Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Gorbatsjov greinir heimsmálin

Í Fréttablaðinu í dag er grein eftir Mikhaíl S. Gorbatsjov, síðasta leiðtoga Sovétríkjanna og friðarverðlaunahafa Nóbels.  Þar greinir hann á sannfærandi hátt stöðu alþjóðamála og ekki síst stöðu og hlutverk Bandaríkjanna undir núverandi forystu þeirra.

Gorbatsjov

Gorbatsjov gagnrýnir harðlega einhliða utanríkisstefnu Bush-stjórnarinnar og segir m.a.:

Önnur afleiðing af einhliða stefnu og tilraunum til að gerast allsherjarleiðtogi er sú að flestum alþjóðastofnunum hefur ekki tekist að takast með raunhæfum hætti á við hnattlæg verkefni nýrrar aldar - umhverfiskreppuna, sem breiðist út æ hraðar, og fátæktarvandann, sem hefur áhrif á milljónir manna um heim allan.  Bæði alþjóðleg hryðjuverkastarfsemi, sem er umfangsmeiri en nokkru sinni fyrr, og ör útbreiðsla þjóðernis- og trúarátaka eru uggvænleg merki frekari vandræða."

Þarna skrifar maður með afar yfirgripsmikla þekkingu á alþjóðamálum og skýra framtíðarsýn.  Hver hefði trúað því á árum áður að fyrrverandi leiðtogi alræðisríkis myndi nálgast viðfangsefni 21. aldarinnar með þessum hætti?  Í greininni gerir Gorbatsjov líka upp við fortíð Rússlands með þessum orðum:

Samt sem áður eru engar raunverulegar ástæður til þess að óttast Rússland.  Landið mitt stendur frammi fyrir margvíslegum erfiðleikum og margt má gagnrýna og það gerum við.  Það er svo sannarlega erfitt verk að læra nýja siði og byggja upp lýðræðislegar stofnanir.  En Rússland mun aldrei snúa aftur til alræðis fortíðarinnar.  Erfiðasti kafli leiðarinnar er þegar að baki.  (Leturbr. mín)

Skv. Fréttablaðinu munu greinar eftir Gorbatsjov um alþjóðamál birtast mánaðarlega og jafnframt geta lesendur sent Gorbatsjov spurningar á netfangið gorbatsjov@frettabladid.is.  Þetta er vissulega lofsvert framtak hjá Fréttablaðinu því engum blöðum er um það að fletta að Gorbatsjov er einn merkast stjórnmálaleiðtogi 20. aldarinnar og upphafsmaður að þeim gríðarlegu breytingum sem urðu undir lok aldarinnar á skipan heimsmála, ekki síst í Evrópu.

Greinina í blaðinu í dag má nálgast hér.


Varúð!!! - Framsókn vill áfram sömu ríkisstjórn!

Þá vitum við það.  Valgerður Sverrisdóttir utanríkisráðherra hefur lýst því yfir í fjölmiðlum að hún telji farsælast fyrir íslenska þjóð að Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn sitji áfram saman í ríkisstjórn eftir kosningar í vor.

Þetta er mikilvæg yfirlýsing því hún tekur af skarið um hvað í vændum er, fái stjórnarflokkarnir tilskilinn meirihluta á Alþingi í kosningunum 12. maí nk.  Þrátt fyrir óstjórnina í efnahagsmálum, gegndarlausan viðskiptahalla, óhagstæða gengisþróun, himinháa vexti, skattaívilnanir til hátekjufólks en aukna skattbyrði lágtekjufólks, vaxandi misskiptingu í þjóðfélaginu, náttúruspjöll og umhverfissóðaskap, þjónkun og undirlægjuhátt við bandarískt hernaðarbrölt - þrátt fyrir allt þetta og margt fleira sem núverandi stjórnarflokkar skilja eftir sig, vill Framsóknarflokkurinn halda áfram á sömu vegferð.  Stóra spurningin er hvort þjóðin er sama sinnis.

Lykillinn að því að skipta ríkisstjórninni út af er að stjórnarandstaðan fái nægilegan styrk til að geta myndað nýja ríkisstjórn.  Margt bendir til þess að útkoma Vinstri grænna geti gert þar gæfumuninn.  Eins og sakir standa sýna allar kannanir að VG er á blússandi siglingu og hefur góðan byr.  Vonandi nægir það til að fella núverandi ríkisstjórn.  Landsstjórnin þarf virkilega á því að halda að ferskir vindar fái að blása þar um sali.


Vinstri græn enn á uppleið - skv. Mannlífi

Tímaritið Mannlíf er nýkomið út og þar er greint frá niðurstöðum skoðanakönnunar um fylgi flokka.  Rúmlega 4000 manns voru spurðir, en það gerir þessa könnun eina þá viðamestu hérlendis.  Um 25% eru óákveðnir skv. könnuninni sem er heldur minna en í síðustu könnunum t.d. Blaðsins og Fréttablaðsins.

Niðurstöður könnunarinnar sýna að Vinstri græn eru enn á uppleið, fá 22% atkvæða, Sjálfstæðisflokkur er með 35%, Samfylkingin 23%, Framsóknarflokkur og Frjálslyndir fá 10% hvor flokkur.

Þetta eru vissulega uppörvandi tölur fyrir okkur Vinstri græn og sýna að störf okkar og stefna nýtur trausts meðal þjóðarinnar.  Hinu má ekki gleyma að það eru enn 3 mánuðir til kosninga og mikið vatn á eftir að renna til sjávar á þeim tíma.  Við verðum því að halda vöku okkar og slaka hvergi á, halda áfram einarðri baráttu okkar fyrir umhverfi, jafnrétti og velferð og með áframhaldandi málefnalegu starfi munum við áreiðanlega uppskera góðan sigur í vor.

Fylgi nú                  Fylgi í des.             Kosn. 2003

 Sjálfstæðisflokkur                               35%                        33%                        34%

Samfylking                                           23%                        24%                        31%

Vinstri græn                                           22%                        21%                        9%

Framsóknarflokkur                             10%                        10%                        18%

Frjálslyndi flokkurinn                         10%                        11%                        7%

 

Heimild:  Tímaritið Mannlíf, 2. tbl. 24. árg.


Hamingjuóskir til Röskvu

Röskva vann sigur í kosningum til stúdentaráðs Háskóla Íslands, hlaut 5 fulltrúa kjörna en Vaka fékk 4.  Háskólalistinn fékk engan mann kjörinn nú.  Röskva hefur því endurheimt meirihluta í stúdentaráði sem félagið hafði lengi fyrir allmörgum árum.

Ég óska Röskvu hjartanlega til hamingju með sigurinn og vænti mikils af vinnu þeirra í hagsmunabaráttu stúdenta á næstunni.  Glæsilegt!


mbl.is Röskva hlaut flest atkvæði í kosningum til Stúdentaráðs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einstök húseign í miðjum almenningsgarði seld einkaaðilum!

Borgarfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks lögðu til á fundi borgarráðs í dag að húseigning Fríkirkjuvegur 11 yrði seld Björgólfi Thor Björgólfssyni, stóreignamanni.  Meirihluti borgarráðs samþykkti söluna en ég greiddi atkvæði gegn henni og mun hún því ekki öðlast endanlegt samþykki fyrr en að lokinni afgreiðslu borgarstjórnar þann 20. febrúar nk.

Við í Vinstri grænum höfum alla tíð lagst gegn sölu á þessu húsi.  Ástæðan er einföld: húsið er staðsett í miðjum almenningsgarði, Hallargarðinum, og sala þess til einkaaðila mun því rýra gildi garðsins og takmarka afnot af honum.  Húsinu verður afmörkuð lóð sem eigandi getur þá girt af.  Jafnframt samþykkti meirihlutinn að kanna kosti þess að selja Björgólfi enn meiri hlut úr garðinum.  Útivistar- og náttúruperlur í miðborginni eru föl fyrir peninga hjá þeim sem stýra för í borgarstjórn Reykjavíkur.  Að mati okkar Vinstri grænna er með sölunni verið að fórna almannahagsmunum fyrir hagsmuni einkaaðila.


mbl.is Borgarráð samþykkti að taka tilboði Novators í Fríkirkjuveg 11
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Framtíðarlandið áfram þverpólitísk samtök

Ákvörðun félagsfundar Framtíðarlandsins í gærkvöldi, um að bjóða ekki fram lista til Alþingis undir nafni samtakanna, tryggir að þau geta áfram verið þverpólitísk baráttusamtök fyrir umhverfis- og náttúruvernd í landinu.  Það var skynsamleg niðurstaða.

Í Framtíðarlandinu eru félagar úr flestum ef ekki öllum stjórnmálaflokkum, og það hefði væntanlega dregið allan mátt úr starfi Framtíðarlandsins, ef boðið hefði verið fram í nafni samtakanna.  Þau eru og verða áfram mikilvæg grasrótarsamtök sem berjast í þágu náttúrunnar og umhverfissjónarmiða.

Hitt getur svo vel verið að einstaklingar úr röðum samtakanna, væntanlega þeir sem eru til hægri eða á miðju stjórnmálanna, ákveði að bjóða fram í eigin nafni.  Það mun koma í ljós á næstunni og getur orðið spennandi viðbót við þá flóru hugsanlegra framboða sem nú er í deiglunni.   Slíkt framboð mun þá fyrst og fremst höfða til þeirra er alla jafna styðja Sjálfstæðisflokk eða Framsóknarflokk, en hafa fengið nóg af stóriðjustefnu ríkisstjórnarinnar.


mbl.is Fellt á fundi Framtíðarlandsins að bjóða fram til Alþingis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nú þarf að taka á loftslagsmálum í Reykjavík

Á fundi borgarráðs Reykjavíkur sem haldinn var í dag, lögðum við fulltrúar Vinstri grænna til að nú þegar yrði tekist á við þann vanda sem vaxandi loftmengun í borginni hefur á umhverfi og vellíðan borgarbúa.  Nýjar skýrslur um þessu mál sýna að við erum komin á ystu nöf og nú er ekki unnt að sópa vandanum undir teppið, heldur verða stjórnmálamenn að taka á þeim.  Tillaga okkar Vinstri grænna er þannig:

Borgarfulltrúar Vinstri grænna leggja til að borgarstjórn Reykjavíkur bregðist nú þegar við upplýsingum sem fram koma í nýrri skýrslu um loftslagsmál með því að stofna þverpólitískan starfshóp, Loftslagsráð Reykjavíkurborgar, stjórnmálamanna og embættirmanna í Reykjavík til að meta og endurskoða allar áætlanir borgarinnar í skipulags-, umhverfis- og samgöngumálum. Ráðið verði stofnað með það fyrir augum að unnt verði að hefjast nú þegar handa við að draga stórlega úr losun gróðurhúsalofttegunda í Reykjavík og bæta þannig umhverfi og vellíðan borgarbúa.

 Tillagan ásamt greinargerð er hér í viðhengi.

 

Og svo má benda á tillögu þingmanna Vinstri grænna um svipað mál hér


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Þjóðin klofin um gjaldmiðil

Skoðanakönnun Blaðsins um afstöðu fólks til evrunnar sýnir að þjóðin er klofin í tvær fylkingar í málinu.  Hafa verður í huga að þótt umræða um málið hafi verið nokkur að undanförnu, liggja engar ítarlegar upplýsingar fyrir um kosti og galla upptöku evrunnar.  Þó ætti flestum að vera ljóst að evran verður ekki tekin upp sem gjaldmiðill nema að við göngum í Evrópusambandið.  Það yrði því að vera fyrsta skref.  Miðað við að fylkingarnar tvær er hnífjafnar, skv. skoðanakönnun Blaðsins, getur varla verið árennilegt fyrir stjórnmálaflokka að leggja upp í baráttu fyrir upptöku evrunnar.  Minnug þess hvernig stóriðjustefnan hefur klofið þjóðina!
mbl.is Álíka margir vilja evru og hafna henni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er ekki komið nóg af virkjanafarganinu?

Á fundi borgarstjórnar í dag, þriðjudag, lögðum við Vinstri græn fram tillögu um að Orkuveita Reykjavíkur drægi til baka umsóknir sínar um rannsóknaleyfi vegna virkjana í Brennisteinsfjöllum og Kerlingarfjöllum.  Meirihluti borgarstjórnar, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, gátu ekki tekið undir þessi sjónarmið og vísuðu tillögunni til stjórnar Orkuveitunnar!  Eins og þetta mál snúist eingöngu um hagsmuni fyrirtækisins en ekki heildarhagsmuni borgarbúa, m.a. með tilliti til umhverfis- og náttúruverndarsjónarmiða.

Tillagan sem við lögðum fram er þannig: Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkir, sem eigandi að 93,54% hlut í Orkuveitu Reykjavíkur, að Orkuveitan dragi til baka umsókn sína um rannsóknaleyfi vegna virkjana í Brennisteinsfjöllum og Kerlingarfjöllum. Tillögunni fylgdi ítarleg greinargerð sem hangir við hér að neðan, en eftir að meirihlutinn hafði ákveðið að vísa tillögunni til stjórnar Orkuveitunnar, lögðum við borgarfulltrúar Vinstri grænna fram bókun í borgarstjórn: 

Borgarfulltrúar Vinstri grænna lýsa miklum vonbrigðum með viðbrögð meirihluta borgarstjórnar við tillögu VG um að Orkuveitar dragi til baka umsóknir um rannsóknaleyfi í Brennisteinsfjöllum og Kerlingarfjöllum.

Það vekur sannarlega furðu að um leið og afstaða almennings, atvinnulífs og stjórnvalda í umhverfistilliti hefur tekið stakkaskiptum undanfarin misseri skuli meirihluti borgarstjórnar skjóta sér undan því að taka afstöðu til framlagðrar tillögu. Sú staðreynd vekur áhyggjur af því að núverandi meirihluti borgarstjórnar sé enn fastur í hjólförum fyrri aldar og leggi ekki í að láta Brennisteinsfjöll og Kerlingarfjöll ósnortin í þágu sjálfbærrar þróunar og komandi kynslóða. Borgarstjórn Reykjavíkur á að taka efnislega afstöðu til málsins og fela Orkuveitunni að draga umræddar umsóknir til baka. Ríkisstjórnarflokkarnir í ráðhúsinu sýna hér skort á stórhug. Vinstrihreyfingin – grænt framboð mun hins vegar hér eftir sem hingað til berjast fyrir verndun Brennisteinsfjalla og Kerlingarfjalla.
 

Ríkisstjórnarflokkarnir, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, sem illu heilli stjórna einnig ferðinni í Ráðhúsi Reykjavíkur, telja sýnilega að enn sé ekki komið nóg af virkjanafarganinu, enn séu eftir ósnortin víðerni, náttúrperlur sem vert sé að krukka í með frekari virkjunum.  Mikilvægt er að þjóðin geri sér fulla grein fyrir því að þessir flokkar hugsa sér að halda áfram stóriðjustefnunni.  Það verður hins vegar að stöðva.  Næsta tækifæri til þess eru þingkosningarnar 12. maí. 

Greinargerðin með tillögu okkar: 

Undanfarin ár hefur Reykjavíkurborg kappkostað að búa vel að Reykjanesfólkvangi, enda leikur enginn vafi á gildi fólkvangsins fyrir Reykvíkinga eins og reyndar landsmenn alla. Á síðasta kjörtímabili samþykkti Reykjavíkurborg að tvöfalda fjárframlag til fólkvangsins, í haust samþykkti borgarstjórn að vísa tillögu Vinstri grænna um Eldfjallafriðland á Reykjanesi til Umhverfisráðs borgarinnar og við afgreiðslu fjárhagsáætlunar var samþykkt tillaga Vinstri grænna um framlög til rannsókna á fólkvanginum. Allar hafa þessar aðgerðir verið í anda stefnumótunar Reykjavíkurborgar í átt að sjálfbæru samfélagi, Reykjavík í mótun þar sem helstu stefnumið eru að Reykjavík verði til fyrirmyndar á öllum sviðum sem tengjast gæðum umhverfisins, að Reykjavík standi vörð um náttúrusvæði í borginni og stuðli að góðu aðgengi og fjölbreyttum útivistarsvæðum. Í sömu stefnu skuldbindur Reykjavíkurborg sig til að beita sér gegn frekari skerðingu náttúrulegra svæða í borgarlandinu og vinna að friðun verðmætra náttúrusvæða í framtíðinni. Þó Reykjanesfólkvangur sé ekki inni í borgarlandinu er hann vissulega verðmætt náttúrusvæði og á ábyrgð borgarinnar að stórum hluta. Fleiri aðilar hafa beitt sér fyrir friðun og góðum aðbúnaði í Reykjanesfólkvangi, m.a. Landvernd sem kynnt hefur heildstæða framtíðarsýn fyrir Reykjanesskagann. Ljóst er að orkuvinnsla í Brennisteinsfjöllum og friðlýsing svæðisins í eldfjallafriðlandi eða eldfjallagarði fara illa saman. Orkuveita Reykjavíkur og Hitaveita Suðurnesja gerðu samkomulag árið 2002 um að sækja sameiginlega um rannsóknaleyfi vegna virkjana í Brennisteinsfjöllum með það fyrir augum að hægt yrði að hefja orkunýtingu í kringum árið 2010. Nú hefur stjórn Hitaveitu Suðurnesja samþykkt að draga umsókn sína til baka og hvatt Orkuveitu Reykjavíkur og Landsvirkjun til að fylgja fordæmi sínu. Á fundi bæjarstjórnar Hafnarfjarðar 19. desember sl. var samþykkt svohljóðandi bókun venga málsins: Bæjarstjórn Hafnarfjarðar fagnar því að Hitaveita Suðurnesja hf. hafi riðið á vaðið með yfirlýsingu um að draga til baka sameiginlega umsókn sína með Orkuveitu Reykjavíkur hf. um rannsóknarleyfi í Brennisteinsfjöllum. Á þennan hátt hefur Hitaveita Suðurnesja hf. sýnt hófsemd í verkum sínum og forðast að sækjast eftir rannsóknar- og virkjanaleyfum á svæðum sem hafa óumdeilt náttúruverndargildi. Brennisteinsfjöll á Reykjanesskaga eru dæmi um slíkt svæði þar sem enginn efast um náttúruverndargildi þess. Svæðið sem er eina óspillta víðerni höfuðborgarsvæðisins býr yfir miklum jarðfræðiminjum og landslagsfegurð í samspili við menningarminjar. Útivistargildi Brennisteinfjalla mun einungis aukast í framtíðinni, fræðslu og vísindagildi þess er ótvírætt. Bæjarstjórn Hafnarfjarðar vill hvetja stjórnir Orkuveitu Reykjavíkur og Landsvirkjunar að fylgja fordæmi Hitaveitu Suðurnesja. Með því gætu fyrirtækin sýnt samfélagslega ábyrgð sína í verki. Um leið að sótt verði í framtíðinni eftir rannsóknarleyfum á svæðum sem þegar hefur verið raskað en hlífa hinum. Þannig er sköpuð aukin virkari samræða um rannsóknarkosti hverju sinni. Kerlingarfjöll eru vinsælt og vel þekkt útivistarsvæði. Þau eru á náttúruminjaskrá með þeim rökstuðningi að þar sé stórbrotið og litríkt landslag, mikill jarðhiti og þau séu vinsælt útivistarsvæði. Með vísan til alls þessa er lagt til að borgarstjórn taki af skarið um að Orkuveitan, sem er að langmestu leyti í eigu borgarbúa, falli frá umsókn sinni um rannsóknarleyfi í Brennisteinsfjöllum og Kerlingarfjöllum og leggi þannig sitt lóð á vogarskál friðunar þessara einstæðu svæða.     

 


Má biðja um gamla stefið?

Ég er einn þeirra fjölmörgu sem vilja gjarnan halda í það sem gott er - jafnvel þótt það sé komið til ára sinna!  Það á við um fréttastef Ríkisútvarpsins.

Þess vegna get ég tekið undir með þeim sem að undanförnu hafa skrifað pistla um fréttastefið og vinsamlegast beðið fréttastjórann, Óðin Víking, um að koma með gamla stefið aftur.  Það var engin þörf að breyta.

Og ég leyfi mér að hafa þessa skoðun, jafnvel þótt ég eigi þá á hættu að verða kallaður "gamaldags" og "sveitó", því áreiðanlega telja hugmyndasmiðir nýja stefsins það vera "nútímalegt" og "eiga vel við á nýrri öld" o.s.frv.  Það verður bara að hafa það, gamla stefið er bara svo miklu betra og "fréttalegra".


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband