Löngum borgarstjórnarfundi lokið

Borgarstjórn Reykjavíkur hefur setið á fundi síðan kl. 10 í morgun, þriðjudag.  Frumvarp meirihlutans að fjárhagsáætlun fyrir árið 2007 var samþykkt með 8 atkvæðum meirihlutans en 7 fulltrúar minnihlutans sátu hjá.

Eins og ég hef þegar greint frá hér fyrir neðan voru samþykktar tvær tillögur frá okkur í Vinstri grænum.  Tillaga okkar um aukið framlag til Strætó bs. til að koma á 10 mínútna tíðni á nýjan leik var hins vegar felld með 8 atkvæðum gegn 3.  Fjórir fulltrúar Samfylkingarinnar sátu hjá.  Af því tilefni lögðum við Vinstri græn fram svofellda bókun:

"Það er dapurlegt að meirihluti borgarstjórnar skuli ekki taka undir tillögu Vinstri grænna um að efla almenningssamgöngur í Reykjavík.  Afstaða Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokks kemur út af fyrir sig ekki á óvart en hjáseta Samfylkingarinnar veldur vonbrigðum."

Borgarstjórn styður tillögur Vinstri grænna

Umræða um fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2007 er nú á lokapsrettinum.  Borgarfulltrúar Vinstri grænna hafa lagt fram nokkrar mikilvægar breytingartillögur við frumvarp meirihlutans. 

Nú rétt í þessu kom fram í máli borgarstjóra, Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar, að borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hygðust styðja tvær breytingartillögur frá okkur Vinstri grænum, nefnilega tillögu um aukið framlag til framkvæmdasviðs til að bæta aðgengi fatlaðra að byggingum borgarinnar (5 mkr.) og tillögu um aukið framlag til menningar- og ferðamálasviðs til að vinna úttekt og rannsóknir á Reykjanesfólkvangi með það fyrir augum að byggja upp öflugt og aðlaðandi ferðamannasvæði þar.

Þessari afstöðu meirihlutans ber að fagna enda þótt hann hefði gjarnan mátt ganga lengra og styðja aðrar tillögur okkar, ekki síst um ráðningu jafnréttisráðgjafa til borgarinnar, en málflutningur fulltrúa meirihlutans ber vott um lítinn skilning á mannréttinda- og kvenfrelsismálum.  Kemur kannski ekki á óvart.


Meirihlutinn í Reykjavík er feyskinn og fúinn

Síðari umræða um fjárhagsáætlun Reykjavíkur stendur nú yfir í borgarstjórn.  Við þessa umræðu ræða borgarfulltrúar áætlunina í heild en einnig einstaka málaflokka, út frá þeim nefndum og ráðum sem þeir sitja í.  Við Svandís Svavarsdóttir borgarfulltúar Vinstri grænna, höfum þegar flutt okkar meginræður í umræðunni, en varaborgarfulltrúarnir Þorleifur Gunnlaugsson, Sóley Tómasdóttir og Hermann Valsson eru á mælendaskrá síðar í dag eða kvöld.

Ræða mín er komin á heimasíðuna, www.arnithor.is.


Femínisminn, Sóley og Björn Ingi

Sóley Tómasdóttir, varaborgarfulltrúi Vinstri grænna, fjallar um skrif Björns Inga Hrafnssonar, formanns borgarráðs um femínismann á bloggsíðu sinni.  Ég get tekið undir sjónarmið Sóleyjar um að engu er líkara en að Björn Ingi leitist við að vera fyndinn í umfjöllun sinni, en sú fyndni fer þó að mestu fyrir ofan garð og neðan, a.m.k. í augum okkar sem teljum okkur vera femínistar.

Tilefni skrifa Björns Inga eru þau að nú hafa nokkrir karlkyns frambjóðendur úr röðum Vinstri grænna ákveðið að afþakka boð um að verða fluttir upp um sæti á framboðslistum og tiltekið femínískar ástæður fyrir þeirri ákvörðun.  Nú kann vel að vera að það viðhorf sem endurspeglast í afstöðu þessara ágætu frambjóðenda Vinstri grænna, sé fullkomnlega framandi fyrir stjórnmálamönnum úr röðum annarra flokka.  En það er hins vegar staðföst sannfæring okkar í VG að það sé eðlilegt og sjálfsagt og í raun brýnt viðfangsefni, að jafna hlut kynja á Alþingi og í sveitarstjórnum.  Nú hallar mjög á konur í því sambandi eins og kunnugt er.  Ráðið við því er að sjálfsögðu að grípa til sérstakra ráðstafana til jafna hlut kynjanna og við Vinstri græn höfum farið þá leið að tefla fram svokölluðum fléttulistum, bæði til sveitarstjórna og Alþingis.  Í nokkrum tilvikum hefur niðurstaða forvala orðið sú að konur hafa raðað sér í framvarðarsveitina, sem er öndvert við það sem við sjáum hjá öðrum flokkum.  Og þegar staðan er sú að hlutur kvenna er miklu rýrari en hlutur karla á Alþingi er það algerlega í takt við okkar sjónarmið og stefnu að karlar afþakki boð um láta lyfta sér upp í sæti sem konur hafa unnið í forvali.

Þetta er gott dæmi um að menn í okkar röðum láta orð og athafnir fara saman.  Gæti verið ýmsum öðrum til eftirbreytni.

 


Vinstri græn mótmæla leyndinni um raforkuverðið

Á fundi stjórnar Landsvirkjunar í dag var lagður fram samningur Landsvirkjunar og Alcan um raforkuverð til álversins í Straumsvík.  Álfheiður Ingadóttir er fulltrúi VG í stjórn Landsvirkjunar og hún mótmælti því að raforkuverðið væri laumuspil.  Hún lagði til að eigendum Landsvirkjunar, nefnilega þjóðinni, yrði gerð grein fyrir því hvert orkuverðið væri en því var hafnað.  Þar með yfirgaf Álfheiður fundinn og lagði fram ítarleg mótmæli og bókun sem má lesa hér.

Sigur í olíusamráðsmáli

Olíufélögin hafa verið dæmd í Héraðsdómi Reykjavíkur til að greiða Reykjavíkurborg og Strætó bs. tæpar 80 milljónir króna auk dráttarvaxta fyrir ólögmætt verðsamráð.  Niðurstaðan er ákveðinn sigur fyrir borgina og Strætó að sjálfsögðu, en einnig fyrir allan almenning í landinu þar sem nú hefur fengist viðurkennt fyrir dómi að verðsamráðið hafi verið ólögmætt og haft í för með sér fjárhagslegt tjón fyrir þolendur samráðsins.  Því ber að fagna.

Þetta mál á rætur að rekja allt aftur til ársins 1996 þegar borgin efndi til útboðs vegna kaups á olíu.  Þá munu olíufélögin þrjú hafa haft samráð um að Skeljungur myndi bjóða og hljóta viðskiptin en skipta skyldu félögin hagnaði á milli sín.  Telur dómurinn sannað að þetta hafi verið gert og er augljóst brot á samkeppnislögum.

Olíuverðsamráðsmálið hefur verið fyrirferðamikið umfjöllunarefni í samfélaginu hin síðustu ár og haft margvíslegar afleiðingar í för með sér.  Ríkissaksóknari hefur nú ákveðið að höfða mál á hendur forstjórum olíufélaganna þriggja vegna brota sem þeir eru taldir bera ábyrgð á, fyrir sína hönd og annarra starfsmanna fyrirtækjanna, m.a. næstu stjórnenda.  Verður fróðlegt að fylgjast með hvernig því máli vindur fram.

Nú er ljóst að ýmsir aðrir aðilar munu skoða möguleika sína á að höfða mál á hendur olíufélögunum í kjölfar dómsins í máli borgarinnar og strætó.  Ríkið mun vera að skoða málið hjá sér, útgerðarfélög, Flugleiðir og fleiri.  Það mun væntanlega skýrast á alllra næstu vikum hvaða stefnu þetta stóra mál tekur.


Var Sundabraut vísvitandi frestað um 3 ár ?

Nú liggur fyrir að sérstakur samráðshópur um málefni Sundabrautar telur að jarðgangaleiðin sé vel fær og um margt ákjósanleg.  Hún hefur augljósa kosti í umhverfislegu tilliti en einnig frá skipulagslegu og samgöngulegu sjónarmiði.  Þetta er ánægjuleg niðurstaða en vekur einnig ýmsar spurningar.

Fyrst er rétt að undirstrika að við Vinstri græn lögðum áherslu á það í aðdragandi borgarstjórnarkosninganna í vor að Sundabraut yrði lögð í jarðgöngum frá Laugarnesi að Gufunesi og það er einmitt sú leið sem samráðshópurinn hefur haft til skoðunar og virðist nú vera í augsýn.  Óumdeilt er að jarðgöng eru frá umhverfislegu sjónarmiði miklu ákjósanlegri en t.d. svonefnd leið III sem gerir ráð fyrir miklum landfyllingum í Elliðavogi.  Þá er hún einnig mun fýsilegri fyrir íbúa bæði í Voga-, Sunda- og Heimahverfi og eins í Grafarvogi, heldur en aðrar lausnir sem hafa verið til skoðunar.  Það ber því sérstaklega að fagna því að jarðgangaleiðin sé nú komin upp á yfirborð á nýjan leik, en hún hafði aðeins verið skoðuð á fyrsta stigi málsins en komst t.d. aldrei í umhverfismat eins og aðrir kostir.

Það er hins vegar líka mikilvægt að rifja upp að árið 2003 bárust mér, en ég var þá formaður samgöngunefndar Reykjavíkur, vísbendingar um að unnt væri að fara jarðgangaleiðina og hún jafnvel verið mun hagstæðari en aðrar leiðir.  Átti ég m.a. fund um málið í maíbyrjun það ár.  Ég brást þá þannig við að kynna málið fyrir þáverandi borgarstjóra, Þórólfi Árnasyni, og óskuðum við í framhaldinu eftir fundi með samgönguyfirvöldum.  Þar óskuðum við eftir því að jarðgangaleiðin yrði skoðuð á nýjan leik og kannað hvort ekki væri unnt að fara þá leið, því hún gæti verið ákjósanlegri en hingað til hefði verið talið.  Er skemmst frá því að segja að samgönguyfirvöld höfnuðu þeirri ósk eftir að hafa ráðfært sig við ráðgjafa sem unnið höfðu að málinu.  Var því ekki mögulegt að halda áfram með málið á þeim grunni, því miður.

Nú er auðvitað hægt að spyrja sig að því, hvort um vísvitandi frestun á Sundabraut hafi verið að ræða, um allt að 3 ár?  Hvers vegna snúa samgönguyfirvöld við blaðinu örfáum mánuðum eftir að nýr meirihluti hefur tekið við völdum í Reykjavík?  Getur verið að samgönguyfirvöld láti afstöðu sína ráðast af því hverjir sitja í meirihluta hverju sinni í sveitarfélögunum?  Vonandi er það ekki svo, því það væru vitaskuld þvílík embættisafglöp er svo væri, að ekki yrði við unað.  Hins vegar má halda því fram að ef yfirvöld samgöngumála hefðu á þeim tíma tekið jákvætt í að skoða jarðgangalausnina á nýjan leik, eins og við Þórólfur fórum fram á, væri Sundabrautin komin mun lengra á rekspöl nú en raun ber vitni.  Og það er umhugsunarvert.


Meirihlutaskipti í Árborg

Nýr meirihluti Vinstri grænna, Samfylkingar og Framsóknarflokks er tekinn við í sveitarfélaginu Árborg.  Eins og kunnugt er hafði slitnað upp úr samstarfi Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks vegna ágreinings um skipulagsmál.

Stjórnartíð Sjálfstæðisflokksins í Árborg varð heldur endaslepp.  Oddviti flokksins fer fram með fádæma offorsi gegn nýja meirihlutanum og líkir honum við Frankenstein!  Satt að segja hélt ég að þeir sjálfstæðismenn í Árborg hefðu ekki efni á palladómum um aðra og er óþarfi að rifja upp atburðina í þeirra herbúðum í aðdraganda kosninganna í vor.  En það er eins og sagt er að þeir leita víða fanga í suðurkjördæminu, sjálfstæðismenn.

Nýi meirihlutinn leggur áherslu á skipulags- og umhverfismál, velferðar- og jafnréttismál og mennta- og menningarmál.  Allt málefni sem falla vel að áherslum Vinstri grænna.  Við erum að sjálfsögðu stolt af því að okkar fólk axlar ábyrgð á stjórn sveitarfélagsins og ánægð með hinn nýja meirihluta.  Oddviti Samfylkingarinnar, Ragnheiður Hergeirsdóttir, verður bæjarstjóri.  Ég hef átt þess kost að starfa með henni á vettvangi Sambands íslenskra sveitarfélaga og veit að hún er vel þeim vanda vaxin að vera bæjarstjóri.  Oddviti VG, Jón Hjartarson, verður forseti bæjarstjórnar og formaður bæjarráðs á móti Þorvaldi Guðmundssyni, oddvita Framsóknarflokks.  Allt er þetta traust fólk sem mun án nokkurs vafa standa sig vel í ábyrgðarmiklum störfum í forystu fyrir sveitarfélag í vexti og örri þróun.  Ég óska þeim til hamingju.


Þakka góðan stuðning

Forvali Vinstri grænna á höfuðborgarsvæðinu er lokið.  Niðurstaðan er glæsilegur hópur fólks með mikla og breiða reynslu sem er líklegur til að ná góðum árangri í kosningunum í vor.  Ég vil nota þetta tækifæri og að þakka öllum þeim sem lögðu mér lið í forvalinu og tryggðu kosningu mína í 2. sæti á einum listanna þriggja.  Sömuleiðis óska ég meðframbjóðendum mínum til hamingju með árangurinn og okkur öllum með frábæra útkomu í fyrirmyndarforvali.


Glæsilegt forval hjá Vinstri grænum

Þá er forvalinu hjá okkur Vinstri grænum á höfuðborgarsvæðinu lokið. Þátttakan var afar góð og fjölmargir nýir félagar gengu til liðs við flokkinn.  Úrslitin voru mjög í takt við það sem flestir gerðu ráð fyrir.  Ögmundur Jónasson fær "formannskosningu" í efsta sæti á einhverjum listanna þriggja og varaformaður flokksins, Katrín Jakobsdóttir, kemur afar sterk inn í forystusveitina og mun leiða einn listanna.  Kolbrún Halldórsdóttir þingkona fær einnig prýðilega kosningu í eitt efstu sætanna.  Það verða því þau þrjú, Ögmundur, Katrín og Kolbrún sem munu skipa efstu sætin í Reykjavík suður, norður og Suðvesturkjöræmi.

Glæsileg kosning Guðfríðar Lilju í eitt af sætum nr. 2 vekur vitaskuld athygli.  Hún kemur fersk til starfa í flokknum en hefur getið sér góðs orðs af störfum sínum á öðrum vettvangi og breikkar forystusveit flokksins heilmikið.  Álfheiður Ingadóttir hefur verið ötull varaþingmaður og starfað sömuleiðis heilmikið að borgarmálum og fær góða kosningu.  Ég næ einnig því sæti sem ég stefndi að í forvalinu og taldi raunhæft og er afar þakklátur öllum þeim sem lögðu mér lið.

Í sætum þrjú eru Gestur Svavarsson, Auður Lilja Erlingsdóttir og Paul Nikolov.  Allt ungt fólk sem hefur starfað innan flokksins um skemmri eða lengri tíma og hefur góða skírskotun.  Gestur er einn af forystumönnum okkar í Hafnarfirði, Auður Lilja er formaður ungra vinstri grænna og Paul kom til starfa í flokknum í haust en hann er meðal helstu talsmanna innflytjenda.

Sæti fjögur skipa þau Mireya Samper, Steinunn Þóra Árnadóttir og Guðmundur Magnússon.  Mireya er formaður VG félagsins í Kópavogi en Steinunn Þóra og Guðmundur hafa bæði starfað á vettvangi flokksing og einnig innan Öryrkjabandalagsins.

Þessi tólf manna sveit mun skipa fjögur efstu sætin í kjördæmunum þremur í kosningunum í vor.  Þetta er afar öflugur hópur fólks með mismunandi reynslu, þekkingu og skírskotun og ég er sannfærður um að félagarnir í Vinstri grænum hafa kosið sterka sigursveit.  Saman munum við vinna sigur í vor.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband