Framsókn á undanhaldi

Hinn nýi formaður Framsóknarflokksins reiddi hátt til höggs á miðstjórnarfundi flokksins í gær.  Fyrir högginu urðu Halldór Ásgrímsson og Davíð Oddsson.  Og Valgerður Sverrisdóttir og Geir H. Haarde.  Nú segir hann að innrásin í Írak og allt það ferli hafi verið mistök. Þannig tekur hann undir með Vinstri grænum og hinum stjórnarandstöðuflokkunum sem gagnrýndu ákvörðun þáverandi forsætis- og utanríkisráðherra harðlega.

Menn hljóta að velta því fyrir sér hvað vakir fyrir formanni Framsóknarflokksins. Sumum finnst þetta djarft útspil hjá honum, öðrum þykir þetta aumkunarvert. Getur verið að formaðurinn sé að opna dyr til vinstri? Getur verið að skilaboðin eigi að vera að það sé ekki sjálfsagt að Framsóknarflokkurinn vinni með Sjálfstæðisflokknum? Eða er þetta bara örvæntingarfull tilraun til að ná aftur til flokksins því fylgi sem hefur yfirgefið hann í stríðum straumum að undanförnu? Það er að mínu mati líklegasta skýringin. Hið sama á við um yfirlýsingu hans skömmu eftir að hann tók við formennsku og ráðherradómi, að stóriðjustefnan væri ekki lengur til!

Framsóknarflokkurinn hefur áður leikið þann leik að breiða yfir gerðir sínar í ríkisstjórn þegar kemur að kosningum. Draga upp allt aðra mynd heldur en þá sem blasað hefur við kjósendum, og freista þess að fríska upp á andlitið. Koma með digurbarkalegar yfirlýsingar sem vísa til vinstri en hlaupa svo strax til baka að kosningum loknum í fangið hjá íhaldinu og halda áfram fyrri iðju við stjórnarstörfin.

Hernaðurinn gegn landinu sem felst í stóriðjustefnunni, hernaðurinn gegn almennum borgurum sem felst í stuðningnum við stríðið í Írak, allt er þetta á sínum stað í afrekaskrá Framsóknarflokksins. Hið sama á við um misskiptinguna í samfélaginu og svikin við aldraða og öryrkja. Við hljótum að spyrja okkur hversu trúverðugur þessi málflutningur er. Kjósendur eru ekki svo gleymnir að hægt sé að strika yfir fortíðina með yfirlýsingum af því tagi sem formaður Framsóknarflokksins sendi frá sér í gær. Stefnu og störfum ríkisstjórnarinnar, þ.m.t. Framsóknarflokksins, verður haldið til haga í komandi kosningabaráttu.  Framsóknarflokkurinn verður að leggja það allt í dóm kjósenda þótt hann sé nú á harðahlaupum undan ábyrgðinni.


Vinstri græn vilja efla almenningssamgöngur

Nú á dögunum sat Álfheiður Ingadóttir, varaþingmaður, á þingi fyrir Ögmund Jónasson.  Þar lagði hún fram frumvarp til laga um breytingu á lögum um virðisaukaskatt. Frumvarpinu er ætlað að draga úr því misrétti að þeir sem reka almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu þurfa í dag að greiða að fullu virðisaukaskatt af nýjum bílum meðan virðisaukaskattur er endurgreiddur að 2/3 hlutum á aðrar hópferðabifreiðar í landinu.  Með þessar breytingu væri ríkið að leggja örlítið á sig til að efla almenningssamgöngur hér á höfuðborgarsvæðinu.  Mjög gott mál hjá Álfheiði og hinum þingmönnum Vinstri grænna.

Vinstri græn frambjóðendakynning

Á morgun, laugardag 25. nóv. munu frambjóðendur í forvali Vinstri grænna á höfuðborgarsvæðinu, kynna sig í Vesturgötu 7.  Frambjóðendur verða á staðnum amk. milli kl. 13 og 16.  Boðið verður upp á kaffi og veitingar sem frambjóðendur sjá um að baka og má búast við miklum kræsingum. 

Allir áhugasamir eru hvattir til að mæta og svo má minna á að síðasti frestur til að skrá sig í flokkinn er til kl. 17 á morgun, laugardag.  Þá verður kjörskránni lokað en forvalið miðast við flokksbundna félaga.  Fjölmennum í Vesturgötuna og tökum þátt í stemningunni fyrir forvalið.


Hver á sér fegra föðurland?

„Stóriðjustefnan er ekki til,“ sagði formaður Framsóknarflokksins skömmu eftir að hann tók við starfi iðnaðarráðherra, a.m.k. ekki af hálfu stjórnvalda. Þessi yfirlýsing kom flestum sem fylgst hafa með íslenskum stjórnmálum undanfarið spánskt fyrir sjónir. Jafnvel innan ríkisstjórnarinnar sperrti fólk eyrun og var ekki visst um að hafa heyrt rétt. Sumir veltu því fyrir sér til hvers þeir hefðu vaðið eld og brennistein fyrir stóriðjustefnuna sem einkum var borin uppi af forystu Framsóknarflokksins, ef nýkjörinn formaður þess flokks gat síðan strikað yfir hana og látið eins og hún væri ekki lengur til, án þess að nokkur hefði tekið eftir því að hún væri dáin drottni sínum. Enda er hún það ekki, hún lifir enn góðu lífi, þótt einhverjir kjósi nú að geyma hana í hýði sínu fram yfir alþingiskosningar.

Það er engu líkara en nú hafi ýmsir stjórnmálaflokkar áttað sig á því að það er að verða viðhorfsbreyting meðal þjóðarinnar um umhverfismálin og atvinnustefnu framtíðarinnar. Og stóriðjustefnan er ekki líkleg til fylgissöfnunar en það er einmitt það sem stjórnmálaflokkarnir aðhafast helst á kosningavetri, að safna sér fylgi. Og þá má tilgangurinn helga meðalið.
Gamla kosningatrixið er að gera út á skammtímaminni kjósenda, lofa því sem talið er heppilegast og gefa sér síðan að það komi ekki að skuldadögum. Stundum virkar þetta, stundum ekki. Mín reynsla er að sannleikurinn sé sagna bestur, frambjóðendur og flokkar eigi að segja hreinskilnislega frá því sem þeir vilja gera og telja best, jafnvel þótt það kunni að fæla frá
einhverja kjósendur, þegar upp er staðið kann fólk þó alltaf best við hreinskilni og trúverðugleika.

„Hver á sér fegra föðurland?“ spurði skáldkonan Hulda í ættjarðarljóði frá Lýðveldishátíðinni 1944. Og öll vitum við svarið, ekkert jafnast á við Frónið okkar, öllum þykir okkur vænt um það, við virðum það og dáum. En vandinn er sá að stundum rekast hagsmunir á, stundum er þess krafist að landið færi fórnir til þess að unnt sé að skapa skammgóðan auð sem svo alltof oft nýtist fáum meðan fórnirnar eru á kostnað fjöldans og kynslóða framtíðarinnar. Þannig tryggjum við ekki hagsmuni komandi kynslóða, það er ekki sjálfbær nýting náttúruauðlinda. Og er þá trúverðugt að tala um virðingu fyrir landinu, fegurð þess og náttúruverðmætum? Svari hver fyrir
sig.

Hvernig er hægt að fara um landið og boða stefnubreytingu í umhverfismálum með áherslu á hið fagra Frón, en styðja um leið, og hafa jafnvel frumkvæði að stóriðjuuppbyggingu með tilheyrandi umhverfisfórnum vítt og breitt um landið? Virkjun jökulsánna í Skagafirði er nú komin á dagskrá, álverskröfur eru uppi á Húsavík, í Hafnarfirði og Helguvík. Er trúverðugt að boða á sama tíma að umhverfið eigi nú að hafa forgang en styðja um leið í verki þær umhverfisfórnir sem t.d. ofannefnd álver myndu hafa í för með sér? Að mínu mati þurfa menn að gera betur til að meint stefnubreyting verði trúverðug.

Það er jákvætt þó, að stjórnmálaflokkar ræði umhverfismálin af fullri alvöru, þótt augljóslega nálgist flokkarnir málin hver á sínum forsendum. Á forsendum markaðshyggjunnar, hinnar íslensku „þjóðhyggju” eða jafnaðarstefnunnar. Vinstrihreyfingin – grænt framboð sker sig þó úr vegna þess að sjálfbær samfélagsþróun er einn af hornsteinum stefnu flokksins og nær til allra annarra þátta stefnunnar. Við viljum nýta hugmyndagrundvöll sjálfbærrar þróunar á alla aðra málaflokka en ekki öfugt. Í þeirri nálgun liggur mikil sérstaða, og hún er í raun hin eina sem stenst til framtíðar litið. En jafnvel þótt aðrir flokkar nálgist umhverfismálin með öðrum hætti
er umræðan til marks um að öllum flokkum er að verða alvaran ljós: við getum ekki haldið áfram á sömu braut og hingað til.

Á næsta kjörtímabili verður að verða stefnubreyting í umhverfismálum. Ég tel að meðal meginverkefna stjórnvalda á næstunni verði:
– að tryggja þróun íslensks atvinnulífs er taki mið af hagsmunum komandi
kynslóða og þar sem umhyggja fyrir umhverfi og náttúruvernd er leiðarljós en
ekki afgangsstærð
– að móta langtímastefnu í orkunýtingu sem tekur ekki síst mið af þeim
verðmætum sem felast í verndun náttúru og umhverfis
– að taka forystu í þróun nýrra, umhverfisvænna og endurnýjanlegra orkugjafa
– að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, m.a. með stórefldum
almenningssamgöngum.

Eigi að tryggja stefnubreytingu sem m.a. tekur mið af þessum verkefnum, verður Vinstrihreyfingin – grænt framboð að gegna lykilhlutverki í næstu landsstjórn. Til þess eru allir möguleikar og víst er að við vinstrigræn erum reiðubúin að axla þá ábyrgð sem því fylgir. 

(Þessi grein birtist í Morgunblaðinu 22. nóvember sl.)


Stefnumálin í forvalinu

Ég tel mikilvægustu verkefni íslenskra stjórnmála næstu árin vera:

Umhverfi og atvinna

• Íslenskt atvinnulíf taki mið af hagsmunum komandi kynslóða og umhverfi og náttúruvernd verði alltaf leiðarljós.

• Stefna í orkunýtingu taki mið af þeim verðmætum sem felast í verndun náttúru og umhverfis.

• Forysta í þróun nýrra, umhverfisvænna og endurnýjanlegra orkugjafa.

• Draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, m.a.með stórefldum almenningssamgöngum.

Menntun og menning

• Treysta stoðir allra skólastiga og tryggja öllum jafnan aðgang að menntun.

• Stórefla rannsóknir, vísindi og þróun á háskólastigi.

• Styðja við listsköpun og menningu og auka hlut þeirra í atvinnulífi landsmanna.

Jafnrétti og velferð

• Standa vörð um eitt öflugt heilbrigðiskerfi fyrir alla landsmenn.

• Útrýma launamun kynjanna og ráða niðurlögum kynbundins ofbeldis.

• Fjölga tækifærum fatlaðra, innflytjenda o.fl. og tryggja jafnt aðgengi þeirra að samfélaginu öllu.

• Treysta lýðræðislegt og efnahagslegt sjálfstæði sveitarfélaga og færa þjónustu og verkefni nær íbúum.

Ísland og alþjóðasamfélagið

• Taka upp sjálfstæða og óháða utanríkisstefnu sem tekur mið af sjálfbærri þróun, félagslegu og efnahagslegu réttlæti.

• Leggja lið baráttu kúgaðra og undirokaðra þjóða hvar sem er og stuðla að uppbyggingu lýðræðislegra samfélaga.

• Beina sjónum að vaxandi misskiptingu milli þjóða heims og leggja okkar lóð á vogarskálina í baráttunni gegn fátækt, kúgun, sjúkdómum og hungri.

 


Íhald og Framsókn samþykkja sölu Landsvirkjunar í borgarstjórn

Á fundi borgarstjórnar nú í kvöld, var samþykktur samningur sem borgarstjóri skrifaði undir 1. nóv. sl. um kaup ríkisins á hlut Reykjavíkur í Landsvirkjun.  Ítarleg umræða fór fram um málið og tóku fulltrúar minnihlutans virkan þátt í umræðunni en af hálfu meirihlutans töluðu einungis borgarstjóri og Óskar Bergsson varaborgarfulltrúi Framsóknarflokksins.  Samningurinn var samþykktur með 8 atkvæðum íhalds og Framsóknar gegn 7 atkvæðum Vinstri grænna, Samfylkingar og Frjálslyndra. 

Við afgreiðslu málsins lögðum við fulltrúar Vinstri grænna fram eftirfarandi bókun:

Borgarfulltrúar Vinstri grænna mótmæla harðlega sölu á hlut borgarbúa í Landsvirkjun. Með samþykkt borgarstjórnar í dag er stigið skrefi nær þeim markmiðum stjórnvalda, með Sjálfstæðisflokkinn í fararbroddi, að einkavæða Landsvirkjun. Sameiginlegt eignarhald ríkis og tveggja sveitarfélaga í Landsvirkjun hefur einmitt tryggt að þessi mikilvæga starfsemi væri í höndum samfélagsins. Nú skal hins vegar haldið inn á braut einkavæðingar, í samræmi við stefnu stjórnarflokkanna sem er að mola niður samfélagsþjónustuna og koma henni í síauknu mæli í hendur einkaaðilum. Salan á hlut borgarinnar og Akureyrar í Landsvirkjun er liður í þessari yfirlýstu einkavæðingarstefnu Sjálfstæðisflokksins sem samstarfsflokkar hans í ríkisstjórn, borgarstjórn og bæjarstjórn Akureyrar gangast nú undir. Vinstri græn mótmæla einnig dæmafáum vinnubrögðum meirihlutaflokkanna í borgarstjórn sem héldu öllum efnisatriðum samningagerðarinnar leyndri uns skrifað hafði verið undir samkomulagið. Í júlí sl. hét borgarstjóri því í borgarráði að gera ráðinu grein fyrir framvindu málsins en hefur síðan ekki vikið að því einu orði fyrr en samingur hefur verið undirritaður þar sem búið er að afsala Reykvíkingum dýrmætri sameign án þess að um það hafi verið fjallað af kjörnum fulltrúum og sjónarmið reifuð fyrr en eftir á. Hér gerir meirihlutinn sig sekan um yfirgang og ólýðræðisleg vinnubrögð sem því miður eru ekki einsdæmi á stuttum valdatíma nýrrar borgarstjórnar. Með þessum gjörningi er vegið að hagsmunum Reykvíkinga, bæði í bráð og lengd og ákvörðun um sölu á hlut borgarinnar í Landsvirkjun við þessar aðstæður leiðir til þess að raforkureikningar borgarbúa og landsmanna allra mun hækka stórlega í kjölfarið. Fulltrúar Vinstri grænna leggjast hér eftir sem hingað til gegn þeim einkavæðingarleiðangri sem staðið hefur yfir undir stjórn Sjálfstæðisflokks á annan áratug með stuðningi flokka sem setja hagsmuni valds og áhrifa í öndvegi á kostnað almannahagsmuna.

 

 


Katrín komin með heimasíðu

Katrín Jakobsdóttir, varaformaður Vinstri grænna, og þátttakandi í forvali flokksins á höfuðborgarsvæðinu, er komin með heimasíðu.  Hægt er að skoða hana hér.

Hvar er jafnréttið í íþróttamálunum?

Nýlega bárust fréttir af því hvernig stelpum og strákum er mismunað innan íþróttahreyfingarinnar með tilliti til hvers kyns greiðslna og styrkja.  Viðbárurnar eru þær helstar að mun meiri tekjur komi inn vegna karlaflokka en kvennaflokka og því sé þessi mismunur óhjákvæmilegur, ef skilja mátti forsvarsmenn Knattspyrnusambandsins.  Þetta ástand er að mínu mati alls ekki viðunandi.  Knattspyrnuhreyfingin verður að taka á málinu og hið sama á við um aðrar greinar íþróttanna, því mér segir svo hugur að það sé víðar pottur brotinn í þessu efni en í fótboltanum.

Grein eftir mig um þetta efni birtist í Morgunblaðinu sl. fimmtudag en hana má líka lesa hér


Skiptir kyn máli í stjórnmálum?

Umræðan um prófkjör og forval hjá stjórnmálaflokkunum er í algleymingu enda stendur sú vertíð hvað hæst um þessar mundir.  Æ ofan í æ koma upp vangaveltur um kynjahlutföll og hvort unnt sé að ná jafnrétti í þessu sambandi.  Stundum er spurt hvort kyn skipti máli og oftar en ekki er þeirri spurningu svarað með því að segja að það eitt skipti máli að velja "hæfasta" fólkið.

Í mínum huga skiptir kyn að sjálfsögðu máli í stjórnmálum eins og í öðrum þáttum þjóðlífsins.  Það þýðir hins vegar ekki að það eitt skipti máli.  En stjórnmálin eiga að endurspegla samfélagið sjálft og ef við viljum að t.d. þing og sveitarstjórnir séu speglar samtímans þá þurfa kynjahlutföllin að vera jöfn.  Því miður erum við enn langt frá því marki hér á landi.

Eru þá kynjakvótar rétt leið til að ná árangri?  Mitt svar við því er: já.  Meðan hlutföll kynjanna eru jafn skökk og raun ber vitni er nauðsynlegt að viðhafa kynjakvóta til að ná settu marki.  Vitaskuld hlýtur framtíðarsýnin að vera sú að slíkir kvótar séu óþarfir, en við erum einfaldlega ekki komin á þann stað í dag.  Oft er það haft á orði að prófkjörin séu konum óhagstæð.  Ég held að margt sé til í því.  Vissulega er hægt að tína til dæmi um prófkjör þar sem konum hefur vegnað vel, en hitt held ég að sé algengara.  Kynjakvótinn sem gildir í komandi prófkjöri Vinstri grænna á höfuðborgarsvæðinu er nauðsynlegt skref til að tryggja jafnan hlut kynjanna.  Sumir telja raunar að ganga hefði átt lengra og láta kvótann aðeins gilda í aðra átt, þ.e. til að tryggja hlut kvenna en ekki karla.  Er þá horft til þess að hlutur kvenna á þingi á vegum stjórnmálaflokkanna almennt sé svo rýr að það væri bara jákvætt að einn flokkur, eins og VG, gengi á undan og tryggði fleiri konum en körlum sæti á þingi.  Ég tel að þessi nálgun sé mjög eðlileg miðað við það hver staðan raunverulega er.  Nú varð það að vísu ekki niðurstaðan hjá okkur í Vinstri grænum að ákveða kvótann með þessum hætti, en það kemur að mínum dómi vel til greina að horfa til þessa þegar kemur að endanlegri uppröðun, enda er prófkjörið leiðbeinandi.  Um það þarf þó að vera full samstaða.

Innan annarra flokka og hjá hinum ýmsu stjórnmálaskýrendum er því oft haldið fram að það sé því miður bara engin leið að tryggja jafnan hlut kynjanna  þegar prófkjörsleiðin er farin.  Þetta er rangt.  Að sjálfsögðu er unnt að tryggja jafnrétti með kynjakvóta eins og við Vinstri græn gerum.  Það er hins vegar spurning hvort aðrir flokkar hafa hugrekki til að ganga jafn langt og við í þessu efni.  Fyrir liggur eftir prófkjör Sjálfstæðisflokksins að karlar eru í 3 efstu sætunum í Suðurkjördæmi og í Reykjavík.  Uppstilling mun tryggja þremur körlum efstu sætin í Norðvesturkjördæmi hjá sama flokki.  Þetta væri óhugsandi hjá Vinstri grænum.  Í því liggur mikill hugarfarsmunur.  Ég skora á aðra stjórnmálaflokka að taka VG til fyrirmyndar og setja á kynjakvóta á framboðslistum og þá fléttulista að okkar hætti.  Það verður einfaldlega að grípa til áhrifaríkra ráða til að ná árangri í kynjajafnréttisbaráttunni.  Hæfasta fólkið er nefnilega að finna meðal beggja kynja og það skiptir nefnilega máli að kynin séu jafnsett í stjórnmálum.


Ekkert lát á ofbeldisverkum Ísraelsmanna

Stöðugar fréttir berast af ofbeldisverkum Ísraelsmanna fyrir botni Miðjarðarhafs.  Enda þótt átökin á því svæði hafi varað lengi og vafalaust lengi hægt að deila um upphaf og ábyrgð, er ljóst að það er einkennandi fyrir barátturaðferðir Ísraela að ráðast á saklausa borgara.  Senda sprengjur að næturlagi inn í íbúahverfi og drepa allt sem fyrir verður.  Konur, börn, gamalmenni og almennt óbreytta borgara.

Veikburða mótmæli íslenskra ráðamanna við stjórn Ísraels nær engum eyrum á alþjóðavettvangi.  Bandaríkin standa dyggilega við bakið á ofbeldisverkum Ísraels, og sýna heiminum enn eina ferðina að þar eru við völd menn sem eru algerlega blindir á heimsmálin.  Horfa á alþjóðamálin frá þrengsta sjónarhóli hernaðar- og heimsvaldastefnu sinnar.  Íslendingar og aðrar Evrópuþjóðir verða að bregðast við af fullri hörku.  Stjórnmálasamband við Ísrael hlýtur að þurfa að taka til vandlegrar skoðunar.  Refsiaðgerðir alþjóðasamfélagsins hljóta sömuleiðis að verða til umræðu. 

Sendiherra Ísraels á Íslandi vildi ekki hitta talsmenn Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs þegar hún var hér á ferð, m.a. til að hitta íslensk stjórnvöld.  Ísraelsk stjórnvöld forðast sem sagt þá sem gagnrýna þau harðlega, vilja ekki ræða við lýðræðislega kjörna fulltrúa íslensku þjóðarinnar - nema þá sem þeir telja að verði ekki of gagnrýnir.  Um það mál má lesa meira á heimasíðu Ögmundar Jónassonar.

Það er sorggrætilegt að í umræðunni um heimsmálin hér á Vesturlöndum eru mannslífin svo oft misjafnlega metin, eftir því hver á í hlut.  Við verðum hins vegar að gera okkur grein fyrir að mannslífin fyrir botni Miðjarðarhafs, í Írak og Afganistan eru jafnverðmæt þeim á Ítalíu, Bretlandi eða Bandaríkjunum.  En til þess þarf hugarfarsbreytingu og stefnubreytingu hjá stjórnvöldum.  Líka íslenskum stjórnvöldum.  Vonandi fáum við nýja ríkisstjórn eftir næstu alþingiskosningar, ríkisstjórn sem fylgir breyttum áherslu í utanríkis- og alþjóðamálum.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband