Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Stalín uppvakinn!

Átökin sem nú geisar á landamærum Georgíu og Rússlands, í sjálfsstjórnarhéraðinu Suður-Ossetíu, voru etv. fyrirsjáanleg.  Um langt árabil hafa íbúar héraðsins, og raunar líka héraðsins Abkhazíu, barist fyrir sjálfstæði sínu og ljóst að þeir vilja ekki tilheyra Georgíu.  Stjórnvöld í Georgíu gera á hinn bóginn tilkall til héraðanna og virðist sem alþjóðasamfélagið hafi fallist á þá skipan.  En hvað veldur?  Eru það hagsmunir og saga þjóðanna sem byggja þessi héruð sem ráða þeirri afstöðu eða eru það etv. frekar pólitískar ástæður, nefnilega að koma höggi á Rússlandsstjórn?

Fyrir þá sem hafa áhuga á þróun mála í þessum heimshluta væri fróðlegt að kynna sér sögu héraðanna.  Hvað veldur því að þessi héruð eru talin til Georgíu?  Ef íbúarnir fengju sjálfir að ráða málum sínum er ólíklegt að þeir kysu að tilheyra Georgíu.  Íbúar Suður-Ossetíu vilja að líkindum sameinast Norður-Ossetíu, sem tilheyrir Rússlandi og íbúar Abkhazíu hafa krafist sjálfstæðis.  Má fólkið ekki ráða sjálft?  Af hverju á að gilda annað viðhorf til vilja íbúanna á þessu svæði en t.d. í Kosovo?

Þegar Sovétríkin voru stofnuð á sínum tíma gerði Georgía sérstakan samning um aðild að ríkjabandalaginu.  Sjálfsstjórnarhéruðin sem hér um ræðir voru ekki hluti þess samkomulags, þau gerðust sjálfstæðir aðilar að Sovétríkjunum á eigin forsendum.  Það var hins vegar Jósef gamli Stalín sem ákvað að þessi héruð skyldu tilheyra Georgíu, sínu gamla heimalandi. Þannig má segja að þessi héruð (og líklega er það nú enn óumdeildara hvað Abkhazíu varðar) séu enn að súpa seyðið af stalínismanum.  Það skýtur óneitanlega skökku við að vesturlönd skuli vilja viðhalda gamla Stalín og alræðisvaldi hans.  En það virðist mér eingöngu gert til að hnykkla vöðvana gagnvart Rússlandi og styðja við gulldrenginn sinn Saakashvili, sem rígheldur í ríkjaskipan Stalíns.  Og etv. vert að rifja upp að átökin sem nú blossa upp, hófust í raun fyrst eftir að Saakashvili varð forseti Georgíu.

Það kemur ekki á óvart að hægri öflin sem víða halda um stjórnvölinn í hinum vestræna heimi, skuli láta rétt og vilja íbúanna lönd og leið í pólitískum leiðangri sínu, en verst er að jafnaðarmenn skuli elta eins og hundar í bandi.  Sennilega vita þeir ekki að þeir eru að draga taum Stalíns og arfleifðar hans.


mbl.is Rússlandsher inn í Suður-Ossetíu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Umdeildir dómarar

Þessi dómur sýnir etv. hvers vegna skipun einmitt þessara tveggja dómara sem réðu niðurstöðunni, var svo umdeild sem raun bar vitni.  Þeir voru ekki taldir hæfastir í hópi umsækjenda þegar þeir voru skipaðir, en voru hins vegar þénanlegir skipunarvaldinu, dómsmálaráðherra Sjálfstæðisflokksins.
mbl.is Kröfu um áframhaldandi nálgunarbann hafnað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á heimleið

Ég er nú staddur á hinum heimilislega Kastrup-flugvelli í Kaupmannahöfn.  Flaug í morgun frá Pétursborg eftir 5 vikna dvöl þar og hingað til kóngsins Kaupinhafnar og bíð hér eftir flugi heim.  Það verður unaðslegt að koma heim eftir þetta langa dvöl fjarri heimahögum, ekki síst fjölskyldunni.

Í gærkvöldi hitti ég félaga úr karlakórnum Heimi í Skagafirði, en kórinn ásamt fylgdarliði var kominn til Pétursborgar og mun halda tónleika þar á mánudagskvöld.  Margt ágætra kunningja er í hópnum og gaman hitta svo hresst og skemmtilegt fólk og taka með því lagið.  Vonandi ganga tónleikar þeirra vel.

Þessi síðasta vika hefur verið býsna viðburðarrík hjá mér í Pétursborg.  Ekki vildi betur til, þegar ég var í Novgorod um síðustu helgi, en að ég veiktist af lungnabólgu og kynntist heilbrigðiskerfinu ágætlega, bæði í Novgorod og svo einnig í Pétursborg vegna áframhaldandi rannsókna og meðferðar.  Svo gerðist það sem ég hef aldrei lent í áður að ég var rændur og missti ég þar minn ágæta síma með "vitinu", upplýsingum um símanúmer o.s.frv. en verst þótti mér samt að í símanum var líka forláta myndavél.  Og til að kóróna allt gleypti hraðbanki einn bankakortið mitt og tókst mér ekki að fá það eftur áður en ég yfirgaf landið.

En Pétursborg er kvödd að sinni, vonandi gefst tækifæri til að heimsækja hana fyrr en síðar á nýjan leik.


Geir H. Haarde er ónauðsynlegur - í stóli forsætisráðherra

Forsætisráðherra segir úrskurð umhverfisráðherra um heildstætt mat á umhverfisáhrifum álvers á Bakka hafa verið ónauðsynlegan.  Þegar sami umhverfisráðherra úrskurðaði á annan veg í tengslum við annað verkefni, var allt í himna lagi að mati sama forsætisráðherra.  Stjórnsýslan á sem sagt að fara að duttlungum forsætisráðherrans.

Pólitískur forystumaður sem hefur þetta viðhorf hefur ekkert að gera í stóli forsætisráðherra á 21. öldinni.  Þetta viðhorf heyrir til liðinni öld.  Forsætisráðherra sem vill ekki að lög um mat á umhverfisáhrifum séu virt, forsætisráðherra sem vill ekki huga að hagsmunum umhverfis og náttúru og komandi kynslóða hefur ekkert að gera í ríkisstjórn.  Ekkert frekar en flokkur hans, Sjálfstæðisflokkurinn, sem hefur nú setið við ríkisstjórnarborðið í 17 ár og lætur eins og hann eigi þar allt og megi öllu haga að eigin geðþótta.

Formaður Sjálfstæðisflokksins gerist einnig talsmaður Samfylkingarinnar, eða amk. margra innan hennar, að eigin sögn.  En var ekki stefna Samfylkingarinnar að ljúka við gerð rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma og meta í kjölfarið í hvaða virkjanir yrði ráðist og hverjar ekki?  Er Sjálfstæðisflokkurinn andvígur því?  Eru kannski giska margir forystumenn Samfylkingarinnar andvígur eigin stefnu?  Er forsætisráðherra (og fyrrverandi utanríkisráðherra), andvígur alþjóðlegum skuldbindingum Íslands í umhverfismálum?

Er nema von að spurt sé.  Fáheyrð viðbrögð forsætisráðherra eru enn eitt dæmið um að Sjálfstæðisflokkurinn er kominn í þrot.  Ástandið í ríkisstjórnarliði hans og þingflokki er lítið skárra en í borgarstjórnarflokknum.  Hann á að fara frá völdum, hans tími er liðinn.


mbl.is Úrskurðurinn ónauðsynlegur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bjartar nætur í Feneyjum norðursins

Pétursborg er iðulega nefnd „Feneyjar norðursins.“  Nafngift sem full innistæða er fyrir.  Sjálfir segja borgarbúar að borgin sé nyrsta bVetrarhöllinorg í heimi, enda kalla þeir ekki bæjarfélög með innan við eina milljón íbúa „borg“.  Svo sem hægt að skilja þ hvað Reykjavík varðar, en hvers eiga Helsinki, Stokkhólmur og Osló að gjalda?  En allt um það.

Með ánni Névu, þverám hennar og síkjum er Pétursborg í hópi „vatnaborga“ sem hafa sérstakt aðdráttarafl.  Hér spilla ekki fyrir björtu sumarnæturnar (Bélyje notsjí – Белые ночи) sem hiklaust vega upp hinn langa vetur og dimma, rétt eins og í henni Reykjavík.  Nú er reyndar daginn farið að stytta en engu að síður er hér bjart langt fram á kvöld og líflegt í borginni eins og vænta má.

Það eru liðin 23 árIsaak-dómkirkjan síðan ég kom fyrst til borgarinnar og síðast kom ég hingað árið 2001 (í kringum 11. september).  Þótt miðborgin sé vissulega enn á sínum stað með sínum fögru byggingum, torgum og görðum, hefur gríðarlega margt breyst.  Þróunin hér í Rússlandi hefur verið hröð í átt til þess sem gengur og gerist í vestur Evrópu.  Bæði hið jákvæða og neikvæða.  Endurbætur á byggingum og nýbyggingar eru áberandi og víða hefur tekist afar vel til en hér eru líka uppi mikil áform um skýjakljúfabyggð, einkum á Vasilíj-eyjunni (fyrir staðkunnuga) sem eru vægast sagt umdeild meðal borgarbúa.  Á meðan sumum finnst skýjakljúfahverfi tilheyra stórborg eins og Pétursborg, eru aðrir sem segja að slíkar byggingar muni eyðileggja ásýnd borgarinnar og yfirbragð.  Skipulagsvinna er þó í fullum gangi og væntanlega verður ekki skortur á fjárfestum þegar þar að kemur.

Umferðin hefur tekið stakkaskiptum.  Meðan Sovétríkin voru enn og hétu var ekki mikið um einkabíla á götum borgarinnar.  Nú er allt með öðrum brag.  Borgarumferðin er þung liðlangan daginn en samt er hér gott og öflugt almenningssamgöngukerfi þar sem jarðlestirnar eru þungamiðjan.  Hér er dýpsta neðanjarðarlestarkerfi í heimi, að sögn, enda þarf það að liggja undir öllu vatnakerfinu hér, liggur undir ám og vötnum og tengir saman eyjar og hólma.

Í nýlegri skýrslu um verðlag í borgum heims kom í ljós að Moskva er nú dýrasta borg í heimi.  Þótt verðlag í Pétursborg sé talsvert lægra en í höfuðborginni, veitir „höfuðborg norðursins“ systur sinni í suðaustri harða samkeppni og er allt verðlag hér á hraðri siglingu í átt að því sem gerist í Moskvu.  Og það er ekki að ófyrirsynju að talað er um „höfuðborg norðursins.“  Ekki bara vegna þess að Pétursborg er næst stærsta borg Rússland, með liðlega 5 milljónir íbúa, heldur hafa stjórnvöld í Kreml einnig ákveðið að flytja ýmsa opinbera starfsemi hingað.  Til dæmis hefur stjórnlagadómstóll landsins þegar verið fluttur frá Moskvu til Pétursborgar og fyrirhugað er að opna hér skrifstofur bæði forsetaembættisins og embættis forsætisráðherra.  Þeir Médvédev forseti og Pútín forsætisráðherra eru rauna vopnabræður úr pólitísku starfi tíunda áratugarins hér í Pétursborg og voru báðir handgengnir Sobtsjak sem var kosinn borgarstjóri hér í kjölfar falls Sovétríkjanna.

Það er hiklaust hægt að mæla með heimsókn til Pétursborgar.  Hér er gríðarlega margt að sjá, mikil saga og menning sem hér tengist og héðan er ekki langt til Novgorod, hins forna höfuðstaðar Garðaríkis sem í handritum var kallaður Hólmgarður.  Þangað er ferð minni heitið á morgun og verður vonandi eftirminnilegt.


Evran - ófæra eða farsæl leið!

Ekki hefur farið framhjá neinum að skrif Björns Bjarnasonar um hugsanlega upptöku evru án aðildar að Evrópusambandinu, hefur valdið talsverðu uppnámi.  Forsætisráðherra segir hugmyndina ekki nýja en að hún gangi trauðla upp.  Iðnaðarráðherra brosir sínu breiðasta af gleði og telur að hér sé gott tækifæri til að færa Ísland nær ESB-aðild, en utanríkisráðherra segir þessa evru-leið ófæra.  Undir það taka, eins og við mátti búast, ritstjórar Morgunblaðsins og Fréttablaðsins.

