29.4.2007 | 23:00
Sjálfstæð utanríkisstefna
Fullt tilefni er til að ræða stefnumál stjórnmálaflokkanna í utanríkis og alþjóðamálum nú þegar fáeinar vikur eru til kosninga. Tvennt stendur vissulega upp úr í því efni undanfarin ár. Þátttaka Íslands í ólöglegu árásarstríði í Írak og brottför Bandaríkjahers frá Íslandi. Nú bætist við nýr hernaðarsamningur við Noreg sem vekur óneitanlega hugrenningartengsl við gamla sáttmála 1262. Í aðdraganda hans var ekki leitað eftir áliti þjóðarinnar frekar en venjulega þegar utanríkismál eiga í hlut.
Það var mikið fagnaðarefni þegar bandaríski herinn hvarf af landi brott sl. haust. Íslendingar eru best settir án hers, hvort sem hann er innlendur eða erlendur. Satt að segja væri tíma og fjármunum stjórnvalda betur varið í mörg önnur verkefni á sviði utanríkismála en að varnarviðræður við hvert einasta land sem hefur áhuga á því.
Raunhæft og brýnt verkefni væri að friðlýsa landið og lögsögu þess fyrir kjarnorku- sýkla- og efnavopnum og banna umferð kjarnorkuknúinna farartækja. Tillaga þess efnis hefur ítrekað verið flutt á alþingi síðan 1995 en aldrei fengið efnislega meðferð. Þar hefur herseta Bandaríkjanna eflaust tafið fyrir. Bandaríkjastjórn hefur aldrei viljað útiloka að herskip eða flugvélar sem koma í íslenska lögsögu beri kjarnorkuvopn.
Núna er herinn farinn og því engin ástæða til að láta tillitsemi við Bandaríkin koma í veg fyrir aðgerðir. Allir eru í orði kveðnu sammála um þá ógn sem stafar af kjarnorkuvopnum en æsingurinn virðist oft aukast eftir því sem þau eru fjær okkur sjálfum. Við getum sýnt viðhorf okkar til kjarnorkuvopna í verki með því að friðlýsa eigin rann. Annars væri það hrein sýndarmennska að berjast fyrir afvopnun einhvers staðar annars staðar á hnettinum. Samhliða þessu þyrfti auðvitað að beina aukinni athygli að umhverfisöryggi og vernda hafið fyrir úrgangi frá kjarnorkuverum og herstöðvum.
Í aðdraganda Íraksstríðsins kom það fram af hálfu ýmissa stjórnarþingmanna að vera Bandaríkjahers á Íslandi skipti sköpum fyrir stuðning íslenskra stjórnvalda við innrásina í Írak. Þjóðin á rétt á því að stjórnarflokkarnir geri hreint fyrir sínum dyrum og svara því afdráttarlaust hvort vænta megi frekari stuðnings við hernaðaraðgerðir Bush-stjórnarinnar.Afstaða Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs í þessu máli er skýr: Við höfnum áframhaldandi þjónkun við hernaðarhyggju eins og þá sem birtist í stuðningi stjórnarflokkanna við stríðið í Írak. Atkvæði greitt okkur sendir skýr skilaboð um afstöðu til Íraksstríðsins og setu Íslands á lista hinna staðföstu þjóða.
Greinin birtist í Fréttablaðinu 29. apríl 2007.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
29.4.2007 | 19:12
háge skrifar um háttvirt atkvæði
27.4.2007 | 19:40
Lítill munur á stjórn og stjórnarandstöðu
Nýjasta könnun Capacent/Gallup sýnir að stjórnarflokkarnir fengju 32 þingmenn en stjórnarandstaðan 31 þingmann ef niðurstöður kosninga yrðu í samræmi við könnunina. Hættan á að núverandi stjórn sitji áfram er því yfirvofandi en um leið eru sóknarfærin mikil fyrir stjórnarandstöðuna.
Við Vinstri græn erum að sjálfsögðu prýðilega sátt við þessa skoðanakönnun, skv. henni eykst fylgi flokksins úr 8,8% í síðustu kosningum í 21,2%. Raunar hefur fylgi við flokkinn verið í kringum 20% nú um langt skeið, sveiflast örlítið upp og niður eins og gengur en í heildina litið verið býsna stöðugt.
Framsóknarflokkur og Frjálslyndir bæta aðeins stöðu sína frá síðustu könnun en eru báðir að tapa fylgi frá síðustu kosningum, einkum Framsókn. Sjálfstæðisflokkurinn dalar frá síðustu könnun en er talsvert yfir kjörfylgi fyrir fjórum árum. Samfylkingin dalar lítillega milli vikna og er umtalsvert undir kjörfylginu 2003. Íslandshreyfingin nær engu flugi og hljóta amk. tvær grímur að renna á forsvarsmenn framboðsins, ef tilkoma þeirra verður til þess að tryggja stjórnarflokkunum meirihluta.
Könnunin sýnir að núverandi stjórnarflokkar halda naumum meirihluta en lítið vantar á að hlutföllin milli stjórnar og stjórnarandstöðu snúist við. Nú er mikilvægt að vinna að því öllum árum að unnt verði að skipta um ríkisstjórn, en allar kannanir benda til þess að það sé fyrst og fremst sterk staða VG sem getur tryggt það. Kjósum allt annað líf - xV!
![]() |
Fylgi Samfylkingar og VG jafnmikið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
22.4.2007 | 20:08
Hreinar línur - já takk!
Nýjasta skoðanakönnun Capacent/Gallup sýnir að línurnar eru að verða býsna hreinar í íslenskum stjórnmálum. Annars vegar standa stjórnarflokkarnir, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, fastir í viðjum stóriðjustefnunnar, vaxandi misskiptingar og óréttlætis. Hins vegar eru Vinstri græn og Samfylkingin sem boða jöfnuð, réttlæti, umhverfisvernd, endurreisn efnahagslegs stöðugleika og breytta utanríkisstefnu. Aðrir flokkar komast ekki á blað.
Það eru um margt áhugaverðar vísbendingar sem við sjáum í þessari könnun. Línurnar eru óvenjuskýrar. Sterk staða Sjálfstæðisflokksins getur hins vegar orðið til þess að stjórn þeirra með Framsóknarflokki, sem varað hefur í 12 ár (og 16 ár hvað Sjálfstæðisflokkinn varðar) sitji áfram. Það er áreiðanlega ekki það sem þjóðin vill.Nú er hins vegar lag til að berjast fyrir hreinum stjórnarskiptum. Samfylkingin lagar stöðu sína frá undanförnum könnunum og Vinstri græn eru að ríflega tvöfalda fylgi sitt frá síðustu kosningum. Nú vantar aðeins herslumuninn að þessir tveir flokkar geti myndað starfhæfa ríkisstjórn. Að því verður að vinna öllum árum.
18.4.2007 | 09:47
Stjórnarflokkarnir fastir í viðjum stóriðjustefnunnar
Borgarstjórn Reykjavíkur ályktar að einkavæðing Orkuveitu Reykjavíkur komi ekki til álita. Borgarstjórn undirstrikar að Orkuveitan, sem er fyrirtæki í eigu borgarbúa ásamt íbúum nokkurra annarra sveitarfélaga á SV-horninu, gegnir mikilvægu samfélagslegu hlutverki í öflun og dreifingu á rafmagni og heitu og köldu vatni til almennings og sér nú ennfremur um fráveitumál. Það er ásetningur borgarstjórnar að rekstrarform Orkuveitunnar verði óbreytt og hvorki fyrirtækið í heild, né einstakar starfseiningar þess, verði einkavæddar.
Í ljósi niðurstöðu úr atkvæðagreiðslu í Hafnarfirði þar sem stækkun álversins í Straumsvík var hafnað, afstöðu mikils meirihluta Sunnlendinga skv. skoðanakönnun, gegn virkjun í neðri hluta Þjórsár og almennrar vitundarvakningar í samfélaginu í umhverfis- og orkumálum, samþykkir borgarstjórn að beina því til Orkuveitu Reykjavíkur að fresta um sinn öllum áformum um virkjanir í þágu stóriðju. Borgarstjórn telur mikilvægt að vinnu við gerð rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma verði að fullu lokið sem og gerð náttúruverndaráætlunar og engar frekari ákvarðanir um virkjanir til stóriðju eigi að taka fyrr en að þeirri vinnu lokinni.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
17.4.2007 | 17:39
VG fagnar því að Hólmsheiði sé talin besti flugvallarkosturinn
Borgarstjórnarflokkur Vinstri grænna sendi nú síðdegis í dag frá sér eftirfarandi fréttatilkynningu:
Á fundi borgarstjórnar í dag fór fram umræða utan dagskrár um málefni Reykjavíkurflugvallar að beiðni Vinstri grænna.Vinstri græn fagna því að niðurstaða starfshópsins sem unnið hefur að úttekt á flugvallarkostum, bendir til þess að flugvöllur á Hólmsheiði sé besti kosturinn frá þjóðhagslegu sjónarmiði.
Sú staðsetning sameinar kosti þess að byggja upp Vatnsmýrina en um leið tryggja góðan og greiðan aðgang landsmanna allra að höfuðborginni sem við Vinstri græn teljum óhjákvæmilegt. Vinstri græn fagna þeirri samstöðu sem virðist geta tekist í borgarstjórn um nýja staðsetningu innanlandsflugvallar í Reykjavík.
Borgarstjórnarflokkur Vinstri grænna leggur kapp á að samhliða veðurrannsóknum verði hafin vinna við umhverfismat hinna mismunandi flugvallarkosta, en telur þó að flutningur innanlandsflugs til Keflavíkur komi ekki til álita.
![]() |
Fagna niðurstöðu skýrslu um Hólmsheiði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
17.4.2007 | 17:35
Mikil fylgisaukning VG í Suðurkjördæmi
Ný skoðanakönnun sem birt var í dag um fylgi flokka í Suðurkjördæmi bendir til þess að fylgi Vinstri grænna allt að því fjórfaldist frá síðustu kosningum. Og jafnvel þótt um tvöföldun væri að ræða þá væri það í sjálfu sér stórsigur, enda slíkt fátítt í íslenskum stjórnmálum.
Raunar hafa skoðanakannanir að undanförnu verið misvísandi um fylgi flokka. Skýrist það að mati stjórnmálafræðinga einkum af mismunandi aðferðum þeirra aðila sem eru að kanna viðhorf almennings. Þannig hefur Capacent/Gallup allt aðrar aðferðir en t.d. Fréttablaðið og Blaðið. En það sem virðist sameiginlegt öllum könnununum er að fylgi núverandi stjórnarflokka annars vegar og annarra framboða hins vegar er ámóta mikið þegar tekið er tillit til skekkjumarka.
Í því felst að ríkisstjórnarflokkarnir munu halda áfram stjórnarsamstarfi fái þeir til þess umboð, en einnig hitt að það getur vel tekist að fella stjórnina. Það gerist þó ekki af sjálfu sér og við sem viljum knýja fram breytta stjórnarstefnu verðum að leggja okkur mjög fram á þeim vikum sem eftir eru til kosninga.
Könnunin í Suðurkjördæmi sýnir að vísu sterka stöðu Sjálfstæðisflokksins en Framsóknarflokkurinn missir mikið fylgi. Vinstri græn eru að bæta mjög mikið við sig en Samfylkingin tapar nokkrum prósentum. Frjálslyndir missa líka mikið fylgi. Íslandshreyfingin mælist varla. Þótt margt geti gerst á þeim ríflega 3 vikum sem eftir eru til kosninga eru í öllum könnunum sterkar vísbendingar um að þjóðin vilji nýja ríkisstjórn. Þær áherslur sem Vinstri græn hafa kynnt í umhverfismálum, velferðarmálum, efnahags- og skattamálum, atvinnu- og byggðámálum, jafnréttismálum og utanríkismálum þurfa nauðsynlega að fá rými við ríkisstjórnarborðið. En til þess þarf að tryggja Vinstri grænum góða kosninga þann 12. maí.
![]() |
VG og Sjálfstæðiflokkur auka fylgi sitt í Suðurkjördæmi á kostnað Framsóknar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
15.4.2007 | 22:45
Menntamál eru kosningamál
Við vinstri græn erum þeirrar skoðunar að menntamál séu mikilvægur málaflokkur sem, ásamt öðru, verði kosið um í kosningunum 12. maí nk. Í tilefni af ályktun Stúdendaráðs Háskóla Íslands samþykkti stjórn VG eftirfarandi ályktun:
Stjórn Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs fagnar þeirri kröfu Stúdentaráðs Háskóla Íslands að menntamál verði kosningamál enda er öflug menntastefna grundvöllur fyrir samfélagslegum umbótum.
Stjórn Vinstri-grænna minnir á að mörg stefnumál SHÍ eru í samhljómi við menntastefnu Vinstri-grænna sem samþykkt var 2005. Þar er kveðið á um gjaldfrjálst nám frá leikskóla upp í háskóla, öflugri rannsóknasjóði fyrir meistara- og doktorsnema, nauðsyn þess að fjölbreytt nám sé í boði á háskólastigi, öfluga samkeppnissjóði, vel sé búið að háskólum um land allt og tekið sé tillit til sérstöðu Háskóla Íslands. Stjórn Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs ítrekar einnig nauðsyn þess að endurskoða framfærslugrunn námslána og hækka grunnframfærsluna í framhaldi af því þannig að full námslán dugi til framfærslu. Þá skiptir einnig máli að gera Lánasjóð íslenskra námsmanna sveigjanlegri þannig að nemendur í hlutastarfi eigi rétt á lánum og að þeim sem eru að koma beint af vinnumarkaði sé gert kleift að framfleyta sér á námslánum. Lánasjóðurinn á að vera tæki til jöfnuðar og veita öllum tækifæri til fjölbreytts náms.
11.4.2007 | 21:42
Rætt um stöðu og framtíð sveitarfélaganna
Í dag var ég á kosningafundi í Háskólanum á Akureyri. Þar var viðfangsefnið staða og framtíð sveitarstjórnarstigsins og voru fulltrúar 5 framboða mættir. Auk mín voru þarna Birkir Jón Jónsson (B), Kristján Þór Júlíusson (D), Þorkell Jóhannsson (F) og Einar Már Sigurðarson (S).
Þetta var líflegur fundur, við fengum 10 mínútur hver í framsögur og hefði ég reyndar getað talað miklu lengur. Í máli mínu lagði ég áherslu á lýðræðishlutverk sveitarfélaganna og hvernig við gætum styrkt það í sessi. Talsvert var fjallað um verkefni sveitarfélaganna, tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga, sameiningu sveitarfélaga og samskiptin við ríkið.
Þarna voru nemendur og kennarar og umræður urðu býsna líflegar, margar góðar spurningar úr sal og við reyndum að svara fyrir stefnu flokka okkar í málum sveitarfélaganna. Ég undirstrikaði mikilvægi þess að efla sveitarstjórnarstigið með frekari verkefnum og að tryggja þyrfti efnahagslegt og lýðræðislegt sjálfstæði sveitarfélaga en ekki einblína á stærð þeirra eða fjölda. Slíkt skilaði engu. Í umræðum um kosningar um sameiningu sveitarfélaga og hvort sveitarfélög ættu að geta séð sig um hönd og klofið sig út úr sameinuðu sveitarfélagi ef þeim líkaði ekki árangurinn, gat ég þess að mikilvægt væri að íbúar gætu kosið um slíkt með sama hætti og þeir gætu kosið um sameiningu, brennivínsútsölur, hundahald, álver o.fl. Ótækt væri að ákveða fyrirfram að um tiltekin mál mætti ekki kjósa.
Mikið var spurt um lýðræðið og hvernig auka mætti aðgang almennings að sveitarstjórnunum og jafnframt að auðvelda þátttöku í ákvörðunum. Af minni hálfu kom fram að ekki væri nóg að íbúar gætu kosið á fjögurra ára fresti eða að íbúum væri gert kleift að kjósa um mál sem sveitarstjórnin sjálf ákveður heldur yrði að tryggja tilteknum fjölda íbúa að setja mál í atkvæðagreiðslu og jafnvel að koma með beinar tillögur fyrir sveitarstjórn. Þá vakti ég máls á samhengi sveitarstjórnar- og byggðamála og lýsti þeirri skoðun minni að þessi mál ættu heima saman í ráðuneyti, líkt og víða væri í löndunum í kringum okkur.
Vonandi voru fundarmenn nokkru nær um stefnu flokkanna í þessum málum og alla vega hygg ég að mér hafi tekist þokkalega að koma sjónarmiðum Vinstri grænna á framfæri.
9.4.2007 | 21:45
Stjórnmálaleiðtogar í Kastljósi
Fyrsti umræðuþáttur leiðtoga stjórnmálaflokkanna fyrir kosningarnar í vor, var í Kastljósi nú í kvöld. Þátturinn fór hægt af stað en eftir því sem á leið færðist meira fjör í leikinn.
Ég var að sjálfsögðu mjög ánægður með minn mann. Steingrímur J. var yfirvegaður og kurteis, en um leið fylginn sér og ákveðinn og kom málstað okkar Vinstri grænna vel á framfæri. Umræðan um stórðjumálin, velferðarmálin og skattamálin sýndi vel muninn á stefnu núverandi ríkisstjórnar og stjórnarandstöðunnar.
Stóriðjustefnan er í raun komin í þrot og meira að segja Sjálfstæðisflokkurinn viðurkennir það, þótt formaður hans hafi reynt að verja stóriðjustefnuna með hangandi hendi. Steingrími tókst líklega best upp í umræðunni um skattamálin, einkum vegna þess að hann kom vel á framfæri þeirri óréttlátu skattastefnu sem rekin hefur verið af núverandi stjórnarflokkum með aukinni misskiptingu og ennfremur skýrði hann vel út á skýru og einföldu máli kjarnann í skattastefnu Vinstri grænna.
Í heildina fannst mér Steingrímur bera af, en einnig komust Ingibjörg Sólrún og Geir Haarde vel frá sínu, þótt formaður Sjálfstæðisflokksins mætti alveg létta brúnina endrum og eins. Guðjóni Arnari tókst ekki vel að rökstyðja stefnu flokks síns í málefnum innflytjenda og Jón Sigurðsson virkaði á mig eins og biluð plata sem annars vegar spilar bara stoppsönginn gagnvart stjórnarandstöðunni og hins vegar hálftilbiður Sjálfstæðisflokkinn. Ekki góð taktík. Ómar var í fyrsta skipti í hlutverki sínu sem stjórnmálaleiðtogi og komst ágætlega frá því en skýrði auðvitað ekkert út hvað "hægri" stefnan hans gengur út á. Það kemur vonandi síðar.
Stjórnendurnir, Sigmar og Jóhanna Vigdís, stóðu sig prýðilega og höfðu ágæta stjórn á þættinum og komust yfir þokkalega mikið. Sem sagt, ég var bara ánægður með þáttinn.