5.3.2009 | 14:43
Stefnum hiklaust á rauðgræna ríkisstjórn
Það hefur ekki verið venja í íslenskum stjórnmálum að flokkar gangi bundnir til kosninga. "Við göngum óbundin til kosninga" er viðkvæði sem er alþekkt úr stjórnmálaumræðunni hér á landi. Nú eru aðstæður í samfélaginu hins vegar þær að það er skynsamlegt að horfa á þessi mál öðrum augum en hingað til.
Ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingar er að vísu minnihlutastjórn. Slíkar stjórnir eru algengar á hinum Norðurlöndunum. Þar er það líka almenna reglan að flokkar lýsa því fyrir kosningar hvernig stjórn þeir vilja mynda í kjölfarið. Núverandi ríkisstjórn er líka myndið við óvenjulegar aðstæður. Hún hefur farið vel af stað og engum dylst að henni hefur tekist að skapa sátt og ró og myndun hennar var mikilvægt skref til að endurheimta traust milli þings og þjóðar. Stjórnin nýtur stuðnings Framsóknarflokksins en margir þar á bæ vilja gjarnan líta til samstarfs við núverandi stjórnarflokka að kosningum loknum, þótt skoðanir þar séu ugglaust eitthvað skiptar.
Að mínu mati eiga stjórnarflokkarnir hiklaust að stefna að áframhaldandi stjórnarsamstarfi. Hin rauðgræna ríkisstjórn nýtur almenns velvilja og stuðnings í skoðanakönnunum og engum dylst að þjóðin hefur meiri trú á störfum hennar en fráfarandi stjórnar, þótt sú stjórn hafi stuðst við 2/3 meirihluta þingmanna en núverandi stjórn sé minnihlutastjórn. Það er góð samstaða og traust milli stjórnarflokkanna, bæði almennra þingmanna sem og forystumanna stjórnarinnar. Ríkisstjórnin hefur unnið hörðum höndum að því að koma heimilum og atvinnulífi til aðstoðar eftir efnahagshrunið sem reið yfir landið eftir 18 ára samfellda stjórnarsetu Sjálfstæðisflokksins. Þeim flokki þarf að gefa langt frí frá ríkisstjórnarborðinu. Það tekst aðeins ef núverandi stjórnarflokkar fá aukið og styrkt umboð frá þjóðinni. Besta leiðin er að flokkarnir segi kjósendum það skýrt fyrirfram að þeir stefni hiklaust að rauðgrænni ríkisstjórn að loknum kosningum 25. apríl. Þá vita kjósendur hvaða kosti þeir eiga.
5.3.2009 | 10:09
"Sturlaður" á sál og sinni
Sturla Böðvarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrum forseti Alþingis, skrifar grein í Fréttablaðið í dag og ræðst harkalega að núverandi ríkisstjórn. Sérstaklega finnur hann henni það til foráttu að hún hafi skipt um Seðlabankastjóra, og ekki síst að nýr maður í því starfi um stundarsakir sé Norðmaður.
En það er líka annað í grein Sturlu sem vekur sérstaka athygli. Í grein sinni veitist hann með afar ósmekklegum hætti að Vinstrihreyfingunni - grænu framboði og skrifar m.a.:
Á mínum langa ferli í stjórnmálum hef ég ekki áður orðið vitni að öðrum eins vinnubrögðum og þeim sem Jóhanna og Steingrímur J. viðhafa á öllum sviðum. Og það er vert að minnast þess og rifja upp að þau komust til valda í skjóli ofbeldisfullra aðgerða gegn Alþingi. Aðgerða sem ráðherra Vinstri grænna hefur hreykt sér af að hafa staðið að baki og margir telja að hafi verið skipulagðar í skjóli Vinstri grænna bæði innan þingsins og utan. Það geta ekki verið vinnubrögð sem við viljum innleiða á Íslandi.
Er engu líkara en að fyrrum þingforseti sé að gefa í skyn að minnihlutastjórn Samfylkingar og Vinstri grænna hafi hrifsað til sín völdin með ofbeldi og jafnvel á ólögmætan hátt. Hugarfarið sem ræður þessu skrifum Sturlu ber þess merki að þar fer maður sem getur ekki sætt sig við að hann og flokkur hans sé ekki lengur við völd á Íslandi. Maður sem er heltekinn af þeirri bábylju að Sjálfstæðisflokkurinn einn sé réttborinn til valda.
Sturla Böðvarsson er bersýnilega úr öllum tengslum við þjóðina og má segja að það sé eins gott að maður sem ber ekkert skynbragð á vilja þjóðarinnar sé ekki forseti Alþingis. Hann getur ekki fellt sig við að það hafi verið þjóðin sjálf, með kröftugum mótmælum sínum, hafi komið Sjálfstæðisflokknum úr ríkisstjórn. Hann virðist algerlega samviskulaus yfir því að hann og flokkur hans hafi komið Íslandi í þrot með óstjórn sinni. Enda hefur hvorki hann né formaður Sjálfstæðisflokksins, beðið þjóðina afsökunar á afdrifaríkum mistökum sínum við landsstjórnina. Sturla Böðvarsson er, svo ekki verður um villst, illa haldinn á sál og sinni yfir því að Sjálfstæðisflokkurinn hafi misst völdin, en lætur sér um leið í léttu rúmi liggja þær efnahagslegu og félagslegu hörmungar sem flokkur hans hefur leitt yfir þjóðina. Í stað þess kastar hann óhróðri í aðra flokka sem hann beinlínis sakar um ólýðræðisleg vinnubrögð.
Sturla Böðvarsson á að skammast sín og biðjast afsökunar á skrifum sínum.