Þið munið hann Jörund

Ætla að fara í kvöld að sjá leikritið "Þið munið hann Jörund" í Logalandi í Reykholtsdal í uppfærslu Ungmennafélags Reykdæla. Félagið heldur upp á 100 ára afmæli sitt um þessar mundir. Mun bæta inn í þessa færslu þegar ég kem af sýningunni.*

*Bráðskemmtileg og vel uppfærð sýning hjá Ungmennafélagi Reykdæla undir leikstjórn Reykdælingsins Guðmundar Inga Þorvaldssonar. Að öllum ólöstuðum fannst mér Sigurður Halldórsson í hlutverki Stúdíósusar skila sína hvað best og svo verð ég að segja að Jón Pétursson í hlutverki Charlie Brown var einnig afar skemmtilegur. Margir ungir þátttakendur, sumir hverjir enn í grunnskóla, skiluðu einnig sínu mjög vel og má þar nefna Loga Sigurðsson, Þorstein Þórarinsson og Helga Axel Davíðsson. Arnoddur Magnús Danks í hlutverki Jörundar lék skemmtilega en hefði mátt hafa sterkari og öruggari söngrödd. Loks má nefna tríóið ómissandi, þau Hildi Jósteinsdóttur, Þorvald Jónsson go Jón Guðbrandsson sem áttu stórgóðan leik og söng.

Sem sagt, mjög góð skemmtun og er full ástæða til að óska þeim Reykdælum til hamingju með aldarafmælið og góða sýningu. 


Danskir fjölmiðlar ala á kynþáttafordómum

Hið hörmulega morð á ungum blaðburðardreng í Kaupmannahöfn vekur viðbjóð. Þrír ungir piltar, danskir í húð og hár ef marka má fréttir, ráðast að 16 ára gömlum dreng af tyrknesku bergi og berja hann til ólífis í fullkomnu tilgangsleysi.

Svo láta menn eins og helsta ógnin stafi af öfgafullum íslamistum. Danskir fjölmiðlar hella olíu á eld með því að ögra múslímum með tilgangslausum spaugmyndum af trúartákni þeirra. En gæta þess ekki að um leið kynda þeir undir ólgu meðal kynþáttaöfgamanna í röðum þeirra sjálfra í garð fólks með annan bakgrunn. Ábyrgð þeirra er mikil og misskilin barátta þeirra fyrir "prentfrelsi" getur hæglega tekið sinn toll.

Svo hefur verið vakin athygli á því hér í athugasemdum við þessa frétt að danskir fjölmiðlar hafi ekki getið þess sérstaklega að árásarmennirnir væru danskir en kynþáttar sé hins vegar oftast getið þegar ofbeldismenn eru innflytjendur. Með framgöngu sinni ala danskir fjölmiðlar á kynþáttaformdómum sem hæglega geta leitt til vaxandi ofbeldis. Það er víti til að varast.


mbl.is Blaðburðardrengur myrtur í Kaupmannahöfn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Prýðilegir fundir í Borgarnesi

Í gær, miðvikudag, átti ég ágæta fundi í Borgarnesi, annars vegar með fulltrúum sveitarstjórnarinnar og hins vegar var ég gestur á aðalfundi Vinstri grænna í Borgarbyggð. Á báðum fundunum var talsvert rætt um samgöngumál og bersýnilegt að þau liggja þungt á Borgfirðingum.

Það er mikilvægt fyrir okkur þingmenn að eiga kost á að hitta fólk vítt og breitt um landið og ræða helstu hagsmunamál og það sem efst er á baugi.  Á fundinum með sveitarstjórnarfólki ræddi ég aðallega sveitarstjórnarmál, tekju- og verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, samgöngumál og landbúnaðarmál, auk stöðunnar í efnahagsmálum.

