Færsluflokkur: Dægurmál

Ráðherrar eru þingbundnir

Alþingi ákvað hinn 16. júlí sl. að fela ríkisstjórninni að leggja inn umsókn um aðild Íslands að Evrópusambandinu og að síðan færi fram þjóðaratkvæðagreiðsla um væntanlegar niðurstöður aðildarviðræðna.  Ákvörðunin var vissulega umdeild, m.a. innan míns flokks, Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs.  Hún er þó í samræmi við það sem lagt var upp með í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og flokksráð VG samþykkti.  Á þeim tíma lá þó jafnframt fyrir að nokkrir þingmenn flokksins myndu ekki styðja tillögu þessa efnis.  Ákveðið var að tillagan fengi þinglega meðferð og meirihluti Alþingis yrði einfaldlega að ráða hvaða leið yrði farin.  Og Alþingi tók ákvörðun eins og kunnugt er eftir ítarlega vinnu í utanríkismálanefnd og langa umræðu í þingsal.

Í stjórnarskránni kemur fram að Ísland sé lýðveldi með þingbundinni stjórn.  Það þýðir að ríkisstjórn á hverjum tíma þarf að njóta stuðnings meirihluta Alþingis.  Hið sama á að sjálfsögðu við um einstaka ráðherra.  Þeir eru þingbundnir.  Í fjölmiðlum nú nýverið lýsti sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Jón Bjarnason, yfir því að hann teldi réttast að fresta viðræðum við ESB um aðild vegna þeirrar veiku stöðu sem Ísland væri í um þessar mundir.  Vísaði hann í því efni m.a. til yfirlýsinga hollenska utanríkisráðherrans sem tengdi saman ESB-umsókn Íslands og lausn Icesavedeilunnar.  Ég tel að yfirlýsingar hollenska ráðherrans hafi fyrst og fremst verið til heimabrúks.  Hið sama á við um yfirlýsingar Jóns Bjarnasonar.  Þær eru að mínu mati einkum til heimabrúks í kjördæmi ráðherrans.  Eða – ef ráðherranum er alvara með tillögu sinni hlýtur hann að fylgja henni eftir með því að leggja fram á Alþingi þingsályktunartillögu um að fresta ESB-viðræðum.  Ráðherrann verður nefnilega að hlíta niðurstöðu Alþingis.

Það er ljóst að í viðræðum við ESB munu sjávarútvegsmálin og landbúnaðarmálin skipa veigamikinn sess.  Ég skora því að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að hefja nú þegar vandlegan undirbúning viðræðnanna á málasviði hans, þar eru ríkustu hagsmunir lands og þjóðar.  Hvað sem okkur kann að finnast um ESB-aðild (sem þjóðin mun að sjálfsögðu ráða til lykta) þá ber okkur öllum að taka samþykkt Alþingis alvarlega og vinna í samræmi við hana af fullum heilindum að hagsmunum þjóðar í hvívetna.  Jón Bjarnason eins og aðrir.


Bjartar nætur í Feneyjum norðursins

Pétursborg er iðulega nefnd „Feneyjar norðursins.“  Nafngift sem full innistæða er fyrir.  Sjálfir segja borgarbúar að borgin sé nyrsta bVetrarhöllinorg í heimi, enda kalla þeir ekki bæjarfélög með innan við eina milljón íbúa „borg“.  Svo sem hægt að skilja þ hvað Reykjavík varðar, en hvers eiga Helsinki, Stokkhólmur og Osló að gjalda?  En allt um það.

Með ánni Névu, þverám hennar og síkjum er Pétursborg í hópi „vatnaborga“ sem hafa sérstakt aðdráttarafl.  Hér spilla ekki fyrir björtu sumarnæturnar (Bélyje notsjí – Белые ночи) sem hiklaust vega upp hinn langa vetur og dimma, rétt eins og í henni Reykjavík.  Nú er reyndar daginn farið að stytta en engu að síður er hér bjart langt fram á kvöld og líflegt í borginni eins og vænta má.

Það eru liðin 23 árIsaak-dómkirkjan síðan ég kom fyrst til borgarinnar og síðast kom ég hingað árið 2001 (í kringum 11. september).  Þótt miðborgin sé vissulega enn á sínum stað með sínum fögru byggingum, torgum og görðum, hefur gríðarlega margt breyst.  Þróunin hér í Rússlandi hefur verið hröð í átt til þess sem gengur og gerist í vestur Evrópu.  Bæði hið jákvæða og neikvæða.  Endurbætur á byggingum og nýbyggingar eru áberandi og víða hefur tekist afar vel til en hér eru líka uppi mikil áform um skýjakljúfabyggð, einkum á Vasilíj-eyjunni (fyrir staðkunnuga) sem eru vægast sagt umdeild meðal borgarbúa.  Á meðan sumum finnst skýjakljúfahverfi tilheyra stórborg eins og Pétursborg, eru aðrir sem segja að slíkar byggingar muni eyðileggja ásýnd borgarinnar og yfirbragð.  Skipulagsvinna er þó í fullum gangi og væntanlega verður ekki skortur á fjárfestum þegar þar að kemur.

Umferðin hefur tekið stakkaskiptum.  Meðan Sovétríkin voru enn og hétu var ekki mikið um einkabíla á götum borgarinnar.  Nú er allt með öðrum brag.  Borgarumferðin er þung liðlangan daginn en samt er hér gott og öflugt almenningssamgöngukerfi þar sem jarðlestirnar eru þungamiðjan.  Hér er dýpsta neðanjarðarlestarkerfi í heimi, að sögn, enda þarf það að liggja undir öllu vatnakerfinu hér, liggur undir ám og vötnum og tengir saman eyjar og hólma.

Í nýlegri skýrslu um verðlag í borgum heims kom í ljós að Moskva er nú dýrasta borg í heimi.  Þótt verðlag í Pétursborg sé talsvert lægra en í höfuðborginni, veitir „höfuðborg norðursins“ systur sinni í suðaustri harða samkeppni og er allt verðlag hér á hraðri siglingu í átt að því sem gerist í Moskvu.  Og það er ekki að ófyrirsynju að talað er um „höfuðborg norðursins.“  Ekki bara vegna þess að Pétursborg er næst stærsta borg Rússland, með liðlega 5 milljónir íbúa, heldur hafa stjórnvöld í Kreml einnig ákveðið að flytja ýmsa opinbera starfsemi hingað.  Til dæmis hefur stjórnlagadómstóll landsins þegar verið fluttur frá Moskvu til Pétursborgar og fyrirhugað er að opna hér skrifstofur bæði forsetaembættisins og embættis forsætisráðherra.  Þeir Médvédev forseti og Pútín forsætisráðherra eru rauna vopnabræður úr pólitísku starfi tíunda áratugarins hér í Pétursborg og voru báðir handgengnir Sobtsjak sem var kosinn borgarstjóri hér í kjölfar falls Sovétríkjanna.

Það er hiklaust hægt að mæla með heimsókn til Pétursborgar.  Hér er gríðarlega margt að sjá, mikil saga og menning sem hér tengist og héðan er ekki langt til Novgorod, hins forna höfuðstaðar Garðaríkis sem í handritum var kallaður Hólmgarður.  Þangað er ferð minni heitið á morgun og verður vonandi eftirminnilegt.


Evran - ófæra eða farsæl leið!

Ekki hefur farið framhjá neinum að skrif Björns Bjarnasonar um hugsanlega upptöku evru án aðildar að Evrópusambandinu, hefur valdið talsverðu uppnámi.  Forsætisráðherra segir hugmyndina ekki nýja en að hún gangi trauðla upp.  Iðnaðarráðherra brosir sínu breiðasta af gleði og telur að hér sé gott tækifæri til að færa Ísland nær ESB-aðild, en utanríkisráðherra segir þessa evru-leið ófæra.  Undir það taka, eins og við mátti búast, ritstjórar Morgunblaðsins og Fréttablaðsins.

Nú er öllum ljóst að Ísland tekur þátt í samstarfi við Evrópusambandið á ýmsum sviðum þótt það sé ekki aðili að bandalaginu.  Samningurinn um evrópska efnahagssvæði færir okkur margvísleg réttindi í löndum ESB og um leið leggur hann skyldur á herðar okkur.  Hið sama er a segja um Schengen-samkomulagið.  Um þessi atriði hafa verið gerðir pólitískir samningar.  Embættismenn innan ESB og á þess vegum hafa haldið því fram að ekki sé unnt að gerast aðilar að myntbandalaginu án aðildar að Evrópusambandinu sjálfu.  Mér virðist sem Björn Bjarnason færi nokkuð traust rök fyrir sínum málflutningi þegar hann segir að engar lagahindranir séu í vegi þessarar leiðar, það sé í raun aðeins spurning hvort hún sé fær pólitískt.

Undanfarna mánuði hefur sannarlega gustað um íslensku krónuna.  Og það er ekki hægt að segja að hún hafi átt sér marga formælendur.  Þeim sem helst bera ábyrgð á ástandi efnahagsmála hér, í stjórnmála- og viðskiptalífi, finnst sannarlega gott að hafa barn til blóra.  Íslenska krónan hefur orðið það barn.  En burtséð frá því öllu, þá er staða svo lítils gjaldmiðils í örsmáu og galopnu hagkerfi, eins og hinu íslenska, auðvitað veik.  Ekki síst þegar kreppir að í efnahags- og atvinnulífi.  Því hafa margir orðið til þess að leggja til að við tökum upp annan gjaldmiðil.  Forsætisráðherra hefur nefnt að það væri skynsamlegra að taka upp bandarískan dollara en evru, einhverjir hafa nefnt svissneskan franka, og forystumenn Vinstri grænna vöktu máls á þeirri leið að norrænu þjóðirnar, sem enn hafa sínar krónur, gætu átt með sem gjaldmiðilssamstarf eða samruna.  Og loks mæna margir á evruna og rökin fyrir því að enginn erlendur gjaldmiðill vegi jafn þungt í utanríkisviðskiptum okkar og evran.

Þessar hugleiðingar eru að mínu mati eðlilegar.  Íslenska krónan siglir nú mikinn ólgusjó og ósýnt að hún komist klakklaust í gegnum hann.  Það þarf því alls ekki að vera fráleit leið að gaumgæfa kosti þess og galla að taka upp annan gjaldmiðil og bera saman við stöðuna hingað til með íslenska krónu.  Þótt skoða yrði efnahagsleg áhrif slíks, ekki síst fyrir stefnu og þróun peningamála, verður slík könnun alltaf pólitísk fyrst og fremst, því tæknilegar og lagalegar hindranir er ávallt hægt að leysa.  Það er hinn pólitíski vilji hjá þeim sem málið varðar, sem myndi á endanum ráða för.

En hvað sem líður svo umræðu um gjaldmiðilinn og stöðu hans, þá má ekki missa sjónar á því að stjórnvöld þurfa að takast á við vandann í efnahags- og atvinnulífinu eins og hann blasir við í dag og hugsanlegur nýr gjaldmiðill eftir einhver ár breytir engu þar um.  Því miður virðist ríkisstjórnin ekki hafa neina burði til að takast á við þann vanda, og hefur allar sínar mörgu hendur í skauti sér.  Og það mun engan vanda leysa að gleyma sér í umræðum og vangaveltum um nýjan gjaldmiðil.


Fátækt og heimilsofbeldi til umræðu

Á fundi stjórnar sveitarstjórnarþings Evrópuráðsins, sem nú stendur yfir hér í Strasbourg, hefur sjónum einkum verið beint að fátækt og heimilisofbeldi.  Mikill vilji er til þess að beina því til sveitarstjórna í aðildarríkjum Evrópuráðsins, að taka þessi mál föstum tökum.

Augljóslega er það mikið áhyggjuefni hvað misskipting hefur aukist og fátækt er útbreidd.  Því hefur sveitarstjórnarþing Evrópuráðsins falið félagsmálanefnd sinni að fjalla um þetta viðfangsefni og leita leiða til að sveitarfélög geti haft meiri áhrif í baráttunni við fátækt sem er vaxandi vandamál í evrópskum borgum.  Fjárhagsaðstoð sveitarfélaganna fer vaxandi og enn er við mikið atvinnuleysi að stríða víða.  Aðgerðir sveitarfélaga beinast því einkum að því að þjálfa langtímaatvinnulausa þannig að þeir verði betur í stakk búnir til að fara út á vinnumarkaðinn.

Heimilisofbeldi og baráttan gegn því og mansali er verkefni sem sveitarstjórnarþingið í Evrópuráðinu lætur sig varða.  Hér er um að ræða einn alsvartasta blettinn á samfélagi nútímans og sem brýnt er að vinna gegn með öllum tiltækum ráðum.  Evrópuráðið hefur nú hrint af stað herferð, "Stöðvum heimilisofbeldi", sem mun standa næstu tvö ár og er ætlunin að nota tímann til að vekja fólk til umhugsunar um þennan smánarblett og leita áhrifaríkra leiða til að berjast gegn honum í samstarfi við þjóðþing, ríkisstjórnir, sveitarstjórnir, félagasamtök o.fl.  Meðal þess sem hér er rætt um er viðunandi aðstaða fyrir konur og börn sem búa við heimilisofbeldi.  Þá hefur Evrópuráðið og sveitarstjórnarþing þess einnig, hafið baráttu gegn mansali undir slagorðinu "Human being - not for sale!"  Hægt er að skoða nánar yfirlýsinguna um þetta mál á slóðinni www.coe.int/stop-trafficking

Þá er rétt að nefna að hér hefur líka verið til umfjöllunar og afgreiðslu ályktun um réttindi samkynhneigðra, tvíkynhneigðra og kynskiptinga. Í ályktun sem var samþykkt hér eru aðildarríki Evrópuráðsins hvött til að taka afstöðu gegn hvers kyns mismunun og ofbeldi gegn þessum hópum og tryggja mannréttindi þeirra í hvívetna.  Áhersla var lögð á að nýta skólakerfið markvisst til þess að fræða og upplýsa um mannréttindi og það, að fólk er mismunandi og má vera það.  Það kom ekki á óvart að Rússar og fleiri Austur-Evrópuþjóðir vildu fara varlegar í sakirnar og lögðu til að ályktunartextinn yrði þynntur aðeins út, en það var sem betur fer ekki samþykkt. 

Í öllum þessum málum hafa sveitarstjórnir hlutverki að gegna sem vafalaust er vanmetið víða.  Hins vegar er sjálfsagt að efla starf sveitarfélaganna að mannréttindamálum hvers konar og nýta þau tæki sem þau ráða yfir í því efni.


Varúð!!! - Framsókn vill áfram sömu ríkisstjórn!

Þá vitum við það.  Valgerður Sverrisdóttir utanríkisráðherra hefur lýst því yfir í fjölmiðlum að hún telji farsælast fyrir íslenska þjóð að Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn sitji áfram saman í ríkisstjórn eftir kosningar í vor.

Þetta er mikilvæg yfirlýsing því hún tekur af skarið um hvað í vændum er, fái stjórnarflokkarnir tilskilinn meirihluta á Alþingi í kosningunum 12. maí nk.  Þrátt fyrir óstjórnina í efnahagsmálum, gegndarlausan viðskiptahalla, óhagstæða gengisþróun, himinháa vexti, skattaívilnanir til hátekjufólks en aukna skattbyrði lágtekjufólks, vaxandi misskiptingu í þjóðfélaginu, náttúruspjöll og umhverfissóðaskap, þjónkun og undirlægjuhátt við bandarískt hernaðarbrölt - þrátt fyrir allt þetta og margt fleira sem núverandi stjórnarflokkar skilja eftir sig, vill Framsóknarflokkurinn halda áfram á sömu vegferð.  Stóra spurningin er hvort þjóðin er sama sinnis.

Lykillinn að því að skipta ríkisstjórninni út af er að stjórnarandstaðan fái nægilegan styrk til að geta myndað nýja ríkisstjórn.  Margt bendir til þess að útkoma Vinstri grænna geti gert þar gæfumuninn.  Eins og sakir standa sýna allar kannanir að VG er á blússandi siglingu og hefur góðan byr.  Vonandi nægir það til að fella núverandi ríkisstjórn.  Landsstjórnin þarf virkilega á því að halda að ferskir vindar fái að blása þar um sali.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband