15.2.2007 | 11:09
Tillaga VG um loftslagsráð í Reykjavík áfram til umræðu
Á fundi borgarráðs fyrir viku síðan lögðu fulltrúar Vinstri grænna til að stofnað yrði loftslagsráð í Reykjavík til að bregðast við upplýsingum í nýrri skýrslu um loftslagsmál. Lagt var til að metnar yrðu og endurskoðaðar áætlanir borgarinnar í skipulags-, umhverfis- og samgöngumálum í þessu skyni.
Borgarráð samþykkti á fundi sínum í dag að vísa tillögunni til frekari vinnslu í umhverfisráði. Þar með er ljóst að tillagan mun fá efnislega umfjöllun á þeim vettvangi. Við Vinstri græn eru ánægð með þessa málsmeðferð því það er mikilvægt að taka á loftslagsmálunum og loftgæðum í borginni. Umræða undanfarnar vikur styður það að tekið sé á þessum málum. Vonandi tekst góð samstaða á vettvangi borgarstjórnar, meiri- og minnihluta, til að taka þær viðvaranir sem loftslagsskýrslan sannarlega er alvarlega.
Tilgangur okkar Vinstri grænna með tillögunni er einmitt að vekja máls á þessu viðfangsefni og hvetja til þess að tekið sé á því með afgerandi hætti.
Tillöguna í heild ásamt greinargerð má lesa hér.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.