Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Afrek Svandísar

Umræðan um skýrslu REI-hópsins hefur tekið á sig ýmsar myndir að undanförnu.  Efalaust má draga ýmislegt í skýrslunni fram og teygja og toga á ýmsa lund.  Kjarninn í þessu máli öllu saman vill þó á stundum gleymast. 

Hann er sá að það stefndi í það í haust að almannahagsmunir yrðu stórlega fyrir borð bornir, sullað yrði saman hlutverki og markmiðum opinbers veitufyrirtækis annars vegar og hagnaðarsjónarmiðum einkaaðila hins vegar, verðmætum eignum almennings yrði kastað á glæ og brautin rudd fyrir einkavæðingu Orkuveitu Reykjavíkur og þar með þeirra mikilvægu almannahagsmuna sem eigendur OR eiga að gæta.  Allt þetta var sannarlega í farvatninu í skugga óheyrilegs flýtis og leyndar sem hvíldi á öllum málatilbúnaði.  Í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur var aðeins ein rödd sem andæfði.  Það var Svandís Svavarsdóttir borgarfulltrúi Vinstri grænna.  Hún mótmælti einnig lögmæti eigendafundarins og ákvað að sitja hjá við afgreiðslu málsins og með því taka enga afstöðu til máls sem var í raun algerlega vanreifað til að hægt væri að taka til þess afstöðu.  Á hvorn veg sem var.  Og nauðsynlegar upplýsingar skorti einnig. 

Það var ekki fyrr en á síðari stigum að aðrir kusu að hoppa á vagninn og njóta eldanna sem Svandís fyrst kveikti.  Það er út af fyrir sig gott og blessað, en gæta verður allrar sanngirni og minnast þess hvernig málið allt bar að.  Ef Svandís hefði ekki risið til varnar og mótmælt og höfðað mál þá stæðum við nú væntanlega enn með sama meirihlutann og var í byrjun október, sama borgarstjóra og Orkuveituna komna á útsölu til einkaaðila.  Í því ljósi eru veikburða athugasemdir um að Svandís hafi ekki verið nógu „grimm“ í skýrslunni hjóm eitt.  Það var hún sem eigin hendi og óbilandi málafylgju stöðvaði ruglið sem var í uppsiglingu og hún hefur nú landað mikilvægri niðurstöðu um að Orkuveitan og REI verði í 100% opinberri eigu og að ný og breytt vinnubrögð verði innleidd í stjórnmálin.  Og allir flokkar taka undir.  Það er ekki lítið afrek.

 

(Greinin birtist í Fréttablaðinu 12. febrúar 2008)


Óskemmtileg lífsreynsla

Heldur var hún óskemmtileg lífsreynslan sem við fjölskyldan urðum fyrir á laugardag þegar við vorum á leið í Borgarfjörðinn.  Þar komum við að umferðarslysi þar sem fólksbíll hafði oltið út fyrir veg og var á hvolfi og 2-3 aðrir bílar höfðu staðnæmst út við vegarkant til að huga að slösuðum.  Aðeins hægðum við ferðina til að sjá hvort þörf væri á aðstoð og skipti þá engum togum að stór pick-up bill skall af miklum krafti aftan á okkur.  Bill sem kom þar á eftir forðaði sér út af og lenti í snjóskafli og varð það honum til happs.  Ekki urðu alvarleg slys á fólki en þó eru eymsli í baki og hálsi að hrjá mannskapinn.  Bíllinn er mikið skemmdur og var hann fluttur af vettvangi á vörubíl en lögreglan flutti okkur á heilsugæslustöðina í Borgarnesi.  Gistum á hótel Hamri rétt við Borgarnes og komum svo heim í gær, reynslunni ríkari.


Hver er maðurinn - úti í bæ?

REI-málið er að verða að einum allsherjar farsa.  Oddviti Sjálfstæðisflokksins segir að hann hafi ráðfært sig við borgarlögmaður en hann tali náttúrulega ekki við "lögfræðinga úti í bæ" eins og hann komst að orði í Kastljósi í gær. 

Í dag kemur yfirlýsing frá oddvitanum um að hann hafi átt við "fyrrverandi" borgarlögmann.  Og hver skyldi það vera?  Verður ekki að upplýsa um það?  Mér segir svo hugur um að hér sé átt við Hjörleif B. Kvaran, sem var borgarlögmaður til ársins 2003.  Varla hélt oddviti Sjálfstæðisflokksins í Kastljósi í gær að hann væri enn borgarlögmaður, 5 árum eftir að hann hætti?  

Sé tilgáta mín rétt, að oddvitinn hafi leitað til Hjörleifs B. Kvaran í október sl., þá vill svo til að sami Hjörleifur var og er starfandi forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur og var væntanlega helsti lögfræðilegur ráðgjafi oddvita Sjálfstæðisflokksins og þáverandi borgarstjóra á hinum umdeilda og örlagaríka eigendafundi í Orkuveitunni í október.   

Allur er þessi farsi orðinn grátlegur og hann getur bara endað á einn veg. 


mbl.is Yfirlýsing frá Vilhjálmi Þ. Vilhjálmssyni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bandaríkin viðurkenna ómannúðlegar pyntingar

Yfirmaður CIA, bandarísku leyniþjónustunnar hefur viðurkennt að Bandaríkin hafi notað ómannúðlegar aðferðir við að knýja fram játningar hjá meintum hryðjuverkamönnum.  Aðferðir sem eru skýlaust brot á alþjóðasamningum. Þær aðferðir sem Bandaríkjamenn hafa viðhaft í fangabúðunum í Guantanamo eru algerlega óréttlætanlegar. Ekki eru nema 2-3 vikur síðan dómsmálaráðherra Bandaríkjanna þvertók fyrir, í bréfi til Bandaríkjaþings, að slíkar pyntingar væru stundaðar.

Það hlýtur að vekja upp spurninguna um það hvort yfirlýsingar bandarískra stjórnvalda séu yfirleitt trúverðugar, hvort það sé yfirleitt hægt að reiða sig á þau svör sem stjórnvöld gefa meðal annars fyrir bandaríska þinginu.  Þannig má segja að jafnvel þótt því sé haldið fram núna að þessar aðferðir hafi ekki verið notaðar undanfarin fimm ár og aðeins á þremur föngum þá er full ástæðu til að tortryggja þær yfirlýsingar þegar það liggur fyrir að að dómsmálaráðherra Bandaríkjanna sagði þinginu ósatt fyrir örfáum vikum síðan um þetta sama mál.

Bandaríkin eru því miður ótrúverðug sem brjóstvörn lýðræðis og mannréttinda sem þau þó telja sig vera og hafa um langt skeið verið fyrirmynd margra, ekki bara um hinn vestræna heim heldur annars staðar einnig. Ísland vill vera í fararbroddi í mannréttindamálum og baráttan fyrir mannréttindum og lýðræði er einmitt eitt af meginmarkmiðum Íslands í framboði þess til Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna.  Alþingi Íslendinga á því að láta þessi mál til sín taka með því að utanríkismálanefnd Alþingis ljúki umfjöllun um þingsályktunartillögu okkar Vinstri grænna um að fordæma mannréttindabrot í Guantanamo og sem þingmenn allra flokka hafa lýst stuðningi við.  s

En ég hlýt líka að velta því upp hvort utanríkisráðherra eigi ekki að kalla sendiherra Bandaríkjanna hér á landi á sinn fund og mótmæla þessu framferði og lýsa vanþóknun Íslendinga á framferði Bandaríkjanna.


Fagleg vinnubrögð innleidd við skipun í opinber embætti

Ég hef, ásamt fjórum öðrum þingmönnum, lagt fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um að forsætisráðherra skipi nefnd með þátttöku allra þingflokka er hafi það verkefni að móta reglur og eftir atvikum semja frumvarp til laga um verkferla og meðferð og þýðingu faglegs hæfnismats við skipan í opinber embætti.

Tilefni þessarar tillögu blasir við.  Umræðan um stöðuveitingar einstakra ráðherra að undanförnu kallar á að faglegri vinnubrögð verði innleidd við opinberar stöðuveitingar.  Í tillögunni er talað almennt um opinber embætti en sérstök áhersla þó lögð á dómarastöður enda eru þær sérstaklega mikilvægar í þessu sambandi þar sem dómsvaldið er ein af grunnstoðum þrískiptingar ríkisvaldsins.

Í einni af fjölmörgum umræðum um málið á Alþingi sagði Geir H. Haarde forsætisráðherra m.a. í andsvari við mig: "Það er auðvitað sjálfsagt að hafa jafnan til athugunar hvaða aðferðum er beitt þegar menn eru skipaðir í embætti á vegum ríkisins en ég tel ekki að þessi tilteknu þrjú mál sem hv. þingmaður gerði að umtalsefni gefi sérstakt tilefni til þess. Við skulum á hinn bóginn fara yfir það í rólegheitum hvort ástæða er til að breyta eitthvað málsmeðferðinni."  Þarna gefur ráðherrann a.m.k. undir fótinn með að settar verði einhverjar reglur eða málsmeðferð breytt að einhverju leyti.  Ég er því bjartsýnn á að tillaga mín fái hljómgrunn á þingi, bæði þegar ofangreind ummæli forsætisráðherra eru höfð í huga og eins málflutningur Samfylkingarinnar í þessum málum í gegnum árin.

 Þingsályktunartillögunar má nálgast hér.


Vinstri sveifla - Samfylking og Vinstri græn með meirihluta

Ný skoðanakönnun í Fréttablaðinu er athyglisverð fyrir margra hluta sakir.  Hún sýnir glögglega vinstri sveiflu í samfélaginu.  Hvort sem litið er á stöðuna á landsvísu eða í höfuðborginni sérstaklega, er ljóst að kjósendur eru að gefa stefnuljós til vinstri.

Ríkisstjórnarflokkarnir tveir halda samanlagt svipuðu fylgi og þeir fengu í kosningum þótt hlutfall þeirra innbyrðis breytist.  Samfylkingin tekur fylgi af Sjálfstæðisflokknum.  Þetta þarf ekki að koma á óvart meðan stjórnin er á fyrsta ári.  Hvað stjórnarandstöðuna varðar þá höldum við Vinstri græn vel sjó og erum aðeins yfir kjörfylginu sl. vor og bættum við okkur einu þingsæti ef kosið yrði nú.  Samkvæmt könnuninni fengju Samfylking og Vinstri græn samanlagt 33 þingmenn en Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur fengju 30 þingmenn.  Frjálslyndir falla út ef marka má könnunina. 

Vissulega eru þetta nokkur tíðindi.  Vanhugsuð meirihlutaskipti í borginni valda áreiðanlega miklu um að Sjálfstæðisflokkur tapar fylgi og á sama hátt nýtur Samfylkingin þess.  Það er ekki hægt að lesa aðra niðurstöðu út úr þessari könnun en að kjósendur vilji koma á vinstri stjórn, vilji að þeir sem standa fyrir jöfnuði og réttlæti taki höndum saman hvar sem mögulegt er.  Þótt Samfylking og Vinstri græn séu nú í minnihluta í borgarstjórn Reykjavíkur hafa oddvitar flokkanna þar náð góðri samstöðu sín í milli um að halda hópinn í prýðilegri sátt við Framsókn og Margréti Sverrisdóttur.  Vitaskuld eru tækifæri til þess líka í landsstjórninni.  Lykillinn að því liggur hjá Samfylkingunni.  Vonandi er það bara tímaspursmál hvenær hún áttar sig á skilaboðunum frá kjósendum.


mbl.is Fylgi Samfylkingar eykst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Um hvað snýst þá málefnasamningurinn?

Morgunblaðið, málgagn hins nýja meirhihluta í borgarstjórn Reykjavíkur, hefur farið mikinn í umfjöllun sinni um atburði liðinnar viku og  m.a. gert mikið úr því að núverandi meirihlutaflokkar hafi komið sér saman um málefnasamning, sem sé meira en fráfarandi meirihluti hafi gert.

Þetta er náttúrulega hálf broslegt þegar maður les þessa frétt á mbl. is um fund sjálfstæðismanna í Reykjavík þar sem bæði Hanna Birna Kristjánsdóttir og Gísli Marteinn Baldursson, borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks lýstu þeirri skoðun sinni að íbúabyggð ætti að reisa í Vatnsmýri og þar með að flugvöllurinn eigi að víkja.  Í hinum víðfræga málefnasamningi D- og F-lista í borgarstjórn er efsta mál á dagskrá að flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýri.  Það var enda kosningaloforð Ólafs F. Magnússonar en listi hans fékk um 10% atkvæða.  Allir hinir listarnir boðuðu að flugvöllurinn myndi víkja og íbúabyggð rísa í Vatnsmýri.  Þau viðhorf hlutu um 90% atkvæða.

En væntanlega þykir Morgunblaðinu og skríbentum þess allt í himna lagi að meirihlutinn styðjist við málefnasamning enda þótt flestir borgarfulltrúar séu andvígir einu mikilvægasta skipulagsmáli hans, og haninn hafi ekki galað þrisvar þegar tveir af helstu forvígismönnum Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn hafi afneitað honum. 

Tilgangurinn helgar bersýnilega meðalið - sem Hönnu Birnu og Gísla Marteini svelgist á!


mbl.is Vilja íbúðabyggð í Vatnsmýri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki hátt risið

Það er ekki hátt risið á nýjum meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur, aðeins fjórðungur kjósenda styður hann.  Sjálfstæðisflokkur og F-listi fengu yfir 50% atkvæða í kosningunum fyrir einu og hálfu ári síðan.  Um 5% styðja Ólaf F. sem borgarstjóra en listi hans fékk um 10% í kosningunum.  Stjörnuhrapið virðist algert, og á við báða oddvitana Vilhjálm og Ólaf.  Ekki beint hægt að segja að borgarbúar taki nýjum meirihluta fagnandi.
mbl.is 25,9% Reykvíkinga styðja nýjan meirihluta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Brjóstumkennanlegt bull

Það er dapurlegt að horfa upp á meirihlutaskipti í borgarstjórn Reykjavíkur.  Sjálfstæðisflokkurinn leggst lægra en dæmi eru um í íslenskri pólitík með því að seilast inn í starfandi meirihluta og kaupa veikasta hlekkinn með borgarstjórastólnum.  Með því er leikið á lægstu hvatir og persónulegan harmleik og það er auvirðilegt og átakanlegt að fylgjast með.

Nýr borgarstjóri hefur bersýnilega sagt félögum sínum í fyrri meirihluta ósatt oftar en einu sinni og oftar en tvisvar og afneitaði nýjum meirihluta.  Hann hefur líka sagt sjálfstæðismönnum ósatt um stuðning varamanns síns, við hana hafði hann ekki einu sinni talað.  Hver getur borið traust til slíks borgarstjóra?

Formaður Sjálfstæðisflokksins segir að atburðirnir hafi engin áhrif á stjórnarsamstarfið frekar en meirihlutaskiptin í haust.  Hér er þó tvennu ólíku saman að jafna.  Þá slitnaði upp úr samstarfi tveggja flokka vegna ágreinings um eitt stærsta deilumál í reykvískri pólitík og vegna innbyrðis trúnaðarbrests í röðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.  Nú gerist það að Sjálfstæðisflokkurinn er svo illa haldinn af valdaleysinu í borginni og örvæntingarfullur að hann ræðst inn í raðir starfandi meirihluta og kaupir sér aðild að meirihluta eins og ég sagði hér að ofan.  Formaður Sjálfstæðisflokksins var að sjálfsögðu hafður með í ráðum og vissi mætavel um atburðarásina, var sem sagt með rýtinginn á lofti gagnvart formanni Samfylkingarinnar og einum nánasta trúnaðarmanni hennar, Degi B. Eggertssyni, væntanlega til að  hefna fyrir ófarirnar í eigin herbúðum sl. haust.

Samfylkingunni stjórna engar geðluðrur  Ég trúi því að þessari atlögu verði svarað. Koma tímar og koma ráð.


mbl.is Engin áhrif á stjórnarsamstarf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Geir í bullandi vörn

Í upphafi þingfundar í dag, í óundirbúnum fyrirspurnartíma, tók ég upp umdeildar stöðuveitingar að undanförnu, einkum skipan héraðsdómara, og beindi þeirri spurningu til forsætisráðherra hvort hann teldi þær eðlilegar og hvort ráðherrar hefðu ótakmarkaðar heimildir til að valta yfir álit hæfnisnefnda.  Forsætisráðherra, Geir Haarde, telur bersýnilega að hér sé ekkert athugunarvert á ferðinni, en var þó í bullandi vörn.

Fyrirspurn mín var á þessa leið:

Vandi fylgir vegsemd hverri, og því hærra í metorðastiga samfélagsins sem menn komast, því vandmeðfarnari verður sú ábyrgð og þær skyldur sem hvíla á handhöfum æðstu embætta.  Á undanförnum dögum og vikum hafa orðið háværar umræður í samfélaginu um þrjár tilteknar embættisveitingar tveggja ráðherra í ríkisstjórninni, sem allar eru bersýnilega umdeildar og hafa kallað á sérstakan rökstuðning.  Þær hljóta einnig, einkum skipan héraðsdómara, að vekja upp spurningar um meðferð ráðherravalds. Þótt ráðherra séu sannarlega falin margvísleg verkefni að lögum, þá er vald þeirra ekki takmarkalaust og má aldrei vera háð geðþótta þeirra sem ráðherradómi gegna eins og við höfum því miður nýlega horft upp á.  Þvert á móti verður meðferð ráðherravalds að standast stjórnsýslulög, samrýmast góðum stjórnsýsluháttum og lýðræðislegum vinnubrögðum og byggja á málefnalegum sjónarmiðum og virðingu fyrir réttarríkinu og kjarna þess, nefnilega þrískiptingu ríkisvaldsins. 

Í grein í Fréttablaðinu í dag segir prófessor Sigurður Líndal um embættisveitingu setts dómsmálaráðherra með leyfi forseta: „Hér skín í taumlausa vildarhyggju þar sem einungis er áskilið að lög séu sett með formlega réttum hætti og þeim beri að framfylgja með valdi hvert svo sem efni þeirra er.  Valdboðið er sett í öndvegi; annað látið víkja.  Með þetta að leiðarljósi er alræði og geðþótta opnuð leið og eru nærtækust dæmin frá Þýzkalandi eftir 1930“.  Þetta eru stór orð og þung en hvert mannsbarn sér að hinn virti fræðimaður hefur lög að mæla.

 Má í þessu efni minna á ákvæði 10. gr. laga um ráðherraábyrgð þar sem segir með leyfi forseta:  Loks verður ráðherra sekur eftir lögum þessum … ef hann misbeitir stórlega valdi sínu, enda þótt hann hafi ekki beinlínis farið út fyrir embættistakmörk sín.“ 

Ég tel því mikilvægt að heyra álit hæstvirts forsætisráðherra á þeim umdeildu embættisveitingum sem átt hafa sér stað að undanförnu og hvort hann telji að eðlilega hafi verið staðið að málum og hvort hann telji ráðherra hafa takmarkalausa heimild til að valta yfir rökstutt álit þar til bærrar hæfnisnefndar?  Ennfremur spyr ég hæstv. forsætisráðherra hvort hann sé reiðubúinn að lýsa því yfir að það verði ekki liðið að ráðherrar í hans ríkisstjórn misbeiti valdi sínu og þeir sem það geri verði að axla pólitíska ábyrgð?

Það blasir við að pólitískt vald er meðhöndlað eins og það sé eign viðkomandi ráðherra eða stjórnmálaflokks og því séu lítil takmörk sett.  Þannig svaraði forsætisráðherra ekki þeirri spurningu hvort hann telji ráðherra hafa takmarkalausa heimild til að valta yfir álit hæfnisnefnda en varði ráðherra með því að segja að ábyrgðin væri ráðherrans og hann hefði sjálfur lent í þessari stöðu oftar en einu sinni.  Og svo vék hann sérstaklega að grein prófessors Sigurðar Líndal og taldi hana honum til minnkunar.  Það er hans mál.  En hitt er víst að almenningur í landinu hristir hausinn yfir framferði ráðamanna.  Því miður er fátt sem bendir til að einhverra breytinga sé að vænta á næstunni. 
mbl.is Embættisveitingar innan marka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband