26.2.2009 | 23:18
Forval Vinstri grænna í Reykjavík - 7. mars
ÁRNI ÞÓR SIGURÐSSON
2. SÆTI
Árni Þór Sigurðsson er alþingismaður og skipaði 2. sæti í Reykjavíkurkjördæmi norður í þingkosningunum 2007. Árni Þór er fæddur í Reykjavík 30. júlí 1960, er kvæntur Sigurbjörgu Þorsteinsdóttur ónæmisfræðingi og börn þeirra eru þrjú: Sigurður Kári, Arnbjörg Soffía og Ragnar Auðun.
Árni Þór lauk prófi í hagfræði og rússnesku frá Oslóarháskóla og stundaði framhaldsnám í Stokkhólmi og Moskvu. Árni var fréttamaður hjá RÚV og Þjóðviljanum og starfaði í samgönguráðuneytinu og hjá Kennarasambandinu. Hann var borgarfulltrúi í Reykjavík 1994-2007. Í borgarstjórn vann hann m.a. að leikskólamálum, umhverfis- og samgöngumálum og skipulags- og hafnarmálum og var forseti borgarstjórnar. Hann sat í stjórn Sambands sveitarfélaga og var fulltrúi þess á Evrópuráðsþinginu í Strasbourg 2003-2007. Á Alþingi hefur Árni Þór einkum beitt sér í umhverfismálum, samgöngu- og sveitarstjórnarmálum og málefnum heimila og atvinnulífs. Hann er nú formaður utanríkismálanefndar. Árni Þór er félagi í Heimssýn, Samtökum hernaðarandstæðinga og Amnesty International.
Meginverkefni á komandi misserum verður að reisa íslenskt samfélag úr rústum nýfrjálshyggjunnar og skjóta undir það nýjum lýðræðisstoðum. Ennfremur þarf að endurheimta traust milli þjóðarinnar og stjórnmálanna, sem og orðstír Íslands. Árni Þór telur brýnt að tryggja fjárhagslegt öryggi heimila og atvinnulífs og treysta undirstöður velferðar og menntunar. Hann vill sérstaklega beita sér fyrir kjarajöfnun, kynjajafnrétti og lýðræðislegum stjórnarháttum. Forsenda þess að það takist að skapa nýtt og betra samfélag sem standi traustum fótum er að endurmótunin byggi á stefnu Vinstri grænna um samstöðu, jöfnuð og félagslegt réttlæti, kvenfrelsi og umhverfisvernd.
(Úr frambjóðendabæklingi VG í Reykjavík vegna forvalsins 7. mars: http://www.vg.is/media/kosningar/2009/forvalsbaekl_RVK_net.pdf)
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.