Nú er öllum ljóst að Ísland tekur þátt í samstarfi við Evrópusambandið á ýmsum sviðum þótt það sé ekki aðili að bandalaginu.  Samningurinn um evrópska efnahagssvæði færir okkur margvísleg réttindi í löndum ESB og um leið leggur hann skyldur á herðar okkur.  Hið sama er a segja um Schengen-samkomulagið.  Um þessi atriði hafa verið gerðir pólitískir samningar.  Embættismenn innan ESB og á þess vegum hafa haldið því fram að ekki sé unnt að gerast aðilar að myntbandalaginu án aðildar að Evrópusambandinu sjálfu.  Mér virðist sem Björn Bjarnason færi nokkuð traust rök fyrir sínum málflutningi þegar hann segir að engar lagahindranir séu í vegi þessarar leiðar, það sé í raun aðeins spurning hvort hún sé fær pólitískt.

Undanfarna mánuði hefur sannarlega gustað um íslensku krónuna.  Og það er ekki hægt að segja að hún hafi átt sér marga formælendur.  Þeim sem helst bera ábyrgð á ástandi efnahagsmála hér, í stjórnmála- og viðskiptalífi, finnst sannarlega gott að hafa barn til blóra.  Íslenska krónan hefur orðið það barn.  En burtséð frá því öllu, þá er staða svo lítils gjaldmiðils í örsmáu og galopnu hagkerfi, eins og hinu íslenska, auðvitað veik.  Ekki síst þegar kreppir að í efnahags- og atvinnulífi.  Því hafa margir orðið til þess að leggja til að við tökum upp annan gjaldmiðil.  Forsætisráðherra hefur nefnt að það væri skynsamlegra að taka upp bandarískan dollara en evru, einhverjir hafa nefnt svissneskan franka, og forystumenn Vinstri grænna vöktu máls á þeirri leið að norrænu þjóðirnar, sem enn hafa sínar krónur, gætu átt með sem gjaldmiðilssamstarf eða samruna.  Og loks mæna margir á evruna og rökin fyrir því að enginn erlendur gjaldmiðill vegi jafn þungt í utanríkisviðskiptum okkar og evran.

Þessar hugleiðingar eru að mínu mati eðlilegar.  Íslenska krónan siglir nú mikinn ólgusjó og ósýnt að hún komist klakklaust í gegnum hann.  Það þarf því alls ekki að vera fráleit leið að gaumgæfa kosti þess og galla að taka upp annan gjaldmiðil og bera saman við stöðuna hingað til með íslenska krónu.  Þótt skoða yrði efnahagsleg áhrif slíks, ekki síst fyrir stefnu og þróun peningamála, verður slík könnun alltaf pólitísk fyrst og fremst, því tæknilegar og lagalegar hindranir er ávallt hægt að leysa.  Það er hinn pólitíski vilji hjá þeim sem málið varðar, sem myndi á endanum ráða för.

En hvað sem líður svo umræðu um gjaldmiðilinn og stöðu hans, þá má ekki missa sjónar á því að stjórnvöld þurfa að takast á við vandann í efnahags- og atvinnulífinu eins og hann blasir við í dag og hugsanlegur nýr gjaldmiðill eftir einhver ár breytir engu þar um.  Því miður virðist ríkisstjórnin ekki hafa neina burði til að takast á við þann vanda, og hefur allar sínar mörgu hendur í skauti sér.  Og það mun engan vanda leysa að gleyma sér í umræðum og vangaveltum um nýjan gjaldmiðil.


Þá vitum við það!

Forsætisráðherra hefur talað í þessu máli, hver veit nema það komi yfirlýsing frá ráðherrum Samfylkingarinnar um að þeir séu ósammála forsætisráðherra.
mbl.is Mun ekki friða meira af Þjórsárverum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Björk og Sigurrós - Púshkín og Akhmatova

Björk og Sigurrós eru sannarlega góð vörumerki ef svo má að orði komast fyrir Ísland.  Einnig hér í Rússlandi.  Það er engu líkara en það sé fátt annað sem tengist Íslandi í hugum fólks víða um heim en einmitt þessir ágætu listamenn.  Við getum verið stolt af þeim, og eigum að hafa hugfast hvað það er okkur þýðingarmikið að listafólk beri hróður landsins víða um lönd.

Hér í Rússlandi eru þessir listamenn vel þekktir.  Og á auglýsingaspjöldum víða um Pétursborg má sjá væntanlega tónleika Sigurrósa auglýsta, en þeir verða 26. ágúst nk.  Þeir verða áreiðanlega vel sóttir miðað við þá kynningu og auglýsingu sem maður verður var við og þá almennu jákvæðni sem maður finnur í garð hljómsveitarinnar meðal yngra fólks.

 Það er ekki ofsagt að arfleifð rússneska bókmennta geymi margar helstu perlur heimsbókmenntanna.  Einmitt hér í Pétursborg eru líka heimkynni og sögusvið margra þekktra rithöfunda, skálda og bókmenntaverka.  Dostoévskíj er vafalaust þekktastur rússneskra höfunda á Vesturlöndum, ásamt Tolstoj og Tsjekhov og að vissu leyti Túrgénév.  En margir aðrir eru ekki síður þekktir meðal Rússa sjálfra.  Höfuðskáld Rússa er tvímælalaust Aleksandr Púshkín (1799-1837) sem féll fyrir byssukúlu í hólmgöngu við ungan „spjátrung“, d‘Anthes sem gerði hosur sínar grænar fyrir eiginkonu Púshkíns og sem síðan endaði á svo dramatískan hátt.  Yfirstéttin, þmt. keisaraslektið allt, hafði samúð með d‘Anthes en þúsundir almennra borgara komu til að votta Púshkín virðingu sína.

Meginverk Púshkíns er tvímælalaust Évgéníj Onégín, skáldsaga í bundnu máli (Púshkín-sonnetta) sem hann vann að í amk. 8 ár.  Sagan fjallar auðvitað um ást og afneitun, heitar tilfinningar, vináttu og fjandskap, heift og hefnigirni.  Og eins grátbroslegt og það nú er, lendir söguhetjan Onégín í hólmgöngu við vin sinn Lénskíj.  Tatjana, sem er ástfangin af Onégín en hann sniðgengur, á síðan eftir að ná fram hefndum á áhrifaríkan hátt.  Ég fór í síðustu viku og skoðaði minningarsafn um Púshkín, sem er í íbúðinni þar sem hann bjó síðast.  Áhugavert safn og leiðsögumaðurinn sagði sögu Púshkíns, samband hans við konuna sína, lífið meðal yfirstéttarinnar í Pétursborg á fyrrihluta 19. aldar, og um hólmgönguna, af mikilli innlifun.  En margt mætti þó gera betur að mínu mati í því ágæta safni eins og ýmsum öðrum.

Dostoévskíjsafn er líka til húsa í fyrrum heimili rithöfundarins.  Það er lítið, enda bjó Dostoévskíj ekki við mikil efni, og þar er aðeins hægt að líta brot af sögu þessa mikla og merka rithöfundar.  Mætti sannarlega gera bragarbót þar á.  Það er líka áhugavert að ganga um söguslóðir Dostoévskíjs og sögupersóna hans, ekki síst á slóðir Rodja Raskolnikovs, úr Glæpi og refsingu.  Ég hef reyndar gert það áður, m.a. í góðum hópi Íslendinga árið 2001, en nú hefur mér gefist færi á að fara enn betur og ítarlegar á þessar slóðir og í raun lifa söguna upp á nýtt, á vettvangi ef svo má segja.

Af öðrum rithöfundum sem störfuðu hér í Pétursborg má nefna Nikolaj Gogol (1809-1852), sem reyndar var fæddur í Úkraínu, en varð ekki síst þekktur fyrir Pétursborgarsögur sínar, sem komið hafa út í íslenskri þýðingu.  Í þeirra hópi eru Nefið, Kápan, Sagan af tveimur Ívönum, Myndin o.fl.  Oftast er þó litið á Dauðar sálir sem meginverk Gogols, en smásögur hans og leikritið Eftirlitsmaður (Revizor) eru í mínum huga ódauðlegt framlag til rússneskra bókmennta.  Þá er líka að nefna skáldkonuna Önnu Akhmatovu (1889-1966).  Akhmatova var ein af burðarásunum í rússneskri ljóðagerð á árunum fyrir og eftir byltingu 1917 og er þar í hópi með Aleksandr Blok, Sergej Ésénín, Vladimír Majakovskíj, Osíp Mandelshtam, Borís Pasternak og fyrsta eiginmanni sínum, Nikolaj Gúmiljov.  Þetta var „silfuröldin“ í rússneskum skáldskap.  Fáein ljóða hennar eru til í íslenskri þýðingu en það væri fengur af frekari þýðingum á verkum hennar og félaga hennar frá þessum árum.  Akhmatova var ekki í náðinni hjá sovéskum stjórnvöldum, og það var ekki fyrr en árið 1989, þegar 100 ár voru liðin frá fæðingu hennar, að eitt hennar helstu ljóða, Sálumessa (Rekviem), var endanlega birt í Sovétríkjunum.  En sem sagt, þessi kafli um Akhmatovu kom til af því að ég fór og skoðaði minngarsafn um hana, og um það má segja eins og um hin að þar er margt ógert.  Einkum þarf að setja upp betri kynningu á lífi og verki höfundanna og svo skortir alla almennilega sölumennsku, þ.e. að hægt sé að nálgast verk höfundanna á söfnunum, bæði á rússnesku og í erlendum þýðingum sem getur höfðað til alls þess fjölda ferðamanna sem hingað koma.

Læt þennan listalega pistil nægja í bili.....


Vstretsja s Sankt-Peterbúrgom - Til fundar við Pétursborg

Það er að vissu marki skrýtin tilfinning að vera kominn til Pétursborgar til nokkurra vikna dvalar.  Borgin er mér vel kunnug og framandi í senn.  Líklega hef ég komið hingað um 15 sinnum, síðast í septembermánuði 2001.  Þá hafði ég ekki komið hingað í ein 15 ár eða þar um bil.  Engin furða að margt hafi breyst á þessum árum.  Sovétríkin sálugu liðast í sundur og Rússland gengið í gegnum gríðarlegar breytingar, bæði til hins betra og hins verra, og þær ekki gengið þrautalaust fyrir sig.

Árið 2003 héldu borgarbúar, og raunar landsmenn allir, upp á 300 ára afmæli borgarinnar, en Pétur mikli keisari lét reisa borgina og er miðað við árið 1703.  „Vesturgluggi“ Rússlands var borgin kölluð og segir það margt um hlutverk hennar og hugsun Péturs mikla.

Ég hef fengið inni í lítilli íbúð við Sénnaja Plostsjad (Heytorg), nánar tiltekið í Spasskíj götu númer 4.  Þessi litla gata (eða péreúlok eins og það heitir á rússnesku) liggur á milli Heytorgsins og Gríboédov-síkisins.  Tæplega 10 mínútna gangur á Névskíj prospékt sem er aðalgatan í borginni og varla hægt að hugsa sér betri staðsetningu.  Hér býr Valeríja sem er grafískur hönnuður, en hún leigir tvö herbergi í íbúð sinni til stúdenta eða annarra sem heimsækja borgina til skammrar dvalar og kjósa fremur að búa inni á heimili innfæddra frekar en á hóteli eða leiguíbúð.  Það er óneitanlega kostur, amk. vilji menn æfa sig í tungumálinu.

Þessar vikur sem ég dvel hér í „Feneyjum norðursins“ nýti ég til endurmenntunar og upprifjunar í rússnesku í litlum málaskóla við Zagorodnyj prospékt, í um 20 mínútna göngufæri frá aðsetri mínu.  Hér gefst kærkomið tækifæri til að auka við þekkingu og slípa daglega notkun á þessu ágæta tungumáli.


Breytum í þágu umhverfisins

 

Nýlega kom út skýrsla ásamttillögum starfshóps sem hefur undanfarin misseri fjallað um skattlagningu bifreiða og eldsneytis. Markmið vinnunnar hefur verið að hvetja til notkunar ökutækja sem menga lítið. Losun gróðurhúsalofttegunda frá samgöngum er afar mikil hér á landi og því ekki seinna vænna að fara að auka hlutdeild ökutækja sem menga lítið eða jafnvel ekkert og draga þá um leið úr fjölda hinna, sem eru eldsneytishákar og spúa mikilli mengun út í andrúmsloftið.

Það kostar að menga
Tillögur starfshópsins ganga út á að ríkið verðleggi fyrst og fremst losun gróðurhúsalofttegunda en ekki þyngd ökutækja eins og nú er. Þannig yrði bifreiðagjöldum og vörugjöldum breytt og einnig komið á sérstökum kolefnisskatti. Við það er miðað að heildartekjur ríkissjóðs af ökutækjum og notkun þeirra verði óbreytt en ljóst að svona breytingar þýða talsverðan tilflutning á gjöldum, af sparneytnum visthæfum bílum yfir á eyðslufreka bíla. Þessi meginstefna er að sjálfsögðu mjög jákvæð og löngu tímabær. Vissulega er fjölmörgum spurningum ósvarað, eins og t.d. hvort þyngd ökutækja (óháð orkugjafa) eigi ekki drjúgan þátt í að slíta götum og vegum og þannig valda svifryki sem er önnur gerð mengunar, en það er þáttur sem nauðsynlegt er að skoða í framhaldinu.

Nýir orkugjafar nauðsynlegir
Í umræðunni nú hafa ýmsir bent á að tímasetning tillagna starfshópsins sé óheppileg þegar verð á jarðefnaeldsneyti (olíu og bensíni) er jafn hátt og raun ber vitni. Ég er ósammála þessu viðhorfi. Það er kannski einmitt á þessum tímum sem við verðum að taka áskoruninni, horfa fram á veg og til langrar framtíðar og leita allra leiða til að mæta hinu háa orkuverði með öðrum og nýjum orkugjöfum í samgöngum. Það hlýtur að vera eftirsóknarvert að geta í auknum mæli notað innlenda orkugjafa í stað innflutts jarðefnaeldsneytis, það er bæði umhverfisleg og efnahagsleg nauðsyn. Ef við notum ekki tækifærið nú, þegar kvartað er undan háu orkuverði, er afar ólíklegt að það gangi vel að koma á breytingum þegar betur árar og fæstir láta hátt orkuverð aftra sér frá að nota bensínhákana ótæpilega. Flestir eru þeirrar skoðunar að hið háa eldsneytisverð sé komið til að vera um allnokkra framtíð og það er af þeim sökum brýnt að grípa nú til ráðstafana til að breyta samsetningu bílaflota landsmanna, bæði til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og um leið draga úr kostnaði heimila og fyrirtækja við rekstur bifreiða.

Stórefla þarf almenningssamgöngur
Á sama tíma á ríkisvaldið að sjálfsögðu að leggja sitt af mörkum til að stórefla almenningssamgöngur, einkum í þéttbýli þar sem mengunin er tiltölulega mest. Hluti af tekjum ríkissjóðs af almennri umferð og bifreiðaeign á að sjálfsögðu að fara í að byggja upp traustar og öflugar almenningssamgöngur, þær eru jú mikilvægur hlekkur í samgöngukerfinu öllu og gildi þeirra mun aðeins aukast á komandi árum. Bæði hlutur almenningssamgangna og jöfnun flutningskostnaðar um landið eru til skoðunar hjá stjórnvöldum og eiga að vera hluti af þessum pakka um skattlagningu ökutækja og eldsneytis, til að tryggja að breytingarnar komi ekki verr við landsbyggðina en suðvesturhornið. Á það er síst bætandi.
Það er í sjálfu sér skiljanlegt að margir vilji velja einföldustu leiðina í þeirri stöðu sem við erum nú, þ.e. að lækka opinber gjöld af innfluttu eldsneyti. Sú leið er líka auðveldust fyrir stjórnmálamenn og jafnvel líkleg til að afla þeim tímabundinna vinsælda. Hún horfir hins vegar ekki til framtíðar og hagsmuna komandi kynslóða. Það þarf að vinda bráðan bug að því að flytja gjöld ríkisins af sparneytnum og visthæfum bílum yfir á þá sem menga mikið og eyða miklu eldsneyti. Til lengri tíma litið mun ekki einungis umhverfið heldur heimilin í landinu njóta góðs af breyttri og nútímalegri samsetningu bílaflota landsmanna og stórefldum almenningssamgöngum. Til þess að svo megi verða þarf hins vegar pólitískt þrek og framtíðarsýn.

(Greinin birtist áður í Morgunblaðinu)


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband