst að minnka muninn niður í eitt mark, en íslensku strákarnir gáfust aldrei upp og börðust eins og hetjur til loka leiksins.
Ísland er nú komið í 8-liða úrslit og því ein af allra bestu handknattleiksþjóðum í heimi. Leikurinn við Þjóðverja á morgun breytir ekki stöðu okkar að þessu leyti þó vissulega væri gaman að velgja gestgjöfunum aðeins undir uggum. Vonandi gengur okkur vel þá líka.
Í leiknum í dag voru markverðirnir, Birkir Ívar Guðmundsson og Roland Eradze, ásamt Loga Geirssyni tvímælalaust bestu menn okkar. Til hamingju með frábæran árangur.
![]() |
Ísland í 8-liða úrslit eftir sigur á Slóveníu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.1.2007 | 23:57
Athyglisverð skoðanakönnun á heimur.is
Vefsíðan www.heimur.is birti í dag niðurstöður skoðanakönnunar sem tímaritið Frjáls verslun hefur gert fyrir vefsvæðið. Segja má að nokkrar athyglisverðar vísbendingar komi þar fram, enda þótt svarhlutfall sé, eins og í síðustu könnun Fréttablaðsins, rétt innan við 60%. Vinstri græn eru mnæst stærsti stjórnmálaflokkur landsins skv. könnuninni en ríkisstjórnin heldur naumlega velli.
Ríkisstjórnarflokkarnir fá skv. þessari könnun 32 þingmenn en stjórnarandstaðan 31. Að þessu leyti er könnunin frábrugðin flestum öðrum könnunum um þessar mundir sem gefa til kynna að meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks á þingi sé fallinn. Nánar má lesa um þessa könnun hér.
23.1.2007 | 21:34
Eins og íslenska veðrið - stormasamt!
Það var sannarlega vel að verki staðið hjá íslensku handboltastrákunum að leggja Evrópumeistara Frakka með jafn eftirminnilegum hætti og raun varð á í gær. Frammistaða þeirra var stórkostleg. Ólafur Stefánsson lýsti því þannig að liðið væri eins og íslenska veðrið, óútreiknanlegt. Og við vitum að það getur verið stormasamt hér heima, og þannig getur árangur liðsins líka verið. Það eru svo ótal ótal mörg dæmi um það á undanförnum árum að liðið hafi vantað úthald á endasprettinum.
Út af fyrir sig var það dálítið skrýtið að heyra íþróttafréttamenn hneyksast og lýsa vanþóknun á liðinu í leik þess gegn Úkraínu, segja jafnvel að liðið væri ömurlegt og þar fram eftir götunum. Sumir mættu gjarnan gæta orðavals í lýsingum. En sannleikurinn er sá að lýsing Ólafs er hárrétt, við vitum aldrei hvernig liðinu mun reiða af, hvernig vindarnir blása svo notuð sé veðursamlíkingin. Ég held raunar að liðinu gangi alltaf betur í rauðum búningi en bláum (og það er freistandi að leggja pólitískan skilning í það, þó það verði nú ekki gert hér).
Nú er staðan sú að Ísland er efst í sínum milliriðli og raunar þótt hinn milliriðillinn sé talinn með líka, Ísland hefur hagstæðustan markamun. Það er ágæt forgjöf og vekur vonir um að Ísland komist jafnvel í fjórðungsúrslit, verði sem sagt eitt af fjórum liðum sem komast upp úr milliriðlinum. Íslensku strákunum er óskað alls hins besta, þeir hafa sýnt hvað í þeim býr, þeir eru auðvitað mistækir eins og við öll, en þeir eiga órofa stuðning þjóðarinnar allrar í þeirri baráttu sem framundan er. ÁFRAM ÍSLAND!
![]() |
Ólafur Stefánsson: Erum eins og íslenska veðrið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 27.1.2007 kl. 19:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.1.2007 | 22:28
Hátt var reitt...
Úrslitin í prófkjöri Framsóknarmanna í Suðurkjördæmi eru athyglisverð. Þar kemur margt til.
Stórsigur Guðna Ágústssonar vekur athygli vegna þess að það var hart sótt að honum af hálfu þingflokksformannsins, Hjálmars Árnasonar. Hjálmar er líka einn af fáum fulltrúum Suðurnesja í hópi frambjóðenda og þar sem íbúar Suðurnesja eru um 40% kjósenda kjördæmisins hafði maður reiknað með að gengi hans yrði nokkuð gott. Guðni var auðvitað sigurstranglegur en sigur hans er mun stærri en gera mátti ráð fyrir. Hann má vel við una.
Guðni við landbúnaðarstörf á Kúbu
Í öðru lagi vekur athygli að Hjálmar skuli falla niður í 3. sætið og að Bjarni Harðarson, hinn bráðskemmitlegi blaðamaður og pistlahöfundur, hafi náð svo góðum árangri að skjóta þingflokksformanninum ref fyrir rass. Og í þriðja lagi vekur það eftirtekt að Hjálmar ákveður að yfirgefa stjórnmálin og verða ekki með í slagnum í vor, eftir 12 ár á þingi.
Það var auðvitað ljóst að þegar Hjálmar ákvað að fara í slag við Guðna þá yrði það mikil barátta og að héraðshöfðinginn Guðni myndi berjast af fullri hörku fyrir pólitísku lífi sínu. Hjálmar reiddi hátt en Guðni hafði betur. Nú er að sjá hvernig hann dugar í vor.
![]() |
Hjálmar Árnason hættir í stjórnmálum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.1.2007 | 10:40
Góð staða VG fellir ríkisstjórnina
Fréttablaðið birti nýja skoðanakönnun í morgun þar sem kemur fram að meirihluti ríkisstjórnarinnar er fallinn og stjórnarandstaðan nýtur meirihlutafylgis. Einkum er það mikils fylgisaukning Vinstri grænna sem veldur þessum straumhvörfum.
Samkvæmt könnuninni fá Vinstri græn tæp 20% fylgi en fengu rúm 13% í síðustu könnun blaðsins (í nóvember) og tæp 9% í síðustu kosningum. Samfylkingin mælist með um 21% fylgi miðað við um 30% í síðustu könnun og rúm 31% í kosningunum. Frjálslyndir mælast nú með 10% fylgi, fengu 11% í síðustu könnun og rúm 7% í kosningunum. Fylgi við Sjálfstæðisflokkinn mælist um 40%, en flokkurinn hafði um 38% fylgi í síðustu könnun og tæp 34% í kosningunum 2003. Loks fær Framsóknarflokkurinn rúmlega 7% fylgi, hafði tæp 7% í síðustu könnun en tæp 18% í síðustu kosningum. Þannig er ljóst að það er mikil hreyfing á fylginu frá síðustu kosningum, einkum frá Framsókn og Samfylkingu og aðallega til Vinstri grænna en einnig til Frjálslyndra og Sjálfstæðismanna.
Hið ánægjulega í könnuninni er að ríkisstjórnin er fallin. Og þetta er ekki fyrsta könnunin nú síðustu vikur sem sýnir það. Þjóðin virðist vera búin að fá nóg af núverandi stjórnarflokkum og er augljóslega að gera kröfur um breytingar. Ekki síst vill þjóðin sjá áherslumálum Vinstri grænna vel fyrir komið við landsstjórnina. Það eru hin skýru skilaboð. Nú eru að vísu enn 4 mánuðir til kosninga og margt getur gerst á skemmri tíma en það í stjórnmálum og engin vissa fyrir því að úrslit kosninga verði eins og skoðanakannanir sýna. Þær mæla þó óumdeilanlega stöðu mála á þeim tímapunkti sem þær eru teknar, sýna greinilegar vísbendingar, en hafa verður í huga að allstór hluti kjósenda er enn óákveðinn.
Stjórnarandstöðuflokkarnir hafa sýnt prýðilega samstöðu á þingi í vetur. Í haust lögðu þeir fram nokkur mikilvæg mál sem þeir standa saman að og nú síðast hefur órofa samstaða þeirra í málefnum Ríkisútvarpsins sýnt og sannað að þeir eiga auðvelt með að starfa saman. Fái þeir til þess umboð kjósenda er einboðið að þeir myndi næstu ríkisstjórn og hefjist strax handa við að taka til eftir 16 ára valdaferil Sjálfstæðisflokks og 12 ára tíma Framsóknarmanna í stjórnarráðinu. Verkefnin eru ærin, hvert sem litið er. Það er hugur í okkur Vinstri grænum og við erum reiðubúin að axla ábyrgð.
![]() |
Fylgi VG og Frjálslyndra eykst samkvæmt skoðanakönnun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
20.1.2007 | 09:36
Geir, Jafet og kona
Á fréttavef Ríkisútvarpsins var greint frá því að kona hefði boðið sig fram til formennsku Knattspyrnusambands Íslands. Áður hafði komið fram að Geir Þorsteinsson framkvæmdastjóri KSÍ og Jafet Ólafsson fyrrv. forstjóri VBS hefðu tilkynnt um framboð til formennsku.
Það er dæmigert að fréttin skuli snúast um það að kona bjóði sig fram, ekki að Halla Gunnarsdóttir hafi ákveðið að skella sér í formannsslaginn. Kannski er þetta óafvitandi hjá mbl.is en kannski er þetta bara dæmigert fyrir viðhorfin í samfélaginu. Út af fyrir sig er það fréttaefni að nú gefst knattspyrnuhreyfingunni í fyrsta skipti tækifæri til að kjósa konu í formannsstól en að sjálfsögðu er það aðalatriðið að það er Halla Gunnarsdóttir, blaða- og knattspyrnukona sem sækist eftir formennsku í KSÍ. Vonandi ber knattspyrnuhreyfingin gæfu til að gera hana að formanni.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 21.1.2007 kl. 10:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
10.1.2007 | 22:25
Velferðarþjónustan undirseld gróðavoninni
Meirihlutinn í borgarstjórn hefur nú ákveðið að bjóða út rekstur gistiskýlis fyrir húsnæðislausa að Þingholtsstræti. Með þessari ákvörðun er sýnt að meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks ætlar sér að innleiða markaðslausnir í velferðarþjónustuna í borginni. Þar með mun hún að sjálfsögðu hætta að vera velferðarþjónusta og verða rekin með gróðavonina að leiðarljósi.
Þetta er mikið óheillaspor en getur því miður bara verið upphafið að öðru og meiru í þessa veru. Við Vinstri græn mótmælum harðlega þessari markaðsvæðingu velferðarþjónustunnar og fulltrúi okkar í velferðarráði, Þorleifur Gunnlaugsson, lagði fram afdráttarlausa bókun í ráðinu við afgreiðslu málsins. Bókunin er þannig:
Fyrir hálfu öðru ári ákvað Velferðarráð að taka rekstur gistiskýlisins úr höndum einkaaðila og setja hann í hendur Velferðarsviðs sem tilraunaverkefni í 2 ár. Þetta var gert með það að markmiði að fylgjast betur með aðstæðum gestanna og tryggja þar með markvissari vinnslu í málefnum hlutaðeigandi, skapa meiri nálægð og þar með þekkingu á leiðum til úrbóta. Til vinnu voru ráðnir menn sem hafa áralanga reynslu af starfi með alkahólistum og geðsjúkum.
Starfsmenn skýlisins hafa mætt skjólstæðingum á þeirra eigin forsendum og með það í huga að yfirleitt er um mjög veika einstaklinga að ræða. Því verður ekki á móti mælt að rekstur gistiskýlisins hefur verið með miklum sóma. Um það vitna starfsmenn þjónustumiðstöðva, heilbrigðisþjónustu og lögreglu. Það var því mikið áfall fyrir gesti jafnt sem starfsmenn þegar meirihluti Velferðarráðs ákvað að rjúfa feril tveggja ára verkefnis og segja starfsmönnum upp frá og með 1. nóvember sl og bjóða reksturinn út.
Til að bæta gráu ofan á svart hefur ótrúlegur seinagangur einkennt málið því það mátti vera öllum sem til þekkja ljóst að mikið rót yrði á rekstrinum strax og uppsagnirnar tóku gildi. Það umrót hefur leitt til þess að ekki hefur tekist að fullmanna starfsemina að undanförnu sem síðan varð til þess til að loka þurfti húsinu aðfararnótt síðastliðins sunnudags og nokkrir heimilislausir karlmenn höfðu ekki í nein hús að venda þá nótt. Það er í sjálfu sér skiljanlegt að nýr meirihluti fólks sem sumt hvað er búið að bíða í 12 ár eftir að fá að stjórna eftir eigin höfði skuli vera orðið óþreyjufullt og vilja breyta strax. En væri ekki nær að rugga bátnum annarsstaðar? Fulltrúi Vinstri grænna í Velferðarráði lýsir sig algerlega andvígan fyrirhuguðum breytingum á starfsemi gistiskýlisins að Þingholtstræti 25 og lýsir fullri ábyrgð á hendur meirihlutanum á þeim skaða sem þær hafa og munu valda,"