10.1.2007 | 13:40
Hvers á krónan að gjalda?
Allmikil umræða hefur orðið upp á síðkastið um gjaldmiðilinn íslenska, krónuna, og kosti þess og galla að kasta henni og taka þess í stað upp evru. Í grófum dráttum sýnist mér að afstaða manna til þessa álitaefnis fari eftir sjónarmiðum þeirra til aðildar eða ekki aðildar að Evrópusambandinu.
Það þarf vitaskuld ekki að koma á óvart því flestir telja að aðild að myntbandalagi Evrópu standi eingöngu þeim til boða sem eru aðilar að Evrópusambandinu OG uppfylla skilyrði sem Seðlabanki Evrópu setur fyrir upptöku evrunnar. Nú hafa raunar þau sjónarmið líka heyrst að ekki sé sjálfgefið að aðild að ESB sé forsenda þess að taka upp evruna, og að það megi vel kanna betur, en ólíklegt er að þau viðhorf byggi á traustum grunni.
Í allri þessari umræðu er helst að skilja að krónan sé einhver sérstakur gerandi þegar kemur að t.d. vaxtastiginu hér á landi, matarverði o.fl. En í raun og sann er krónan lítið annað en mælistika, eins konar hitamælir, eins og Ragnar Arnalds, fyrrv. fjármálaráðherra, kemst að orði í bloggfærslu sinni. Þar færir hann sannfærandi rök fyrir því að það sé fyrst og fremst stefnan í efnahags- og atvinnumálum sem sé ráðandi um t.d. vaxtastig, verðbólgu o.s.frv. og gengi krónunnar sé mælikvarðinn á það hver staða mála sé. Þar liggi semsé ekki vandinn, krónan sé enginn orsök eða gerandi í málinu.
Hvet ég alla til að lesa grein Ragnars, því ekki verður því á móti mælt að Ragnar er meðal þeirra sem hafa mikla yfirsýn og þekkingu á þessum málum og er þekktur fyrir allt annað en að gaspra um þau mál sem hann fjallar um. Þar fjallar hann líka um þá stöðu að íslenskt efnahagslíf uppfylli ekki skilyrði til að taka upp evruna og muni ekki gera það í fyrirsjáanlegri framtíð. Athyglisverð lesning og er ástæða til að þakka bloggaranum fyrir.
5.1.2007 | 15:16
Hálfsannleikur Arndísar
Í Morgunblaðinu í gær er grein eftir Arndísi Steinþórsdóttur, kennara og femínista, þar sem hún freistar þess að koma höggi á Vinstri græn. Telur hún lítið fara fyrir femíniskum gildum hjá VG. Nú er út af fyrir sig ekkert að því að andstæðingar VG í stjórnmálum deili á flokkinn og finni á honum snögga bletti. Það er hins vegar málstað viðkomandi ekki til framdráttar að halla réttu máli og beita hálfsannleik í málflutningi sínum. Því miður hendir það Arndísi.
Í grein sinni víkur hún sérstaklega að borgarmálum og telur að karlborgarfulltrúi VG (sem er undirritaður) hafi átt meiri rétt þegar kom að því að skipa í nefndir á vegum borgarinnar, m.a. sitji karlinn í borgarráði og karlinn hafi fengið alvöru karladjobbin, s.s. setu í stjórnum Orkuveitunnar og Faxaflóahöfnum. Arndís hefði betur kynnt sér málið ögn betur áður en hún fleipar með þessa hluti. Staðreyndin er sú að Svandís Svavarsdóttir situr sem oddviti VG í tveimur veigamestu ráðunum, menntaráði og skipulagsráði. Ég sit í menningar- og ferðamálaráði og framkvæmdaráði. Hvað borgarráð snertir þá skiptum við með okkur setu í því, þannig að ég sit þar 1 ár en Svandís 3, en á móti situr Svandís 1 ár í forsætisnefnd og ég sit þar í 3 ár. Þetta er sama skipting í borgarráði og var hjá okkur í VG á síðasta kjörtímabili þegar ég sem oddviti sat 3 ár í borgarráði en Björk Vilhelmsdóttir, sem þá var borgarfulltrúi á vegum VG, sat þar 1 ár. Raunar viðhafði Samfylkingin sömu skiptingu þá, Stefán Jón Hafstein sem þá var oddviti þeirra sat 3 ár í borgarráði en Steinunn Valdís Óskarsdóttir sat þar í 1 ár. Um setu í stjórnum fyrirtækjanna er það að segja að ég sit í stjórn Faxaflóahafna fyrstu 2 ár kjörtímabilsins en þá tekur Svandís við og situr þar í eitt ár en Frjálslyndi flokkurinn á aðalsæti þar síðasta ár kjörtímabilsins en ekki VG. Í stjórn Orkuveitunnar er þessu þannig farið að Frjálslyndi flokkurinn á aðalsæti þar 1. og 3. ár kjörtímabilsins en VG 2. og 4. ár. Svandís Svavarsdóttir er þar fulltrúi okkar í VG en ekki undirritaður eins og Arndís heldur fram. Með örlítilli vandvirkni og góðum vilja hefði Arndís getað komist hjá rangfærslum sínum.
Fullt tilefni er til að fjalla nánar um önnur atriði í grein Arndísar, og einnig um það sem hún nefnir ekki. Til að mynda minnist hún ekkert á að undirritaður lagði, í anda femínískra gilda, kapp á að kona leiddi lista VG í borgarstjórnarkosningunum í vor eftir að hafa sjálfur gegnt oddvitastarfi flokksins í borgarmálum undanfarin ár. Og sömuleiðis að undirritaður átti ekki hvað sístan þátt í að Steinunn Valdís Óskarsdóttir varð borgarstjóri síðla árs 2004. En hún mátti ekki vera í forystuhlutverki fyrir sinn flokk áfram, og það vorum ekki við Vinstri græn sem sáum fyrir því! Um annað í grein Arndísar ætla ég ekki að fjalla nú, það bíður að sinni.
(Greinin birtist í Morgunblaðinu í dag, 5. jan. 2007)
1.1.2007 | 23:06
Nú þarf að taka á fjármálum fjölmiðla
Gleðilegt ár ágætu lesendur og takk fyrir samfylgdina á liðnu ári.
Eitt af síðustu verkum Alþingis fyrir jólahlé var að samþykkja lög um starfsemi stjórnmálaflokka. Skoðanir um þá löggjöf eru vissulega skiptar eins og eðlilegt er. Ég er í hópi þeirra sem hef talið löngu tímabært að sett væri löggjöf um starfsemi stjórnmálaflokka og tryggt yrði að þeir væru í störfum sínum ekki háðir einstaka fyrirtækjum eða öðrum velunnurum. Vitanlega má deila um það hvort ný löggjöf sé nákvæmlega hin eina rétta eða hvort hægt hefði verið að taka á fjármálum og starfsemi stjórnmálaflokka með öðrum hætti. Sjálfsagt er að endurskoða löggjöfina sem samþykkt var á Alþingi í desember eftir 1-2 ár í ljósi reynslunnar.
Hitt er umhugsunarvert hvort nóg sé að gert með löggjöf um starfsemi stjórnmálaflokka. Nú um áramótin var t.d. upplýst að umræðuþáttur Stöðvar 2 um áramót, þar sem m.a. leiðtogar stjórnmálaflokka eru fengnir til að fjalla um stöðu þjóðmála við áramót, hafi verið kostaður af Alcan á Íslandi. Fyrirtæki sem stendur í pólitískum átökum við almenning og lýðræðislega kjörna aðila um stækkun og frekari stóriðju í Straumsvík. Forsvarsmenn Stöðvar 2 segja þetta mjög eðlilegt og að umræddur þáttur, Kryddsíldin, hafi áður verið kostuð af fyrirtækjum.
Það er vitaskuld reginhneyksli að Stöð 2 skuli bjóða forystumönnum í stjórnmálum til þátttöku í slíkum umræðuþætti án þess að upplýsa þá um að þátturinn væri í boði tiltekins fyrirtækis. Stjórnendur Stöðvar 2 sigla hér undir fölsku flaggi og ættu að skammast sín fyrir ósvífnina. Þeir setja verulega niður við framkomu sína. Ekki síst þegar þeir velja að láta fyrirtæki sem á í pólitískum slag kosta þáttinn og segjast svo óháðir fyrirtækinu. Það er auðvitað eins og hver önnur firra. Nú hefur Alcan keypt Stöð 2 í aðdraganda kosninganna í Hafnarfirði um stækkun álversins og sanniði til - Stöð 2 mun að sjálfsögðu draga taum fyrirtækisins gegn hagsmunum almennings þegar kemur að umfjöllun um álverið í Straumsvík og stækkun þess. Nema hvað?
Þetta dæmi sýnir svo ekki verður um villst að nauðsynlegt er að taka á fjármálum fjölmiðla ekki síður en stjórnmálaflokka. Nauðsynlegt er að banna með öllu kostun pólitískar umræðuþátta eins og Kryddsíldarinnar, Kastljóss eða hverra annarra þátta til að tryggja að ekki sé unnt að kaupa sér velvild fjölmiðla. Það er verðugt verkefni þess Alþingis sem kjörið verður í vor.
31.12.2006 | 15:46
Gleðilegt nýtt ár - þakka samstarf á liðnu ári
Ég óska lesendum bloggsíðunnar, stuðningsfólki og landsmönnum öllum gleðilegs og heillaríks komandi árs og þakka ánægjulegt samstarf á liðnu ári.
Vonandi verður nýja árið happadrjúgt fyrir okkur Vinstri græn.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
30.12.2006 | 12:31
Saddam gerður að píslarvotti - var það nú gáfulegt?
Þá hefur Saddam Hussein verið tekinn af lífi. Hann var fundinn sekur um fjöldamorð og var dæmdur til dauða. Nú er áreiðanlegt að Saddam stór fyrir einni mestu ógnarstjórn síðari tíma og verðskuldaði að sjálfsögðu harðan dóm fyrir afbrot sín gegn írösku þjóðinni. Það á raunar við um sorglega marga þjóðarleiðtoga vítt og breitt um heiminn.
Hitt er svo sjálfstæð spurning hvort dauðarefsingar séu réttlætanlegar yfirleitt. Í Evrópu hafa dauðarefsingar verið aflagðar fyrir löngu og svo er einnig um mörg ríki annars staðar í heiminum. Bandaríkin standa þó enn á lista yfir þjóðir sem beita dauðarefsingum, þess vegna koma viðbrögð forseta Bandaríkjanna við aftökunni á Saddam ekki á óvart. Ríki sem notast við dauðadóma réttlætir um leið á vissan máta þann gjörning að deyða. Í því felst auðvitað þversögn en svona er það nú samt.
Með aftöku Saddams hefur hann nú verið gerður að píslarvotti. Víst er að ofbeldið í Írak mun nú enn aukast og hætt er við hermdarverkum bæði þar og víðar. Það má velta því fyrir sér hvort það hafi verið mjög gáfulegt að gera Saddam að píslarvotti eins og nú hefur verið gert. Allir þeir sem eru andstæðingar dauðarefsinga hljóta að fordæma aftökuna. Hún er engin lausn í þeirri erfiðu og viðkvæmu stöðu sem uppi er í Írak og hin ólöglega innrás Bandaríkjanna og stuðningsríkja þeirra hefur kallað yfir landið. Þvert á móti er líklegt að hún virki eins og olía á eld haturs og ofbeldis. Ábyrgðin liggur ekki síst hjá innrásarþjóðunum og þeirri heimsku að halda að uppræta megi ofbeldi með ofbeldi.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
29.12.2006 | 15:18
Ögmundur í Kragann, Katrín í Reykjavík norður og Kolbrún í Reykjavík suður
Nú hefur kjörstjórn vegna framboðslista Vinstri grænna á höfuðborgarsvæðinu kynnt tillögu sína um skipan 5 efstu sætanna í kjördæmunum þremur. Tillagan gerir ráð fyrir að Ögmundur Jónasson, formaður þingflokks VG, og ótvíræður sigurvegari forvalsins þann 2. desember sl., flytji sig um set og leiði lista flokksins í Suðvesturkjördæmi, Kraganum svonefnda. Lagt er til að Guðfríður Lilja Grétarsdóttir skipi 2. sætið í kjördæminu.
Þá er lagt til að Katrín Jakobsdóttir varaformaður VG leiði listann í Reykjavíkurkjördæmi norður og að ég verði þar í öðru sæti, en Kolbrún Halldórsdóttir þingkona skipi fyrsta sæti í Reykjavík suður og Álfheiður Ingadóttir verði þar í öðru sæti. Tillaga kjörstjórnar um skipan 5 efstu sætanna er þannig:
Katrín Jakobsdóttir Kolbrún Halldórsdóttir Ögmundur Jónasson
Árni Þór Sigurðsson Álfheiður Ingadóttir Guðfríður Lilja Grétarsd.
Paul F. Nikolov Auður Lilja Erlingsdóttir Gestur Svavarsson
Steinunn Þóra Árnadóttir Guðmundur Magnússon Mireya Samper
Kristín Tómasdóttir Jóhann Björnsson Andrea Ólafsdóttir
Engum blöðum er um það að fletta að þetta er góð og sterk niðurstaða hjá kjörstjórninni. Ögmundur og Guðfríður Lilja taka að sér það hlutverk að leiða lista flokksins í Kraganum, en það á flokkurinn engan þingmann nú. Sóknarfærin þar eru þó mikil og skv. skoðanakönnunum Gallup upp á síðkastið eigum við góða möguleika á tveimur þingmönnum í kjördæminu. Í Reykjavíkurkjördæmunum eigum við líka góða von í tveimur þingmönnum í hvoru kjördæmi.
Staða Vinstri grænna er sterk um þessar mundir. Við megum hins vegar ekki taka neitt gefið fyrirfram og þurfum að halda vel á spilum, koma okkar góða málstað vel á framfæri og stefna að því að vinna góðan sigur í kosningunum í vor. Markmið okkar hlýtur að vera að sjónarmið og áherslur Vinstri grænna komist rækilega að í landsstjórninni. Til þess að svo megi verða, þarf VG að koma sterkt út úr kosningunum, með góða málefnastöðu og sterka frambjóðendur.
Þeir framboðslistar sem þegar eru komnir fram lofa góðu og tillögur kjörstjórnarinnar hér á höfuðborgarsvæðinu eru gott framlag fyrir baráttuna sem framundan er.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
28.12.2006 | 14:00
Borgin vill ekki spilakassa í Mjóddina
Á fundi borgarráðs nú rétt fyrir jól tókst góð samstaða um að hvetja Háskóla Íslands til að hætta við áform um að koma upp spilakössum í Mjóddinni. Í samhljóða samþykkt borgarráðs segir:
Borgarráð tekur undir áhyggjur íbúa í Breiðholti og hverfisráðs Breiðholts sem hafa mótmælt rekstri svokallaðs spilasalar á vegum Háskóla Íslands í Mjódd. Ráðið telur slíka starfsemi ekki heppilega á þessum stað, hvorki fyrir verslunarmiðstöðina né hverfið í heild. Borgarráð samþykkir að skora á Háskóla Íslands að hverfa frá áformum um starfrækslu spilasalar í verslunarmiðstöðinni í Mjódd.
Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri grænna, hefur um langt skeið látið sig sérstaklega varða málefni þeirra sem verða spilafíkn að bráð. Hann vakti athygli á þessari samþykkt borgarinnar á heimasíðu sinni. Þar kemur líka fram í spurningu frá mér, að borgin hafi reynt að koma í veg fyrir starfrækslu spilakassa (á Skólavörðustíg) en verið gerð afturreka með þá ákvörðun af dómstólum. Nú er mikilvægt að tryggja nægilegan lagagrundvöll til að sveitarfélög geti, t.d. með skipulagsákvörðunum, komið í veg fyrir starfrækslu spilakassa þar sem það er talið óheppilegt.
Flest bendi til að við getum átt bandamann í Morgunblaðinu í þessari baráttu, ef marka má leiðara blaðsins í gær, 27. des.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.12.2006 | 22:48
Kominn í sveitina
Jólahátíðin er yfirstaðin og gekk allt venju samkvæmt. Við fjölskyldan ákváðum að njóta áramótanna í sveitasælunni í Borgarfirði og erum komin þangað. Og hér verðum við í Reykholtsdalnum fram yfir áramót.
Nú er komin ný og enn afkastameiri nettenging í sveitina, svo það er leikur einn að fylgjast með á netinu, senda og taka á móti tölvupósti og skrifa færslur á bloggsíðuna. Tæknin hefur sem sagt tekið öll völd, líka í sveitasælunni. Á móti kemur að það verður auðveldara að sinna ýmsum störfum í fjarvinnslu og börnin hafa gott af því að komast úr borgarysnum og í bústörfin eftir því sem nennan leyfir.
26.12.2006 | 09:53
12 ára afmæli
24.12.2006 | 23:09
Gleðilega jólahátíð!
Ég sendi öllum lesendum þessarar síðu, sem og landsmönnum öllum bestu óskir um gleðilega jólahátið.