Breytum í þágu umhverfisins

 

Nýlega kom út skýrsla ásamttillögum starfshóps sem hefur undanfarin misseri fjallað um skattlagningu bifreiða og eldsneytis. Markmið vinnunnar hefur verið að hvetja til notkunar ökutækja sem menga lítið. Losun gróðurhúsalofttegunda frá samgöngum er afar mikil hér á landi og því ekki seinna vænna að fara að auka hlutdeild ökutækja sem menga lítið eða jafnvel ekkert og draga þá um leið úr fjölda hinna, sem eru eldsneytishákar og spúa mikilli mengun út í andrúmsloftið.

Það kostar að menga
Tillögur starfshópsins ganga út á að ríkið verðleggi fyrst og fremst losun gróðurhúsalofttegunda en ekki þyngd ökutækja eins og nú er. Þannig yrði bifreiðagjöldum og vörugjöldum breytt og einnig komið á sérstökum kolefnisskatti. Við það er miðað að heildartekjur ríkissjóðs af ökutækjum og notkun þeirra verði óbreytt en ljóst að svona breytingar þýða talsverðan tilflutning á gjöldum, af sparneytnum visthæfum bílum yfir á eyðslufreka bíla. Þessi meginstefna er að sjálfsögðu mjög jákvæð og löngu tímabær. Vissulega er fjölmörgum spurningum ósvarað, eins og t.d. hvort þyngd ökutækja (óháð orkugjafa) eigi ekki drjúgan þátt í að slíta götum og vegum og þannig valda svifryki sem er önnur gerð mengunar, en það er þáttur sem nauðsynlegt er að skoða í framhaldinu.

Nýir orkugjafar nauðsynlegir
Í umræðunni nú hafa ýmsir bent á að tímasetning tillagna starfshópsins sé óheppileg þegar verð á jarðefnaeldsneyti (olíu og bensíni) er jafn hátt og raun ber vitni. Ég er ósammála þessu viðhorfi. Það er kannski einmitt á þessum tímum sem við verðum að taka áskoruninni, horfa fram á veg og til langrar framtíðar og leita allra leiða til að mæta hinu háa orkuverði með öðrum og nýjum orkugjöfum í samgöngum. Það hlýtur að vera eftirsóknarvert að geta í auknum mæli notað innlenda orkugjafa í stað innflutts jarðefnaeldsneytis, það er bæði umhverfisleg og efnahagsleg nauðsyn. Ef við notum ekki tækifærið nú, þegar kvartað er undan háu orkuverði, er afar ólíklegt að það gangi vel að koma á breytingum þegar betur árar og fæstir láta hátt orkuverð aftra sér frá að nota bensínhákana ótæpilega. Flestir eru þeirrar skoðunar að hið háa eldsneytisverð sé komið til að vera um allnokkra framtíð og það er af þeim sökum brýnt að grípa nú til ráðstafana til að breyta samsetningu bílaflota landsmanna, bæði til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og um leið draga úr kostnaði heimila og fyrirtækja við rekstur bifreiða.

Stórefla þarf almenningssamgöngur
Á sama tíma á ríkisvaldið að sjálfsögðu að leggja sitt af mörkum til að stórefla almenningssamgöngur, einkum í þéttbýli þar sem mengunin er tiltölulega mest. Hluti af tekjum ríkissjóðs af almennri umferð og bifreiðaeign á að sjálfsögðu að fara í að byggja upp traustar og öflugar almenningssamgöngur, þær eru jú mikilvægur hlekkur í samgöngukerfinu öllu og gildi þeirra mun aðeins aukast á komandi árum. Bæði hlutur almenningssamgangna og jöfnun flutningskostnaðar um landið eru til skoðunar hjá stjórnvöldum og eiga að vera hluti af þessum pakka um skattlagningu ökutækja og eldsneytis, til að tryggja að breytingarnar komi ekki verr við landsbyggðina en suðvesturhornið. Á það er síst bætandi.
Það er í sjálfu sér skiljanlegt að margir vilji velja einföldustu leiðina í þeirri stöðu sem við erum nú, þ.e. að lækka opinber gjöld af innfluttu eldsneyti. Sú leið er líka auðveldust fyrir stjórnmálamenn og jafnvel líkleg til að afla þeim tímabundinna vinsælda. Hún horfir hins vegar ekki til framtíðar og hagsmuna komandi kynslóða. Það þarf að vinda bráðan bug að því að flytja gjöld ríkisins af sparneytnum og visthæfum bílum yfir á þá sem menga mikið og eyða miklu eldsneyti. Til lengri tíma litið mun ekki einungis umhverfið heldur heimilin í landinu njóta góðs af breyttri og nútímalegri samsetningu bílaflota landsmanna og stórefldum almenningssamgöngum. Til þess að svo megi verða þarf hins vegar pólitískt þrek og framtíðarsýn.

(Greinin birtist áður í Morgunblaðinu)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband