Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Heimsókn í Borgarfjörðinn

Á miðvikudaginn kemur verð ég gestur á Aðalfundi Vinstri grænna í Borgarbyggð.  Fundurinn verður haldinn í Hyrnunni í Borgarnesi og hefst kl. 20.00.  Það er mér sérstök ánægja að Borgfirðingar hafi boðið mér að koma og ræða um stjórnmálin, enda af mörgu að taka um þessar mundir: efnahagsmál, samgöngumál, heilbrigðismál, umhverfismál o.fl.

Héraðsblaðið Skessuhorn greinir frá fundinum í dag og má lesa frétt um málið hér.  Að fundinum loknum mun ég svo halda með fjölskyldu minni í sveitasæluna í Reykholtsdalnum þar sem við eigum gott athvarf úr önnum hversdagsins.


Batnandi fólki er best að lifa.... - eða þannig sko!

Nú nokkrum vikum eftir að ég lagði fram tillögu um þetta efni á Alþingi, með stuðningi þingmanna úr öllum flokkum, taka borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins við sér og leggja hið sama til í borgarstjórn.  Reyndar lögðu minnihlutaflokkarnir í borgarstjórn líka fram sambærilega tillögu í kjölfar þingsályktunartillögu minnar og var henni vísað til umsagnar umhverfis- og samgönguráðs Reykjavíkur.  Virðist sem tillaga Sjálfstæðismanna nú sé úrvinnsla á tillögu minnihlutans.

Svo gerist það að borgarstjórinn í Reykjavík, Ólafur F. Magnússon, lætur fresta afgreiðslu tillögu meirihlutans, rétt eins og hann sé ekki hluti hans eða að hann hafi ekki verið hafður með í ráðum.  Er því jafnvel haldið fram að borgarstjórinn telji ekki að einhvers konar lestarsamgöngur séu hagkvæmur kostur í samgöngumálum Reykvíkinga.  Hvað er nú orðið af umhverfissinnanum Ólafi F. Magnússyni sem gekk úr Sjálfstæðisflokknum vegna óánægju með áherslur flokksins í umhverfismálum?  Engu er líkara en endaskipti hafi verið höfð í þessum ranni.  Ólafur afhjúpar sig sem helsta talsmann meiri og hraðari bílaumferðar og þar með mengunar og lakari lífsgæða í borginni.  Hann er því miður alveg kominn út af sporinu.


mbl.is Vilja skoða lestakerfi í borginni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

En hvers megna ungliðarnir?

Þetta er fín afstaða ungra jafnaðarmanna, en hversu megnug eru þau?  Mun stóri flokksi taka mark á afstöðu þeirra eða verður afstaða þeirra bara notuð sem "hreina samviskan" þegar á þarf að halda?
mbl.is Ungir jafnaðarmenn andvígir álveri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Médvédév kjörinn forseti Rússlands - Медведев набирает 69% голосов

Eins og vænta mátti verður Dmítríj Médvédév næsti forseti Rússlands.  Þegar talin höfðu verið um 60% atkvæða hafði hann hlotið tæp 69% og afgerandi stuðning.  Médvédév er 1. varaforsætisráðherra landsins og náinn bandamaður Vladímírs Pútíns fráfarandi forseta og hefur hinn nýi forseti lýst því yfir að hann muni gera Pútín að forsætisráðherra í nýrri ríkisstjórn. Um þetta má m.a. lesa á vefútgáfu dagblaðsins Ízvéstíja.

Dmítríj Médvédév er lögfræðingur frá Pétursborg og kynntist Pútín í störfum sínum þar.  Flestir fréttaskýrendur telja að Pútín muni áfram vera við völd og í raun stjórna öllu í gegnum hinn nýja forseta.  Vegna náinna tengsla þeirra tveggja er líklegt að áhrifa Pútíns muni gæta sterklega í rússneskum stjórnmálum á næstunni, ekki síst ef hann verður þaulsætinn sem forsætisráðherra (raunar hafa fáir verið það í Rússlandi undanfarin ár). Hinu má þó ekki gleyma að forseti Rússlands er afar valdamikill og hann hefur utanríkis- og alþjóðamálin í sínum höndum og hann hefur ekki bakgrunn úr öryggislögreglunni eins og fráfarandi forseti.  Því er allt eins líklegt að Médvédév muni reyna að treysta völd sín, styrkja stöðu sína og sjálfstæði og það kæmi mér ekki á óvart að honum muni takast að verða raunverulegur forseti, með þeim völdum og þeirri ábyrgð sem því fylgir. Það verður í öllu falli fróðlegt að fylgjast með hinum nýja forseta á næstunni, en forsetaskiptin fara fram í byrjun maí.

 


Samgöngur til framtíðar

Samfélag þjóðanna er sér nú mun meðvitaðra en áður um að vel flest í hegðun mannanna hefur áhrif á umhverfið og þar með lífsskilyrði og afkomumöguleika komandi kynslóða. Það er af þeim ástæðum að umhverfismálin í víðum skilningi skipa æ veigameiri sess í þjóðfélagsumræðu vítt og breitt um heiminn. Samgöngur hafa mikil áhrif á umhverfið, bæði jákvæð og neikvæð. Í þéttbýli eru það einmitt samgöngurnar sem oftar en ekki eru helsta umhverfisógnin. Hér á höfuðborgarsvæðinu er svo komið að neikvæð áhrif bílaumferðar eru helstu umhverfisvandamál sveitarfélaganna og æ oftar mælist mengun í Reykjavík ofar hættumörkum. Útblástur koltvíoxíðs frá bílaumferð og svifryk, sem m.a. stafar af notkun nagladekkja, eru helstu orsakirnar. Það er því mikilvægt að horfa á markmið og leiðir í samgöngumálum með gleraugum umhverfismálanna.

 

Þetta er ástæða þess að ég hef ásamt ellefu öðrum þingmönnum úr öllum þingflokkum lagt fram á Alþingi tillögu um að fela samgönguráðherra að kanna hagkvæmni lestarsamgangna milli Keflavíkurflugvallar og Reykjavíkur annars vegar og léttlestakerfis innan höfuðborgarsvæðisins hins vegar. Við leggjum til að kannaðir verði kostir þessa samgöngumáta og gallar, sem og hugsanlegar leiðir. Í því efni er brýnt að horfa á kostnað og ávinning samfélagsins og efnahagsleg, umhverfisleg og skipulagsleg áhrif.

 

Markmið stjórnvalda.

Margvísleg rök mæla með því að nú verði ráðist í raunverulega og heildstæða athugun á þessum kostum í samgöngumálum okkar hér á suðvesturhorninu. Íslensk stjórnvöld hafa sett sér það markmið að umhverfisáhrifum samgangna verði haldið innan ásættanlegra marka. Þannig er miðað við að losun koltvíoxíðs frá samgöngum árið 2010 verði ekki meiri en árið 1990. Til þess að þessum árangri verði náð þurfa stjórnvöld að vera reiðubúin að leita nýrra leiða í samgöngumálum. Greiðar, góðar og öruggar samgöngur eru að sjálfsögðu metnaður hvers samfélags. Um leið þarf að tryggja að samgöngurnar hafi sem minnst neikvæð umhverfisáhrif. Alþjóðasamfélagið hefur einsett sér að takast á við þau með stefnumörkun um sjálfbæra þróun. Sjálfbærar samgöngur fela í sér að samræma umhverfisleg, efnahagsleg og samfélagsleg markmið innan samgöngugeirans. Umhverfisleg markmið eru m.a. að takmarka notkun jarðefnaeldsneytis, þ.e. bensíns og olíu, að samgöngur ógni ekki vistkerfum og að mótvægisaðgerðum sé beitt til að sporna við neikvæðum umhverfisáhrifum. Umhverfisáhrif samgangna eru margs konar og má nefna loftmengun, gróðurhúsaáhrif, áhrif á heilsu, hávaða, sjónræn áhrif o.s.frv. Efnahagsleg markmið taka m.a. á kostnaði og samfélagslegri arðsemi eða hagkvæmni í samgöngum en um þá nálgun hefur lítið verið fjallað hér á landi þó að hún sé í vaxandi mæli viðfangsefni stjórnvalda í löndunum í kringum okkur og sé óaðskiljanlegur hluti stefnumótunar um sjálfbærar samgöngur. Samfélagslegu markmiðin lúta m.a. að þáttum er varða lýðheilsu, að samgöngur skaði sem minnst heilsu fólks, skipulagslegum atriðum, umferðaröryggismálum og umferðarmenningu o.fl.

 

Samgöngur gegna lykilhlutverki í nútímasamfélagi.

Óþarft er að rekja mikilvægi almenningssamgangna og nægir að nefna nokkur veigamikil rök, s.s. að:

  • mengun á hvern farþega í almenningsvagni er minni að meðaltali en á farþega í einkabíl,
  • kostnaður vegna umferðarmannvirkja er minni á hvern farþega í almenningsvagni en í einkabíl,
  • almenningssamgöngur krefjast minna landrýmis undir umferðarmannvirki en einkabílar,
  • umferðartafir eru ólíklegri í borgarumhverfi sem býður upp á almenningssamgöngur sem raunhæfan ferðamáta,
  • hærra hlutfall farþega í almenningsvögnum dregur úr tíðni umferðarslysa,
  • aukin notkun almenningsvagna og bætt þjónusta opnar ný sóknarfæri við skipulagningu byggðar, hagkvæmari nýtingu lands og veitukerfa, þéttari og skjólbetri byggð og skapar grundvöll að fjölbreyttara mannlífi,

Miklir möguleikar eru á að auka hlut annarra orkugjafa en jarðefnaeldsneytis í samgöngum. Hér á landi liggja miklir möguleikar í þessum efnum og er nauðsynlegt að stjórnvöld hugi sérstaklega að því hvernig auka megi hlutdeild visthæfra orkugjafa í samgöngum, ekki bara í almenningssamgöngum heldur einnig í hinum almenna bílaflota landsmanna, að ekki sé talað um skipaflotann. Það vekur athygli að raforka hefur lítið sem ekkert verið notuð til að knýja samgöngutæki hér enda þótt hún sé ódýr í framleiðslu og að mestu endurnýjanleg auðlind.

Óþarft er að rekja hve mikilvægar samgöngur eru í nútímaþjóðfélagi. Hreyfanleikinn er jafnvel talinn vera mælikvarði á samkeppnishæfni einstakra samfélaga, borga eða héraða. Og þar vill enginn verða undir. Með vaxandi fólksfjölda og aukinni ferðaþörf, samhliða kröfum um meiri þægindi, minni mengun og alþjóðlegum skuldbindingum í umhverfis- og loftslagsmálum er brýnt að leita nýrra leiða í samgöngum á höfuðborgarsvæðinu. Um 60% landsmanna búa og starfa í sveitarfélögunum sjö á höfuðborgarsvæðinu en sé hringurinn dreginn utar og látinn ná austur í Árborg, vestur í Borgarnes og suður í Reykjanesbæ (45–60 mín. akstursfjarlægð frá höfuðborgarsvæðinu) lætur nærri að um 3/4 hlutar landsmanna búi á því svæði. Það eru því ríkir samfélagslegir hagsmunir að samgöngumálum þessa svæðis sé sinnt með heildarhagsmuni og langtímasýn að leiðarljósi, bæði í efnahagslegu, samfélagslegu og umhverfislegu tilliti.

 

Aukin umsvif á Suðurnesjum.

Um 75% þjóðarinnar búa í um klukkustundar akstursfjarlægð frá höfuðborginni. Sveitarfélögin í nágrenni höfuðborgarsvæðisins njóta að sjálfsögðu þessa nábýlis og sá ávinningur er gagnkvæmur. Sérstaða Suðurnesja er að sjálfsögðu sú að þar er alþjóðlegur millilandaflugvöllur með vaxandi umsvif. Bæði er að erlendum ferðamönnum sem hingað koma hefur fjölgað geysilega á undanförnum áratug og Íslendingar sjálfir ferðast mun meira nú en áður var. Lætur nærri að fjöldi erlendra ferðamanna sem fer um Leifsstöð hafi tvöfaldast sl. 10 ár og gæti enn tvöfaldast á næstu 6–8 árum. Glöggur vitnisburður um þessa þróun er að sjálfsögðu mikil stækkun flugstöðvar Leifs Eiríkssonar. Þá hefur brottför hersins á Miðnesheiði leitt til þróunar sem fáir sáu fyrir og líkur á að íbúafjöldinn þar muni vaxa hraðar en nokkurn óraði fyrir. Uppbygging háskólasamfélags á gamla varnarsvæðinu og öll sú þjónusta sem þau breyttu not hafa í för með sér mun leiða til mjög svo aukinna umsvifa og krafna. Allt kallar þetta því á góðar, öruggar og visthæfar samgöngur milli Reykjavíkur og Keflavíkurflugvallar.

 

Horfum til framtíðar

Fyrir nokkrum árum voru unnar skýrslur umhagkvæmni járnbrautar milli Reykjavíkur og Keflavíkurflugvallar og í kjölfarið einnig skýrsla um léttlestakerfi á höfuðborgarsvæðinu.  Þær athuganir beindust fyrst og fremst að kostnaði í þröngum skilningi og mátu ekki þjóðhagsleg áhrif lestakerfis, svo sem vegna umhverfismála, nýtingar innlendrar orku, bættrar lýðheilsu o.þ.h. Einnig koma í þessu efni til breytt viðhorf til umhverfismála, ekki síst þættir eins og loftmengun sem er vaxandi vandamál á höfuðborgarsvæðinu, nýjar og breyttar áherslur í skipulagsmálum o.s.frv. Það því full ástæða til að kanna til hlítar kosti þess og galla að koma á lestarsamgöngum milli Reykjavíkur og Keflavíkurflugvallar annars vegar og léttlestakerfi innan höfuðborgarsvæðisins hins vegar. Slík athugun þarf að taka heildstætt
á þjóðhagslegum ávinningi, hvort sem litið er á hann í efnahagslegu, skipulagslegu eða umhverfislegu tilliti. Tillaga okkar tólfmenninga er lögð fram í því augnamiði að koma skriði á umræðu um þessi brýnu framtíðarmál. Vonandi fær hún góðar viðtökur.

 

(Greinin birtist í Mbl. 2. mars 2008)


... með hagstjórnina á góðri leið til fjandans!

Hin árlega þingveisla (árshátíð þingsins) var haldin í gær.  Þar gilda þær reglur að ekki má tala nema í bundnu máli.  Nokkuð var um kviðlinga sem fuku og verður að segjast að gæðin voru æði misjöfn.  Hér eru nokkrar af þeim vísum sem ég hafði fram að færa og lýsa nokkrum atriðum úr stjórnmálalífinu eins og þau blasa við mér eftir að ég tók sæti á Alþingi sl. vor.

 

 Hin nýja stjórn sem mynduð var í vor

og virðist eiga góðan stuðning landans,

er heldur daufgerð, haggast ekki spor

með hagstjórnina á góðri leið til fjandans.

 

Í svartri grjóthöll upp við Arnarhól

er andans faðir Sólrúnar og Geira.

Hans bláa hönd þar á sín tæki og tól

til að hækka vexti meir og meira.

 

Sjá, verðbólgan  þá fer á feiknaskrið

og flestir spá að fljótt á dalnum harðni.

„En skítt með hana, leggjum bönkum lið“

lofsyngja þeir Illugi og Bjarni.

 

Svo ræðum við um þetta þjóðarmein

á þinginu í ræðutímahasti,

og Sturla verður stífur eins og bein

er steytir Ömmi hnefa í reiðikasti.

 


Bakdyramegin inn í Stjórnarráðið?

ÞAÐ hefur vakið athygli mína og margra annarra að ýmis ráðuneyti hafa að undanförnu breytt skipulagi sínu á þann veg að sett hafa verið á laggirnar sérstök "svið" sem eins konar millistig milli ráðuneytisstjóra og skrifstofustjóra. Ég velti því fyrir mér hvort hér sé verið að fara einhverja bakdyraleið inn í Stjórnarráðið með ný störf og kostnaðarauka.

Af þessum sökum hef ég lagt fram á Alþingi fyrirspurn til forsætisráðherra um skipulagsbreytingar innan Stjórnarráðsins og eru spurningarnar eftirfarandi: 

1.      Hversu mörg svið hafa verið sett á stofn í einstökum ráðuneytum undanfarin fimm ár?
2.      Í hve mörgum tilfellum hafa ný svið verið viðbót í innra skipulagi ráðuneytanna og í hve mörgum tilfellum hafa skrifstofur verið lagðar niður í staðinn?
3.      Á grundvelli hvaða lagaheimilda hafa svið ráðuneytanna verið sett á stofn og sviðsstjórar skipaðir?
4.      Eru sviðsstjórar að mati ráðherra embættismenn í skilningi laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins?
5.      Hver er kostnaður ríkissjóðs vegna framangreindra skipulagsbreytinga undanfarin fimm ár

Ég hef beðið um skriflegt svar við fyrirspurninni og verður fróðlegt að sjá hvað þar verður reitt fram.


Gjaldmiðilsumræða á villigötum

MIKIL umræða um íslensku krónuna, veikleika hennar og stöðu, og um hugsanlega upptöku annars lögeyris hefur nánast tröllriðið samfélaginu nú um nokkurt skeið. Því miður hefur það um of einkennt þá umræðu að óskhyggja ræður málflutningi fremur en rökhyggja. Ákafir stuðningsmenn aðildar Íslands að Evrópusambandinu (ESB) finna krónunni allt til foráttu og tala um að við eigum að ganga í Myntbandalagið og taka upp evru, jafnvel einhliða. Á hinn bóginn er þeim málflutningi haldið á lofti af hálfu andstæðinga ESB-aðildar að upptaka evru sé útilokuð fyrir ríki sem stendur utan ESB og vandinn sem blasir við atvinnulífinu sé ekki krónunni að kenna og myndi ekki hverfa við upptöku evru.

Bæði rangt og rétt

Í raun má segja að báðir aðilar hafi nokkuð til síns máls og báðir hafi um leið að hluta til rangt fyrir sér. Ef horft er á gjaldmiðilinn út frá fræðilegu sjónarmiði má vel halda því fram að unnt sé að skipta krónunni út fyrir evru eða annan gjaldmiðil, t.d. bandarískan dollar eða norska krónu, og taka um það einhliða ákvörðun. Á hitt er að líta að þannig einhliða ákvörðun gæti haft mjög alvarlegar afleiðingar í för með sér til lengri tíma litið, m.a. vegna þess að evrópski Seðlabankinn myndi ekki styðja við þá ákvörðun og Íslendingar hefðu því engan bakhjarl í peningamálum. Þá þyrftu Íslendingar að kaupa evrur fyrir íslenskar krónur og vandséð að nokkur myndi vilja taka þátt í þeim viðskiptum með gjaldmiðil sem opinberlega væri á útleið og þar með verðlítill. Þessu til viðbótar hafa leiðtogar allra stjórnmálaflokka tekið að því er virðist afdráttarlausa afstöðu í þessu efni: einhliða upptaka evru er ekki á dagskrá. Fullyrðingar um að það sé unnt að taka upp evru, einhliða eða með inngöngu í Myntbandalagið, án ESB-aðildar eru því einungis til þess að slá ryki í augu fólks og afvegaleiða umræðuna. Tilgangurinn er augljóslega að beina umræðunni að ESB-aðild eftir þessari krókaleið. Tvíeggjað sverð vissulega því um leið er verið að veikja undirstöður íslensks efnahagslífs. Þannig má segja að einhliða upptaka evru sé fræðilega möguleg en hún sé hins vegar í reynd ófær leið.

Skilyrði Evrópusambandsins

Síðan komum við að þeim skilyrðum sem Evrópusambandið setur um stöðu efnahagsmála í aðildarríkjum ESB fyrir upptöku evru. Í fyrsta lagi verða öll ný aðildarríki að taka upp evru um leið og þau uppfylla hin efnahagslegu skilyrði, en þau lúta m.a. að verðbólgu og vaxtastigi, skuldum hins opinbera o.fl. Slök hagstjórn undanfarinna ára á hins vegar ríkan þátt í að hér er verðbólga farin á skrið og vextir gríðarlega háir. Við eigum því langt í land að uppfylla skilyrði um upptöku evru, jafnvel þótt þjóðin ákvæði að ganga í Evrópusambandið sem vitaskuld getur orðið í framtíðinni. Það er því fullkomið ábyrgðarleysi, af forystumönnum í stjórnmála- og viðskiptalífi, að tala eins og evruupptaka geti verið innan seilingar. Nema tilgangurinn sé einmitt sá að skaða hagsmuni Íslands og þröngva okkur inn í ESB með góðu eða illu, aðallega illu. Hvort þjóðin tekur síðan ákvörðun um það að sækja um aðild að Evrópusambandinu á næstu árum er annað mál og sjálfsagt að halda umræðu um það áfram og fordómalaust. Hagsmunir þjóðarinnar krefjast þess hins vegar að tekið sé til í hagstjórninni og stöðugleika komið á, verðbólgunni náð niður og vöxtunum, líkt og vinstri stjórnin gerði í lok níunda áratugarins og byrjun hins tíunda. Áframhaldandi stóriðjustefna er ekki ávísun á árangur í hagstjórninni. Á meðan þurfum við á því að halda að standa vörð um krónuna en tala hana ekki niður og gera eins gott úr þeim ágæta efnivið og við frekast getum. Ábyrgð stjórnenda í fjármála- og viðskiptalífi er vissulega mikil í því efni en einnig og ekki síður stjórnmálamanna, að ekki sé talað um forystumenn í ríkisstjórnarflokkum.

Atvinnuástandið ekki síst mikilvægt

Loks verðum við að hafa í huga að stjórn peningamála er aðeins einn afmarkaður þáttur hagstjórnarinnar. Aðrir þættir, eins og ríkisfjármálin og atvinnustigið, skipta ekki síður miklu máli og við sjáum að í löndum Evrópusambandsins hefur hagvöxtur verið lítill sem enginn og atvinnuleysið mikið. Ekki hefur evran dugað til að vinna á þeim vandamálum og það er ekki eftirsóknarverð fyrirmynd. Á sama tíma má líta til Noregs þar sem ríkir stöðugleiki, hagvöxtur, lítil verðbólga og eðlilegt vaxtastig. Utan ESB og engin evra heldur norsk króna. Veröldin er nefnilega flóknari en svo að hún snúist bara um evru eða krónu eða aðild að ESB eða ekki aðild. Það er alls ekki einboðið hvaða leið er hagstæðust fyrir okkur Íslendinga og fyrir efnahags- og atvinnulífið hér á landi en eins og gjaldmiðilsumræðan hefur verið að undanförnu þá er hún á villigötum. Vonandi tekst að ráða bót á því.

(Greinin birtist í Morgunblaðinu 22. febrúar sl.)


Hvers vegna hefur Ingibjörg Sólrún allt á hornum sér?

Í dag (þriðjudag)  fór fram stutt umræða um nýgerða kjarasamninga á Alþingi. Forsætisráðherra gerði þinginu grein fyrir yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um aðgerðir á næstu árum, m.a. í skatta- og velferðarmálum. Af hálfu okkar þingmanna og forystumanna Vinstri grænna hefur komið skýrt fram að sú hugmyndafræði sem samningurinn byggir á sé jákvæð og rétt og við styðjum hana. Um leið höfum við bent á þá augljósu staðreynd að lægstu launin hér á landi eru langt undir framfærslu- og fátæktarmörkum og að afar hægt miðar í þá átt að allir búi við mannsæmandi kjör. 

Að okkar mati hefði framlag ríkisvaldsins átt að vera í þá átt að lyfta kjörum þeirra sem helst þurfa á því að halda enn frekar en kjarasamningarnir gera.  Skattabreytingarnar sem ríkisstjórnin boðar lúta annars vegar að því að lækka tekjuskatt fyrirtækja úr 18 í 15% frá og með tekjuárinu 2008 og hins vegar að persónuafsláttur hækki um 7000 kr. umfram verðlagsbreytingar á þremur árum, fyrst árið 2009. Þar sem hækkun persónuafsláttarins gengur upp allan tekjuskalann munu umtalsverðar upphæðir fara úr ríkissjóði til þeirra sem hafa háar og jafnvel mjög háar tekjur. Þær fjárhæðir hefðu betur verið komnar sem viðbótarframlög til þeirra sem enn eru undir framfærslumörkum.  Það er leið jöfnuðar sem við í VG hefðum viljað fara.

Ríkisstjórnin hafði hafnað þeirri leið sem verkalýðshreyfingin vildi fara að koma á sérstökum persónuafslætti til tekjulágra hópa. Það hefði verið jafnaðarstefna í verki.  En þess í stað er það skattastefna Sjálfstæðisflokksins sem hefur orðið ofan á hjá ríkisstjórninni, skattastefna sem ekki er til þess fallin að auka jöfnuð líkt og hægt hefði verið að gera.  Á þetta hljótum við að benda.

Þá bregður svo við að formaður Samfylkingarinnar, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, hefur allt á hornum sér og leggur sérstaka lykkju á leið sína til að ausa okkur Vinstri græn skömmum, aðallega fyrir að benda á þessi atriði. Henni mislíkar greinilega að við skulum ekki bera lof á ríkisstjórnina fyrir framlag hennar, rétt eins og það verði ekki nógir um það í röðum þingmanna! Vill formaður Samfylkingarinnar ekki að menn segi kost og löst á því sem gert er? Ingibjörg Sólrún verður að una því að það er stjórnarandstaða í landinu og að hún mun að sjálfsögðu halda því til haga sem betur má fara, að ekki sé talað um þegar hún telur að ekki sé farið rétt að málum. Formaður Samfylkingarinnar þarf ekki að taka það persónulega og bregðast við eins og svo sé. Þetta snýst um pólitík og stefnumál og við í VG teljum að í þessu efni (eins og því miður í alltof mörgum öðrum málum) hafi Samfylkingin látið undan frjálshyggju- og misskiptingarstefnu Sjálfstæðisflokksins.  Og við kunnum því illa. Nema hvað?


Lestarsamgöngur verði skoðaðar

Ég hef ásamt ellefu öðrum þingmönnum úr öllum flokkum hafa lagt fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um athugun á hagkvæmni lestarsamgangna.

 

Tillagan gerir ráð fyrir að samgönguráðherra verði falið að láta kanna hagkvæmni lestarsamgangna milli Reykjavíkur og Keflavíkurflugvallar annars vegar og svokölluðu léttlestakerfi innan höfuðborgarsvæðisins hins vegar.  Í tillögunni segir ennfremur að kannaðir skuli kostir þessa samgöngumáta og gallar, sem og hugsanlegar leiðir. Sjónum á einkum að beina að kostnaði og ávinningi samfélagsins og efnahagslegum,

umhverfislegum og skipulagslegum áhrifum. Gert er ráð fyrir að leitað verði til sérfræðinga innan lands og utan og að niðurstöður athugunarinnar liggi fyrir í árslok 2008.

 

 Tillögunni fylgir ítarleg greinargerð og má nálgast hana á vef Alþingis 

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband