2.12.2006 | 08:28
Tökum þátt í forvali
Forval Vinstri grænna á höfuðborgarsvæðinu fer fram í dag. Þá veljum við þá sveit sem mun leiða framboð flokksins í þremur kjördæmum, í Suðvesturkjördæmi og Reykjavíkurkjördæmunum tveimur. Þetta er áreiðanlega í fyrsta skipti sem valið er sameiginlega á framboðslista fyrir fleiri en eitt kjördæmi utan Reykjavíkur. Hefur þessi nýbreytni vakið athygli langt út fyrir raðir flokksmanna VG og mælst vel fyrir. Líklegt er að aðrir flokkar muni í kjölfarið feta í fótspor okkar vinstri grænna, gefist þessi leið vel.
Frambjóðendur í forvalinu eru 30 talsins. Öflug sveit kvenna og karla með mismunandi bakgrunn og reynslu. Ég gef kost á mér í þessu forvali og bið um stuðning félagsmanna í 1. -2. sæti á einhverjum hinna þriggja framboðslista en kosið er um þrjá einstaklinga í hvert sæti 1. 4., alls 12 manns.
Ég tel meðal brýnustu verkefna stjórnmála næstu ára vera m.a. að byggja upp atvinnulíf sem tekur mið af hagsmunum komandi kynslóða með umhverfis- og náttúruvernd að leiðarljósi, að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, efla almenningssamgöngur, treysta stoðir allra skólastiga og tryggja jafnrétti til náms og stórefla rannsóknir og vísindi. Þá er nauðsynlegt að útrýma launamun kynjanna og ráða niðurlögum kynbundins ofbeldis, tryggja jafnt aðgengi allra að samfélaginu og standa vörð um eitt öflugt heilbrigðis- og velferðarkerfi fyrir alla landsmenn svo fátt eitt sé nefnt.
Við Vinstri græn höfum sterka málefnastöðu og sjónarmið okkar eiga vaxandi fylgi að fagna meðal landsmanna. Þjóðin hefur fengið nóg af eyðimerkurgöngu taumlausrar stóriðjustefnu og undirlægjuháttar gagnvart erlendu herveldi sem núverandi ríkisstjórn hefur leitt. Sömuleiðis vaxandi misskiptingu í samfélaginu og niðurskurði í velferðar- og menntamálum.
Það er rík þörf að snúa við stjórnarstefnunni og það verður einungis gert með því að núverandi ríkisstjórn verði felld og ný stjórn með sterki aðkomu Vinstri grænna taki við. Í forvalinu munum við velja okkur sterka og samhenta sigursveit sem getur einmitt tekist á við núverandi ríkisstjórnarflokka og snúið við blaðinu með hagsmuni alls almennings að leiðarljósi. Með samstilltu átaki, góðum málstað og öflugri sveit frambjóðenda mun okkur takast það.
(Greinin birtist í Fréttablaðinu 2. desember 2006)
1.12.2006 | 22:57
Nýr meirihluti í Árborg
Meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í bæjarstjórn Árborgar er fallinn. Talsvert gekk raunar á í kjölfar síðustu bæjarstjórnarkosninga þegar til þessa meirihlutasamstarfs var stofnað og mörgum í fersku minni að oddviti Sjálfstæðismanna varð að taka sér ársleyfi frá störfum.
Nú er þessi meirihluti allur, aðallega vegna yfirgangs Sjálfstæðisflokks að því er sagt er. Viðræður eru þegar hafnar milli Samfylkingar, Framsóknarflokks og Vinstri grænna um myndun nýs meirihluta. Eru miklar vonir bundnar við að þessum flokkum takist að mynda nýjan og kröfugan meirihluta í Árborg og eru raunar allar forsendur til þess að það megi takast. Við Vinstri græn náðum prýðilegum árangri í bæjarstjórnarkosningunum í Árborg sl. vor og okkar fólk í Árborg er að sjálfsögðu reiðubúið að axla ábyrgð á stjórn bæjarins og vonandi getur nýr meirihluti tekið við fljótlega.
1.12.2006 | 12:13
Fullveldisdagsins minnst í Kína
1.12.2006 | 08:43
Margrét rekin
Þingflokkur hinna Frjálslyndu hefur rekið Margréti Sverrisdóttur úr starfi framkvæmdastjóra þingflokksins. Hin opinbera skýring formannsins er að það samræmist ekki starfi hennar að fara í framboð í næstu þing-kosningum. Það átti hins vegar ekki við í síðustu borgarstjórnar-kosningum og heldur ekki í síðustu þingkosningum. Augljós tylliástæða.
Miklu líklegra er, eins og Margrét telur sjálf, að andstaða hennar við kynþáttafordómastefnu Jóns Magnússonar og fleiri sem hafa verið að berja á dyr flokksins. Formaður þingflokksins, Magnús Þór Hafsteinsson, sem jafnframt er varaformaður flokksins, segir einmitt að umræðan um málefni innflytjenda eigi áreiðanlega sinn þátt í fylgisaukningu flokksins í nýjustu Gallup könnun. Magnús hefur verið í hópi þeirra sem helst hafa haft uppi kynþáttafordóma í forystu flokksins. Margrét hefur mjög mótmælt þessum viðhorfum og er nú látin gjalda þess. Í hinum Frjálslynda flokki!!
Margrét Sverrisdóttir er og hefur verið burðarásinn í starfi flokksins. Hún hefur borið uppi starf þingflokksins, en þessi 3ja karla þingflokkur er vita handalaus án Margrétar. Hún er líka sú sem helst hefur höfðað til frjálslyndra kjósenda. Ekki er óliklegt að brottrekstur hennar sé upphafið á feigðarför sem flokkurinn er lagður af stað í.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.11.2006 | 14:28
Vinstri græn kæra ákvörðun borgarstjórnar að selja Landsvirkjun
Eins og segir hér að neðan þá kynntum við Svandís Svavarsdóttir, borgarfulltrúar Vinstri grænna, að við hefðum kært til félagsmálaráðherra ákvörðun borgarstjórnar að selja hlut sinn í Landsvirkjun. Kæruna má lesa hér.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 1.12.2006 kl. 08:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.11.2006 | 10:37
Vinstri græn með blaðamannafund í dag
29.11.2006 | 19:13
Samband sveitarfélaga móti stefnu í innflytjendamálum
Öllum er ljóst að íslenskt samfélag hefur á undanförnum misserum og árum tekið miklum breytingum. Meðal annars hefur fjölbreytnin í samfélaginu aukist til mikilla muna með fjölda fólks sem hingað hefur flutt frá öðrum löndum. Fjölmenningin er komin til að vera og það er fagnaðarefni. Í mörgum sveitarfélögum er fjöldi fólks af erlendu bergi umtalsverður og því mikilvægt að þau hafi skýra stefnu og sýn hvað þetta varðar.
Í umræðum á vettvangi samstarfs sveitarfélaganna hefur verið rætt um málefni innflytjenda. Á síðasta fundi stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga lagði ég til að stjórnin móti sér stefnu í innflytjendamálum og var tekið vel í tillöguna. Verður vonandi tekin um það ákvörðun á næsta fundi stjórnarinnar.
Talsvert hefur verið fjallað um málefni innflytjenda að undanförnu. Hygg ég að flestum sé nú orðin ljós þörfin á því að við tökum málefni þeirra föstum tökum, mótum skýra framtíðarsýn um það hvernig við tökum á móti fólki, hvernig það getur sem best aðlagast nýjum aðstæðum og tekið virkan þátt í samfélaginu. Borgarstjórnarflokkar Samfylkingar og Vinstri grænna hafa nú þegar kynnt tillögu sína að framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda. Framkvæmdaáætlunin byggist á mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar en endurspeglar jafnframt að samþætting, farsæl aðlögun og barátta gegn fordómum og aðgreiningu er fjölþætt og mikilvægt samfélagslegt verkefni sem vinnst ekki án athygli og atbeina stjórnvalda.
Ítarlega er fjallað um tillögu Vinstri grænna og Samfylkingar í borgarstjórn í Morgunblaðinu 22. nóvember sl. og má nálgast hana hér eða hér.
Fleiri sveitarfélög hafa mikla reynslu af starfi með innflytjendum og er sjálfsagt að Samband íslenskra sveitarfélaga leiti í smiðju til þeirra en umfram allt er þýðingarmikið að samstarfsvettvangur sveitarfélaganna á landsvísu móti sínar áherslur og markmið, m.a. að því er lýtur að samskiptum ríkis og sveitarfélaga í þessu efni.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.11.2006 | 11:26
Eiga verktakar og lóðabraskarar að ráða skipulagi borgarinnar?
Á fundi framkvæmdaráðs Reykjavíkur í gær, var lögð fram til kynningar og umsagnar tillaga að mikilli uppbyggingu á svokölluðum Kassagerðarreit, við hafnarsvæðið norðan Sæbrautar. Tillagan gerir ráð fyrir sex 10-14 hæða háum skrifstofu- og þjónustubyggingum og fjórum 17 hæða íbúðarhúsum með um 260 íbúðum. Virðist eins og verktakar og lóðarhafar á þessum reit kunni sér engin takmörk og vilji láta eigin fjárhagslegu hagsmuni ráða skipulagi borgarinnar en ekki heildarhagsmuni borgarbúa. Því miður bendir margt til þess að borgarstjórnarmeirihlutinn láti hagsmuni fjármagnsins sitja í fyrirrúmi en ekki almannahagsmuni.
Það eru ýmsar ástæður fyrir því að þessi skipulagstillaga er ekki góð.
- Í fyrsta lagi gerir hún ráð fyrir að íbúðabyggð teygi sig í fyrsta skipti norður fyrir Sæbraut. Sú staða verður þá uppi að Sæbrautin sker í sundur íbúðabyggðina í Laugarneshverfi og nýja byggð norðan Sæbrautar. Sæbrautin er óumdeilanlega ein mesta umferðaræð borgarinnar og ekki skynsamlegt að skipuleggja íbúðabyggð sitt hvoru megin við hana enda veldur hún nú þegar margvíslegu ónæði.
- Í öðru lagi mun væntanleg Sundabraut enn auka umferðarmagn á Sæbraut og þar með álagið og ónæðið í næsta nágrenni.
- Í þriðja lagi er mjög erfitt að koma fyrir grunnþjónustu norðan Sæbrautar, eins og grunn- og leikskólum. Það þýðir að börn á þessu svæði yrðu að sækja skóla suður yfir Sæbraut sem eins og áður segir er ein umferðarþyngsta gata borgarinnar. Göngubrýr eða undirgöng myndu á engan hátt leysa þann vanda sem því er samfara að senda mörg ung skólabörn yfir þungar umferðargötur í skóla hvern virkan dag skólaársins.
- Í fjórða lagi er Sundahöfnin (enn) mesta inn- og útflutningshöfn landsins með umtalsverðum akstri þungaflutningabíla til og frá svæðinu. Hætt er við að slík starfsemi og íbúðabyggð fari ekki vel saman og fljótlega myndu koma upp árekstrar milli þessara hagsmuna. Hefur jafnvel heyrst í fulltrúum íbúa að þeir muni losna við starfsemi eins og t.d. Hringrás af svæðinu, en mér vitanlega er engin slík tillaga uppi. Engin ástæða er fyrir borgaryfirvöld að efna til slíkra árekstra. Svæðið er hafnarsvæði en þar er óheimilt skv. skipulagsreglugerð að skipuleggja íbúðabyggð. Íbúðabyggð á þessu svæði myndi aldrei geta notið allra þeirra gæða og þeirrar þjónustu sem við viljum bjóða íbúum borgarinnar upp á.
- Í fimmta lagi má minna á að nú er verið að endurskipuleggja Gömlu höfnina, byggja þar tónlistar- og ráðstefnuhús, slippasvæðið er í endurgerð og starfshópur er að fjalla um framtíð Örfiriseyjar. Að mínum dómi er ábyrgðarlaust með öllu að setja öll hafnarsvæði borgarinnar í uppnám á sama tíma. Ekki má gleyma því að Reykajvíkurhöfn er megin inn- og útflutningshöfn landsins og skapar borgarsamfélaginu umtalsverðar tekjur og skapar borgarbúum ennfremur fjölmörg störf.
Á hinn bóginn er sjálfsagt að taka Kassagerðarreitinn til endurskipulags þar sem hluti starfseminnar þar er úr sér genginn. Kemur þá vel til álita að skipuleggja þar ný atvinnu- og þjónustusvæði og aðra starfsemi sem hentar svæðinu. Við fulltrúar Vinstri grænna og Samfylkingar erum samstíga í málinu og lögðum fram á fundinum eftirfarandi bókun:
"Fulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna telja hugmyndir um uppbyggingu á svokölluðum Kassagerðarreit alltof umfangsmiklar. Minnt er á, að um er að ræða hafnar- og athafnasvæði í skipulagi þar sem íbúðabyggð er óheimil. Skipulag íbúðabyggðar norðan Sæbrautar er óheppileg m.a. með tilliti til skólamála en einnig mun mikið nábýli íbúðabyggðar og hafnarstarfsemi valda árekstrum. Við teljum atvinnuuppbyggingu á svæðinu með nýtingarhlutfall nálægt 1,35 jákvætt, en leggjumst gegn skipulagi íbúðabyggðar á svæðinu."
Þetta mál verður vafalítið áfram til umfjöllunar hjá borginni, m.a. í skipulagsráði og svo hjá höfninni.
Við leggjum áherslu á að skipulag borgarinnar taki mið af heildarhagsmuni borgarinnar en ekki fjárhagslegum hagsmunum verktaka eða lóðabraskara og munum standa vörð um hagsmuni almennings.Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
27.11.2006 | 14:35
Góður stuðningur frá Grími
27.11.2006 | 14:25
Vinstri græn spyrja um Tónlistarþróunarmiðstöðina
Að undanförnu hefur okkur borgarfulltrúum borist talsverður fjöldi póstsendinga um málefni Tónlistarþróunarmiðstöðvarinnar. Af því tilefni lagði ég fram fyrirspurn á fundi í menningar- og ferðamálaráði Reykjavíkur í dag, mánudag 27. nóv. Fyrirspurnin er þannig:
"Óskað er eftir greinargerð um stöðu málefna Tónlistarþróunarmiðstöðvar, en fram hefur komið að undanförnu að útlit er fyrir að miðstöðin muni hætta starfsemi í byrjun næsta árs vegna fjárskorts. Farið er fram á að í greinargerðinni komi fram hvaða starfsemi fer fram í miðstöðinni og hversu margir nýta sér hana, hvaða stuðning miðstöðin hefur fengið frá Reykjavíkurborg undanfarin ár, m.a. í samanburði við aðra ámóta starfsemi eins og t.d. sjónlistarhús, hvaða aðrir aðilar hafa stutt við starfsemina og hvaða leiðir eru færar til að tryggja áframhaldandi starfsemi Tónlistarþróunarmiðstöðvar í Reykjavík."
Afgreiðslu fyrirspurnarinnar var frestað en þess er að vænta að á næsta fundi liggi fyrir frekari upplýsingar um málið. Hugmyndin að baki Tónlistarþróunarmiðstöðvarinnar er að búa til mannsæmandi aðstöðu hér á Íslandi fyrir þennan helsta vaxtarbrodd íslenskrar sköpunar, bæði fyrir faglistamenn og upprennandi áhugafólk. Nánar má kynnast tónlistarþróunarmiðstöðinni hér.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)