Um kvöldið var haldinn aðalfundur VG í Borgarbyggð. Guðbrandur Brynjólfsson, Hildur Traustadóttir og Vigdís Kristjánsdóttir gengu öll úr stjórn félagsins og í þeirra stað komu Björg Gunnarsdóttir, Börkur Hrafn Nóason og Finnbogi Rögnvaldsson en sá síðastnefndi er jafnframt formaður byggðaráðs í Borgarbyggð og oddviti Borgarbyggðarlistans. Ég flutti ræðu á fundinum og fjallaði um efnahagsmálin, stöðuna þar og tillögur okkar Vinstri grænna í þeim málum. Ennfremur bar Evrópumálin talsvert á góma, ekki síst gjaldmiðilsmálin og urðu fjörugar umræður um þau. Samgöngumál voru fundarmönnum hugleikin og ljóst að mikið er óunnin í þeim efnum í héraðinu. Þá var rætt um landbúnaðarmál og áhyggjur manna af því að ræktanlegt land væri í síauknum mæli að fara úr landbúnaðarnotkun en það hlýtur að vera þjóðinni allri áhyggjuefni vegna matvælaframleiðslunnar til lengri tíma litið. Sannarlega er tilefni til að huga að þeim málum sérstaklega.

Nýlega var ég ræðumaður á íbúafundi VG í Hlíðahverfi í Reykjavík og ræddi þar einkum samgöngumálin. Ég hygg að það sé brýnt fyrir okkur þingmenn að hlusta eftir ólíkum sjónarmiðum og skiptast á skoðunum, ekki bara í okkar eigin kjördæmum heldur einmitt um allt land. Hef ég einsett mér að gera sem allra mest af því á kjörtímabilinu. 

 


Laisser-faire stefnan áfram við lýði

Afskiptaleysisstefna Sjálfstæðisflokksins kemur engum á óvart, en að Samfylkingin skuli sýna slíkt ábyrgðarleysi veldur vonbrigðum. Ef ekki er þörf á ráðstöfunum við þær aðstæður sem nú eru má spyrja hvort það sé þá nokkurn tímann? Ríkisstjórnin ætlar að láta reka á reiðanum, láta heimilin og fjölskyldurnar bera þungar byrðar vegna geysihárra vaxta og verðbólgu sem fallandi gengi mun svo enn kynda undir. Og við sjónarrönd glittir í að forsendur nýgerðra kjarasamninga bresti. Við þær aðstæður telur forsætisráðherra og áhöfn hans réttast að gera ekki neitt. Ríkisstjórnin veldur ekki hlutverki sýnu, hún er ekki vandanum vaxin og ætti því að koma sér sem fyrst úr brúnni á þjóðarskútunni. Því fyrr því betra.
mbl.is Engar aðgerðir fyrirhugaðar vegna gengisfalls krónu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það er verk að vinna - en kyrrstöðustjórnin heykist við

Þær miklu hræringar sem verið hafa í hagkerfinu undanfarna daga og vikur valda eðlilega miklum áhyggjum. Hagsmunir fjölskyldna og fyrirtækja eru í húfi og því mikilvægt að þokkalega takist að sigla þjóðarskútunni í gegnum þá brimöldu sem nú ríður yfir. Því má segja að aðgerðarleysi stjórnvalda sé enn meira áhyggjuefni en staðan sjálf, það er eins og ekkert fái vakið ríkisstjórnina af sínum væra blundi – eða getur verið að það sé ef til vill frekar úrræða- og ráðaleysi sem veldur værukærð stjórnarherranna?

Umbrotin í efnahagslífinu eru vafalaust með þeim mestu og kannski þau mestu sem við höfum upplifað. Bendir margt til þess að áhrifin og afleiðingarnar verði jafnvel enn alvarlegri en okkur býður í grun í dag og kreppan geti orðið bæði djúp og langvinn. Enda þótt núverandi ástand sé ekki einangrað við Ísland er ekki þar með sagt að hérlend stjórnvöld eigi ekki að hafast neitt að.

Röð hagstjórnarmistaka
Hagstjórnin undanfarin ár hefur að mörgu leyti verið saga mistaka þar sem pólitískar kreddur og kennisetningar hafa ráðið för en ekki faglegar efnahagslegar forsendur. Nægir þar að nefna ákvarðanir stjórnvalda að því er varðar fasteignalán og skattalækkanir. Hækkað lánshlutfall fasteignalána átti ríkan þátt í stóraukinni eftirspurn og þar með hækkuðu fasteignaverði með tilheyrandi þensluáhrifum. Ennfremur voru skattalækkanir vanhugsaðar og tímasetningar þeirra algerlega fráleitar í miðri uppsveiflu en þær juku innlenda eftirspurn og þrýstu á verðlag með alkunnum afleiðingum. Engar ráðstafanir voru gerðar til að auka sparnað í hagkerfinu, sem sannarlega er þörf á enda sparnaður hér á landi hlutfallslega lítill og í raun alltof lítill. Þá kynti gegndarlaus áhersla á stóriðjuframkvæmdir undir verðbólgubálið, hafði mikil ruðningsáhrif í hagkerfinu og kom í raun í veg fyrir fjárfestingu í mörgum öðrum greinum.

Vissulega geta stjórnmálamenn og –flokkar tekist á um markmið og leiðir, m.a. í efnahagsmálum, en varla getur það talist skynsamlegt af stjórnvöldum að magna efnahagssveiflur eins og hagstjórn undanfarinna ára hefur gert. Hitt væri miklu viturlegra að hið opinbera leitaðist við að jafna út hagsveiflur og áhrif þeirra á afkomu fólks og fyrirtækja. Í því efni gilda ákveðin grundvallarlögmál hagfræðinnar og þau spyrja ekki að því hvaða pólitíski litur er á ríkisstjórn hvers tíma. Ríkisstjórnum undanfarinna ára hefur einfaldlega mistekist við hagstjórnina og því miður sýnist engin breyting í vændum þótt skipt hafi verið um hálfa áhöfn á stjórnarfleyinu – enda ennþá sami kall í brúnni.

Hlutverk Seðlabankans
Mikið er talað um hlutverk og stöðu Seðlabankans og hvort hann hafi staðið sig sem skyldi við stjórn peningamála. Um það má vafalaust margt segja. Seðlabankinn og ríkisstjórnin hafa gert með sér samkomulag um verðbólgumarkmið og stjórn peningamála (mars 2001) og eftir því sem best er vitað hefur því samkomulagi ekki verið breytt. Þar er kveðið á um 2,5% verðbólgumarkmið og að Seðlabankinn noti stjórntæki sín til að tryggja það markmið. Vaxtaákvarðanir Seðlabankans hafa vissulega miðast við að reyna að ná tilsettum árangri en ef til vill má segja að þær hafi komið fyrir lítið þegar hagstjórnin að öðru leyti hefur togað í gagnstæða átt. Niðurstaðan er engu að síður að Seðlabankanum hefur mistekist að vera í námunda við verðbólgumarkmiðin og vafalítið má gagnrýna hann fyrir það. Til dæmis að hann hafi ekki nýtt önnur stýritæki en vextina nægilega til að hafa áhrif á peningamagn í umferð, s.s. bindiskyldu og lausafjárskyldu ásamt reglum um svokölluð endurhverf viðskipti. Þær reglur sem Seðlabankinn setur í þessum efnum geta haft veruleg áhrif á starfsemi fjármálastofnana, ýmist til að draga úr útlánum þeirra, eða jafnvel til að laga lausafjárstöðu þeirra eins og nú þyrfti að gera.

            Þau sjónarmið hafa heyrst að Seðlabankinn ætti að víkja frá verðbólgumarkmiði sínu, a.m.k. tímabundið, og leggja nú meira kapp á að ná niður vöxtum sem eru svimandi háir hér á landi. Aðrir telja að slíkt yrði skammgóður vermir því jafnvel þótt vextir færu niður myndi verðbólgan þá fara á mikið flug og þannig eyðileggja ávinning af vaxtalækkun og jafnvel meira en það. Þessar vangaveltur eru eðlilegar og engin ástæða til þess að ýta þeim umræðulaust út af borðinu enda liggur fyrir að vaxtastefna bankans hefur ekki náð að halda verðbólgunni niðri og hið háa vaxtastig og vaxandi verðbólga koma að sjálfsögðu afar illa við heimilin og fyrirtækin í landinu. (Hér mætti að sjálfsögðu líka bæta inn umræðu um verðtryggingu sem að mínu mati ætti að heyra sögunni til fyrir löngu, enda hefur hún slævandi áhrif á rökrétta hegðun á fjármálamarkaði). Hitt er áreiðanlega einnig rétt að það gæti verið afar áhættusamt að hverfa frá verðbólgumarkmiðum ef vaxtalækkun myndi síðan ekki skila þeim jákvæða ávinningi sem stefnt væri að með slíkum ráðstöfunum. Til lengdar er þó varla um það deilt að hið geysiháa vaxtastig getur ekki gengið til lengdar í okkar litla og galopna hagkerfi og innlendur gjaldmiðill mun ekki standast þá raun. Það er síðan sjálfstæð spurning hvort við teljum hagsmunum okkar best borgið með því að ganga í myntsamstarf við stærri efnahagsheild og ef svo væri, þá hverja. Í því efni geta fleiri kostir verið í boði ef vel er að gáð.

Atvinnuhorfur
Sú alvarlega staða sem við blasir í efnahagslífinu er þegar tekin að hafa áhrif á atvinnumarkaði og á næstu vikum og mánuðum munum við því miður sjá enn alvarlegri þróun þar en við höfum um langt skeið upplifað, Íslendingar. Atvinnuleysi hefur í raun ekki mælst svo nokkru nemi hér síðan um miðjan tíunda áratuginn og þar áður þarf sennilega að fara aftur á sjöunda áratuginn. Líklegt er að stjórnvöld muni enn og aftur freistast til að benda á hálfgerðar patentlausnir til að spýta svolítið inn í efnahagslífið og verða væntanleg ný álver efst á ósklista ríkisstjórnarinnar. Fátt bendir til að menn læri neitt af reynslunni í því efni og ljóst að forystuflokkur ríkisstjórnarinnar á engin önnur ráð eins og dæmin sanna. Á sama tíma er hætt við að fjármálastofnanir neyðist til að fækka fólki verulega en einmitt í þeim geira hefur orðið hvað mestur vöxtur á undanförnum árum og varla nokkur atvinnugrein sem skilar þjóðarbúinu meiri skatttekjum en einmitt fjármálastarfsemin. Hún nýtir vel menntað vinnuafl, hentar báðum kynjum jafnt, störfin eru ekki bundin tilteknum fáum staðsetningum og hún krefst ekki umhverfisfórna. Það er því frá mínum bæjardyrum séð öll rök til þess að búa þeirri starfsemi ákjósanlega ramma og miklu nær að líta til hennar heldur en gegndarlausrar stóriðjuuppbyggingar.

            Um leið verður að leggja aukið fjármagn í hvers konar nýsköpun og þróun í anda sjálfbærrar atvinnustefnu, þar sem umhverfis- og náttúruvernd er í fyrirrúmi og nýting auðlinda er sjálfbær, hlúa er að þekkingu og menntun, rannsóknum og vísindum, vinna markvisst að því að draga úr orkusóun og innlendir orkugjafar beislaðir á ábyrgan hátt í þeim tilgangi að vistvæn orka geti leyst innflutt jarðefnaeldsneyti af hólmi, vaxtartækifærin í ferðaþjónustu þarf að nýta, styðja verður við bakið á frumkvöðlastarfsemi hvers konar og nýta þann kraft og auð sem býr í menningu og listum. Öflug samfélagsleg þjónusta og uppbygging, m.a. á heilbrigðissviði og í samgöngum, er einnig mikilvæg til að styrkja stoðir efnahags- og atvinnulífsins og tryggja farsæla þróun samfélagsins á 21. öldinni.

Það er verk að vinna
Víst er af mörgu að taka og á mörgu þarf að taka sannarlega. Það sem er hvað mikilvægast nú til skamms tíma litið er að koma böndum á verðbólguna og vextina en þetta tvennt veldur miklu um afkomu heimila og fyrirtækja, þar með talið í atvinnumálum. Þar að auki er viðskiptahallinn enn mjög mikill og hreinar erlendar skuldir þjóðarbúsins sömuleiðis og allt kallar þetta á markvissar aðgerðir stjórnvalda. Veruleg styrking á gjaldeyrisvaraforða Seðlabankans mynda ugglaust laga stöðu krónunnar og draga úr gengissveiflum og vera um leið lóð á vogarskál aukins sparnaðar. Samstarf við grannþjóðir okkar í gjaldmiðilsmálum gæti einnig verið athugunarverður kostur en er vissulega engin skammtímaleið og óljóst hvort slíkt er í raun gerlegt nema í gegnum aðild að Evrópusambandinu. Þá tel ég brýnt að efla sveitarstjórnarstigið í landinu, m.a. með fleiri verkefnum og stórauknum tekjustofnum til að styrkja innviði samfélaganna vítt og breitt um landið og stuðla að jafnri staðbundinni uppbyggingu í atvinnumálum, menntamálum og samgöngumálum svo fátt eitt sé nefnt.

            Það er sannarlega verk að vinna í landsstjórninni. Sú ládeyða og kyrrstaða sem hefur einkennt stjórnarstefnu undanfarinna ára er þegar farin að valda samfélaginu miklu tjóni. Þau öfl sem raunverulega vilja félagslegan jöfnuð, lýðræði, jafnræði og gegnsæ vinnubrögð í opinberri stjórnsýslu, nýsköpun og nýja sýn og hugsun í efnahags- og atvinnulífi og í stjórnmálunum almennt, heima og heiman, eiga að taka höndum saman og knýja fram þær aðgerðir og breytingar sem eru svo nauðsynlegar. Vilji er allt sem þarf.


Heimsókn í Borgarfjörðinn

Á miðvikudaginn kemur verð ég gestur á Aðalfundi Vinstri grænna í Borgarbyggð.  Fundurinn verður haldinn í Hyrnunni í Borgarnesi og hefst kl. 20.00.  Það er mér sérstök ánægja að Borgfirðingar hafi boðið mér að koma og ræða um stjórnmálin, enda af mörgu að taka um þessar mundir: efnahagsmál, samgöngumál, heilbrigðismál, umhverfismál o.fl.

Héraðsblaðið Skessuhorn greinir frá fundinum í dag og má lesa frétt um málið hér.  Að fundinum loknum mun ég svo halda með fjölskyldu minni í sveitasæluna í Reykholtsdalnum þar sem við eigum gott athvarf úr önnum hversdagsins.


Batnandi fólki er best að lifa.... - eða þannig sko!

Nú nokkrum vikum eftir að ég lagði fram tillögu um þetta efni á Alþingi, með stuðningi þingmanna úr öllum flokkum, taka borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins við sér og leggja hið sama til í borgarstjórn.  Reyndar lögðu minnihlutaflokkarnir í borgarstjórn líka fram sambærilega tillögu í kjölfar þingsályktunartillögu minnar og var henni vísað til umsagnar umhverfis- og samgönguráðs Reykjavíkur.  Virðist sem tillaga Sjálfstæðismanna nú sé úrvinnsla á tillögu minnihlutans.

Svo gerist það að borgarstjórinn í Reykjavík, Ólafur F. Magnússon, lætur fresta afgreiðslu tillögu meirihlutans, rétt eins og hann sé ekki hluti hans eða að hann hafi ekki verið hafður með í ráðum.  Er því jafnvel haldið fram að borgarstjórinn telji ekki að einhvers konar lestarsamgöngur séu hagkvæmur kostur í samgöngumálum Reykvíkinga.  Hvað er nú orðið af umhverfissinnanum Ólafi F. Magnússyni sem gekk úr Sjálfstæðisflokknum vegna óánægju með áherslur flokksins í umhverfismálum?  Engu er líkara en endaskipti hafi verið höfð í þessum ranni.  Ólafur afhjúpar sig sem helsta talsmann meiri og hraðari bílaumferðar og þar með mengunar og lakari lífsgæða í borginni.  Hann er því miður alveg kominn út af sporinu.


mbl.is Vilja skoða lestakerfi í borginni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

En hvers megna ungliðarnir?

Þetta er fín afstaða ungra jafnaðarmanna, en hversu megnug eru þau?  Mun stóri flokksi taka mark á afstöðu þeirra eða verður afstaða þeirra bara notuð sem "hreina samviskan" þegar á þarf að halda?
mbl.is Ungir jafnaðarmenn andvígir álveri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Médvédév kjörinn forseti Rússlands - Медведев набирает 69% голосов

Eins og vænta mátti verður Dmítríj Médvédév næsti forseti Rússlands.  Þegar talin höfðu verið um 60% atkvæða hafði hann hlotið tæp 69% og afgerandi stuðning.  Médvédév er 1. varaforsætisráðherra landsins og náinn bandamaður Vladímírs Pútíns fráfarandi forseta og hefur hinn nýi forseti lýst því yfir að hann muni gera Pútín að forsætisráðherra í nýrri ríkisstjórn. Um þetta má m.a. lesa á vefútgáfu dagblaðsins Ízvéstíja.

Dmítríj Médvédév er lögfræðingur frá Pétursborg og kynntist Pútín í störfum sínum þar.  Flestir fréttaskýrendur telja að Pútín muni áfram vera við völd og í raun stjórna öllu í gegnum hinn nýja forseta.  Vegna náinna tengsla þeirra tveggja er líklegt að áhrifa Pútíns muni gæta sterklega í rússneskum stjórnmálum á næstunni, ekki síst ef hann verður þaulsætinn sem forsætisráðherra (raunar hafa fáir verið það í Rússlandi undanfarin ár). Hinu má þó ekki gleyma að forseti Rússlands er afar valdamikill og hann hefur utanríkis- og alþjóðamálin í sínum höndum og hann hefur ekki bakgrunn úr öryggislögreglunni eins og fráfarandi forseti.  Því er allt eins líklegt að Médvédév muni reyna að treysta völd sín, styrkja stöðu sína og sjálfstæði og það kæmi mér ekki á óvart að honum muni takast að verða raunverulegur forseti, með þeim völdum og þeirri ábyrgð sem því fylgir. Það verður í öllu falli fróðlegt að fylgjast með hinum nýja forseta á næstunni, en forsetaskiptin fara fram í byrjun maí.

 


Samgöngur til framtíðar

Samfélag þjóðanna er sér nú mun meðvitaðra en áður um að vel flest í hegðun mannanna hefur áhrif á umhverfið og þar með lífsskilyrði og afkomumöguleika komandi kynslóða. Það er af þeim ástæðum að umhverfismálin í víðum skilningi skipa æ veigameiri sess í þjóðfélagsumræðu vítt og breitt um heiminn. Samgöngur hafa mikil áhrif á umhverfið, bæði jákvæð og neikvæð. Í þéttbýli eru það einmitt samgöngurnar sem oftar en ekki eru helsta umhverfisógnin. Hér á höfuðborgarsvæðinu er svo komið að neikvæð áhrif bílaumferðar eru helstu umhverfisvandamál sveitarfélaganna og æ oftar mælist mengun í Reykjavík ofar hættumörkum. Útblástur koltvíoxíðs frá bílaumferð og svifryk, sem m.a. stafar af notkun nagladekkja, eru helstu orsakirnar. Það er því mikilvægt að horfa á markmið og leiðir í samgöngumálum með gleraugum umhverfismálanna.

 

Þetta er ástæða þess að ég hef ásamt ellefu öðrum þingmönnum úr öllum þingflokkum lagt fram á Alþingi tillögu um að fela samgönguráðherra að kanna hagkvæmni lestarsamgangna milli Keflavíkurflugvallar og Reykjavíkur annars vegar og léttlestakerfis innan höfuðborgarsvæðisins hins vegar. Við leggjum til að kannaðir verði kostir þessa samgöngumáta og gallar, sem og hugsanlegar leiðir. Í því efni er brýnt að horfa á kostnað og ávinning samfélagsins og efnahagsleg, umhverfisleg og skipulagsleg áhrif.

 

Markmið stjórnvalda.

Margvísleg rök mæla með því að nú verði ráðist í raunverulega og heildstæða athugun á þessum kostum í samgöngumálum okkar hér á suðvesturhorninu. Íslensk stjórnvöld hafa sett sér það markmið að umhverfisáhrifum samgangna verði haldið innan ásættanlegra marka. Þannig er miðað við að losun koltvíoxíðs frá samgöngum árið 2010 verði ekki meiri en árið 1990. Til þess að þessum árangri verði náð þurfa stjórnvöld að vera reiðubúin að leita nýrra leiða í samgöngumálum. Greiðar, góðar og öruggar samgöngur eru að sjálfsögðu metnaður hvers samfélags. Um leið þarf að tryggja að samgöngurnar hafi sem minnst neikvæð umhverfisáhrif. Alþjóðasamfélagið hefur einsett sér að takast á við þau með stefnumörkun um sjálfbæra þróun. Sjálfbærar samgöngur fela í sér að samræma umhverfisleg, efnahagsleg og samfélagsleg markmið innan samgöngugeirans. Umhverfisleg markmið eru m.a. að takmarka notkun jarðefnaeldsneytis, þ.e. bensíns og olíu, að samgöngur ógni ekki vistkerfum og að mótvægisaðgerðum sé beitt til að sporna við neikvæðum umhverfisáhrifum. Umhverfisáhrif samgangna eru margs konar og má nefna loftmengun, gróðurhúsaáhrif, áhrif á heilsu, hávaða, sjónræn áhrif o.s.frv. Efnahagsleg markmið taka m.a. á kostnaði og samfélagslegri arðsemi eða hagkvæmni í samgöngum en um þá nálgun hefur lítið verið fjallað hér á landi þó að hún sé í vaxandi mæli viðfangsefni stjórnvalda í löndunum í kringum okkur og sé óaðskiljanlegur hluti stefnumótunar um sjálfbærar samgöngur. Samfélagslegu markmiðin lúta m.a. að þáttum er varða lýðheilsu, að samgöngur skaði sem minnst heilsu fólks, skipulagslegum atriðum, umferðaröryggismálum og umferðarmenningu o.fl.

 

Samgöngur gegna lykilhlutverki í nútímasamfélagi.

Óþarft er að rekja mikilvægi almenningssamgangna og nægir að nefna nokkur veigamikil rök, s.s. að:

  • mengun á hvern farþega í almenningsvagni er minni að meðaltali en á farþega í einkabíl,
  • kostnaður vegna umferðarmannvirkja er minni á hvern farþega í almenningsvagni en í einkabíl,
  • almenningssamgöngur krefjast minna landrýmis undir umferðarmannvirki en einkabílar,
  • umferðartafir eru ólíklegri í borgarumhverfi sem býður upp á almenningssamgöngur sem raunhæfan ferðamáta,
  • hærra hlutfall farþega í almenningsvögnum dregur úr tíðni umferðarslysa,
  • aukin notkun almenningsvagna og bætt þjónusta opnar ný sóknarfæri við skipulagningu byggðar, hagkvæmari nýtingu lands og veitukerfa, þéttari og skjólbetri byggð og skapar grundvöll að fjölbreyttara mannlífi,

Miklir möguleikar eru á að auka hlut annarra orkugjafa en jarðefnaeldsneytis í samgöngum. Hér á landi liggja miklir möguleikar í þessum efnum og er nauðsynlegt að stjórnvöld hugi sérstaklega að því hvernig auka megi hlutdeild visthæfra orkugjafa í samgöngum, ekki bara í almenningssamgöngum heldur einnig í hinum almenna bílaflota landsmanna, að ekki sé talað um skipaflotann. Það vekur athygli að raforka hefur lítið sem ekkert verið notuð til að knýja samgöngutæki hér enda þótt hún sé ódýr í framleiðslu og að mestu endurnýjanleg auðlind.

Óþarft er að rekja hve mikilvægar samgöngur eru í nútímaþjóðfélagi. Hreyfanleikinn er jafnvel talinn vera mælikvarði á samkeppnishæfni einstakra samfélaga, borga eða héraða. Og þar vill enginn verða undir. Með vaxandi fólksfjölda og aukinni ferðaþörf, samhliða kröfum um meiri þægindi, minni mengun og alþjóðlegum skuldbindingum í umhverfis- og loftslagsmálum er brýnt að leita nýrra leiða í samgöngum á höfuðborgarsvæðinu. Um 60% landsmanna búa og starfa í sveitarfélögunum sjö á höfuðborgarsvæðinu en sé hringurinn dreginn utar og látinn ná austur í Árborg, vestur í Borgarnes og suður í Reykjanesbæ (45–60 mín. akstursfjarlægð frá höfuðborgarsvæðinu) lætur nærri að um 3/4 hlutar landsmanna búi á því svæði. Það eru því ríkir samfélagslegir hagsmunir að samgöngumálum þessa svæðis sé sinnt með heildarhagsmuni og langtímasýn að leiðarljósi, bæði í efnahagslegu, samfélagslegu og umhverfislegu tilliti.

 

Aukin umsvif á Suðurnesjum.

Um 75% þjóðarinnar búa í um klukkustundar akstursfjarlægð frá höfuðborginni. Sveitarfélögin í nágrenni höfuðborgarsvæðisins njóta að sjálfsögðu þessa nábýlis og sá ávinningur er gagnkvæmur. Sérstaða Suðurnesja er að sjálfsögðu sú að þar er alþjóðlegur millilandaflugvöllur með vaxandi umsvif. Bæði er að erlendum ferðamönnum sem hingað koma hefur fjölgað geysilega á undanförnum áratug og Íslendingar sjálfir ferðast mun meira nú en áður var. Lætur nærri að fjöldi erlendra ferðamanna sem fer um Leifsstöð hafi tvöfaldast sl. 10 ár og gæti enn tvöfaldast á næstu 6–8 árum. Glöggur vitnisburður um þessa þróun er að sjálfsögðu mikil stækkun flugstöðvar Leifs Eiríkssonar. Þá hefur brottför hersins á Miðnesheiði leitt til þróunar sem fáir sáu fyrir og líkur á að íbúafjöldinn þar muni vaxa hraðar en nokkurn óraði fyrir. Uppbygging háskólasamfélags á gamla varnarsvæðinu og öll sú þjónusta sem þau breyttu not hafa í för með sér mun leiða til mjög svo aukinna umsvifa og krafna. Allt kallar þetta því á góðar, öruggar og visthæfar samgöngur milli Reykjavíkur og Keflavíkurflugvallar.

 

Horfum til framtíðar

Fyrir nokkrum árum voru unnar skýrslur umhagkvæmni járnbrautar milli Reykjavíkur og Keflavíkurflugvallar og í kjölfarið einnig skýrsla um léttlestakerfi á höfuðborgarsvæðinu.  Þær athuganir beindust fyrst og fremst að kostnaði í þröngum skilningi og mátu ekki þjóðhagsleg áhrif lestakerfis, svo sem vegna umhverfismála, nýtingar innlendrar orku, bættrar lýðheilsu o.þ.h. Einnig koma í þessu efni til breytt viðhorf til umhverfismála, ekki síst þættir eins og loftmengun sem er vaxandi vandamál á höfuðborgarsvæðinu, nýjar og breyttar áherslur í skipulagsmálum o.s.frv. Það því full ástæða til að kanna til hlítar kosti þess og galla að koma á lestarsamgöngum milli Reykjavíkur og Keflavíkurflugvallar annars vegar og léttlestakerfi innan höfuðborgarsvæðisins hins vegar. Slík athugun þarf að taka heildstætt
á þjóðhagslegum ávinningi, hvort sem litið er á hann í efnahagslegu, skipulagslegu eða umhverfislegu tilliti. Tillaga okkar tólfmenninga er lögð fram í því augnamiði að koma skriði á umræðu um þessi brýnu framtíðarmál. Vonandi fær hún góðar viðtökur.

 

(Greinin birtist í Mbl. 2. mars 2008)


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband