Vinstri sveifla - Samfylking og Vinstri græn með meirihluta

Ný skoðanakönnun í Fréttablaðinu er athyglisverð fyrir margra hluta sakir.  Hún sýnir glögglega vinstri sveiflu í samfélaginu.  Hvort sem litið er á stöðuna á landsvísu eða í höfuðborginni sérstaklega, er ljóst að kjósendur eru að gefa stefnuljós til vinstri.

Ríkisstjórnarflokkarnir tveir halda samanlagt svipuðu fylgi og þeir fengu í kosningum þótt hlutfall þeirra innbyrðis breytist.  Samfylkingin tekur fylgi af Sjálfstæðisflokknum.  Þetta þarf ekki að koma á óvart meðan stjórnin er á fyrsta ári.  Hvað stjórnarandstöðuna varðar þá höldum við Vinstri græn vel sjó og erum aðeins yfir kjörfylginu sl. vor og bættum við okkur einu þingsæti ef kosið yrði nú.  Samkvæmt könnuninni fengju Samfylking og Vinstri græn samanlagt 33 þingmenn en Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur fengju 30 þingmenn.  Frjálslyndir falla út ef marka má könnunina. 

Vissulega eru þetta nokkur tíðindi.  Vanhugsuð meirihlutaskipti í borginni valda áreiðanlega miklu um að Sjálfstæðisflokkur tapar fylgi og á sama hátt nýtur Samfylkingin þess.  Það er ekki hægt að lesa aðra niðurstöðu út úr þessari könnun en að kjósendur vilji koma á vinstri stjórn, vilji að þeir sem standa fyrir jöfnuði og réttlæti taki höndum saman hvar sem mögulegt er.  Þótt Samfylking og Vinstri græn séu nú í minnihluta í borgarstjórn Reykjavíkur hafa oddvitar flokkanna þar náð góðri samstöðu sín í milli um að halda hópinn í prýðilegri sátt við Framsókn og Margréti Sverrisdóttur.  Vitaskuld eru tækifæri til þess líka í landsstjórninni.  Lykillinn að því liggur hjá Samfylkingunni.  Vonandi er það bara tímaspursmál hvenær hún áttar sig á skilaboðunum frá kjósendum.


mbl.is Fylgi Samfylkingar eykst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Um hvað snýst þá málefnasamningurinn?

Morgunblaðið, málgagn hins nýja meirhihluta í borgarstjórn Reykjavíkur, hefur farið mikinn í umfjöllun sinni um atburði liðinnar viku og  m.a. gert mikið úr því að núverandi meirihlutaflokkar hafi komið sér saman um málefnasamning, sem sé meira en fráfarandi meirihluti hafi gert.

Þetta er náttúrulega hálf broslegt þegar maður les þessa frétt á mbl. is um fund sjálfstæðismanna í Reykjavík þar sem bæði Hanna Birna Kristjánsdóttir og Gísli Marteinn Baldursson, borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks lýstu þeirri skoðun sinni að íbúabyggð ætti að reisa í Vatnsmýri og þar með að flugvöllurinn eigi að víkja.  Í hinum víðfræga málefnasamningi D- og F-lista í borgarstjórn er efsta mál á dagskrá að flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýri.  Það var enda kosningaloforð Ólafs F. Magnússonar en listi hans fékk um 10% atkvæða.  Allir hinir listarnir boðuðu að flugvöllurinn myndi víkja og íbúabyggð rísa í Vatnsmýri.  Þau viðhorf hlutu um 90% atkvæða.

En væntanlega þykir Morgunblaðinu og skríbentum þess allt í himna lagi að meirihlutinn styðjist við málefnasamning enda þótt flestir borgarfulltrúar séu andvígir einu mikilvægasta skipulagsmáli hans, og haninn hafi ekki galað þrisvar þegar tveir af helstu forvígismönnum Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn hafi afneitað honum. 

Tilgangurinn helgar bersýnilega meðalið - sem Hönnu Birnu og Gísla Marteini svelgist á!


mbl.is Vilja íbúðabyggð í Vatnsmýri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki hátt risið

Það er ekki hátt risið á nýjum meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur, aðeins fjórðungur kjósenda styður hann.  Sjálfstæðisflokkur og F-listi fengu yfir 50% atkvæða í kosningunum fyrir einu og hálfu ári síðan.  Um 5% styðja Ólaf F. sem borgarstjóra en listi hans fékk um 10% í kosningunum.  Stjörnuhrapið virðist algert, og á við báða oddvitana Vilhjálm og Ólaf.  Ekki beint hægt að segja að borgarbúar taki nýjum meirihluta fagnandi.
mbl.is 25,9% Reykvíkinga styðja nýjan meirihluta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Brjóstumkennanlegt bull

Það er dapurlegt að horfa upp á meirihlutaskipti í borgarstjórn Reykjavíkur.  Sjálfstæðisflokkurinn leggst lægra en dæmi eru um í íslenskri pólitík með því að seilast inn í starfandi meirihluta og kaupa veikasta hlekkinn með borgarstjórastólnum.  Með því er leikið á lægstu hvatir og persónulegan harmleik og það er auvirðilegt og átakanlegt að fylgjast með.

Nýr borgarstjóri hefur bersýnilega sagt félögum sínum í fyrri meirihluta ósatt oftar en einu sinni og oftar en tvisvar og afneitaði nýjum meirihluta.  Hann hefur líka sagt sjálfstæðismönnum ósatt um stuðning varamanns síns, við hana hafði hann ekki einu sinni talað.  Hver getur borið traust til slíks borgarstjóra?

Formaður Sjálfstæðisflokksins segir að atburðirnir hafi engin áhrif á stjórnarsamstarfið frekar en meirihlutaskiptin í haust.  Hér er þó tvennu ólíku saman að jafna.  Þá slitnaði upp úr samstarfi tveggja flokka vegna ágreinings um eitt stærsta deilumál í reykvískri pólitík og vegna innbyrðis trúnaðarbrests í röðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.  Nú gerist það að Sjálfstæðisflokkurinn er svo illa haldinn af valdaleysinu í borginni og örvæntingarfullur að hann ræðst inn í raðir starfandi meirihluta og kaupir sér aðild að meirihluta eins og ég sagði hér að ofan.  Formaður Sjálfstæðisflokksins var að sjálfsögðu hafður með í ráðum og vissi mætavel um atburðarásina, var sem sagt með rýtinginn á lofti gagnvart formanni Samfylkingarinnar og einum nánasta trúnaðarmanni hennar, Degi B. Eggertssyni, væntanlega til að  hefna fyrir ófarirnar í eigin herbúðum sl. haust.

Samfylkingunni stjórna engar geðluðrur  Ég trúi því að þessari atlögu verði svarað. Koma tímar og koma ráð.


mbl.is Engin áhrif á stjórnarsamstarf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Geir í bullandi vörn

Í upphafi þingfundar í dag, í óundirbúnum fyrirspurnartíma, tók ég upp umdeildar stöðuveitingar að undanförnu, einkum skipan héraðsdómara, og beindi þeirri spurningu til forsætisráðherra hvort hann teldi þær eðlilegar og hvort ráðherrar hefðu ótakmarkaðar heimildir til að valta yfir álit hæfnisnefnda.  Forsætisráðherra, Geir Haarde, telur bersýnilega að hér sé ekkert athugunarvert á ferðinni, en var þó í bullandi vörn.

Fyrirspurn mín var á þessa leið:

Vandi fylgir vegsemd hverri, og því hærra í metorðastiga samfélagsins sem menn komast, því vandmeðfarnari verður sú ábyrgð og þær skyldur sem hvíla á handhöfum æðstu embætta.  Á undanförnum dögum og vikum hafa orðið háværar umræður í samfélaginu um þrjár tilteknar embættisveitingar tveggja ráðherra í ríkisstjórninni, sem allar eru bersýnilega umdeildar og hafa kallað á sérstakan rökstuðning.  Þær hljóta einnig, einkum skipan héraðsdómara, að vekja upp spurningar um meðferð ráðherravalds. Þótt ráðherra séu sannarlega falin margvísleg verkefni að lögum, þá er vald þeirra ekki takmarkalaust og má aldrei vera háð geðþótta þeirra sem ráðherradómi gegna eins og við höfum því miður nýlega horft upp á.  Þvert á móti verður meðferð ráðherravalds að standast stjórnsýslulög, samrýmast góðum stjórnsýsluháttum og lýðræðislegum vinnubrögðum og byggja á málefnalegum sjónarmiðum og virðingu fyrir réttarríkinu og kjarna þess, nefnilega þrískiptingu ríkisvaldsins. 

Í grein í Fréttablaðinu í dag segir prófessor Sigurður Líndal um embættisveitingu setts dómsmálaráðherra með leyfi forseta: „Hér skín í taumlausa vildarhyggju þar sem einungis er áskilið að lög séu sett með formlega réttum hætti og þeim beri að framfylgja með valdi hvert svo sem efni þeirra er.  Valdboðið er sett í öndvegi; annað látið víkja.  Með þetta að leiðarljósi er alræði og geðþótta opnuð leið og eru nærtækust dæmin frá Þýzkalandi eftir 1930“.  Þetta eru stór orð og þung en hvert mannsbarn sér að hinn virti fræðimaður hefur lög að mæla.

 Má í þessu efni minna á ákvæði 10. gr. laga um ráðherraábyrgð þar sem segir með leyfi forseta:  Loks verður ráðherra sekur eftir lögum þessum … ef hann misbeitir stórlega valdi sínu, enda þótt hann hafi ekki beinlínis farið út fyrir embættistakmörk sín.“ 

Ég tel því mikilvægt að heyra álit hæstvirts forsætisráðherra á þeim umdeildu embættisveitingum sem átt hafa sér stað að undanförnu og hvort hann telji að eðlilega hafi verið staðið að málum og hvort hann telji ráðherra hafa takmarkalausa heimild til að valta yfir rökstutt álit þar til bærrar hæfnisnefndar?  Ennfremur spyr ég hæstv. forsætisráðherra hvort hann sé reiðubúinn að lýsa því yfir að það verði ekki liðið að ráðherrar í hans ríkisstjórn misbeiti valdi sínu og þeir sem það geri verði að axla pólitíska ábyrgð?

Það blasir við að pólitískt vald er meðhöndlað eins og það sé eign viðkomandi ráðherra eða stjórnmálaflokks og því séu lítil takmörk sett.  Þannig svaraði forsætisráðherra ekki þeirri spurningu hvort hann telji ráðherra hafa takmarkalausa heimild til að valta yfir álit hæfnisnefnda en varði ráðherra með því að segja að ábyrgðin væri ráðherrans og hann hefði sjálfur lent í þessari stöðu oftar en einu sinni.  Og svo vék hann sérstaklega að grein prófessors Sigurðar Líndal og taldi hana honum til minnkunar.  Það er hans mál.  En hitt er víst að almenningur í landinu hristir hausinn yfir framferði ráðamanna.  Því miður er fátt sem bendir til að einhverra breytinga sé að vænta á næstunni. 
mbl.is Embættisveitingar innan marka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eitt í dag og annað á morgun

Nú kemur fram að enginn ráðherra í ríkisstjórninni sé andvígur 250 þúsund tonna álveri við Húsavík.  Fyrir kosningar lýsti Samfylkingin yfir því að hún vildi stóriðjustopp og jafnframt að friða ætti Skjálfandafljót og fallvötnin í Skagafirði.

Því er sú spurning áleitin hvort Samfylkingin hafi ekkert meint með þessum kosningaloforðum.  Eru engin takmörk fyrir því hvernig hægt er að hafa loforðin að engu og lítilsvirða almenning?  Er umhverfisráðherra einnig þeirrar skoðunar að það eigi að reisa álver við Húsavík og efna til þeirra virkjanaframkvæmda sem því óhjákvæmilega fylgja?  Geta stjórnmálaflokkar og -menn leyft sér að hafa eina stefnu fyrir kosningar og aðra eftir kosningar?

Er nema von að spurt sé um afdrif "Fagra Íslands"!


mbl.is Össur ekki á móti álveri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sami rassinn...

Það hefur lítið breyst hér á landi með tilkomu nýrrar ríkisstjórnar.  Sem minnir á að það er ekki nema hálf ríkisstjórnin ný, helmingurinn er gamla liðið úr Sjálfstæðisflokknum.  Nýja spennandi nútímalega framfarakynslóðin í Samfylkingunni reynist jafn þreytt og hallærisleg og forverar hennar í ríkisstjórn úr öðrum stjórnmálaflokki.

Fyrir skemmstu var gagnrýnt að fjármálaráðherra, í skikkju dóms- og kirkjumálaráðherra, hefði skipað Þorstein Davíðsson dómara, fyrst og fremst út á reynslu hans sem aðstoðarmanns Björns Bjarnasonar.  Þvert á umsögn þar til bærrar nefndar sem metur hæfi umsækjenda um dómarastöður.  Þar óð Árni Mathiesen drulluna í þágu flokksmaskínu Sjálfstæðisflokksins, líkt og Björn Bjarnason hafði áður gert við skipun hæstaréttardómara.  Ef umsækjandinn Þorsteinn hefði verið talinn í hópi þeirra hæfustu hefði málið snúið öðruvísi, en hæfnisnefndin hafði þvert á móti komist að þeirri niðurstöðu að umsækjandinn væri ekki í 1. hæfnishópi heldur þeim 3ja.  En svona er Sjálfstæðisflokkurinn vanur að fara með völdin.

Ungir jafnaðarmenn voru í hópi þeirra sem gagnrýndu embættisveitinguna.  Nú vill svo til að einn af ráðherramyndum Samfylkingarinnar skipar í tvö embætti nú um áramót.  Bæði sæta þau gagnrýni svo ekki sé meira sagt.  Iðnaðarráðherra skipar orkumálastjóra og ferðamálastjóra.  Í fyrra tilvikinu gengur hann framhjá vel hæfum starfandi orkumálastjóra og velur einn af vildarvinum síns nánasta ráðgjafa.  Nú skal það ekki rengt að viðkomandi er áreiðanlega hæfur til starfsins en er ekki full langt seilst til að koma "sínu" fólki að?  Ungri og efnilegri, vel menntaðri konu sem þar að auki hefur reynslu af starfinu er hafnað.  Ég bíð enn eftir viðbrögðum ungra jafnaðarmanna.

Félag háskólamenntaðra ferðamálafræðinga gagnrýnir einnig skipun ferðamálastjóra.  Þar er bent á að gengið sé fram hjá nokkrum umsækjendum sem hafa aflað sér sérmenntunar í þessari atvinnugrein sem er sívaxandi í íslensku atvinnulífi.  Í þeim hópi eru einstaklingar sem hafa bæði mikla menntun og ekki síður umfangsmikla starfsreynslu úr ferðaþjónustu, bæði af markaðsmálum, landkynningu, landvörslu og leiðsögn, rekstri og stjórnun.  En allt kemur fyrir ekki.  Viðkomandi höfðu greinilega ekki rétta flokkslitinn.

Í ljósi digurbarkalegra yfirlýsinga forystu Samfylkingarinnar, m.a. í hinum frægu Borgarnesræðum, um misbeitingu Sjálfstæðisflokksins á opinberu valdi og loforðum um að Samfylkingin boði betri tíð í þeim efnum, vekur framganga iðnaðarráðherra furðu, eða er kannski sami rassinn undir báðum stjórnarflokkunum?  Augljóst er að ráðherrann gerir hvað hann getur til að gera formanni Samfylkingarinnar lífið leitt.  En klúðrið er hans, ætli fólk hafi almennt gleymt yfirgangi hans og dónaskap þegar hann rak veiðistjóra úr embætti á aðfangadag hér um árið þegar hann var umhverfisráðherra, ef að líkum lætur í "bloggástandi"?  Sá sem ástundar slík vinnubrögð rís ekki undir þeirra ábyrgð sem fylgir ráðherrastarfi.  Á því ber Samfylkingin ábyrgð.


mbl.is Gagnrýna ráðningu nýs ferðamálastjóra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband