Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
8.1.2008 | 23:33
Eitt í dag og annað á morgun
Nú kemur fram að enginn ráðherra í ríkisstjórninni sé andvígur 250 þúsund tonna álveri við Húsavík. Fyrir kosningar lýsti Samfylkingin yfir því að hún vildi stóriðjustopp og jafnframt að friða ætti Skjálfandafljót og fallvötnin í Skagafirði.
Því er sú spurning áleitin hvort Samfylkingin hafi ekkert meint með þessum kosningaloforðum. Eru engin takmörk fyrir því hvernig hægt er að hafa loforðin að engu og lítilsvirða almenning? Er umhverfisráðherra einnig þeirrar skoðunar að það eigi að reisa álver við Húsavík og efna til þeirra virkjanaframkvæmda sem því óhjákvæmilega fylgja? Geta stjórnmálaflokkar og -menn leyft sér að hafa eina stefnu fyrir kosningar og aðra eftir kosningar?
Er nema von að spurt sé um afdrif "Fagra Íslands"!
![]() |
Össur ekki á móti álveri |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
8.1.2008 | 10:13
Sami rassinn...
Það hefur lítið breyst hér á landi með tilkomu nýrrar ríkisstjórnar. Sem minnir á að það er ekki nema hálf ríkisstjórnin ný, helmingurinn er gamla liðið úr Sjálfstæðisflokknum. Nýja spennandi nútímalega framfarakynslóðin í Samfylkingunni reynist jafn þreytt og hallærisleg og forverar hennar í ríkisstjórn úr öðrum stjórnmálaflokki.
Fyrir skemmstu var gagnrýnt að fjármálaráðherra, í skikkju dóms- og kirkjumálaráðherra, hefði skipað Þorstein Davíðsson dómara, fyrst og fremst út á reynslu hans sem aðstoðarmanns Björns Bjarnasonar. Þvert á umsögn þar til bærrar nefndar sem metur hæfi umsækjenda um dómarastöður. Þar óð Árni Mathiesen drulluna í þágu flokksmaskínu Sjálfstæðisflokksins, líkt og Björn Bjarnason hafði áður gert við skipun hæstaréttardómara. Ef umsækjandinn Þorsteinn hefði verið talinn í hópi þeirra hæfustu hefði málið snúið öðruvísi, en hæfnisnefndin hafði þvert á móti komist að þeirri niðurstöðu að umsækjandinn væri ekki í 1. hæfnishópi heldur þeim 3ja. En svona er Sjálfstæðisflokkurinn vanur að fara með völdin.
Ungir jafnaðarmenn voru í hópi þeirra sem gagnrýndu embættisveitinguna. Nú vill svo til að einn af ráðherramyndum Samfylkingarinnar skipar í tvö embætti nú um áramót. Bæði sæta þau gagnrýni svo ekki sé meira sagt. Iðnaðarráðherra skipar orkumálastjóra og ferðamálastjóra. Í fyrra tilvikinu gengur hann framhjá vel hæfum starfandi orkumálastjóra og velur einn af vildarvinum síns nánasta ráðgjafa. Nú skal það ekki rengt að viðkomandi er áreiðanlega hæfur til starfsins en er ekki full langt seilst til að koma "sínu" fólki að? Ungri og efnilegri, vel menntaðri konu sem þar að auki hefur reynslu af starfinu er hafnað. Ég bíð enn eftir viðbrögðum ungra jafnaðarmanna.
Félag háskólamenntaðra ferðamálafræðinga gagnrýnir einnig skipun ferðamálastjóra. Þar er bent á að gengið sé fram hjá nokkrum umsækjendum sem hafa aflað sér sérmenntunar í þessari atvinnugrein sem er sívaxandi í íslensku atvinnulífi. Í þeim hópi eru einstaklingar sem hafa bæði mikla menntun og ekki síður umfangsmikla starfsreynslu úr ferðaþjónustu, bæði af markaðsmálum, landkynningu, landvörslu og leiðsögn, rekstri og stjórnun. En allt kemur fyrir ekki. Viðkomandi höfðu greinilega ekki rétta flokkslitinn.
Í ljósi digurbarkalegra yfirlýsinga forystu Samfylkingarinnar, m.a. í hinum frægu Borgarnesræðum, um misbeitingu Sjálfstæðisflokksins á opinberu valdi og loforðum um að Samfylkingin boði betri tíð í þeim efnum, vekur framganga iðnaðarráðherra furðu, eða er kannski sami rassinn undir báðum stjórnarflokkunum? Augljóst er að ráðherrann gerir hvað hann getur til að gera formanni Samfylkingarinnar lífið leitt. En klúðrið er hans, ætli fólk hafi almennt gleymt yfirgangi hans og dónaskap þegar hann rak veiðistjóra úr embætti á aðfangadag hér um árið þegar hann var umhverfisráðherra, ef að líkum lætur í "bloggástandi"? Sá sem ástundar slík vinnubrögð rís ekki undir þeirra ábyrgð sem fylgir ráðherrastarfi. Á því ber Samfylkingin ábyrgð.
![]() |
Gagnrýna ráðningu nýs ferðamálastjóra |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
31.12.2007 | 16:16
Verðskulduð viðurkenning
Félagi minn og vopnasystir úr hinni pólitísku baráttu, Svandís Svavarsdóttir, var kosin maður ársins 2007 af hlustendum Rásar 2. Það er verðskulduð viðurkenning. Fátítt er að einstaklingar breyti gangi stjórnmálanna nánast með eigin hendi eins og Svandísi tókst nú á haustmánuðum þegar hún gekk á móti straumnum og til baráttu gegn spillingu og áformum um einkavinavæðingu orkuauðlinda borgarbúa. Þeirri baráttu lyktaði með fullu sigri heiðarleika og lýðræðis og falli meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknar í borgarstjórn Reykjavíkur.
Eftir 16 mánaða valdasetu, sem Sjálfstæðisflokkurinn hafði beðið eftir óþreyjufullur í 12 ár, sprakk hann á limminu og hrökklaðist frá völdum. Við tók nýr meirihluti félagshyggju og jöfnuðar og verður því ekki á móti mælt að Svandís Svavarsdóttir átti mestan þátt í að búa þann nýja meirihluta til. Vissulega hefði hún átt að verða borgarstjóri í kjölfarið en í hennar huga skiptu vegtyllurnar ekki máli, heldur pólitíkin og verkefnin. Það skiptir máli að áherslur Vinstri grænna hafa náð góðum hljómgrunni innan nýs meirihluta og það er með þeim hætti sem Svandís sýnir yfir hvaða pólitískum styrk hún býr.
Ég óska henni hjartanlega til hamingju með þá miklu viðurkenningu sem hún hefur hlotið fyrir elju sína og heiðarleika. Hún hefur sannarlega unnið fyrir þessari viðurkenningu og meira en það.
![]() |
Svandís maður ársins |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
23.12.2007 | 22:13
Gleðilega hátíð
Ég óska landsmönnum öllum, nær og fjær, gleðilegrar jólahátíðar og farsældar á komandi ári.
Samstarfsfólki mínu, vinum og ættingjum, þakka ég ánægjulega samfylgd á árinu sem er að líða.
Öllu stuðningsfólki Vinstri grænna færi ég þakkir fyrir óeigingjarnt og árangursríkt starf.
14.12.2007 | 14:21
Spurt um Sundabraut, Hvalfjarðargöng og Kjalarnes
Ég hef lagt fram á Alþingi 3 fyrirspurnir til samgönguráðherra um mikilvæg samgöngumál. Um er að ræða málefni Sundabrautar, Vesturlandsvegar á Kjalarnesi og Hvalfjarðarganga. Ágæt frétt er um málið í vefútgáfu blaðsins Skessuhorn.
Það sem mér finnst mikilvægt að fá svör um frá samgönguráðherra um það hvort hann muni beita sér fyrir að tvöföldun Hvalfjarðarganga verði í næstu samgönguáætlun, um það hvaða stefnu ráðherrann hafi um fjármögnun verkefnisins og hvort tryggja eigi jafnt aðgengi allra vegfarenda um göngin eða leggja til upptöku veggjalda? Þá spyr ég einnig ráðherrann hvort hann mun beita sér fyrir því að tvöföldun Vesturlandsvegar á Kjalarnesi verði í næstu samgönguáætlun og hvenær megi búast við að framkvæmdir geti hafist við þá mikilvægu samgöngubót. Í þriðja lagi spyr ég ráðherra hvenær megi búast við ákvörðun um endanlega legu Sundabrautar og hvort samgönguráðherra sé sammála mati borgaryfirvalda um að jarðgöng séu ákjósanlegasti valkostur hvað legu brautarinnar áhrærir.
Hér er um að ræða afar þýðingarmikil samgöngumál í borginni og í námunda við hana. Þau varða ekki síst hagsmuni íbúa höfuðborgarsvæðisins og íbúa Vestur- og Norðurlands. Því verður fróðlegt að sjá og heyra hverju ráðherra svarar þessum spurningum. Ekki er þó við því að búast að það verði fyrr en í næsta mánuði.
Spurningarnar má nálgast hér, hér og hér.
10.12.2007 | 16:08
Médvédév varð fyrir valinu
Fjórir stjórnmálaflokkar í Rússlandi, þ.á.m. flokkur Pútíns forseta, hafa lýst yfir stuðningi við að Dmítríj Médvédév verði næsti forseti Rússlands. Pútín má skv. rússnesku stjórnarskránni ekki bjóða sig fram í þriðja sinni.
Í frétt vefútgáfu Prövdu kemur fram að Pútín hafi lýst yfir fullum stuðningi við framboð Médvédévs, en hann er nú annar af tveimur 1. varaforsætisráðherrum Rússlands. Kollegi hans, sem einnig er 1. varaforsætisráðherra, Sergej Ívanov, hafði af flestum verið talinn líklegri frambjóðandi, en hann er fyrrum varnarmálaráðherra og í hópi "haukanna" í kringum Pútín. Almennt er talið að Dmítríj Médvédév, sem er 42ja ára lögfræðingur frá Pétursborg, sé hófsamur og líklegri til að eiga góð samskipti við Vesturlönd en Ívanov, og jafnframt líklegri til að vinna að áframhaldandi umbótum í Rússlandi. Um leið eru margir sem telja að Médvédév sé frekar hálfgert "peð" í höndum Pútíns og því hafi hann ákveðið að veðja fremur á hann. Um það verður ekki dæmt hér.
Hitt er ljóst, að nú þegar Pútín hefur gefið út hvern hann styðji, þá eru allar líkur á að sá hinn sami verði næsti forseti Rússlands. Því er full ástæða til að gefa honum gaum og kynna sér feril hans og skoðanir.
![]() |
Pútín styður Medvedev í forsetakjöri |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
3.12.2007 | 09:37
Staða Vinstri grænna afgerandi
Nýjasta skoðanakönnun um fylgi flokkanna sýnir að Vinstrihreyfingin - grænt framboð hefur afgerandi stöðu sem þriðji stærsti flokkur þjóðarinnar og sem forystuflokkur í stjórnarandstöðu. Það er til marks um að þjóðin ber traust til flokksins og þeirra málefna og sjónarmiða sem hann stendur fyrir í íslenskum stjórnmálum.
Staða Sjálfstæðisflokksins veikist og er það skýrt merki um þau lausatök sem verið hafa á forystu flokksins að undanförnu. Augljóst er hverjum manni að það eru miklir flokkadrættir í Sjálfstæðisflokknum og afar mismunandi sjónarmið um hvert skal stefna. Formaður flokksins og forsætisráðherra, Geir H. Haarde, virðist ekki halda um stjórnartaumana af neinni festu, og andstæðingar hans nýta sér það til fulls. Það kemur síðan niður á fylgi flokksins.
Athyglisvert er að fylgi Samfylkingarinnar eykst nokkuð en helstu tíðindin úr þeim herbúðum eru jú að flokkurinn er nú kominn í meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur ásamt okkur Vinstri grænum, Framsókn og F-lista. Þar hefur oddviti flokksins, Dagur B. Eggertsson, leitt flokkinn til vinstra samstarfs sem bersýnilega hugnast kjósendum vel. Þá er sérstaklega eftirtektarvert að fylgi Samfylkingar og Vinstri grænna samanlagt er um 48% og lætur nærri að flokkarnir tveir séu með meirihluta á bak við sig. Það eru ánægjuleg tíðindi.
Í umræðum um fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar, sem fram fóru á Alþingi í síðustu viku, fannst mér koma fram að mörgum þingmönnum Samfylkingarinnar líður ekkert allt of vel í kompaníi með Sjálfstæðisflokknum. Í borgarstjórn hrökklaðist meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks frá völdum eftir 16 mánuði og nýr meirihluti félagshyggju og jöfnuðar tók við. Það er sem sagt hægt að "dömpa" Sjálfstæðisflokknum.
![]() |
78% styðja ríkisstjórnina |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
28.11.2007 | 22:02
Pabbi kvaddur
Útför föður míns, Sigurðar Kr. Árnasonar, fór fram frá Háteigskirkju í dag. Það var falleg og notaleg stund. Fjölmargir ættingjar, vinir og samstarfsfólk pabba mætti í kirkju og í erfidrykkju á eftir. Sr. Pálmi Matthíasson jarðsöng og fórst honum það einkar vel úr hendi og var persónulegur, enda hafði hann þekkt pabba frá því hann var smástrákur á Akureyri. Tónlistin var líka mjög falleg, Karlakór Reykjavíkur, undir stjórn Friðriks S. Kristinssonar, skilaði sínu óaðfinnanlega og nutu þeir liðstyrks Marteins H. Friðrikssonar organista og trompetleikaranna Ásgeirs H. Steingrímssonar og Eiríks Arnar Pálssonar. Framlag þeirra setti sérstakan hátíðarblæ á tónlistarflutninginn. Þá lék bróðursonur minn, Sindi Már Eydal Friðriksson, fallegt enskt dægurlag, Hinsta kveðja, á píanó af mikilli tilfinningu og frændi minn, Stefán Arngrímsson óperusöngvari, söng Bára blá við undirleik Marteins. Allt yfirbragð athafnarinnar bar þess merki að við vorum að kveðja mann sem hafði helgað hafinu starfsævi sína, í um hálfa öld.
Fjölskyldan er þakklát öllum þeim sem heiðruðu minningu hans með nærveru sinni í dag, með kveðjum, skrifum eða á annan hátt.
Minningargreinar um pabba má m.a. lesa á mbl.is, http://mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?grein_id=1177594;minningar=1
1.11.2007 | 14:55
Skynsemin ræður
Ákvörðun borgarráðs um að ógilda sameiningu REI og GGE er fagnaðarefni. Með þeirri afstöðu viðurkennir borgarráð að ekki hafi verið staðið rétt að málum og að endurskoða þurfi málið frá grunni. Sú vegferð, sem Svandís Svavarsdóttir hóf í kjölfar hins margumrædda eigendafundar OR í byrjun október, er að skila áþreifanlegum árangri. Fyrst féll meirihlutinn í borgarstjórn og nú hefur nýr öflugur meirihluti tekið á málinu af myndarskap.
Borgarráð og einstakir borgarfulltrúar geta verið stoltir af ákvörðun sinni. Þar ber enginn skarðan hlut frá borði, það er enginn sem tapar. Skynsemin ræður för og það munu allir standa uppi sem sigurvegarar í kjölfarið. Burtséð frá því hvaða skoðun einstaklingar kunna að hafa haft í upphafi, þá hefur skoðun málsins leitt í ljós að það var ekki vel undirbúið, lýðræðislegir ferlar voru ekki haldnir og ýmislegt í málinu efnislega orkaði tvímælis. Það er bara stórmannlegt að þeir sem stóðu að ákvörðunum eigendafundar OR 3. október skuli nú standa einróma að þessari niðurstöðu borgarráðs.
Það er líka ánægjulegt að sjá að í borgarstjórn er nú þverpólitísk samstaða um að setja hagsmuni almennings í fyrirrúm og tryggja aðkomu lýðræðislega kjörinna fulltrúa að ákvörðunum. Full ástæða er til að óska stýrihópi Svandísar og borgarráði öllu til hamingju með farsæla niðurstöðu í dag.
![]() |
Borgarráð samþykkir að hafna samruna REI og Geysis Green |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
31.10.2007 | 10:44
Samgöngunefnd fjalli um framkvæmd vegalaga
Í gær sendi ég formanni samgöngunefndar Alþingis, Steinunni Valdísi Óskarsdóttur, bréf og fór fram á að nefndin fjallaði um framkvæmd vegalaga og fullyrðingar um að í farvatninu sé að flytja verkefni í vegamálum frá ríki til sveitarfélaga. Fréttir um það hafa komið sveitarstjórnarfólki mjög á óvart.
Nú hefur formaður nefndarinnar tilkynnt að málið verði tekið til umfjöllunar á næsta fundi nefndarinnar sem verður í næstu viku. Er full ástæða til að þakka nefndarformanni fyrir skjót viðbrögð við beiðni minni.
Einstakir sveitarstjórnarmenn hafa vaknað upp við vondan draum nú að undanförnu á fundum sínum með Vegagerð ríkisins, en þar hefur komið fram að á grundvelli nýrra vegalaga undirbúi Vegagerðin að flytja ábyrgð tiltekinna þjóðvega í þéttbýli yfir á herðar sveitarfélaganna. Þetta kemur í opna skjöldu, enda hefur engin umræða farið fram um málið á vettvangi sveitarfélaganna og því síður að samningar hafi verið gerðir milli ríkis og sveitarfélaga um verkefnaflutning, tekjustofna o.s.frv. Því er nauðsynlegt að samgöngunefnd taki málið til sín og ræði hvort gera þurfi lagabreytingu eða fresta tilteknum ákvæðum vegalaga (sem voru afgreidd í hamaganginum rétt fyrir kosningar) meðan tóm gefst til að skoða málið til hlítar og afleiðingar þess.
Bréfið sem ég sendi formanni samgöngunefndar er svohljóðandi:
Formaður samgöngunefndar Alþingis
Steinunn Valdís Óskarsdóttir
Beiðni um umræður í samgöngunefnd um vegalögUndirritaður fulltrúi Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs í samgöngunefnd óskar hér með eftir því að nefndin taki til umfjöllunar hið fyrsta framkvæmd vegalaga og skilgreiningar og skiptingu þjóðvega í flokka skv. vegalögum. Mikilvægt er, m.a. í ljósi viðbragða frá sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu, að samgöngunefnd fjalli um hvort vegalögin sem samþykkt voru sl. vor, gefi heimildir fyrir flutningi verkefna og útgjalda frá ríki til sveitarfélaga og hvort nauðsynlegt reynist að gera breytingar á lögunum.
Er þess jafnframt óskað að a.m.k. fulltrúar Vegagerðarinnar, Sambands ísl. sveitarfélaga og sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu o.fl. verði kallaðir fyrir nefndina til umfjöllunar um málið.
Reykjavík, 30. okt. 2007
Árni Þór Sigurðsson