Það er verk að vinna - en kyrrstöðustjórnin heykist við

Þær miklu hræringar sem verið hafa í hagkerfinu undanfarna daga og vikur valda eðlilega miklum áhyggjum. Hagsmunir fjölskyldna og fyrirtækja eru í húfi og því mikilvægt að þokkalega takist að sigla þjóðarskútunni í gegnum þá brimöldu sem nú ríður yfir. Því má segja að aðgerðarleysi stjórnvalda sé enn meira áhyggjuefni en staðan sjálf, það er eins og ekkert fái vakið ríkisstjórnina af sínum væra blundi – eða getur verið að það sé ef til vill frekar úrræða- og ráðaleysi sem veldur værukærð stjórnarherranna?

Umbrotin í efnahagslífinu eru vafalaust með þeim mestu og kannski þau mestu sem við höfum upplifað. Bendir margt til þess að áhrifin og afleiðingarnar verði jafnvel enn alvarlegri en okkur býður í grun í dag og kreppan geti orðið bæði djúp og langvinn. Enda þótt núverandi ástand sé ekki einangrað við Ísland er ekki þar með sagt að hérlend stjórnvöld eigi ekki að hafast neitt að.

Röð hagstjórnarmistaka
Hagstjórnin undanfarin ár hefur að mörgu leyti verið saga mistaka þar sem pólitískar kreddur og kennisetningar hafa ráðið för en ekki faglegar efnahagslegar forsendur. Nægir þar að nefna ákvarðanir stjórnvalda að því er varðar fasteignalán og skattalækkanir. Hækkað lánshlutfall fasteignalána átti ríkan þátt í stóraukinni eftirspurn og þar með hækkuðu fasteignaverði með tilheyrandi þensluáhrifum. Ennfremur voru skattalækkanir vanhugsaðar og tímasetningar þeirra algerlega fráleitar í miðri uppsveiflu en þær juku innlenda eftirspurn og þrýstu á verðlag með alkunnum afleiðingum. Engar ráðstafanir voru gerðar til að auka sparnað í hagkerfinu, sem sannarlega er þörf á enda sparnaður hér á landi hlutfallslega lítill og í raun alltof lítill. Þá kynti gegndarlaus áhersla á stóriðjuframkvæmdir undir verðbólgubálið, hafði mikil ruðningsáhrif í hagkerfinu og kom í raun í veg fyrir fjárfestingu í mörgum öðrum greinum.

Vissulega geta stjórnmálamenn og –flokkar tekist á um markmið og leiðir, m.a. í efnahagsmálum, en varla getur það talist skynsamlegt af stjórnvöldum að magna efnahagssveiflur eins og hagstjórn undanfarinna ára hefur gert. Hitt væri miklu viturlegra að hið opinbera leitaðist við að jafna út hagsveiflur og áhrif þeirra á afkomu fólks og fyrirtækja. Í því efni gilda ákveðin grundvallarlögmál hagfræðinnar og þau spyrja ekki að því hvaða pólitíski litur er á ríkisstjórn hvers tíma. Ríkisstjórnum undanfarinna ára hefur einfaldlega mistekist við hagstjórnina og því miður sýnist engin breyting í vændum þótt skipt hafi verið um hálfa áhöfn á stjórnarfleyinu – enda ennþá sami kall í brúnni.

Hlutverk Seðlabankans
Mikið er talað um hlutverk og stöðu Seðlabankans og hvort hann hafi staðið sig sem skyldi við stjórn peningamála. Um það má vafalaust margt segja. Seðlabankinn og ríkisstjórnin hafa gert með sér samkomulag um verðbólgumarkmið og stjórn peningamála (mars 2001) og eftir því sem best er vitað hefur því samkomulagi ekki verið breytt. Þar er kveðið á um 2,5% verðbólgumarkmið og að Seðlabankinn noti stjórntæki sín til að tryggja það markmið. Vaxtaákvarðanir Seðlabankans hafa vissulega miðast við að reyna að ná tilsettum árangri en ef til vill má segja að þær hafi komið fyrir lítið þegar hagstjórnin að öðru leyti hefur togað í gagnstæða átt. Niðurstaðan er engu að síður að Seðlabankanum hefur mistekist að vera í námunda við verðbólgumarkmiðin og vafalítið má gagnrýna hann fyrir það. Til dæmis að hann hafi ekki nýtt önnur stýritæki en vextina nægilega til að hafa áhrif á peningamagn í umferð, s.s. bindiskyldu og lausafjárskyldu ásamt reglum um svokölluð endurhverf viðskipti. Þær reglur sem Seðlabankinn setur í þessum efnum geta haft veruleg áhrif á starfsemi fjármálastofnana, ýmist til að draga úr útlánum þeirra, eða jafnvel til að laga lausafjárstöðu þeirra eins og nú þyrfti að gera.

            Þau sjónarmið hafa heyrst að Seðlabankinn ætti að víkja frá verðbólgumarkmiði sínu, a.m.k. tímabundið, og leggja nú meira kapp á að ná niður vöxtum sem eru svimandi háir hér á landi. Aðrir telja að slíkt yrði skammgóður vermir því jafnvel þótt vextir færu niður myndi verðbólgan þá fara á mikið flug og þannig eyðileggja ávinning af vaxtalækkun og jafnvel meira en það. Þessar vangaveltur eru eðlilegar og engin ástæða til þess að ýta þeim umræðulaust út af borðinu enda liggur fyrir að vaxtastefna bankans hefur ekki náð að halda verðbólgunni niðri og hið háa vaxtastig og vaxandi verðbólga koma að sjálfsögðu afar illa við heimilin og fyrirtækin í landinu. (Hér mætti að sjálfsögðu líka bæta inn umræðu um verðtryggingu sem að mínu mati ætti að heyra sögunni til fyrir löngu, enda hefur hún slævandi áhrif á rökrétta hegðun á fjármálamarkaði). Hitt er áreiðanlega einnig rétt að það gæti verið afar áhættusamt að hverfa frá verðbólgumarkmiðum ef vaxtalækkun myndi síðan ekki skila þeim jákvæða ávinningi sem stefnt væri að með slíkum ráðstöfunum. Til lengdar er þó varla um það deilt að hið geysiháa vaxtastig getur ekki gengið til lengdar í okkar litla og galopna hagkerfi og innlendur gjaldmiðill mun ekki standast þá raun. Það er síðan sjálfstæð spurning hvort við teljum hagsmunum okkar best borgið með því að ganga í myntsamstarf við stærri efnahagsheild og ef svo væri, þá hverja. Í því efni geta fleiri kostir verið í boði ef vel er að gáð.

Atvinnuhorfur
Sú alvarlega staða sem við blasir í efnahagslífinu er þegar tekin að hafa áhrif á atvinnumarkaði og á næstu vikum og mánuðum munum við því miður sjá enn alvarlegri þróun þar en við höfum um langt skeið upplifað, Íslendingar. Atvinnuleysi hefur í raun ekki mælst svo nokkru nemi hér síðan um miðjan tíunda áratuginn og þar áður þarf sennilega að fara aftur á sjöunda áratuginn. Líklegt er að stjórnvöld muni enn og aftur freistast til að benda á hálfgerðar patentlausnir til að spýta svolítið inn í efnahagslífið og verða væntanleg ný álver efst á ósklista ríkisstjórnarinnar. Fátt bendir til að menn læri neitt af reynslunni í því efni og ljóst að forystuflokkur ríkisstjórnarinnar á engin önnur ráð eins og dæmin sanna. Á sama tíma er hætt við að fjármálastofnanir neyðist til að fækka fólki verulega en einmitt í þeim geira hefur orðið hvað mestur vöxtur á undanförnum árum og varla nokkur atvinnugrein sem skilar þjóðarbúinu meiri skatttekjum en einmitt fjármálastarfsemin. Hún nýtir vel menntað vinnuafl, hentar báðum kynjum jafnt, störfin eru ekki bundin tilteknum fáum staðsetningum og hún krefst ekki umhverfisfórna. Það er því frá mínum bæjardyrum séð öll rök til þess að búa þeirri starfsemi ákjósanlega ramma og miklu nær að líta til hennar heldur en gegndarlausrar stóriðjuuppbyggingar.

            Um leið verður að leggja aukið fjármagn í hvers konar nýsköpun og þróun í anda sjálfbærrar atvinnustefnu, þar sem umhverfis- og náttúruvernd er í fyrirrúmi og nýting auðlinda er sjálfbær, hlúa er að þekkingu og menntun, rannsóknum og vísindum, vinna markvisst að því að draga úr orkusóun og innlendir orkugjafar beislaðir á ábyrgan hátt í þeim tilgangi að vistvæn orka geti leyst innflutt jarðefnaeldsneyti af hólmi, vaxtartækifærin í ferðaþjónustu þarf að nýta, styðja verður við bakið á frumkvöðlastarfsemi hvers konar og nýta þann kraft og auð sem býr í menningu og listum. Öflug samfélagsleg þjónusta og uppbygging, m.a. á heilbrigðissviði og í samgöngum, er einnig mikilvæg til að styrkja stoðir efnahags- og atvinnulífsins og tryggja farsæla þróun samfélagsins á 21. öldinni.

Það er verk að vinna
Víst er af mörgu að taka og á mörgu þarf að taka sannarlega. Það sem er hvað mikilvægast nú til skamms tíma litið er að koma böndum á verðbólguna og vextina en þetta tvennt veldur miklu um afkomu heimila og fyrirtækja, þar með talið í atvinnumálum. Þar að auki er viðskiptahallinn enn mjög mikill og hreinar erlendar skuldir þjóðarbúsins sömuleiðis og allt kallar þetta á markvissar aðgerðir stjórnvalda. Veruleg styrking á gjaldeyrisvaraforða Seðlabankans mynda ugglaust laga stöðu krónunnar og draga úr gengissveiflum og vera um leið lóð á vogarskál aukins sparnaðar. Samstarf við grannþjóðir okkar í gjaldmiðilsmálum gæti einnig verið athugunarverður kostur en er vissulega engin skammtímaleið og óljóst hvort slíkt er í raun gerlegt nema í gegnum aðild að Evrópusambandinu. Þá tel ég brýnt að efla sveitarstjórnarstigið í landinu, m.a. með fleiri verkefnum og stórauknum tekjustofnum til að styrkja innviði samfélaganna vítt og breitt um landið og stuðla að jafnri staðbundinni uppbyggingu í atvinnumálum, menntamálum og samgöngumálum svo fátt eitt sé nefnt.

            Það er sannarlega verk að vinna í landsstjórninni. Sú ládeyða og kyrrstaða sem hefur einkennt stjórnarstefnu undanfarinna ára er þegar farin að valda samfélaginu miklu tjóni. Þau öfl sem raunverulega vilja félagslegan jöfnuð, lýðræði, jafnræði og gegnsæ vinnubrögð í opinberri stjórnsýslu, nýsköpun og nýja sýn og hugsun í efnahags- og atvinnulífi og í stjórnmálunum almennt, heima og heiman, eiga að taka höndum saman og knýja fram þær aðgerðir og breytingar sem eru svo nauðsynlegar. Vilji er allt sem þarf.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband