Feikigóð þátttaka í forvali Vinstri grænna

Framboðsfrestur vegna forvals Vinstri grænna á höfuðborgarsvæðinu er runninn út.  Alls hafa 30 einstaklingar gefið kost á sér.  Þetta er miklu meiri þátttaka heldur en við Vinstri græn höfum séð áður í forvali hjá okkur.  Það er mjög jákvætt og er fyrirheit um áframhaldandi sókn okkar á þessum kosningavetri.  Til mikils er að vinna: að fella ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í komandi alþingiskosningum. 

Vinstri græn eiga mikil sóknarfæri og góða möguleika á að fá hljómgrunn meðal þjóðarinnar og þar með að koma málum sínum fram í næstu landsstjórn.  Það skiptir miklu máli því það er orðið lífsnauðsynlegt að jafna kjörin í landinu, draga úr misskiptingu, taka upp nýja og framtíðarmiðaða atvinnustefnu, taka upp sjálfstæða og félagslega utanríkisstefnu og hefja verndun náttúru og umhverfis til vegs og virðingar í íslensku samfélagi.  Til þess þarf Vinstirhreyfingin - grænt framboð að koma sterkt út úr kosningunum.  Mikill áhugi á starfi flokksins bendir til að svo geti orðið.


Lækurinn í Lækjargötu - nýr eða gamall?

Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkti tillögu Björns Inga Hrafnssonar borgarfulltrúa um að fela framkvæmdasviði borgarinnar að kanna möguleika að opna lækinn sem Lækjargata dregur nafn sitt af.  Þetta er ágæt tillaga enda fékk hún góðar viðtökur.  Fyrir nokkrum árum, þegar unnið var að skipulagi á Bernhöftstorfunni, óskaði ég eftir því að skipulagshöfundar skoðuðu þennan möguleika.  Þetta var reyndar undir lok kjörtímabilsins 1998-2002 en á þeim tíma var ég formaður skipulagsnefndar.  Ég hygg að raunar hafi ekki verið unnið meira með málið í nýrri skipulagsnefnd sem tók við 2002 en það breytir ekki því að hugmyndir er prýðileg og sjálfsagt að vinna að málinu.

Endurvakinn lækur í Lækjargötu getur lífgað heilmikið upp á miðbæinn.  Sennilegt er að einfaldast sé að gera nýjan læk, velja honum legu t.d. í miðri götunni og beina honum í fallega rennu sem endaði á Lækjartorgi.  Þar væri vel við hæfi að koma upp vatnslistaverki eða gosbrunni þar sem lækurinn endaði.  Vonandi verður þess ekki langt að bíða að endurskapaður lækur í Lækjargötu líti dagsins ljós.


Stóriðjustefnan sigrar í kraganum

Prófkjöri Samfylkingarinnar í suðvesturkjördæmi (kraganum) er lokið.  Þar tókust á þau Gunnar Svavarsson forseti bæjarstjórnar í Hafnarfirði og Þórunn Sveinbjarnardóttir alþingismaður en bæði sóttust eftir 1. sæti listans.  Talsverðar breytingar verða hjá flokknum í kjördæminu þar sem Rannveig Guðmundsdóttir og Guðmundur Árni Stefánsson, sem voru í efstu sætunum í síðustu kosningum, verða ekki í kjöri næst.

Það hljóta að teljast nokkur tíðindi að Gunnar Svavarsson skyldi sigra Þórunni í prófkjörinu.  Raunar munaði að sögn ekki miklu á fylgi þeirra en nóg samt.  Einkum er það eftirtektarvert að stóriðjustefna ríkisstjórnarinnar skuli verða ofan á hjá samfylkingarfólki í suðvesturkjördæmi.  Þar ræður mestu að flokkurinn er sterkur í Hafnarfirði og virðist eins og Hafnfirðingarnir hafi sammælst um að tryggja Gunnari 1. sæti og Katrínu Júlíusdóttur 2. sæti.  Katrín hefur verið þingmaður í eitt kjörtímabil en lítið hefur farið fyrir stjórnmálastörfum hennar, helst hefur frést af henni á síðum glanstímarita, en það getur líka talið.  Hjá sumum stjórnmálaflokkum.

Ljóst er að við í Vinstrihreyfingunni - grænu framboði munum berjast gegn stækkun álversins í Straumsvík.  Það munum við m.a. gera í bæjarstjórn Hafnarfjarðar, þar sem Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir bæjarfulltrúi leiðir okkar starf.  En það mun líka verða áberandi mál í komandi kosningabaráttu vegna alþingiskosninganna.  Frambjóðendur Vinstri grænna munu þá mæta einarðri stóriðjusveit Sjálfstæðisflokks, Samfylkingar og Framsóknarflokks.  Í því ljósi er niðurstaða prófkjörs Samfylkingarinnar eftirtektar- og umhugsunarverð.


Landsvirkjun á spottprís

Meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hefur ákveðið að selja hlut borgarinnar í Landsvirkjun.  Borgarstjóri skrifaði undir samkomulag þessa efnis sl. miðvikudag.  Það kom okkur í borgarstjórn á óvart, því í júlí sl. hét borgarstjóri því skriflega í borgarráði, að halda borgarfulltrúum upplýstum um gang viðræðna um sölu á Landsvirkjun.  Síðan hefur ekki heyrst hósti né stuna frá borgarstjórnarmeirihlutanum um málið fyrr en fullbúinn samningur er lagður á borgarráðs sl. fimmtudag.  Þetta eru óvönduð og ólýðræðisleg vinnubrögð.

Ég hef þegar skrifað um afstöðu okkar Vinstri grænna til sölunnar á Landsvirkjun og á áreiðanlega eftir að skrifa meira um það.  Hins vegar vekur það nú athygli að borgarstjóri virðist ekki hafa verið upplýstur um verðmat á Landsvirkjun upp á um 90 milljarða króna.  Og svo selur hann miðað við 60 milljarða króna mat á fyrirtækinu.  Þannig má segja að verðmæti Landsvirkjunar sé skrifað niður um 30 milljarða, sem þýðir að hlutur borgarinnar er 13-14 milljörðum rýrari en hann gæti verið.  Borgarbúar eru sem sagt hlunnfarnir.

Þetta er vitaskuld alvarlegt mál ef satt reynist.  Getur verið að meirihlutinn í borgarstjórn hafi einfaldlega ekki vitað hvað hann var að gera?  Ef það er rétt, er enn möguleiki fyrir hann að iðrast, samningurinn hefur nefnilega ekki öðlast gildi, borgarstjórn mun fjalla um hann þann 21. nóvember nk. og borgarfulltrúar meirihlutans hafa tök á að skipta um skoðun fyrir þann tíma.  Hér með eru þeir hvattir eindregið til þess.


Sölu á Landsvirkjun harðlega mótmælt

Vinstrihreyfingin - grænt framboð mótmælir harðlega fyrirhugaðri sölu á hlut Reykjavíkur og Akureyrar í Landsvirkjun.  Með þessari ákvörðun er ljóst að ríkisstjórnarflokkarnir ætla að halda áfram á einkavæðingarbrautinni og hafa hagsmuni almennings að engu.  Borgarstjórnarflokkur Vinstri grænna sendi frá sér ályktun um málið í dag:

"Borgarstjórnarflokkur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs mótmælir harðlega fyrirhugaðri sölu á hlut borgarbúa í Landsvirkjun. Með undirskrift borgarstjóra í dag er stigið skrefi nær þeim markmiðum stjórnvalda, með Sjálfstæðisflokkinn í fararbroddi, að einkavæða Landsvirkjun. Sameiginlegt eignarhald ríkis og tveggja sveitarfélaga í Landsvirkjun hefur einmitt tryggt að þessi mikilvæga starfsemi væri í höndum samfélagsins. Nú skal hins vegar haldið inn á braut einkavæðingar, í samræmi við stefnu stjórnarflokkanna sem er að mola niður samfélagsþjónustuna og koma henni í síauknum mæli í hendur einkaaðilum. Salan á hlut borgarinnar og Akureyrar í Landsvirkjun er liður í þessari yfirlýstu einkavæðingarstefnu Sjálfstæðisflokksins sem samstarfsflokkar hans í ríkisstjórn, borgarstjórn og bæjarstjórn Akureyrar gangast nú undir.

Vinstri græn mótmæla einnig dæmafáu offari meirihlutaflokkanna í borgarstjórn sem hafa farið á bak við borgarráð og borgarstjórn í málinu. Í júlí sl. hét borgarstjóri því í borgarráði að gera ráðinu grein fyrir framvindu málsins en hefur síðan ekki vikið að því einu orði fyrr en nú kemur fullbúinn samningur þar sem búið er að afsala Reykvíkingum dýrmætri sameign án þess að um það hafi verið fjallað af kjörnum fulltrúum og sjónarmið reifuð. Hér gerir meirihlutinn sig sekan um yfirgang og ólýðræðisleg vinnubrögð sem því miður eru ekki einsdæmi á stuttum valdatíma nýrrar borgarstjórnar.

Með þessum gjörningi er vegið að hagsmunum Reykvíkinga, bæði í bráð og lengd og ákvörðun um sölu á hlut borgarinnar í Landsvirkjun við þessar aðstæður leiðir til þess að raforkureikningar borgarbúa og landsmanna allra munu hækka stórlega í kjölfarið. Fulltrúar Vinstri grænna leggjast hér eftir sem hingað til gegn þeim einkavæðingarleiðangri sem staðið hefur yfir undir stjórn Sjálfstæðisflokks á annan áratug með stuðningi flokka sem setja hagsmuni valds og áhrifa í öndvegi."


Borgarstjórnarmeirihlutinn fer offari í Landsvirkjunarmáli

Fréttablaðið greinir frá því í morgun að í dag verði skrifað undir samning um sölu á hlut Reykjavíkurborgar og Akureyrarbæjar í Landsvirkjun til ríkisins.  Þessar fréttir koma kjörnum fulltrúum í borgarstjórn Reykjavíkur á óvart.að því leyti að borgarstjóri hefur ekki kynnt málið fyrir borgarráði og er málið ekki einu sinni á dagskrá borgarráðsfundar á morgun, fimmtudag. 

Greinilegt er að talsmönnum meirihlutans finnst meira um vert að baða sig í ljósi fjölmiðla en að gera kjörnum fulltrúum, framkvæmdastjórn sveitarfélagsins, grein fyrir málinu og leita eftir umboði til að undirrita samkomulag um söluna.  

Á fundi borgarráðs þann 20. júlí sl. lagði ég fram eftirfarandi fyrirspurn til borgarstjóra um málið:

Fyrirspurnin er svofelld:

1.    Hvenær var tekin ákvörðun um að hefja að nýju viðræður við ríkið um kaup þess á     hlut Reykjavíkurborgar í Landsvirkjun?
2.    Hverjir annast viðræðurnar af hálfu Reykjavíkurborgar?
3.    Hefur borgarstjóri sett fulltrúum borgarinnar erindisbréf eða samningsmarkmið?
4.    Hyggst borgarstjóri kynna gang viðræðnanna fyrir borgarráði og þá hvenær?


Svör borgarstjóra voru lögð fram í borgarráði þann 27. júlí sl.:

1.    Borgarstjóri tók þá ákvörðun í byrjun júlí að halda viðræðum áfram.
2.    Sem fyrr, Helga Jónsdóttir og Sigurður Snævarr.
3.    Nei, viðræðum er haldið áfram á sama grunni og áður.  Þegar viðræðum var frestað í upphafi árs lá fyrir að þráðurinn yrði tekinn upp á ný síðar.   
4.    Já, strax og viðræðum hefur skilað áfram þannig að fyrir liggi atriði sem taka þarf     afstöðu til.

Samkvæmt svari borgarstjóri hefði mátt vænta að borgarráði yrði gerð grein fyrir því í hverju viðræðurnar fælust, hvaða verðhugmyndir væru til umræðu, hvernig greiðslufyrirkomulagi yrði háttað o.fl. þess háttar sem skiptir máli og borgarstjórn þarf að sjálfsögðu að ræða.  Af þessu hefur hins vegar ekki orðið og borgarstjóri hyggst nú, skv. fréttum, undirrita sölusamning án þess að hafa kynnt málið á réttum vettvangi. 

Borgarstjórnarmeirihlutinn fer offari í málinu og handleikur lýðræðislegt umboð af mikilli léttúð.  Með þessum vinnubrögðum veikir borgarstjóri mjög stöðu sína og trúverðugleika sem æðsti embættismaður Reykvíkinga.



Tekur ráðherrann ekki rökum?

Einar Guðfinnsson, sá ágæti ráðherra úr norðvesturkjördæmi, skrifar pistil í Fréttablaðið í dag undir heitinu "Tekur fólk ekki rökum?"  Þar býsnast hann yfir því að fólk hér á landi skuli ekki taka sjónarmiðum hans sem og gera þau að sínum, fólk taki einfaldlega ekki rökum og vilji það ekki.  Nú má eins spyrja Einar: tekur ráðherrann ekki rökum?

Enda þótt nokkrar veiddar langreyðar breyti litlu sem engu um stofninn og afkastagetu hans, þá er hitt ekki jafn óumdeilt að við höfum allan rétt þjóðréttarlega okkar megin.  Hvalir eru auðlind sem flakkar á milli landa (eða hafsvæða öllu heldur) og þess vegna getur ein þjóð ekki gert tilkall til að ráða því hvað hún gerir hjá sér.  Það sjá allir hvaða afleiðingar það myndi hafa í för með sér ef hver ætlaði bara að gera það sem honum dytti í hug.  Þess vegna eru alþjóðasamningar í gildi á þessu sviði.

Hitt er óumdeilt að hvalveiðarnar hafa enga efnahagslega þýðingu fyrir Ísland en getur hins vegar haft mjög skaðleg áhrif á umfangsmikla efnahags- og atvinnustarfsemi, t.d. í ferðaþjónustu, útflutningsatvinnugreinum o.fl.  Það er engu líkara en Einar ráðherra taki ekkert tillit til þessara sjónarmiða.  Hann hlustar ekki, hann tekur ekki rökum.  Hann vill greinilega taka minni hagsmuni fram yfir meiri.  Kannski vegna þess að hvalveiðiútgerðin skiptir Einar og flokk hans máli í komandi alþingiskosningum.  Og þá er þeim rétt sama um þjóðarhag.

Það er bara þannig minn kæri Einar að það eru skiptar skoðanir um málið hér á landi og ég er t.d. í hópi þeirra sem er algerlega ósammála rökum ráðherrans.  Ekki vegna þess að ég telji stofninn í hættu, ekki vegna þess að ég sé upptekinn af þjóðrembingsrökunum, ekki vegna þess að ég sé af tilfinningaástæðum á móti því að veiða hval (ég er hins vegar alfarið á móti því að við styðjum stríðsrekstur og fjöldamorð á óbreyttum borgurum í Írak - nokkuð sem Einar og Sjálfstæðisflokkurinn studdu!!), heldur vegna þess að ég tel að hvalveiðar nú þjóni ekki heildarhagsmunum lands og þjóðar.  Ég tel þær stríða gegn hagsmunum okkar og að það sé verið að þjóna lund fárra á kostnað heildarinnar.  En það kemur ekki á óvart að sjálfstæðismenn skilji ekki slík sjónarmið eða taki þeim rökum.


Forval VG á höfuðborgarsvæðinu vekur athygli

Þegar ég tilkynnti um að ég tæki þátt í forvali okkar Vinstri grænna í kjördæmunum þremur á höfuðborgarsvæðinu, lét ég þess getið að aðferð okkar vekti athygli.  Forvalið hjá okkur er sameiginlegt fyrir Reykjavíkurkjördæmin bæði og Suðvesturkjördæmi.  Þetta er mikilvæg tilraun til að viðurkenna í verki að höfuðborgarsvæðið er löngu orðið eitt atvinnu-, búsetu- og þjónustusvæði og gefa einnig félagsmönnum í öllum sveitarfélögunum á svæðinu að velja frambjóðendur flokksins hér á höfuðborgarsvæðinu.  Ég sé að samstarfsmaður minn í borgarstjórn, Björn Ingi Hrafnsson, telur þetta athyglisverða tilraun sem aðrir muni hugsanlega taka upp í kjölfarið.  Þetta eru örugglega orð að sönnu.

Guðlaugur sigrar Björn örugglega

Prófkjöri sjálfstæðismanna í Reykjavík vegna alþingiskosninganna er lokið.  Mest barátta var vafalaust um 2. sætið, sem er oddvitasæti í öðru Reykjavíkurkjördæmanna.  Björn Bjarnason dóms- og kirkjumálaráðherra taldi sig réttborinn í þetta sæti eftir að Davíð Oddsson yfirgaf skútuna.  Meðal annars kom fram í málflutningi Björns að hann hefði nú látið Geir Haarde í friði í keppninni um formannsstólinn og því ætti hann skilið að samstaða tækist um hann í 2. sætið í Reykjavík.  Það var ekki og Guðlaugur Þór tók mikla pólitíska áhættu með því að vaða í slaginn um 2. sætið.  Það reyndist þess virði að taka þá áhættu því Guðlaugur sigraði Björn örugglega í keppninni um oddvitasætið í öðru kjördæmanna.  Sýnist mér á þeim tölum sem sést hafa að Guðlaugur hafi haft um 1300 fleiri atkvæði í 1. - 2. sætið heldur en Björn og verður það að teljast mjög svo sannfærandi sigur.  Ég óska Guðlaugi Þór til hamingju með góðan árangur.

Niðurstaðan hlýtur að vera Birni mikil vonbrigði.  Ljóst er að hann er nú ekki lengur maður númer tvö í Reykjavík, Guðlaugur er honum fremri, m.a. til helstu metorða í flokknum.  Það er spurning hvort Birni er vel sætt í þessu sæti eftir allt sem á undan er gengið.  Björn kennir að vísu andstæðingum flokksins um atlögu að sér, en segir líka að aðilar innan flokksins hafi unnið gegn sér.  Varla getur hann átt við aðra en Geir Haarde formann og Vilhjálm Þ. borgarstjóra en Guðlaugur er handgenginn þeim báðum.  Þótt yfirborðið sé slétt þá er öldugangur undir niðri og spurning hvort hann kemur ekki upp á yfirborðið fljótlega.  Kannski mun Björn ekki taka sætið þegar á hólminn er komið.  Eða hvort mun hann setjast fyrir aftan Geir eða Guðlaug?  Hvorugur kosturinn er góður fyrir hann.  Maður þarf greinilega að fara að hlera hvað er í gangi í Sjálfstæðisflokknum.


628 ár í launajafnrétti!!

Ætlum við að láta það taka 628 ár að koma á launajafnrétti í landinu?  Er nema að von að spurt sé.  Hvernig væri að taka áskorun Femínistafélagsins og taka sex alda stökk í einu skrefi?

Vikan sem senn er á enda er Femínistavika.  24. október var kvennafrídagurinn 1975 þegar tugþúsundir íslenskra kvenna lögðu niður störf til að leggja áherslu á kröfuna um jafnrétti kynjanna.  Þessa dags var líka minnst í fyrra þegar 30 ár voru liðin frá kvennafrídeginum 1975.  Það vantar ekki að samfélagið taki undir kröfuna um fullt launajafnrétti og kynjajafnrétti á öllum sviðum.  En hvernig gengur að standa við stóru orðin?  Atvinnu- og stjórnmálahópur Femínistafélags Íslands hefur sent atvinnurekendum, og þar með talið sveitarfélögunum ályktun þar sem vakin er athygli á að nær ekkert hefur áunnist í því að draga úr kynbundnum launamun í samfélaginu.  Í ályktuninni segir:

”Í dag er liðið ár frá því að rúmlega 50.000 íslenskar konur gengu út af vinnustöðum sínum til að vekja athygli á launamuni kynjanna og krefjast leiðréttingar á honum. Á sama degi voru atvinnurekendur hvattir til þess að leiðrétta launamun kynjanna meðal starfsfólks síns. Í síðustu viku voru birtar sláandi niðurstöður könnunar á vegum Félagsmálaráðuneytisins. Þar kom fram að á undanförnum 12 árum hefur hreinn kynbundinn launamunur batnað um 0,3%, þ.e. úr 16% lægri launum í 15,7%. Í 3. kafla jafnréttislaga nr. 96/2000 kemur fram að atvinnurekendum sé skylt að greiða sömu laun fyrir sambærileg störf. Miðað við að þróun launajafnréttis verði með samsvarandi hætti í framtíðinni reiknast okkur til að konur og karlar muni hafa jöfn laun árið 2634. Nú þykja okkur 628 ár fulllangur tími og því skorum við í atvinnu- og stjórnmálahópi Femínistafélags Íslands á atvinnurekendur að framfylgja landslögum með því að bera saman laun karla og kvenna í ykkar fyrirtæki og leiðrétta muninn. Afgreiðum sex aldir á einum degi, launajafnrétti í dag!” 

Sérstaka athygli vekja þær staðreyndir að með sama áframhaldi muni það taka 628 ár að ná fram fullkomnu launajafnrétti kynjanna.  Af því tilefni lagði ég fram fyrirspurn til borgarstjóra í borgarráði í gær um það hvort borgarstjóri væri reiðubúin til að taka áskorun Femínistafélagsins, bera saman laun karla og kvenna hjá borginni og leiðrétta tafarlaust hin kynbundna launamun?  Vonandi berast jákvæð svör frá borgarstjóra strax í næstu viku.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband